31 mars 2012

Páskafrí

Laugardagsmorgun, það snjóar úti (hvað er það?!!) og á að vera frekar kalt og suddalegt næstu vikuna. Vorið góða sem lét sjá sig hérna á dögunum fékk bakþanka og ætlar bara að koma aftur seinna. Mamma og Friðrik eru á leiðinni, en þau lenda í Stokkhólmi eftir hádegið. Ég vona bara að þau hafi tekið aðvaranir mínar alvarlega og mæti nokkuð vel búin!

24 mars 2012

Öfgafemínistinn!

Þeir eru sjálfsagt til sem vilja flokka mig sem öfgafemínista. Ég er guðslifandi fegin að það séu til konur eins og Sóley Tómasdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Hildur Lilliendahl, Katrín Guðmundsdóttir og fleiri og fleiri – sem eru tilbúnar að taka þennan ömurlega slag um kynjajafnrétti. Þetta er nefnilega ömurlegur slagur, eins og vitnaðist á dögunum þegar Hildur fór að taka saman ummæli karla um femínisma á netinu. En þessi ummæli segja okkur ekkert annað en það að þegar rökin og þekkinguna skortir dælir fólk út úr sér klisjukenndum viðbjóð um óhamingjusamar loðnar kerlingar sem fá ekki að ríða. Já, og þær eru rosalega bitrar líka, gleymum því ekki. Öfga-ómálefnalegt.

En hverjar eru þessar öfgar, sem meira að segja frú Vigdís Finnbogadóttir vísaði í í síðustu viku (án þess að útskýra mál sitt á nokkurn hátt)? Er hún að tala um fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um bleiku og bláu gallana? Sú umræða tók um 15 mínútur á Alþingi og fyrir mér hefði mátt ræða þetta lengur. Kannski er það vegna allra rannsóknanna sem ég hef lesið um þar sem kemur í ljós hversu ólík viðbrögð börn fá frá foreldrum og öðrum, eftir því hvors kyns þau eru (eða hvors kyns fólk heldur að þau séu). Strax á fæðingardeildinni byrja börn að fá skilaboð um hver þau eru og hvernig þau eigi að hegða sér, út frá því hvers kyns þau eru. Ég trúi því að þessi skilaboð sem börnin fá frá samfélaginu í kringum þau hafi hamlandi áhrif á þau út lífið.

Eru það öfgar að gagnrýna markaðssetningu á ís fyrir annarsvegar stelpur og hinsvegar stráka? Það er kannski róttækt en öfgafullt er það ekki. Eg ræddi þetta ísmál við 11 ára dóttur mína. Hún fullyrti það að enginn strákur á hennar aldri myndi geta hugsað sér að kaupa „stelpuís“. Ekki einu sinni þó hann langaði meira í stelpuísinn, því honum yrði strítt af öllum hinum strákunum.

Svo er talað um karlréttindasinna. Jahá. Ef kona er ekki femínisti (sem sér að jafnrétti er ekki náð og vill gera eitthvað í því) en vill frekar skilgreina sig sem karlréttindasinna. Fyrir hverju er hún að berjast? Fyrir því að karlar haldi áfram rótgróinni stöðu sinni í samfélaginu? Vá það þykir mér merkilegt, í ljósi þess að svo margt vantar uppá jafnrétti kynjanna, að langmestu leyti konum í óhag!Karlréttindasinnar já. Hvaða leiðir ætli þeir fari til að jafna kynhlutföllin í fangelsum landsins eða hlutfall stúlkna og drengja með námsörðugleika, dyslexíu, ADHD? Ætli þeir berjist fyrir rétti karla til að halda áfram að beita konur ofbeldi? Eins og karlarnir í Afganistan sem mega berja konur sínar ef þær óhlýðnast þeim? Karlmenn beita aðra ofbeldi og verða einnig fyrir meira ofbeldi en konur. Karlmenn fremja frekar sjálfsmorð en konur. Karlar eru hættulegri í umferðinni. Svona mætti lengi telja (vá það er svolítið hræðilegt að hugsa til þess að takast á við þá ábyrgð að ala upp dreng sem þarf einhvernvegin að sveigja framhjá öllum þessum hættulegu hindrunum!). Staða karla er slæm á mörgum sviðum, en það er ekki femínistum að kenna. Um leið og við brjótum niður hugmyndir um karlmennskuna hjálpum við körlum að verða hamingjusamari og sáttari við sjálfa sig. Að leita sér hjálpar í staðinn fyrir að bókstaflega drepast úr karlmennsku. Fyrir því berjast femínistar og alls ekki á öfgafullan hátt. Og hér þurfa fleiri karlmenn að ganga til liðs við baráttuna og ögra gildum karlmennskunnar.

