16 desember 2012

3. í aðventu

...og hér er allt á hvolfi. Ekki búið að pakka inn einni jólagjöf, ekki búið að kaupa allar jólagjafir, jólaföt Rannveigar í uppnámi, jólagjöf Jóhannesar í uppnámi, óvissa um hvernig við ætlum að komast heim með gjafir og föt og annað sem við þurfum að fara með heim...skítug íbúð, óskrifaðir kaflar í MA ritgerðunum og svo mætti lengi telja. Stórt dæs frá húsmóðurinni.

Í dag ætlum við Jóhannes með Rannveigu á sundmót, síðasta sundmótið á þessu ári. Um er að ræða síðasta mótið í fjögurra móta röð, þar sem keppt er í fjórum deildum. Félagið hennar Rannveigar er með lið í fyrstu og fjórðu deild og er Rannveigar lið í 1. deild (efstu deild). Félagið velur einn sundmann í hverja grein, þetta eru hrein úrslit og aðeins tveir riðlar í hverri grein. Svo safna félögin stigum. Rannveig var svakalega glöð að vera valin fyrir hönd hennar félags til að keppa í tveimur greinum - 25 m. flugsundi og 100 m. bringusundi.

Eftir þrjar fyrstu umferðirnar er hennar sundfélag í 5. sæti í fyrstu deild og hefur möguleika á að komast upp í 4. sæti. Að því verður sumsé stefnt í dag og við Jóhannes ætlum ekki að láta okkar eftir liggja á áhorfendapöllunum.


Það er alltaf hægt að þrífa seinna...

10 desember 2012

10. desember

Tíundi desember í dag og því fylgja blendnar tilfinningar! Hér ríkir að sjálfsögðu tilhlökkun yfir ferðalaginu sem framundan er - en við lendum á Íslandi 21. desember og stoppum yfir jólin. En það er líka svo margt sem þarf að gera áður en við getum lagt af stað, Addi þarf að KLÁRA MA ritgerðina sína og ég þarf að klára uppkast að fjórum köflum. Við erum að vinna í þessu öllu saman...í miklu kappi við tímann.

Og stundum vantar einbeitingu og hvata til verksins, þegar mann langar ekkert meira en að dúlla sér í bænum, drekka jólaglögg og fara á jólamarkaði. Stokkhólmur hefur klæðst vetrarskrúða og þó mér finnist sumarið gott þá er veturinn svo fallegur hérna í þessari vatnaborg.




Það þýðir víst lítið annað en að bretta bara upp ermarnar og halda sér að verki, 11 dagar í Ísland! Það er fáránlegt að hugsa til þess að við höfum ekki komið heim í eitt og hálft ár, tíminn er nefnilega svo svakalega fljótur að líða!

07 desember 2012

Veturinn er kominn

Á þessum tíma í fyrra var alveg kalt. En það var ekki farið að snjóa og það fór ekki að frysta almennilega fyrr en í janúar.

Síðustu helgi var ískalt hérna og fór niður í -15° á mánudaginn. Svo á miðvikudaginn byrjaði snjónum að kyngja niður og allt gjörsamlega lamaðist. Flugsamgöngur til og frá Arlanda lágu niðri, lestarsamgöngur til og frá Stokkhólmi að mestu eða öllu leyti líka, strætóarnir hættu barasta allir að ganga og það var kaos í lestarkerfinu innan borgarinnar. Margar ferðir féllu niður, allt gekk helmingi hægar en vanalega og fólk komst ekki heim úr vinnunni. Í blaðinu í morgun sá ég viðtal við fólk sem hafði þurft að sofa á aðaljárnbrautarstöðinni hér í Stokkhólmi, þar sem lestarferðin þeirra féll niður og þau urðu að bíða í rúman sólarhring eftir að komast af stað í ferðina sína. Eins og við má búast í svona veðurfari urðu ansi mörg slys á vegum úti, flutningabílar fóru á hliðina og lestarvagnar útaf sporum. Nokkur dauðsföll urðu í umferðinni á miðvikudaginn.

Öll þessi ósköp höfðu svosem ekki mikil áhrif á okkur. Rannveig fór gangandi í skólann eins og vanalega og við Addi vorum heima að læra. Jóhannes skemmti sér hið besta á leikskólanum en sundæfing Rannveigar féll niður. Ég fór svo í afmæli til vinkonu um kvöldið og þurfti að ganga drjúgan spöl þar sem enginn var strætóinn. Annars var þetta bara eins og að vera kominn heim til Akureyrar ;o)

 
Eplatréð fyrir utan hjá okkur í kuldanum á mánudaginn.

 
Það er fallegt í frostinu! Við hjálpuðum bekkjarsystur minni að flytja á mánudaginn. Við leigðum lítinn sendibíl og keyrðum yfir í hinn enda borgarinnar í fallegu sólríku veðri.
 
 
 
Miðvikudagur, snökaos eða snöstorm eins og Svíarnir köllu þetta veður. Kannski ekki mikið á íslenskan mælikvarða en hér er fólk ekki svo vel undirbúið fyrir þetta. Ekki margir á jeppum, bílar festast úti um allt og lestarkerfið ræður ekki við svona mikla snjókomu. Sumsstaðar var allt að meters hár jafnfallinn snjór eftir daginn. Nú eru vörubílar á leiðinni til Stokkhólms frá m.a. Umeå til að aðstoða við að hreinsa götur og gagnstéttir, en nú þegar eru um 150 tæki að vinna í málinu.
 
 
Mynd stolið af dn.se
 
 
Á háskólasvæðinu að kveldi óveðursdagsins mikla. Fallegt veður, logn og blíða.


22 nóvember 2012

Keane

Í síðustu viku fórum við Addi á tónleika með bresku poppurunum í Keane. Við hlustuðum mjög mikið á þá á tímabili, sérstaklega seinni árin okkar í Reykjavík. Og þá sérstaklega í Renault nokkrum Megane á ferðalögum okkar milli höfuðborgarinnar og Akureyrar.

