30 október 2012

Halal kjöt og tyrkneskar fíkjur.

Það eru greinilega verkefnaskil fljótlega hjá mér. Þá þarf ég nefnilega alltaf að finna mér eitthvað annað að gera...en að sitja við skrifborðið mitt og skrifa. Til dæmis í dag, þá varð ég að fara að versla (og blogga um það). Ég þurfti hinsvegar ekki að eyða í það tveimur klukkustundum. Ég prófaði nefnilega nýja búð í dag! Þvílíkt himnaríki.

Hún er í sömu götu og stórmarkaðurinn sem við förum vanalega í en einhverra hluta vegna hef ég aldrei litið inn í hana. Þetta er sumsé mið-austurlensk verslunarkeðja (eða vörunar benda allavega til þess) og ég þekkti ekki nema svona um helming varanna þarna inni. En ég kom heim með appelsínusafa frá Egyptalandi, fíkjumauk frá Lebanon, fíkjur frá Tyrklandi (Midyat, sem var eitt sinn hluti af Sýrlandi), kókosolíu frá Sry-lanka og glænýtt halal slátrað nautakjöt (kjötborðs hluti búðarinnar ilmaði af blóði sko í alvörunni). Ég fékk líka 3,5 kg af kjúklingaleggjum (halal að sjálfsögðu) á litlar 50 krónur.  Ég eyddi sumsé rúmum klukkutíma inni í þessari búð, að lesa á krukkur og poka, velja mér hnetur og fræ úr risastórum hnetubar, skoða óteljandi tegundir af hrísgrjónum (korn-"herbergið" var miklu stærra en ávaxta- og grænmetis"herbergið"), ólívum og allskonar góðgæti. Í þessari búð sá ég í fyrsta sinn úrval af lambakjöti. Ég hefði getað keypt frampart á fínu verði, eistu (já!), lifur og nýru, lambagarnir og skanka. Allt saman nýslátrað og að sjálfsögðu eftir halal hefðinni.

Svo varð ég að fara í gamla góða stórmarkaðinn eftir mjólkurvörunum og te-inu mínu. Það var sumsé ekki hægt að kaupa sænska mjólk í halal búðinni og ég ákvað að halda mig við Arla. Stórmarkaðurinn var ferlega óspennandi miðað við Grossen. En það tók að minnsta kosti ekki jafn langan tíma að renna þar í gegn!


 ps. við fengjum glænýjar fíkjur í Grikklandi, beint af trénu. Það var held ég í fyrsta sinn sem ég smakkaði ferskar fíkjur. Þær voru undursamlegar og af allt öðru kaliberi en þær fíkjur sem ég hef prófað að kaupa hér í Svíþjóð. Ég hef mikla trú á þessu mauki frá Lebanon!

2 ummæli:

  1. MMmm þú ferð með mig, Hlíf og Jónas í þessa búð í febrúar :)

    ARF

    SvaraEyða
  2. játs ég verð örugglega orðinn fastagestur þá! Eldaði nautið í kvöld með nýju kryddmauki sem ég fann í búðinni og það var mjög gott. Fékk mér að sjálfsögðu fíkjumauk með (en ekki hvað) og það var undursamlegt.

    SvaraEyða

við elskum comment!