Ef að sonur minn ákveður að verða leikskólakennari eða hjúkrunarfræðingur vil ég að hann fái sömu viðbrögð frá samfélaginu og dóttir mín fengi við sömu ákvörðnum. Ég vil að hann hafi raunverulegt val um að klæða sig upp sem prinsessa eða kúreki á öskudaginn. Ég vil að hann geti verið góður og umhyggjusamur drengur án þess að vera kallaður kelling eða hommi.

Ég vil að sama skapi að dóttir mín geti gengið óhult um göturnar, að sumri sem vetri, nóttu sem degi. Ég vil að hún fái sömu laun og karlmaður í sama starfi. Ég vil að hún sé dæmd af því hver hún er, því sem hún gerir og segir en ekki af útliti eða klæðnaði (eða háreyðingu). 

Ég vil ekki að börnin mín þurfi að eltast við klisjukenndar staðalmyndir frá samfélaginu hvernig þau eigi að hegða sér, líta út og hvað sé „við hæfi“ fyrir þeirra kyn hverju sinni. Staðalmyndir sem markaðsöflin ráða að mörgu leyti, gegnsýrð af klámvæðingu og kvenfyrirlitningu. Ég vil að börnin mín sjái konur jafnt sem karla í fjölbreyttum störfum í samfélaginu. Ég vil að þau sjái að konur jafnt sem karlar geta unnið sem t.d. leikskólakennarar, læknar, lögfræðingar, þingmenn, ráðherrar, bankastjórar, framkvæmdastjórar, bændur, löggur og slökkviliðsmenn. Er það öfgafullt?

Ég vil brjóta  niður valdastrúkturinn í samfélaginu: karlveldið. Ég vil jafnrétti. Ég vil ekki að konur breytist í karlmenn. Ég vil að allir geti notið sín á sínum eigin forsendum. Það hlýtur samt að þýða að konur geti velt karlmönnum úr sessi án þess að það þyki tiltökumál. Þeir hafa setið við stjórnartaumana svo lengi sem elstu menn muna og jú það virðist þurfa sértækar aðgerðir til að jafna stöðuna. Konurnar þurfa meiri hvatningu. Það er ekki sjálfgefið að karlar ráði ríkjum lengur.

Ætli frú Vigdís Finnbogadóttir hafi átt við femínistana sem greiddu brautina fyrir hana í aðdraganda forsetakjörsins 1980? Meðal annars Rauðsokkanna sem voru búnir að hrista vel upp í samfélaginu og fá konur og karla til að hugsa – svo það gæti þótt möguleiki að ögra karlveldinu og gera nokkuð jafn öfgafullt eins og að kjósa einstæða móður sem forseta? Sem hafði engan karlmann sér við hlið til að hjálpa sér að taka á móti gestum og brosa fallega í opinberum embættisferðum?




21 mars 2012

Miðvikudagsmyndir

Ég fór að prjóna. Gerði húfu á strákinn (sem varð alltof stór), trefil, vettlinga og lopapeysu. Prjónamojoið er vonandi að koma til baka, mig vantar bara meira garn.

Rannveig er búin að finna nýjan myndasvip.

En drengurinn er alltaf með sama myndabrosið!

Við Jóhannes vorum á röltinu í gær eftir leikskóla og fundum þessa fínu hárgreiðslustofu sem bauð upp á voðalega ódýra barnaklippingu. Drengurinn þurfti nauðsynlega á klippingu að halda, lubbinn orðinn svakalegur og hræðilega illa klipptur. Hann fékk nefnilega hræðilega jólaklippingu sem ég svo reyndi að laga aðeins þarna í febrúar einhverntíman. Það var nú ekki til að bæta neitt skulum við segja... EN allavega, fórum inn og hittum fyrir svakalega myndarlegan Grikkja sem tók svona vel á móti okkur. Ég byrjaði á að spyrja hann hvort hann tæki greiðslukort, því ég væri ekki með lausan pening. Nei hann tók ekki kort en það var nú ekki málið, ég skyldi bara koma í næstu viku eða þegar ég ætti leið hjá næst og borga honum. Vippaði hann svo drengnum í stólinn, sættist á það með semingi að krúnuraka hann (mér fannst það öruggast í stöðunni, varla hægt að klúðra því og langur tími þar til hann þyrfti að fara næst) og bæði Jóhannes og Grikkinn stóðu sig með prýði.