Það var mjög gaman að sjá og heyra í þeim og skemmtum við okkur mjög vel. Tónleikarnir voru haldnir á tónleikastað sem heitir Münchenbryggeriet og er ekkert svakalega stór (sjá mynd!). Við stóðum upp við ljósa- og hljóðbúrið allan tímann og ég fylgdist að sjálfsögðu spennt með ljósamanninum. Gat séð play-listann hjá honum og var farin að kunna á ljósatakkana svona undir lok tónleikanna... ;o)

Ég hlustaði þónokkuð á nýjustu plötuna þeirra vikurnar fyrir tónleikana og einnig rifjuðum við hjónin upp eldri lög hljómsveitarinnar, svo við gætum sungið með! Þetta voru þrusu góðir tónleikar, söngvarinn kom skemmtilega á óvart svona live, ekkert mas og þras og öll skemmtilegustu lögin spiluð. Gallinn (ef er hægt að kalla það galla?!) við þessa hljómsveit er hvað lögin þeirra eru einsleit. Svona meira en gengur og gerist, hef ég á tilfinningunni. Að öðru leyti - frábært að komast saman út úr húsi, hlusta á góða tónlist, fá sér göngutúr í nóvemberkuldanum og ná meira að segja að rölta um aðrar götur en vanalega!

16 nóvember 2012

Þolinmæðin þrautir vinnur allar

Það tekur allt sinn tíma hér í Svíþjóð. Það má þó örugglega finna dæmi um álíka seinagang víða en við höfum að minnsta kosti ekki kynnst þessu áður.

Tökum nokkur dæmi.

Eins og áður hefur komið fram þurftum við að berjast við kerfið í eitt ár áður en við komumst inn í Försäkringskassan og gátum fengið sjúkratryggingu hér í landi og barnabætur. Það gerðist ekki fyrr en eftir að við höfðum bæði fengið okkur vinnu með skólanum og eftir að hafa hringt, vælt, sent ótal bréf, sent launaseðla, ráðningarsamninga, fleiri launaseðla og svo framvegis.

Við erum enn ekki farin að fá húsaleigubætur, en við hófum það umsóknarferli í byrjun september (enda er ekki hægt að fá húsaleigubætur fyrr en Försäkringskassan hefur samþykkt mann). Allar umsóknir þurfa að vera á pappír og sendar í pósti. Svo senda þeir manni bréf í pósti með beiðni um aukaupplýsingar ef eitthvað vantar. Í okkar tilfelli vantaði staðfestingu um leyfi leigusalans frá bostadsföreningen til að mega leigja íbúðina út. Hún átti slíka staðfestingu bara í tölvupósti og ég sendi það áfram, í tölvupósti. Ég fékk svo staðfestingu á því að tölvupósturinn frá mér hefði komist til skila á réttan aðila, en þar sem þessi tölvupósts-staðfesting frá leigusalanum var ekki nóg vorum við beðin um að senda formlega staðfestingu, undirritaða, á pappír. Og sú beiðni kom að sjálfsögðu ekki í tölvupósti heldur fengum við bréf þess efnis í gær. Allt tekur þetta svo langan tíma því tölvupóstssamskipti virðast ekki vera til - þannig að í staðinn fyrir að ýta á reply og segja: nei heyrðu þetta er ekki nóg - er sent út bréf, með tilheyrandi kostnaði og pappírseyðslu, til að láta mann vita.

Þess má geta að í október í fyrra birti ég blogg á síðunni þar sem ég kvartaði yfir því hversu langan tíma allt tæki hérna, við værum hvorki farin að fá barna- né húsaleigubætur. Little did I know!

Rannveig Katrín var svo óheppin um daginn að gleyma símanum sínum í lestinni. Nánar tiltekið 27. október. Hún gleymdi honum hérna í Hässelby Strand, sem er endastöð. Lestarstjórinn gengur alltaf í gegnum lestina á endastöðvum og hirðir upp ef eitthvað hefur orðið eftir. Sem betur fer fann hann eða einhver önnur góðhjörtuð manneskja símann og fann mömmu (mig) í simaskránni hennar og sendi mér sms, þar sem kom fram að síminn hefði fundist í lestinni og ég ætti vinsamlegast að hafa samband við hitte gods. Hitte gods er staðurinn þar sem öllu draslinu úr almenningssamgöngunum er safnað saman svo fólk geti nálgast það. Það er sagt að það geti tekið alveg upp í 10 virka daga fyrir dótið að berast til Hitte gods. Við höfum verið tíðir gestir hjá þeim undanfarna daga en ekki finnst síminn. Annað hvort hefur einhver stolið honum eða hann birtist hjá þeim eftir dúk og disk.

Í júní síðastliðnum leigðum við bílaleigubíl og keyrðum í ógeðisbústaðinn, sælla minninga. Einhversstaðar á leiðinni ók Addi örlítið of hratt (við komumst að því að það eru alltaf myndavélar rétt eftir að hámarkshraði hefur verið lækkaður, svona 20 metrum frá skiltinu). Í lok sumars fékk ég bréf frá lögreglunni þar sem ég var beðin um að senda þeim ljósrit af ökuskírteininu mínu því ég væri grunuð um að hafa verið ökumaður í bíl sem braut umferðarlagabrot. Ég var gleraugna- og linsulaus á þessum tíma svo ég keyrði ekki neitt i ferðinni, en sendi nú samt ljosrit af skírteininu mínu. Fyrir tveimur til þremur vikum fékk Addi svo samskonar bréf. Hann sendi afrit af ökuskírteininu sínu og hefur svo ekkert heyrt frá þeim. Nema hvað, að í GÆR fékk ég AFTUR bréf frá lögreglunni, nákvæmlega sama bréfið og ég fékk í ágúst. Ég veit hreinlega ekki hvað ég á að gera - senda annað afrit af ökuskírteininu mínu? Ætli við verðum ekki flutt aftur heim þegar lögreglan verður búin að ákveða hvort hún ætli að sekta okkur, hvað mikið og hvort okkar eigi að fá sektina.

Það er ekki allt sem tekur svona langan tíma. Ég var ekki búin að vera hér í tvær vikur þegar ég fékk boð í krabbameinsskoðun. Börnin fengu líka boð til tannlæknis eftir að við höfðum verið hérna í mánuð. Um leið og ég fékk útborgað í fyrsta sinn fóru að berast bréf um séreignasparnað og allskonar lífeyrissjóðsmál. Við vorum líka snögg að finna íbúð, leikskóla og skóla svo það var nú ekki vandamálið.

