17 júlí 2011

Tvær vikur í brottför...

og spennan magnast að sjálfsögðu. Pökkun er í fullum gangi - til dæmis voru fatastaflar flokkaðir í fjórar hrúgur í dag; henda, Rauði krossinn, Svíþjóð, geymsla. Komst að því að Addi á um það bil 15 stuttbuxur :)

Annars hefur þessi helgi verið tekin með trompi í góðra vina hópi. Á föstudaginn var svolítil óvissuferð í vinnunni hans Adda og svo skemmtilega (og óvænt fyrir hann) vildi til að óvissan endaði með matarveislu í Vanabyggðinni. Ég hamaðist sveitt við að pakka, skúra og skrúbba og stilla upp í stofunni svo koma mætti fyrir 20 manns í mat. Þá kom sér vel að vera með tvö borðstofuborð - annað 12 manna og hitt 8 manna. Hér var drukkið mikið og borðað, sungið, trallað og hlegið fram á nótt. Í gær vorum við á Ólafsfirði með góðum vinum og litum svo við hjá kollega um kvöldið - sú heimsókn endaði í öl á Götubarnum eftir miklar spegúlasjónir um Andrés önd, Tinna og týnda bíla á hálendinu.

Sumsé, Götubarinn tvö kvöld í röð. Það tekur á að sinna félagslífinu svona áður en við flytjum úr landi...

Næst á dagskrá er Stieg Larson maraþon, frágangur í MA og meiri pökkun og vinaheimsóknir, gleði og tregafullar kveðjustundir.

yfir og út...