Meðan sat ég og fletti Bo bedre. Ég hefði kannski átt að fylgjast aðeins betur með því áður en ég gat opnað munninn til að andmæla var þessi vel girti Grikki búinn að rífa upp fjóra mismunandi spreybrúsa og úða á krakkann. Skellti meira að segja þessu fallega J-i efst á kollinn á honum. Skúffuð mamman spurði hvort þetta næðist ekki örugglega úr...- jú með vatni sagði hann. Bleytti svo klút og reyndi að þurrka smá sprey af öðru eyra drengsins, með slæmum árangri. Þá bætti hann við: - jú með vatni og sjampói.

Eftir tvær umferðir af sjampói er hann lítið skárri og ég er að spá í að gleyma því að borga fyrir klippinguna.

(djók, auðvitað borga ég...en hann fær aldrei aftur að spreyja á barnið mitt!)

20 mars 2012

Einkageirinn, öldrunarþjónusta og velferðarparadísin Svíþjóð


Nú hefur Carl Gyllfors forstjóri öldrunarfyrirtækisins Carema sagt upp störfum eftir aðeins 10 mánaða starf. Hann sagðist hafa verið undir miklu vinnuálagi síðustu mánuði og lítið sem ekkert getað sinnt fjölskyldunni. Fyrir þetta starf þáði hann litlar 180.000 sænskar krónur á mánuði, eða um 3,4 milljónir íslenskar krónur.

Carema (og raunar önnur svipuð fyrirtæki sem sjá um öldrunarþjónustu) var mikið í fréttum hérna í Svíþjóð í haust og vetur, meðal annars vegna umdeildra aðgerða sem miðuðu að hagræðingu í rekstri. Þeim tilmælum beint til starfsfólksins að skipta ekki um bleiur á gamla fólkinu þó það væri búið að pissa pínu í þær, það átti með öðrum orðum að "fullnýta" þær. Brunasár á viðkvæmum svæðum voru oft í fréttunum. Við lásum viðtal við áhyggjufullan son gamallar konu með heilabilun, en hann sá ekki annan kost í stöðunni en að sækja móður sína og finna annan stað fyrir hana. Hún var látin sitja heilu tímana með hægðir í bleiunni. Annað sparnaðarráð var að nú var ekki lengur ein servétta á mann, nei það var alltof dýrt, nú áttu fjórir vistmenn að deila servéttu!

Á sama tíma var fyrirtækið gagnrýnt mjög fyrir skort á hæfu starfsfólki, en þessi skortur á mannafla var m.a. rakinn til þess að launin væru svo lág. Starfsfólkið sjálft tilkynnti um óviðunandi aðstöðu vistmannanna og slæma meðferð á því, en yfirleitt þorði fólk þó ekki að koma fram undir nafni. "Bemanningen är lägre än tidigare och undersköterskor och sjuksköterskor ska dessutom städa, tvätta, laga mat samt sköta sitt ansvar för hälsa och omsorg och sköta dokumentation som tidigare sköttes av läkarsekreterare". Semsagt, undirmannað, hjúkrunarfræðingar þurftu að þrífa og þvo þvott, laga mat, jafnframt því að ganga í störf læknaritara (http://www.dn.se/sthlm/jag-forstar-inte-hur-personalen-orkar). Skortur á starfsfólki hefur einnig orðið til þess að á deildum með andlega veikt fólk hefur fólk verið bundið niður í rúmin sín.

Þetta fyrirtæki fær greiðslur frá hinu opinbera til að halda úti þjónustu við eldri borgara (lífeyrir fólksins fer inn í þjónustufyrirtækin og ef það nægir ekki borgar sveitarfélagið á móti) en kemst þó einhverra hluta vegna hjá því að borga skatt til ríkisins. Og það er ekki bara forstjórinn sem fær sæmilega borgað, eigendur fyrirtækisins hafa grætt milljónir sænskra króna á Carema (rúmlega 600 milljónir sek á síðasta ári!). Um er að ræða frændurna Harry Kravis og George Roberts sem eiga 25% hlut í bandaríska fyrirtækinu KKR. Á heimasíðu KKR segir "KKR is a leading global investment firm with deep roots in private equity, diversified capabilities, and an impressive track record". KKR á stóran hlut í Carema. Þannig að bandarískir kapítalistar græða á tá og fingri á gamla fólkinu í Svíþjóð og hirða ævistarfið þeirra (http://www.dn.se/ekonomi/caremaagare-plockar-ut-miljarder).