En baráttan við kerfið heldur áfram og sömuleiðis leitin að símanum. Þangað til samnýtum við mæðgur minn síma, við erum svo nægjusamar. Þannig að ég sms-a stundum vinkonur hennar og hún þarf stundum að svara í símann fyrir mig ;o)

14 nóvember 2012

3/4 lokið...

Ég kláraði síðasta kúrsinn í dag og er að sjálfsögðu afar ánægð með það. Næst á dagskránni er þá að hella sér út í vinnu við lokaritgerðina. Ég hlakka til að fást við það verkefni, þó enn sé frekar óljóst hvað ég ætla að skrifa um og hvaða aðferðafræði ég ætla að nota, en ég á tíma hjá leiðbeinandanum mínum á þriðjdaginn og hann hjálpar mér vonandi að koma svolitlu formi á hugmyndir mínar.

Tíminn hefur verið svo ótrúlega fljótur að líða og það er skrítið að hugsa til þess að við eigum aðeins eftir örfáa mánuði hér í Stokkhólmi! Við eigum enn eftir að gera svo margt af því sem við ætluðum að gera meðan við værum hérna úti, ég vona innilega að við getum grynnkað á to-do listanum okkar. Til dæmis langar okkur mikið mikið að skreppa yfir til Noregs, ferðast aðeins um norðurhluta Svíþjóðar, sigla til Gotlands og fara í ævintýraland Astridar Lindgren í Smálöndunum...og svo framvegis...

Ekkert útilokað ennþá :o)


05 nóvember 2012

Sunnudagsbananabrauð

Rannveig bakaði þetta fína bananabrauð í gær. Uppskrift frá ömmu Jórunni og börn og fullorðnir nutu þess að smakka :)


Litli skautadrengurinn

Jóhannes Árni fer á skautaæfingar á sunnudögum. Hann er ótrúlega duglegur litli drengurinn, puðar og puðar með bros á vör meðan hin börnin (langflest) taka fram úr honum, sum á ógnarhraða. En hann paufast og er ákveðinn í að læra almennilega að skauta. Enda eru skjótar framfarir. Markmið hans eru eiginlega tvíþætt; annarsvegar að geta skautað jafn vel og stóra systir og hinsvegar að geta kennt móðurinni að standa á skautum ;o)

Á leiðinni út á ísinn...

Að lokinni æfingu, rjóður og sveittur með bananann sinn í búningsherberginu.

03 nóvember 2012

Foreldrar: Hvað langar þig í í jólagjöf?
Jóhannes, 5 ára: Sjónvarp í herbergið mitt.

30 október 2012

Halal kjöt og tyrkneskar fíkjur.

Það eru greinilega verkefnaskil fljótlega hjá mér. Þá þarf ég nefnilega alltaf að finna mér eitthvað annað að gera...en að sitja við skrifborðið mitt og skrifa. Til dæmis í dag, þá varð ég að fara að versla (og blogga um það). Ég þurfti hinsvegar ekki að eyða í það tveimur klukkustundum. Ég prófaði nefnilega nýja búð í dag! Þvílíkt himnaríki.

Hún er í sömu götu og stórmarkaðurinn sem við förum vanalega í en einhverra hluta vegna hef ég aldrei litið inn í hana. Þetta er sumsé mið-austurlensk verslunarkeðja (eða vörunar benda allavega til þess) og ég þekkti ekki nema svona um helming varanna þarna inni. En ég kom heim með appelsínusafa frá Egyptalandi, fíkjumauk frá Lebanon, fíkjur frá Tyrklandi (Midyat, sem var eitt sinn hluti af Sýrlandi), kókosolíu frá Sry-lanka og glænýtt halal slátrað nautakjöt (kjötborðs hluti búðarinnar ilmaði af blóði sko í alvörunni). Ég fékk líka 3,5 kg af kjúklingaleggjum (halal að sjálfsögðu) á litlar 50 krónur.  Ég eyddi sumsé rúmum klukkutíma inni í þessari búð, að lesa á krukkur og poka, velja mér hnetur og fræ úr risastórum hnetubar, skoða óteljandi tegundir af hrísgrjónum (korn-"herbergið" var miklu stærra en ávaxta- og grænmetis"herbergið"), ólívum og allskonar góðgæti. Í þessari búð sá ég í fyrsta sinn úrval af lambakjöti. Ég hefði getað keypt frampart á fínu verði, eistu (já!), lifur og nýru, lambagarnir og skanka. Allt saman nýslátrað og að sjálfsögðu eftir halal hefðinni.

Svo varð ég að fara í gamla góða stórmarkaðinn eftir mjólkurvörunum og te-inu mínu. Það var sumsé ekki hægt að kaupa sænska mjólk í halal búðinni og ég ákvað að halda mig við Arla. Stórmarkaðurinn var ferlega óspennandi miðað við Grossen. En það tók að minnsta kosti ekki jafn langan tíma að renna þar í gegn!


 ps. við fengjum glænýjar fíkjur í Grikklandi, beint af trénu. Það var held ég í fyrsta sinn sem ég smakkaði ferskar fíkjur. Þær voru undursamlegar og af allt öðru kaliberi en þær fíkjur sem ég hef prófað að kaupa hér í Svíþjóð. Ég hef mikla trú á þessu mauki frá Lebanon!

27 október 2012

Laugardagur með hefðbundnu sniði

Laugardagurinn hjá Adda og Rannveigu byrjaði klukkan 06:05, enda voru þau á leiðinni á sundmót. Við Jóhannes vöknuðum klukkutíma síðar en ferðinni var einnig heitið í sund. Jóhannes er um það bil hálfnaður með sundnámskeiðið og farinn að kafa og spyrna sér og svona allskonar. Hann stakk mig svo reyndar af og stökk beint niður í karlaklefann (enda vanari að fara með pabba sínum en mér í þessa laugardagstíma) og ég þurfti að sækja hann þangað, þar sem hann stóð berrasaður í heitri sturtunni og hafði það notalegt. Þetta var jafnvel svolítið vandræðalegt. Rannveig synti 100 m bringusund og bætti tímann sinn um tæpar þrjár sekúndur síðan í vor.

