30 janúar 2013

Ingen kommer undan...


Í dag hefði Olof Palme orðið 86 ára, en hann fæddist 30. janúar 1927. Það er eiginlega óhætt að segja að við Addi séum með manninn á heilanum þessa dagana. Ég er að lesa bókina "Ingen kommer undan Olof Palme" e. Göran Greider. Bókin kom út árið 2011 og er skrifuð af blaðamanni sem hefur skrifað ótal bækur, ljóð og allskonar. Hún er í spjallstíl og skiptist í kafla eftir æviskeiðum Palme. Ég er ennþá bara á Östermalmsgatan, þar sem hann fæddist og ólst upp í mekku snobbsins og efri stéttarinnar í Svíþjóð; á Östermalm.

Addi les svolítið þykkri bók, ævisögu Palme sem kom út 2012. Hún heitir "Underbara dagar framför oss" eftir Henrik nokkurn Berggren. Addi er einnig staddur í æsku Palme, á Östermalm.

Svo sitjum við með bækurnar okkar í sófanum eða uppi í rúmi og truflum hvort annað með spurningum og athugasemdum svona eftir þörfum. Ó við erum svo krúttleg.

Nýlega sáum við mynd um Olof, stórgóða sem situr enn í mér og mig langar að sjá hana aftur. Hún var eiginlega kveikjan að áhuga mínum á manninum. Svo er verið að sýna fjögurra þátta leikna röð hér í sjónvarpinu, glænýja þætti sem heita "En pilgrims död" sem fjalla um morðið á Palme. Þeir fjalla sumsé um morðið á Palme, þátt lögreglunnar, rannsóknina á morðinu og samsæriskenningar um morðið - þar sem sænska öryggis- og leyniþjónustan kemur til sögunnar; SÄPO.

Það er eitthvað sérlega heillandi við þennan mann, sem bjó í hverfinu okkar um áratuga skeið með fjölskyldu sinni. Langar að vita meira.

Hér er falleg ræða sem hann flutti árið 1982, ein frægasta ræða hans held ég bara. Á sænsku...sjáiði bara hvað þetta er flott ;o)



29 janúar 2013

NEI eða JÁ, nú eða þá?