Er þetta sænska velferðarmódelið sem við Íslendingar viljum líta til?

Þetta er lítið dæmi um hvernig getur farið þegar einkafyrirtæki eru látin sjá um velferðarþjónustu og gera það að gróðastarfsemi. Öldrunarheimili, sjúkrahús, heilsugæsla og skólar eru dæmi um stofnanir sem eiga ekki að vera reknar í gróðaskyni.



Ps. myndirnar eru teknar af heimasíðu Carmena Care. Samkvæmt heimasíðunni er að sjálfsögðu unaðslegt að búa hjá þeim þegar ellin sækir að...

Ps2: hvað er private equity?!

19 mars 2012

Og það snjóar...

Ég nefni vorlykt og þá fer að snjóa. Týpískt! Það á sumsé að vera frekar kalt út vikuna. Þannig að úlpan var rifin út úr skápnum í morgun...

Bráðum koma Friðrik og mamma í heimsókn, eftir 12 daga ef ég hef náð að reikna rétt. Þau fengu lista yfir það sem þau áttu að koma með og hann leit einhvernvegin svona út:

- flatbrauð
- hangikjötsálegg
- páskaegg
- Tópas flaska úr fríhöfninni
- 2 krukkur af rabbarbarasultu

Mikið verður notalegt að hafa þau hérna yfir páskana. Stefnan er tekin á dagsferð til Uppsala og svo almenn Stokkhólmsheit. Og vonandi verður hætt að snjóa!

15 mars 2012

Vorlykt í lofti!

Sælinú.

Hér er farið að vora, sólin skín og daginn tekið að lengja. Veðrið er milt, svona flesta daga, um og yfir 10 gráður og vetrarúlpan komin inn í skáp. Þessi vetur hvarf einfaldlega jafn snögglega og hann kom!
Ég var mætt tímanlega í skólann í dag og notaði tækifærið og sat úti í sólinni fyrir tímann og naut þess að vera til í góða veðrinu með vorlykt í loftinu. Í hádeginu fór ég í langan göngutúr með bekkjarsystur minni um skólasvæðið og sá það frá öðru sjónarhorni en vanalega. Skólinn er tiltölulega nálægt miðbænum en samt eiginlega úti í sveit. Það eru göngustígar allt í kring, reiðleiðir og skógarrjóður. Ég hef sennilega ekki verið búin að setja inn mynd af skólanum - en á myndinni fyrir (sem ég stal af netinu, surprise!) má sjá aðal stúdentagarðana efst, en til vinstri við þá er deildin mín staðsett. Addi er í tímum í stóra stóra húsinu fyrir miðju, þar er líka bókasafnið, matsölustaðir og kaffihús.


Mín bygging sést á myndinni hér að neðan, efst til hægri í þessum stóra klasa þarna. Flotta stóra húsið er Naturhistoriska Museet. Þegar við Addi fórum í könnunarleiðangur um háskólasvæðið í ágúst, áður en skólinn byrjaði, sáum við þetta hús fyrst og vorum viss um að þetta væri háskólinn (svona stórt og virðulegt hús...en nei aldeilis ólíkt stóra græna ferlíkinu sem aðalbyggingin er)



Við erum búin að fá pössun á laugardaginn, í fyrsta sinn síðan við komum út! Tilefnið er afmælispartý hjá grískri bekkjarsystur minni sem við ætlum að skella okkur í. Svo er ég að fara í íranskt áramótaboð á mánudagskvöldið. Áramótin hjá þeim eru sumsé 2. apríl (að mér skilst) en fögnuðurinn byrjar tveimur vikum fyrr og nær svo hámarki 2. apríl. Ég var svo heppin að vera boðin í þetta áramótaboð - þar verða ég og þrjár íranskar stelpur. Hlakka til :o)

Rannveig er svo búin að landa fyrstu vinnunni sinni, en hún sótti um að verða skólalögga næsta vetur. Það þýðir að hún þarf að vera mætt á ákveðna gangbraut tuttugu mínútum áður en skólinn byrjar á morgnana (7:50) og standa vaktina í gulu vesti. Stoppa bílana og aðstoða önnur börn yfir götuna. Hún var mjög stolt að vera valin í þetta verkefni og hlakkar til :o)

Jóhannes er búinn að vera lasinn alla vikuna, með háan hita. Hann verður stundum svona voðalega lasinn, fær svo háan hita að hann liggur bara eins og slytti og getur tæplega gengið sjálfur. Hann var miklu betri í dag, með 37,7° í kvöld.