Stúlkan baðaði sig svo aðeins í Mäleren í dag, en við fórum í langan göngu/hjólatúr sem endaði með því að hún glannaðist eitthvað aðeins of mikið á ströndinni og pompaði út í! Þrjár gráður úti og vatnið ískalt.

Daginn endum við svo á þvi að horfa á Sven Ingvars syngja allskonar klassík á opnunarhátið Friends Arena í Stokkhólmi (nýji þjóðarleikvangurinn þeirra Svía). Við Addi ætlum einmitt að fara á þennan leikvang í vor og horfa og hlusta á Kiss...


22 október 2012

Haustkveðjur frá Jóhannesi

Á fullri ferð á leiðinni á leikskólann í morgun.
Leikskólinn hans Johannesar. Ekki sá glæsilegasti í borginni skulum við segja...

Laufin falla

:-*

17 október 2012

Hinn plebbalegi jólagjafalisti

Addi spurði mig í gær hvað mig langaði í í jólagjöf. Ég byrjaði að telja upp hluti sem mig langar sjúklega mikið í, en ég veit að ég á aldrei eftir að fá í jólagjöf (a.m.k. ekki númer 1-3 á listanum því þá yrði bóndi minn að vinna í lottói...). Hann kallaði mig plebba fyrir að langa í ipod og kindle. Sveiattan. 

1. Mig langar fáránlega mikið í nýjan ipod. Ég keypti mér ipod í einhverju flippi í fríhöfninni 2006. Hann er 2 gb, takkarnir hafa sjálfstæðan vilja og það komast svona 10 lög inn á hann. Batteríið er orðið mjög lélegt. Þegar maður eyðir stundum um 2 klst á dag í lest þá bara hreinlega verður maður að hlusta á tónlist. Tónlist er lífið og ég gef mér mjög lítinn tíma til að njóta og hlusta á tónlist heima. Við eigum ekki einu sinni geislaspilara. Mér verður líka stundum óglatt í lestinni þegar ég les (sem ég geri mikið af í lestinni) en tónlistin læknar það. Ég er ekki að fara að fá mér iphone eða álíka tæki á næstunni og langar bara í nýjan og flottan ipod. Adda fannst plebbalegt að ég skyldi nefna ipod. En hann gleymdir því að hann stelur mínum mjög oft, þrátt fyrir að finnast algjör óþarfi að eiga svona tæki...

2. Það sem ég nefndi næst var kindle. Svipaðar ástæður og að ofan - ég eyði miklum tíma í lest og ég eyði miklum tíma í lestur. Ég ber oft með mér þungar bækur hvert sem ég fer svo ég geti lesið. Það er bara ekkert gott fyrir bakið. Ef ég ætti nú bæði kindle og ipod, gæti ég lesið og hlustað á tónlist í einu, með lágmarks fyrirhöfn. Við eigum líka ofsalega mikið af bókum og það er mjög gaman og ég ætla ekki að hætta að kaupa bækur, en sumar bækur þarf maður samt ekki að eiga í bandi, þó maður vilji gjarnan lesa þær. Bókasöfn eru góð en kindle væri hreinn unaður. Ég kemst samt vel af án hans (annað má segja um ipodinn).




3. Svefnpoki. Einhverra hluta vegna fékk ég ekki svefnpoka í fermingargjöf, svona eins og um það bil allir aðrir. Og mig langar ofsalega mikið í góðan svefnpoka. Ég elska nefnilega að fara í útilegur en enda yfirleitt með gömlu æðardúnssængina mína með mér, sem er ofsalega hlý og góð inni í rúmi en bara ekkert svo hlý á köldum tjaldbotni. Ég komst að því þegar ég fékk einu sinni lánaðan unaðslegan svefnpoka hjá móður minni. Addi var svosem sáttur við þessa ósk og fannst hún ekki plebbaleg. Nema hann langar í tvöfaldan svefnpoka. Ekki mig.
Minn svefnpoki á að taka lítið pláss, vera mjúkur og fallegur. Svo er ég bara rétt rúmlega dvergur að stærð svo hann má ekki vera of langur, þá verður mér svo kalt á tásunum. 

4. Skór. Maður getur aldrei átt of mikið af skóm. Eða sko ég á reyndar aldrei skó neitt of lengi því ég er skóböðull. Það kallast gott ef ég á sömu skóna í tvö ár. Það gildir reyndar ekki um spariskó sem ég nota sjaldan, en svona götuskó. Ég fór einu sinni í göngugreiningu og það kom auðvitað í ljós að ég er frekar vansköpuð hvað varðar niðurstig og svona þannig að greinirinn sagði að ég ætti skilyrðislaust alltaf að kaupa mér gæðaskó og aldrei að spara í skókaupum. Ég hef ekki hlýtt því hingað til. Mig langar í góða skó. Alvörunni skó úr góðu efni með góðum sóla og virkilega vandaða. Svona ecco dæmi eitthvað. Nema ekki hallærislega samt. Brúnu six mix skórnir mínir (sem ég er búin að eiga í tvo vetur) eru búnir að fara tvisvar til skósmiðs og nú eru þeir enn á ný orðnir götóttir. Ætli ég verði ekki að fara að henda þeim blessuðum. Þá væri kjörið að fá nýja góða skó. Sem þola Stokkhólmsvetrarkulda.

5. Bækur. Þær langar mig alltaf alltaf í. Núna langar mig sjúklega mikið í orðsifjabók Ásgeirs Blöndals Magnússonar. Og framhald sögu Vilborgar Davíðsdóttur um Auði djúpúðgu sem á að koma út í haust. Og svo framvegis...

6. Peysa. Hlý, notaleg, litrík, þægileg...eitthvað svona kannski...



Það er gaman að gera svona lista og láta sig dreyma um að bruna í lestinni með úrval tónlistar í eyrunum og takka sem virka, lesandi allskonar skemmtilegar rafbækur...í þægilegum skóm og fallegri peysu...kannski með nýjan klút um hálsinn...