Það hefur verið áhugavert að fylgjast með Icesave umræðunni síðustu daga. Og raunar síðustu árin. Ég er í nei-hópnum. Lengi vel þorði ég varla að segja það upphátt. 5. janúar 2010 læddist ég hljóðlát um í vinnunni og lagði ekki orð í belg á kaffistofunni, þar sem forsetinn okkar fékk óblíðar kveðjur frá mörgum samstarfsfélögum mínum. Nú verðum við bara Kúba norðursins man ég að einn kollegi minn sagði við mig (hafði greinilega hlustað á einhvern hræðsluáróðurspistilinn frá lærðum prófessor í sjónvarpinu). Þetta var bara búið. Svo kom að hinum frægu kosningum, þjóðaratkvæðagreiðslu I. Enn læddist ég svolítið með veggjum. Margir, ef ekki flestir, sem ég umgekkst voru nefnilega algjörlega á öndverðum meiði við skoðun mína. Við yrðum og ættum að borga þetta, sama hvað. Annars bara...eitthvað!
Ég gat aldrei sætt mig við þetta. Af hverju ættum við að láta stórveldin kúga hinn almenna íslenska borgara til að gera allt sem þau vildu? Eftir að hafa beitt okkur hryðjuverkalögum, með tilheyrandi sársauka og ömurlegum afleiðingum? Áttu 320.000 Íslendingar, sem jafngilda 0,6% af íbúafjölda Bretlands, að taka á sig allt að 900 milljarða kr. skuld Landsbankans við fyrrverandi innistæðueigendur sína (sama upphæð og breska konungsveldið eyddi í brúðkaup Kate og Williams!). Var það bara yfir höfuð mögulegt? Kúba norðursins hvað? Mér fannst það bara ekki rétt. Auðvitað ættum við að gangast við lagalegum skuldbindingum okkar, um það snérist málið ekki, heldur hvort að við ættum að samþykkja ömurlega samninga sem væru stórveldunum jafn hagstæðir og þeir voru óhagstæðir okkur. Óhagstæðir er kannski ekki rétt orð; ómögulegir. Beinlínis. Það vill enginn láta kúga sig en það var nákvæmlega það sem Bretar, Hollendingar, IMF ásamt hinum Norðurlöndunum reyndu.
Þetta ömurlega mál klauf fjölskyldur, Alþingi, vinahópa; þjóðina. Annar hópurinn sakaði hinn um lága siðferðiskennd. Hlaupast undan bagga. Okkur yrði aldrei aftur treyst í hinu alþjóðlega samfélagi. Við værum þjóð sem stæði ekki við orð sín. Hinn hópurinn samanstóð af heilaþvegnum hugleysingjum sem vildi ekki standa með Íslandi. Heilaþveginn af stjórnvöldum og hræðsluáróðrinum sem sífellt dundi á okkur. Alþingi skiptist í tvennt. Ég persónulega hafði ekki mikinn áhuga á því að rökræða um þessi mál við fjölskyldu og vini og sagði fátt. Vildi ekki fá stimpilinn að-vera-á-siðferðislega-lágu-plani. Sem er algjörlega fáránlegt því fólk á að geta sagt sína skoðun. Kannski var ég líka bara hrædd um að þetta NEI vafstur endaði illa (við vitum hvað við höfum en ekki hvað við fáum). En í hjarta mínu fannst mér eini kosturinn í stöðunni að hafna þessum samningum. Ég yrði þá bara að standa með því síðar ef allt færi á versta veg.
Hallgrímur Helgason komst svo að orði í grein sinni frá 16. janúar 2010 og tekst nokkuð vel að orða mína afstöðu í þessu máli:
„Við eigum að gangast inn á að borga sanngjarnan hlut í þessu ráni. Ekki of mikið, ekki of lítið. Ég vil ekki tilheyra þjóð sem lætur beygja sig í duftið fyrir græðgi nokkurra gullfíkla. En ég vil heldur ekki tilheyra þjóð sem tekur enga ábyrgð á yfirlýsingum eigin ráðamanna og neitar að læra nokkuð af hruni alls þess sem sjálf hún kaus.“