Ég fæ reglulega heimsóknir á bloggið mitt frá Ameríku. Er svolítið forvitin hver það sé nú eiginlega?!

14 mars 2012

Saga af dreng...

Fyrir nokkru síðan lenti Jóhannes í nokkuð háskalegum aðstæðum. Og faðir hans líka ef út í það er farið.
Þannig var að þeir voru einir heima að dunda sér eins og oft áður. Nema að Jóhannesi verður skyndilega mál og skundar á baðherbergið. Þar tekur hann upp á því að læsa að sér - nokkuð sem hann var búinn að fá fyrirmæli um að væri stranglega bannað. Hér er gamaldags skrá og enginn auka lykill.

Nú voru góð ráð dýr.

Drengurinn sturtaði niður og þvoði sér vandlega um hendurnar, svona eins og lög gera ráð fyrir. Svo ætlaði hann að segja skilið við baðherbergið og halda áfram pabbastundinni. En komst ekki út og gat ekki með nokkru móti opnað sjálfur.

Pabbinn tvístígandi fyrir utan, nokkuð áhyggjufullur og hugsaði ráð sitt. Drengurinn farinn að hrína inni á baði og óskaði eftir hjálp frá föður sínum.

Pabbinn gerði það eina í stöðunni. Gaf fyrirmæli til drengsins, "vertu rólegur, taktu lykilinn, opnaðu gluggann og hentu lyklinum út þegar ég segi!" Þess má geta að við búum á 4. hæð og á baðherberginu er stór gluggi sem er hægt að opna alveg upp á gátt...og það er að sjálfsögðu stranglega bannað að opna hann ef maður er fjögurra ára og jafnvel svolítið erfitt. Pabbinn greip svo húslyklana, stökk niður stigann og sá drenginn, sem stóð þá á baðkarsbrúninni, hélt sér í gluggakistuna og kíkti út um gluggann svo rétt sást í rauða kollinn.

Um leið og pabbinn gaf merki henti drengurinn lyklunum niður af öllu afli (það var reyndar ekki hluti fyrirmælanna) og sem betur fer

... var ekki snjór úti
... lentu lyklarnir ekki í stóra runnanum beint fyrir neðan gluggann

heldur

lentu þeir við fætur pabbans sem stökk svo upp stigana og bjargaði syni sínum úr bráðri hættu. Drengurinn hefur ekki læst að sér eftir þetta. Þarna (loksins) komst hann í aðstæður þar sem hann varð svolítið hræddur...

Já, svona getur lífið verið æsispennandi hér á Maltesholmsvägen!

13 mars 2012

Varúð - júróblogg!

Hæ, ég heiti Valla og ég elska söngvakeppnir. Ég fylgdist æst og spennt með sænska Idolinu hérna í haust, reyndi að láta ekki á miklu bera en þegar enginn sá til horfði ég á klippur úr þáttunum á heimasíðu tv4, horfði á atriðin á youtube og átti mér uppáhalds keppanda (sem vann svo keppnina). Ég gekk svo langt að LIKE-a hana á facebook svo ég gæti fylgst með henni þar. Jamm. Þungu fargi af mér létt, að vera búin að koma þessu frá mér.

Melodifestivalen hefur svo verið ansi fyrirferðarmikil hérna í Svíaríki og fjölskyldan á Maltesholmsveginum hefur fylgst spennt með. Fyrirkomulagið er nokkurnvegin þannig að það eru fjórar undankeppnir þar sem tvö lög komast áfram í úrslitin. Að auki komast svo tvö lög úr hverri undankeppni áfram í "andra chansen". Það er fimmta keppnin, en þá keppa þau átta lög um tvö sæti í úrslitakeppninni. Þannig að það eru alls 10 lög sem komast í úrslitakeppnina þar sem framlag Svía til Eurovision er valið.