  

13 október 2012

Jóhannesar-mont

Jóhannes er á fleygiferð þessa dagana. Hann er byrjaður á sundnámskeiði og gengur það mjög vel. Hann bjargar sér nánast alveg sjálfur í klefanum og er hress og kátur. Ekkert vesen á honum :) Svo er hann að hugsa um að fara á skautanámskeið líka. Hann byrjaði líka að hjóla á dögunum. Hann er ennþá að æfa sig og fínpússa tæknina en þetta er allt að koma, svolítið síðan hjálpardekkin fóru en æfingar hafa verið stopular og áhuginn og einurðin ekki fyrir hendi fyrr en nú. Og þá gerist þetta bara kviss, bamm búmm!

Í gærkvöldi byrjaði hann svo að telja...og taldi upp að hundrað bæði á sænsku og íslensku. Og fór létt með það. 


12 október 2012

Bestu og verstu kaupin?

Um daginn var dálkur í dagblaðinu þar sem fólk var spurt út í verstu og bestu tækjakaup þess. Flestir settu froðuþeytara* í fyrsta sæti og dýr rafmagnstæki eins og myndbandstökuvél og síma í flokkinn með verstu kaupunum.

Ég tek hjartanlega undir þetta með froðuþeytarann! Ég keypti svoleiðis maskínu í haust, á um það bil 60 krónur. Síðan hef ég notað hann mikið til að flóa mjólk í kaffið eða til að búa til frappe. Við hjónin ræddum þessi mál aðeins yfir morgunkaffinu (með flóaðri að sjálfsögðu), en Addi er kannski ekki alveg sammála mér þar sem hann drekkur kaffið sitt svart og er ekki sérstakur aðdáandi hins gríska frappe.

Við gátum þó verið sammála um að verstu kaupin mín hefðu sennilega verið pressukannan sem ég keypti og gleymdi í Ikea rétt eftir að við fluttum hingað...

* ég veit reyndar ekki hvort froðuþeytari sé endilega gott nafn á þessu fyrirbæri...

10 október 2012

Älvdalen

Það er óhætt að segja að Rannveig Katrín hafi verið mun duglegri að ferðast um Svíþjóð en við foreldrarnir. Hún er búin að fara til Nyköping, Norrköping, Uppsala og í hinn risastóra dýragarð Kolmården (Nordens största djurpark!) - allt með sundfélaginu. Þau fara reglulega í "sundbúðir" út fyrir borgina og taka þá massívar æfingar á nýjum stað, gista á gistiheimili eða jafnvel á hóteli og skoða sig aðeins um. Á dögunum fór félagið svo í keppnisferð til Gotlands og svo er árlegt sundmót á Öland, sem hún kemst vonandi á.

Framundan er svo svolítið lengri ferð - eða til Älvdalen sem er í norðurhluta Dalarna, upp við landamæri Noregs.



 
 Þangað verður farið í haustfríinu núna í lok október. Ferðalagið tekur um 2 1/2 tíma með lest og stoppað verður frá mánudegi til fimmtudags. Þau ætla að ná sex æfingum á þessum tíma og hafa gaman saman.
 
 


08 október 2012

Náttfatapartý

Ég fór í náttfatapartý síðasta föstudag. Veit ekki hvenær í ósköpunum ég gerði eitthvað svoleiðis síðast - en þetta var mjög gaman. Íslendingur, Írani og tveir Grikkjar skemmtu sér mjög vel yfir Dirty Dancing, horfa á youtube myndbönd, Sex and the city, baka pizzu og spjalla...


Fyrr um daginn fór ég á kaffihús með þremur írönskum stúlkum og ræddum við lengi saman um menningu og stjórnmál og allskonar annað gáfulegt. Þetta er það langbesta við að stunda nám í útlöndum - að kynnast allskonar frábærlega fjölbreyttu fólki frá hinum ýmsu heimshornum :o)

03 október 2012

Íslænska...

Ég skrifaði að gamni niður glefsur úr um það bil 10 mínútna samtali sem Jóhannes átti við föður sinn í kvöld. Svona talar sumsé fimm ára drengurinn minn.

"Pabbi, ég ætla að försätta að læra þig sænsku ända þangað til við komum aftur til Íslands"

"Ég er redan búinn að læra mig sænsku"

"Ég er fortfarande svangur"

"Ég hef engan aning!"

"Það er ganska skrítið"

"Þessi bíll er alveg eins og vagnur"

Það merkilega er að hann blandar nánast aldrei íslenskum orðum inn í samtöl sem fara fram á sænsku, en þegar hann talar íslensku við okkur hérna heima þá kemur varla setning frá honum sem ekki er með sænskum orðum í eða þá málfræðilega kolröng. Það verður krefjandi fyrir hann að flytja aftur heim og eiga samskipti á 100% íslensku. Nú þegar er nokkuð erfitt fyrir fólk að skilja hann í gegnum síma eða skype - nema að það kunni eitthvað í sænsku.

Á maður samt nokkuð að hafa áhyggjur af þessu? Við lesum fyrir hann á íslensku á nánast hverju kvöldi (einstaka sinnum á sænsku), leiðréttum hann temmilega mikið og tölum mjög mikið við hann. "Vandamálið" er kannski að við skiljum hann fullkomlega þó hann blandi tungumálunum saman og tökum jafnvel ekki alltaf eftir því. Það verður í það minnsta forvitnilegt að fylgjast með þróun mála í framhaldinu :o)

I used to rule the world...



Í lok ágúst fórum við Addi á stórkostlega tónleika.

                                                          S T Ó R K O S T L E G A.

Við erum sammála (sem betur fer) um það að það sé mikilvægara að safna minningum og upplifunum frekar en dauðum hlutum. Það kom því svosem ekki á óvart að Addi skyldi gefa mér bestu þrítugsafmælisgjöf í heiminum, sumsé miða á tónleika með Coldplay, einni af mínum uppáhaldshljómsveitum til margra ára.