Nú er þessu máli lokið. Þetta kemur okkur bara ekki við lengur. JÁ-fólkið segir að nú sé bara tími til að fagna og engin ástæða til að leita uppi sökudólga eða hver sagði hvað. Hamrað er á því hversu mikil áhætta þetta hafi verið og hversu mikið við höfum tapað á óvissunni (hversu miklu hefðum við tapað á því að samþykkja?) NEI-fólkið fagnar því að ákvörðun þeirra hafi að lokum reynst farsæl. Híar á hina, haha told you so, IN YOUR FACE og allt það. Ólafur Ragnar bjargvættur og hetja (þrátt fyrir að hafa gleymt að setja fyrsta samninginn í þjóðaratkvæði, samninginn sem Bretar og Hollendingar naga sig örugglega í handarbökin núna yfir að hafa ekki samþykkt). Allir í stuði eins og vanalega. En líklegast tapaði bara enginn. Ekki ef fólkið sem valdi sér skoðun (JÁ eða NEI) gerði það af eigin sannfæringu og fylgdi hjartanu. Þá hlýtur það bara að vera gott mál. Við verðum líka að læra að bera virðingu fyrir skoðunum hvers annars og geta rætt þær án þess að lítilsvirða persónuna sem er á viðkomandi skoðun. Þá kannski hættir fólk að læðast meðfram veggjum með skoðanir sínar.
Ég er nú bara ánægð með hvernig þetta fór og ætla ekkert að hía á neinn. Auðvitað hefði niðurstaða EFTA dómstólsins getað orðið okkur í óhag. En við létum á þetta reyna. Þjóðin kaus og hún ákvað að ganga frá þessu með reisn og við eigum að vera stolt af því. Svo heppilega vildi til, hvað svo sem má segja um Óla kallinn, að hann vaknaði loksins og talaði máli okkar Íslendinga út á við eftir að hann hafnaði Icesave II. Hann opnaði augu alþjóðasamfélagsins fyrir raunverulegu eðli og stöðu málsins. Hann stóð með Íslandi og íslensku þjóðinni. Og viðbrögðin erlendis frá hvöttu okkur NEI fólkið áfram, því þarna úti var lært fólk sem tók málstað okkar Íslendinga.
InDefence hópurinn vann þrekvirki. Þar sannaðist það hversu gríðarlega mikilvægt hið borgaralega samfélag er. Þarna voru einstaklingar sem lögðu það á sig að kynna málið út frá öðru sjónarhorni en ríkisstjórnin gerði, afla sér upplýsinga, reikna út hitt og þetta sem við hin höfðum hvorki tíma né getu til að gera. Þeir söfnuðu undirskriftum tugþúsunda Íslendinga. (Undirskriftir fólks sem margir í JÁ-hópnum fullyrtu að væru vitleysingar sem héldu þetta snúast um að borga allt eða ekkert). Ég er þakklátust InDefence af öllum í þessu máli. Við megum ekki gleyma þeirra framtaki og við verðum að halda áfram að vinna markvisst að því að efla borgaralega vitund barna og ungmenna á Íslandi. Það er gríðarlega mikilvægt og kannski helstu lærdómar síðustu ára.
Eitt sem við öll verðum að gjöra svo vel að viðurkenna og átta okkur á, er að stjórnmálamennirnir okkar hafa ekki alltaf rétt fyrir sér. Þeir eru fulltrúar okkar en stundum gleyma þeir að hlusta á þjóðina. Eða bara hreinlega velja að fara aðrar leiðir, af margvíslegum ástæðum. Það var gert í þessu tilfelli og margur JÁ maðurinn hélt fram þeim rökum að við gætum bara ekki kosið um svona tæknilega erfitt mál. Hinn íslenski almúgi hefði bara ekki vit á því að kjósa í þessu máli. Það finnst mér afar móðgandi og lítilsvirðandi við almennt séð sæmilega greinda og vel menntaða þjóð. Við eigum ALDREI að gera lítið úr lýðræðinu eða skyldu almennings til að fylgjast með, afla sér upplýsinga, mega og eiga að hafa skoðun á hlutunum. Okkur ber skylda til að veita hvert öðru aðhald og ef okkur er ekki treyst fyrir því þá nennum við varla að leggja það á okkur eða hvað? Sýnum unga fólkinu að það skipti máli, skoðanir þess skipta máli, það eru fleiri en ein hlið á hverju máli og það er okkar að kynna sér málið og taka afstöðu. Ekki fylgja afstöðu einhvers annars í blindni. Ef okkur er treyst til að velja gott og heiðarlegt fólk á Alþingi þá hlýtur að vera hægt að gera þá kröfu til okkar að við séum virkir þegnar í lýðræðissamfélagi þegar kemur að öðrum málum.
Ævinlega.