Flytjendur ráða hvort lögin eru sungin á sænsku eða ensku, en í úrslitakeppninni voru átta lög á ensku og tvö á sænsku. Áhorfendur eru svo látnir kjósa og kjósa endalaust og mér þætti fróðlegt að heyra upphæðina sem kosið var fyrir þetta árið. Samanlögð atkvæði allra keppnanna voru um 5 milljónir!Atkvæði áhorfenda giltu 50% og á móti þeim giltu stig sem dómnefndir 10 annarra Evrópulanda gáfu lögunum. Þetta er í fyrsta skipti sem það er gert, nokkuð spennandi (stigakeppnin sett upp eins og í lokakeppninni) en lögin sem voru sungin á sænsku áttu þó engan sjens hjá þessum evrópsku dómnefndnum.

Ein af þessum stórkostlegu afmælisgjöfum sem ég fékk, var ferð til Nyköping á generalprufu fyrir fimmtu keppnina; andra chansen. Tinna vinkona sótti mig fyrir hádegi og við brunuðum úr bænum. Fyrsta sinn í marga mánuði sem ég fer svona á rúntinn og það var rosalega gaman (sá t.d. sveitabæi og varð æst og spennt...). Það er selt inn á tvær generalprufur, þessi var eftir hádegi á laugardeginum, nokkrum klst. fyrir keppnina sjálfa. Þetta var ótrúlega gaman. Ég átti í mestu vandræðum með að ná að fylgjast með öllu, því mér fannst ekki síður spennandi að fylgjast með öllu sem gerðist bak við tjöldin eins og því sem gerðist á sviðinu. Um tíma var ég föst við myndavélarnar og datt í hug að ég væri á rangri hillu í lífinu - af hverju er ég ekki í svona spennandi starfi eins og að vera myndatökumaður!

Lagið sem við héldum með upp úr andra chansen var svona djók-lag, fígúra sem kallar sig Sean Banan og hans helsta markmið virðist vera að gera grín. Lagið fjallaði um komu hans/hans líkra sem innflytjanda til Svíþjóðar. Bara bull en samt svolítið sniðugt. Rosa show.


Þetta lag komst þó ekki áfram. Aftur á móti komst vinur hans Adda áfram, Thorstein nokkur Flinck. Addi hefur verið með lagið hans á heilanum í einhverjar vikur og ég hef þurft að gefa honum harkaleg olnbogaskot nokkrum sinnum á almannafæri. Thorstein þessi er stórfurðulegur, leikari að atvinnu og hefur verið tengdur við ýmsa óregluskandala í gegnum tíðina. Kemur fram berfættur, með brúnar tennur af mikilli tóbaksnotkun og í undanúrslitunum kleip hann kynninn í rassinn beint fyrir framan myndavélarnar. Í úrslitakeppninni varð hann í þriðja sæti hjá sænsku þjóðinni! Hér á eftir má sjá myndbandið með rassaklípunni hans (sem varð forsíðufrétt að sjálfsögðu) og svo laginu sjálfu. Þess má geta að hann hefur viðurkennt að hafa hellt aðeins upp á sig í keppninni...



Svo kom að úrslitakvöldinu, sem var síðasta laugardag. Við horfðum á keppnina hjá Tinnu, á Kungsholmen. Þar var mikið spáð og spögúlerað og við veðjuðum aðeins um úrslitin. Það er skemmst frá því að segja að okkar gisk samræmdust ekki úrslitunum svo við vorum nokkuð langt frá því að vinna júrópottinn. En mig langaði bara að deila með ykkur uppáhaldslögunum okkar, Addi hélt sumsé með fyrrnefndum Flinck en við stelpurnar vorum voðalega skotnar í Danny. Hann var í öðru sæti í fyrra, á eftir Eric Saade. Það er ekkert sérstakt að lenda í 2. sæti og hann ætlaði sér alla leið í þetta skiptið. Var með metnaðarfullt atriði og miklu betra lag en í fyrra en laut í lægra haldi gegn Loreen - og varð aftur í 2. sæti og nokkuð skúffaður greyið strákurinn. Hann gæti reyndar stofnað klúbb með Ingó Veðurguð.