Við fengum pössun og fórum í fyrsta sinn í meira en eitt ár bara tvö saman út. Vorum mætt snemma á Stockholm Stadium, fundum sætin okkar, fengum okkur bjór og biðum eftir að goðin mættu á svið. Biðin var nokkuð löng og örlítið köld en ó hvað hún var þess virði. Þess ber að geta að ég hef eiginlega aldrei farið á alvörunni tónleika áður (veit ekki hvort ég á að telja James Brown tónleikana Laugardalshöllinni með). Um leið og Coldplay mættu á sviðið brjálaðist allt og armböndin okkar byrjuðu að blikka og ég fékk gæsahúð og tár í augun og var ekki lengur kalt og brosti að sjálfsögðu hringinn allan tímann. Söng mig hása og hjarta mitt fylltist af hamingju. Jamm þetta var stórkostlegt.


Allir tónleikagestir fengu armbönd sem blikkuðu í takt við sum lögin. Það var myrkur úti og þetta útspil þeirra bætti heldur betur á stemmninguna og upplifunina. Ég set hérna inn klippu frá tónleikunum, þegar þeir tóku Paradise í annað sinn - og átti það að vera upptaka fyrir þáttinn Stand up to cancer. Chris sagðist ætla að gera svolítið klikkað með okkur, en þeir hefðu verið beðnir um að koma með innslag í þennan þátt og þeir samþykktu það ef þeir fengju að taka það upp í Stokkhólmi. Svo kom nú reyndar í ljós að þeir höfðu sagt nákvæmlega það sama á tónleikum í París og sú upptaka var notuð í þættinum. Nokkrir Svíar urðu fúlir...en þetta atriði var nú samt með þeim flottustu á tónleikunum :o)

Ég hef alveg verið meðal þeirra sem finnst algjört bruðl að eyða peningum í dýra tónleikamiða - en þetta var svo þess virði og er eitt af því sem ég ætla að gera meira af. Viva la vida!

28 september 2012

Jóhannes Árni fimm ára!

Við fögnuðum afmæli Jóhannesar um miðjan september með góðum gestum, en foreldrar Adda komu og voru hjá okkur í nokkra daga í kringum afmælið hans. Það var því heppinn lítill (eða ekki svo lítill) drengur sem fagnaði afmælinu sínu og bauð upp á köku og fékk margar gjafir, bæði skemmtilegar og nytsamlegar! Lego á hug hans allan þessa dagana og fær hann ekki leið á því að búa til allskonar farartæki úr legóinu sínu. Enda fékk hann legó - flugvél, löggubíl, slökkvibíl og slökkvibát í afmælisgjöf (það þarf að fara að gefa krakkanum dúkku til að jafna þetta út!). 

Daginn eftir fimm ára afmælið fórum við með hanní fimm ára skoðun (alltaf sama nákvæmnin hjá Svíunum). Hann er (sem fyrr) svolítið fyrir ofan meðallag bæði í hæð og þyngd, þó aðallega hæð. Hann er orðinn um 115 cm og tæplega 20 kíló. Hann talaði og talaði og hjúkrunarfræðingurinn þurfti (sem fyrr) að stoppa hann af. Hann vildi ekki teikna sjálfsmynd fyrir hana en teiknaði ýmislegt annað og svo sá hann svona svakalega vel. Sumsé, allt jätte bra!

Nokkrar afmælismyndir fylgja - takk allir fyrir skemmtilegar sendingar, símtöl og kveðjur! 


Að morgni afmælisdags - hlaupahjól sem hefur vakið mikla lukku!

Kominn heim úr leikskólanum og farinn að opna fleiri pakka :o)

Kominn í nýjan bol sem stóra systir gaf og nýtur aðstoðar hennar við að opna gjafirnar. 

Veiii lego bátur!

Svo grillaði pabbi pylsur og mamma bakaði köku. 

Að lokum - ein góð af Rannveigu með ömmu sinni við Drottningholm slott. Þar er æðislegur garður sem við höfum algjörlega misst af, þvílík synd! Þurfum að vera dugleg að fara þangað næsta vor :o)



24 september 2012

Lítið hefur verið um uppfærslur hér síðustu daga og vikur. Það má rekja til mikilla anna en úr þessu verður vonandi bætt bráðlega. 

Þó er það að frétta að hjónin á Maltesholmsvägen þurfa að fara að stunda jóga og læra að anda í poka til að minnka stresshnútinn í maganum fyrir önninni sem er í raun og veru langt komin en dugnaðurinn við lærdom ekki verið eins mikill! 

06 september 2012

Frappe time!

Grikkir eru þekktir fyrir kaffiást sína og þeir eru snillingar í að búa til unaðslega kalda kaffidrykki sem eru hæfilega svalandi í hitanum.

Þessa daga sem ég dvaldi í Grikklandi drakk ég...tja...veit ekki hvað marga Frappe. En þeir voru sennilega nokkuð margir. Ég greip með mér eina dollu af Frappe-kaffidufti og hef verið að æfa mig í að gera Frappe heima.



Allt sem þarf er kaffiduftið, froðuþeytari, mjólk, ísmolar og sykur ef vill. Ein teskeið af kaffiduftinu, smá sykur og ca. tvær matskeiðar vatn. Svo freyðir þetta alveg upp að glasbarminum þegar maður notar froðuþeytarann. Tveir, þrír ísmolar, mjólk og auðvitað RÖR. Þennan drykk þarf að drekka með röri. Kaffið er sterkt svo mér finnst betra að setja pínu sykur og mjólk- þó ég sé vön að drekka kaffið mitt svart og sykurlaust.

 
Fullkominn drykkur áður en lagt er af stað til Parísar! Au revoir!

05 september 2012

Life goes on ;)

September hafinn og allskonar að gerast á Maltesholmsvägen. Það var svolítill skellur að þurfa að hefja strögglið aftur, sundskutl, vakna á morgnana, byrja að læra, sitja í lestum heilu og hálfu tímana og svo framvegis. En þetta er allt að koma :o)

September er líka svo góður mánuður. Hann hófst á því að Hildur Ey vinkona kom í heimsókn frá Osló og við fórum saman í Tjejmilen, sem er 10 km hlaup um Djurgården. Um 25.000 konur tóku þátt og þetta var alveg frábært, þrátt fyrir gríðarlega rigningu og drullu. Þetta minnti mig á Laufskálaréttarstemmningu, að trampa þarna í drullunni á mótssvæðinu innan um fullt af fólki.

