10 febrúar 2011

Að vera heima með veikt barn

tekur stundum á taugarnar. Vinnan bíður, verkefnin hrannast upp, vítahringur...sjitt, fokk og halelúja. Í stað vinnunnar fæ ég samt að vera heima með litla manninum mínum og eiga með honum stórkostlegar stundir. Svo getur maður líka eldað í ró og næði og þvegið þvott. Við deilum þvottahúsinu okkar með leigjendunum og gegnir það hlutverki eldhúss og forstofu hjá þeim þannig að við reynum að þvo ekki mikið þegar þau eru heima.

Í kvöld eldaði ég ótrúlega gómsætan og ódýran kvöldmat og svei mér þá ef hann var ekki bara ofsalega hollur líka. Ég skellti slatta af smátt söxuðum hvítlauk og einum söxuðum lauk í smá smjör í pott, bara í stutta stund. Svo var ég var með eitthvað drasl skagfirskt folaldagúllas (sem er reyndar herramannsmatur, svo mjúkt, magurt og gott) sem fór útí pottinn og veltist þar í góða stund með lauknum. Fullt af cummin, svörtum pipar og hæfilega mikið af salti...eftir ágæta stund þegar kjötið var aðeins farið að brúnast skellti ég einni dós af tómötum í bitum og lítilli dós af kókosmjólk.

Þetta mallaði í um tvo tíma á lágum hita (hefði ekki þurft svona langan tíma en ákvað að njóta þess að byrja að elda klukkan 16 fyrst ég var heima...). Með þessu var gómsætt grænt salat og hrísgrjón. Nammi.

Á morgun verð ég ekki heima með veikt barn og ætla að drattast í vinnuna og reyna að gera eitthvað af viti. Hvort sonurinn tekur fimmta veikindadaginn kemur í ljós í fyrramálið...