 

Svo var það Loreen. Hún komst áfram fyrsta kvöldið og var strax spáð sigri. Maður vissi svosem allan tímann að hún myndi vinna. Ég veit samt ekki hvað mér finnst um dansinn hennar en lagið er vissulega nokkuð catchy og svo er hún voða voða sæt.


Ég gæti linkað á öll þessi lög, en eitt enn sem var í pínu uppáhaldi hjá okkur. Kannski bara af því að stelpan sem söng er fyrrverandi kærasta Eric Saade.


Að lokum, fyndnasta atriði þessa árs, félagi Ranelid sem er í meira lagi sérstakur. Hann er með tanorexíu á sæmilegu stigi, eða bara háður brúnkukremum. Hann fór í fýlu og ætlaði að hætta við að vera með því það voru allir að gera grín að honum en svo var hann með og ég man ekki hvort hann endaði í neðsta eða næstneðsta sæti. Eitthvað svoleiðis.
Gjörsvovel, melodifestivalen pistillinn búinn - hvert er þitt uppáhald lesandi góður?

07 mars 2012

Innsýn í matarheim Maltesholmaranna

* Er til of mikils að ætlast til þess að kjúklingurinn sem maður kaupir sé ekki kafloðinn? Er ekki eitthvað fólk í vinnu við að reita kvikindin?
* Heimatilbúin hvítlauksolía úr lífrænni jómfrúarolíu og klettasalat er allt sem þarf til að gera gourmet pizzu. Já og fajitas kökur!
* Hérna kostar lítil dós af skyri (160 gr) um 18 krónur sænskar (margfaldið með 19). Hins vegar kaupi ég kíló af kjúklingabitum á 10 krónur (með loðmund í kaupbæti!). Hmm.
* Eftir að við fluttum til Svíþjóðar höfum við borðað að meðaltali 3 kg af eplum á viku. Royal Gala, þau eru æðis! Svona eins og lífrænu eplin sem ég keypti fyrir hálfan handlegg í Heilsuhúsinu í denntid.
* Eggjaneysla okkar hefur líka margfaldast. Og við notum þau sjaldan í bakstur.
* Við eigum alltaf beikon í frystinum. Ekki spyrja mig af hverju! Hefur eitthvað með Adda að gera og það að hér er beikon ekki lúxusvara...
* Það fyrsta sem ég kaupi þegar við komum aftur heim verður hvítlaukspressa. Við notum svoleiðis nánast á hverjum degi. Hvernig fór ég að þessu heima? Jú, saxaði hvítlaukinn, mjög tímafrekt og krónísk hvítlauksfýla af höndunum á manni...

Að lokum:
Síðasta laugardagskvöld einhverntíman eftir miðnætti var ég á leiðinni heim, eftir Melodifestival ævintýrið, þegar maðurinn sem stóð við hliðina á mér í lestinni (nokkuð ölvaður greyið) beygði sig niður. Ég hélt að hann væri að búa sig til svefns á gólfinu í lestinni... en svo reistu félagar hans hann upp og þeir fóru svo út á næstu stöð. Eftir stóð ég í þessari líka fýlu. Eftir svona þrjár sekúndur áttaði ég mig á því að maðurinn hafði verið að æla. Rétt við fæturna á mér. Lyktin var viðbjóðsleg og hann hafði nýlega borðað nautakjöt og papriku. Næs?

02 mars 2012

Föstudagur í borginni

Það gengur ekki að læra alla daga, stundum þarf maður að taka sér smá frí og njóta sólarinnar og þess sem borgin hefur uppá að bjóða! Þessi helgi verður svolítið svoleiðis - en ég er ennþá að taka út afmælisgjafirnar! Hversu heppin getur maður verið með vini og fjölskyldu?

Ég á frábærar samstarfskonur í MA sem gáfu mér svolítið sniðuga gjöf. Þær sömdu við Adda um að bjóða mér út að borða í þeirra boði - og Addi vatt sér í málið í dag. Fallegur og sólríkur sparidagur í dag!
Við fórum snemma í bæinn og tókum smá túrista á þetta, röltum um Gamla stan og skoðuðum mannlífið áður en við fengum okkur að borða.




Á morgun verður svo afmælisgjafadagur allan daginn, en Tinna vinkona okkar gaf mér ferð til Nyköping að horfa á generalprufu Melodifestivalen (sænsku júróvisjón). Ég verð sótt kl. 10 í fyrramálið og svo verður dagskrá allan daginn :o)

Góða helgi!