Ég ætla svo að skella mér til Parísar á morgun í löngu planaða vinkonuferð. Þar munu hinar fimm fræknu hittast á ný eftir langa fjarvist og spássera um stræti Parísar.

Svo fáum við gesti og litli drengurinn okkar verður fimm ára 13. september. Ekki svo lítill lengur eða hvað?

29 ágúst 2012

Ferðasaga í myndum og svolitlu máli

Ég efast um að nokkur maður nenni að lesa ferðasöguna frá Grikklandi. Hún er of löng og svo margt til að segja frá. Eg ætla bara að segja stuttu útgáfuna í nokkrum myndum og þeir sem vilja vita meira koma í heimsókn á Maltesholmsvägen eða taka upp tólið ;o) Það var mjööög erfitt að velja nokkrar myndir til að setja hingað inn - af þeim ca. 1000 sem við eigum. En hér koma nokkrar myndir, í tímaröð.

Foreldrar Maríu sem tóku ofsalega vel á móti okkur í Aþenu, við gistum hjá þeim í tvær nætur, þau pössuðu börnin svo við kæmumst út á kvöldin, elduðu fyrir okkur, sendu okkur út með nesti - þrátt fyrir að hafa ekki getað talað við Jóhannes þá dekruðu þau hann í botn og hann gjörsamlega dáði þau og dýrkaði frá fyrstu mínútu.


Fimmtudagskvöld í Plaka, gömlu Aþenu, nokkrum tímum eftir að við lentum í Grikklandi. Manos fór með okkur á bar með frábæru útsýni yfir Akrapólís. Kokteilar og notalegheit og börnin í kyrrð og ró hjá gestgjöfunum.

Vicky, ég og María. Ég fór næstum því að skæla þegar ég sá Akrapólis fyrst - þá vorum við að keyra í Plaka og ég sá glitta í hæðina milli húsa. Jemundur, gæsahúð!


Föstudagsmorgun, steikjandi hiti og börnin á leiðinni með okkur menningarferð í metrónum.

Theatre of Dionysus

Þetta var klárlega erfiðasti dagurinn fyrir Djó. Steikjandi hiti og hann varð strax sveittur og eldrauður í framan (af hita, ekki sól). Pabbi þurfti að bera hann meira og minna upp alla hæðina (ekki síst af öryggisástæðum...)

Aþena er stóóór! Fjögurra milljóna borg eða þar um bil.

Feðginin tóku nett leikrit uppi á hæðinni. Sungu og léku lag með FM Belfast.

Auðvitað var traktor á Akrapólís!

Svolítið týpísk mynd fyrir litlu drottninguna. Meðan aðrir fengu sér kalt kaffi eða ís hafði hún lyst á stærstu súkkulaðikökunni í Aþenu. Hún kann að njóta lífsins :)

Á kaffihúsinu, rétt fyrir neðan Akrapólíshæðina (Ætli Grikkir séu almennt séð ekki aðeins betri að sitja fyrir en Íslendingar...)

Þar fann Rannveig afskaplega lítinn bíl. Takið eftir álbréfinu sem hún er með - heimabökuð kaka sem húsmóðirin sendi börnin með út!

Um kvöldið röltum við um höfnina í Aþenu. Þar voru ótrúlega margar snekkjur, risastórar, í eigu grískra auðmanna (og kvenna). Okkur var tjáð að kreppan hefði lítið sem ekkert komið við ríka fólkið í landinu, meðan millistéttin væri að hverfa.

Souvlaki staður við höfnina. Krakkinn fékk að koma með okkur á útstáelsi, það er alls ekkert óeðlilegt að þvælast með börnin með sér út um allar trissur seint að kvöldi. Hún var að vonum ánægð með það að vera talin með fullorðnum en ekki bróður sínum sem lá sofandi heima hjá foreldrum Maríu.

Þetta var ekkert leiðinlegt. Og souvlaki er gott!

Skelltum okkur svo í einn drykk á bar með útsýni yfir höfnina. Komum heim löngu eftir miðnætti, unglingurinn nokkuð sáttur!

Laugardagur, í ferju á leiðinni til eyjunnar Evia. Um klukkustundarsigling í þónokkru hvassviðri. 


Karystos á Evia. Gistum þar eina nótt og príluðum m.a. upp að gömlum kastala sem er fyrir ofan bæinn. Jóhannes hlakkaði mikið til að hitta kónginn og drottninguna - sem voru því miður ekki heima.

Karystos. Fallegur bær, um 4000 íbúar. Erlendir túristar frekar sjaldgæfir en algengt að fólk skreppi yfir frá Aþenu og dvelji yfir helgi eða jafnvel bara einn dag. Horfðum á sólsetrið frá kastalanum, mjööög fallegt.

Þetta var áður en okkur datt í hug að athuga hvort kastalahliðið væri opið. Príluðum sumsé inní hann.



Úti að borða í Karystos, á hefðbundinni grískri Taverna. Ouzo!

Þarna ber að líta steiktan smokkfisk (Squid) - mjög gott - og sardínur - ekki alveg jafn gott. María reyndi að kenna okkur hvernig Grikkir fara út að borða. Þá kemur alltaf brauð og vatn á borðið og svo er ákveðið hvort eigi að borða kjöt eða fisk. Nokkrir réttir eru svo pantaðir á borðið, rauðvín með kjöti og ouzo með sjávarfangi. Rauðvínið er pantað í hálfu eða heilu kílói og kostar ekki mikið, um 6 evrur kílóið. Allir eru svo með litla diska og smakka af öllu og skála og drekka og svo er auðvitað grískt salat og jógúrtsósa með, eins og t.d. Tzaziki eða sterk ostasósa. Þetta gerist yfirleitt eftir sólsetur og það er ekki óalgengt að fólk fari út að borða um kl. 22 eða 23. Svo er farið í göngutúr eftir matinn til að melta fyrir svefninn...við áttum reyndar erfitt með að venjast þessu þar sem við reynum að borða snemma á kvöldin!


Souvlaki-ið hennar Rannveigar. Til hægri glittir í ostasósuna sem var alveg viðbjóðslega góð. 