25 janúar 2013

Du gamla, du fria

Ég er búin að lesa svolítið af sænskum krimmum undanfarið eitt og hálf ár, með það að markmiði að þjálfast í sænskunni. Veit ekki hversu mikið það hefur hjálpað en þessi lestur hefur að minnsta kosti gert ansi margar lestarferðir (lestrarferðir?) töluvert bærilegri skulum við segja. Mér verður óglatt ef ég les skólabækur í lest. True story.

Mest hef ég lesið hana ungfrú Camillu Läckberg. Jújú voða spennandi allt saman en þær bækur hafa allar farið svolítið í taugarnar á mér. Til dæmis það að það er ekki fræðilegur möguleiki á öllum þessum morðum í litla þorpinu Fjällbacka. Eníhú.

Var að klára "Du gamla, du fria" eftir Lizu Marklund. Keypti hana í fríhöfninni a leiðinni til Íslands en hún vék fyrir jólabókunum og ég tók upp þráðinn í vikunni. Besti sænski krimminn sem ég hef lesið. Ætli ég fari ekki bara að halda framhjá Camillu með henni Lizu...



Eitt af því sem var svo skemmtilegt var að bókin gerist að mestu leyti í Stokkhólmi, i hverfi sem ég þekki ágætlega. Það eru fjölmargar vísanir í sænskan (stokkhólmskan) hversdagsleika sem ég tengi svo vel við og þekki. Ef ég byggi ekki hér hefði ég alls ekki tengt við allt í bókinni. Það er talað um Uppsala nationen (sem ég þekki af því að vinir okkar sem búa í Uppsala hafa sagt okkur frá þeim), Östermalm snobbarana, Olof Palme og bókina "Underbara dagar framför oss" sem liggur einmitt á náttborðinu í svefnherberginu okkar Adda. Fyrsti kaflinn fjallar um morð sem er framið í Axelsberg, á göngustíg bak við leikskólann sem ég hef verið að vinna á. Það er meira að segja minnst á leikskólann. Eitt morðanna er framið í Hässelby - þar sem við búum!

Forsíða sænsku útgáfunnar er tekin í Axelsberg, með brúnu blokkirnar í baksýn (sem eru þekkt kennileyti fyrir það hverfi). Íslenska forsíðan er meira random sýnist mér, ein af stóru götunum í miðbænum sem hafa svosem enga sérstaka merkingu fyrir bókina. Held ég.

Titillinn á bókinni er líka skemmtilegur - Du gamla du fria...þetta er byrjunin á sænska þjóðsöngnum, og á vel við efni bókarinnar þar sem t.d. velt er upp utanríkisstefnu Svía, ESB, samskiptum við þriðju heims lönd. Á íslensku heitir bókin Krossgötur - sem passar svosem líka ágætlega við. Ég þekkti ekki til sænska þjóðsöngvarins fyrir tveimur árum síðan og hefði aldrei náð tengingu við upprunalega titilinn ef hann hefði verið þýddur á íslensku (þú gamla, þú frjálsa?).

Allavega, fyrir utan allt þetta var þetta spennandi saga þar sem fléttaðist saman morð í úthverfum Stokkhólms og gíslataka í austur Afríku...

24 janúar 2013

Vantar læru-böddí

Nú er Addi byrjaður í starfsnáminu sínu og fer héðan út klukkan 8 á morgnana og kemur heim kl. 17 á daginn. Sumsé, svona venjulegur vinnudagur.

Á meðan þarf ég að reyna að læra, allan daginn. Þvílík viðbrigði að hafa hann ekki hérna með mér, að minnsta kosti nokkra daga vikunnar. Ég er orðin svo vön því að við séum bæði að læra, annað hvort heima eða niðri á Studentpalatset, förum saman í kaffi og hádegismat og veitum hvort öðru andlegan stuðning og félagsskap. Núna er ég bara ein heima, reyni að læra, gengur ekki alveg nógu vel, gleymi að borða og drekk bara alltof mikið af kaffi.

Þarf eitthvað að bæta úr þessu. Vinkonur mínar úr skólanum eru flestar að vinna á virkum dögum eða læra á bókasafninu. Ég nenni ekki að fara þangað nema örsjaldan því ég er klukkustund að komast þangað. Svo mig vantar læruböddí.

-15 og -18 gráður í dag og blankandi sól og logn. Frábærlega fallegt veður - eins og hefur reyndar verið síðustu daga. En djöfulli andskoti kalt, afsakið orðbragðið.

21 janúar 2013

Brrrrr






Það er búið að vera skítkalt síðustu daga. Alveg skítkalt sko. -24° á laugardaginn. En þá verður allt svo ævintýralegt hérna í kringum okkur, skógurinn okkar alveg eins og Narníuland og svo er Mälaren ísi lagður. 

Íslensku ullarsokkarnir koma sér vel þessa dagana. 

Fórum á skauta í gær og það var skítgaman. Jóhannes er farinn að sleppa keilunum og skautar nú sjálfur eins og herforingi út um allt. Sjá video. Afsakið en það er á hlið.




14 janúar 2013

Jólabókalesturinn

Þó lestur (annar en lestur fræðigreina og -bóka) hafi lítið gengið að undanförnu hefur mér þó tekist að ljúka við þrjár íslenskar "jólabækur". Ég er enginn gagnrýnandi eða bókmenntafræðingur en ég hef gaman af því að lesa og ég reyni að gera sem mest af því. Og ég hef í nokkur ár haldið lista yfir allar þær bækur sem ég les og gjarnan punktað niður nokkur atriði um hverja bók, til að hjálpa mér að muna eftir henni.