Vá hvað við sáum marga villiketti. Allsstaðar sem við komum voru kettir og yfirleitt mjög margir inni á veitingastöðunum að sníkja mat eða reyna að sleikja upp það sem féll á gólfið. Á Milos töldum við einu sinni 9 ketti fyrir utan húsið okkar - en Angelo sem við gistum hjá gaf þeim alltaf að borða. Þeir eru ekki litnir hornauga af íbúunum, heldur hjálpast allir að við að gefa þeim að borða og þeir eru ósköp vinalegir. Það sama er ekki hægt að segja um helv...hundana sem fylltu götur Aþenu. Þegar við gengum upp Akrapólíshæðina hittum við fyrir mjög marga villihunda sem lágu sofandi í tröppunum á hæðinni eða jafnvel fyrir innan múrana. Þeir voru bókstaflega úti um allt og sumir alveg viðbjóðslegir. Mörgum var fargað fyrir ÓL 2004 en nú hefur þeim fjölgað aftur, sérstaklega eftir hrun. Og þeir eru með hálsól og merktir og þeim er gefið að borða og svo ganga þeir bara lausir um göturnar...

Hótelið okkar í Karystos. Þar sváfum við fimm í sama herberginu, voða notalegt :o)


Sunnudagur, á leiðinni til Milos. Siglingin tók um 4 tíma í þónokkrum vindi en við sluppum við ógleði. Horfðum á sólsetrið úr bátnum, það var ótrúlega fallegt. 


Þreyttir ferðalangar, alveg að koma til Milos.

Þegar við lentum á Milos tók 6 manna mótttökunefnd á móti okkur við höfnina. Leigusalarnir og frænkur og frændur...ótrúleg stund. Svo fórum við út að borða. Grískt salat á Grikklandi, gotta love it!

Addi fékk Kebab af því að Gyrosið var búið.

Ég hef ekki töluna á öllum þeim Lödum sem við sáum (Sport).

Svalirnar okkar...íbúðin var ÆÐISLEG. Og fólkið sem átti hana ekki síðra...

Þriðjudagur: Tókum rútu einn daginn á strönd á suðurhluta eyjunnar (Paliochori). Unaðsleg strönd, svolítill öldugangur og helst til of hávær tónlist af börunum við ströndina. En frábært að synda þarna.

Sólarpása á barnum, kaffi og toast.

Börn að leik við Miðjarðarhafið ...

Önnur strönd, Firiaplaka. Lítil strönd, sú eina sem við sáum sem var svolítið skítug. Þetta var á miðvikudegi en þá vorum við með bílaleigubíl. Fórum á þrjár strendur og tvo bæi þann daginn.

Firopotamos. Eyjaskeggjar byggðu svona hús þegar þeir voru hættir að hafa áhyggjur af sjóræningjum. 


Miðvikudagur, toast í Pollonia fyrir einn besta sundsprett ferðarinnar á ströndinni í bænum.

Pollonia, þessi strönd var himnesk. Afar barnvæn og þægileg. Við hefðum séð fleiri strendur ef við hefðum haft bíl í fleiri daga eða nennt í krefjandi siglingar...en gerum það bara næst ;)

Papafragas

Papafragas cave. Sennilega var þak á hellinum, fínasti felustaður fyrir sjóræningjunum.

Bílaleigubíllinn. Þvílíka djöfulsins druslan. Eeeldgamall bíll, samlæsingin virkaði bara stundum og þarna eru þeir feðgar einmitt að basla við að opna helv...drusluna. Hún dreif ekki neitt (sem er slæmt þar sem þorpin þarna eru eintómar þröngar götur í bröttum brekkum). Ekki alveg sami bílaleigustandard og við eigum að venjast - rándýr í þokkabót! En alveg þess virði að geta keyrt aðeins um eyjuna.

Í Plaka, sólsetrið nálgast. Plaka er "Hora" eyjunnar, eða aðalbærinn (Capital). Bæirnir voru byggðir hátt uppi til að hægt væri að sjá til sjóræningjanna. Fallegur bær sem við eyddum einu kvöldi.

Í Plaka. Göturnar voru hafðar þröngar svo óvinirnir ættu erfitt með að rata um bæinn.

Ströndin "okkar" - bara um 100 m. frá húsinu okkar. Sem ég gleymdi held ég að taka mynd af. 

Glöð og kát á leið í siglingu með tveimur herramönnum, annar Grikki og hinn frá Sardíníu. Grikkinn Angelo leigði okkur íbúðina og bauð okkur í siglingu með sér og frænda konu sinnar, Paulo. Sonya (eiginkonan) var heima á meðan að þrífa eins og vera ber. 

Adamas, bærinn þar sem við gistum. Húsið okkar er þarna efst á hæðinni.

Sardíníumaðurinn. Það er svolitil sól þar stundum. Hann var mjög hugrakkur að sitja í stefninu allan tímann, líka meðan Jóhannes stýrði bátnum af sinni alkunnu snilld...


Illa sáttur að vera treyst fyrir stýrinu. Sigldi ekki alveg alltaf þráðbeint.

Angelo. Gull.

Rannveig fékk líka að stýra.

Eftir frábæran sundsprett með félögunum á lítill einkaströnd - sem aðeins er hægt að komast að með bát - stoppuðum við í þessu pínulitla þorpi. Þeir buðu okkur í mat og ouzo og við Addi fengum okkur geit, sem var mjög góð!

Vá hvað þetta var mikil snilld.


Þorpið okkar á Milos

Föstudagur, heimferð nálgast. Úti að borða á kósí stað við sjóinn, sólsetur og bátar og öldugljáfur. mmmmm



Við Addi fengum okkur blandaðan sjávarréttadisk. Þarna gefur að líta humar og risarækju, einhverskonar skel, kolkrabbalöpp, sverðfisk, hörpuskel og kannski eitthvað sem ég er að gleyma. Allt var mjööög gott nema helvítis kolkrabbinn. Hann fílaði ég ekki.

Hér má einmitt sjá Jóhannes ásamt nokkrum kolkröbbum sem héngu til þerris (!) í 30 stiga hita fyrir utan veitingastað í bænum...

Bless bless Milos og Adamas!

Í Aþenu, á leiðinni á flugvöllinn eftir fjögurra tíma siglinu frá Milos :o)