Bækurnar las ég í þessari röð.

Ljósmóðirin e. Eyrúnu Ingadóttur
Söguleg skáldsaga, saga af ljósmóður og kvenskörungi á Eyrarbakka/Stokkseyri í kringum aldamótin 1900. Ég er náttúrulega algjör sökker fyrir sögum um konur og baráttuna í gamla daga. Og gamla daga þýðir eiginlega alveg frá landnámi (t.d. Auður Djúpauðga) og fram yfir miðja síðustu öld. Femínistinn í mér og dramadrottningin í mér fer alveg á flug sko. Ég hef líka yfirleitt mjög gaman að sögulegum skáldsögum. Mér fannst stíllinn laus við tilgerð og sagan rann ljúflega áfram á síðunum. Engar sprengingar en skemmtilegar lýsingar og mér fannst mjög auðvelt að lifa mig inn í söguna af henni Þórdísi ljósmóður. Eina sem pirraði mig svolítið var að sumir (of margir) kaflar enduðu á því að gefa vísbendingu um framhaldið, sem mér fannst algjör óþarfi. Annars var ég líka mjög hrifin af myndinni á forsíðunni, ó já rómantíkerinn ég.

Gísli á Uppsölum e. Ingibjörgu Reynisdóttur

Æi hvað skal segja. Ég renndi í gegnum þessa bók á örskotsstundu og var ekkert sérstaklega hrifin. Ef satt skal segja. Mér fannst textinn tilgerðarlegur og það var eitthvað við stílinn sem fór í taugarnar á mér. Kannski var ég bara uppfull af reyktu kjöti og ekki í stuði þegar ég las bókina. Og kannski var ég nýbúin að lesa sögulega skáldsögu um Þórdísi ljósu og fannst eitthvað pirrandi að höfundur bókarinnar um Gísla skyldi reyna að gera sögu hans að einhverskonar ævisögu, sem virðist ekki byggð á miklu, sérstaklega ekki um hina mjög svo dramatísku barnæsku hans. Svo pirruðu uppstilltu myndirnar í bókinni mig. Þvílík dramatík! En ég hef alltaf viljað vita meira um Gísla á Uppsölum og fannst margt athyglisvert og áhugavert að rifja upp sögu hans. Að hugsa sér einbúann í dalnum, aleinan, húkandi í fimbulkulda yfir vetrarmánuðina... Mér fannst seinnihluti bókarinnar mun betri og ekki eins tilgerðarlegur. En kannski voru væntingarnar bara of miklar?


Ósjálfrátt e. Auði Jónsdóttur

Elskaði þessa bók. Fékk hana í jólagjöf og var að spá í að skila henni því langaði í svo margar aðrar bækur og hafði lítið heyrt um hana. Ákvað svo að lesa hana og festist á bls. 22. Komst bara ekkert áfram. Þurfti ró og næði (laus við börn og ættingja), fá að smjatta aðeins á skemmtilega textanum hennar Auðar og átta mig á sögunni og hver væri hvað. Svo ákvað ég bara að bíða með hana þangað til ég yrði komin aftur út til Svíþjóðar (en sagan gerist einmitt að hluta í Svíþjóð og það skemmdi svo sannarlega ekki fyrir!). Kláraði hana í gærkvöldi alveg súperánægð. Les hana örugglega aftur. Ég hef lesið nokkar bæku eftir Auði (Fólkið í kjallaranum, Tryggðarpant og Vetrarsól) og mér finnst þessi langbest. Þetta er einlæg fjölskyldusaga Auðar sjálfrar, afar dapurleg á köflum, einlæg og fyndin. Stíllinn er svo áreynslulaus og skemmtilegur og persónusköpunin frábær. Ótrúlega skemmtilegar sögur af nóbelsskáldinu okkar og ekki síður Auði Laxness. Rokkamma. Ég elska að lesa bækur sem innihalda svona mikið af vandlega völdum orðum sem hægt er að smjatta á. Setningar sem má lesa aftur og aftur af því að þær eru svo mikil snilld. Og án tilgerðar.

Svo er Yrsa uppi í hillu hjá mér, Hobbitinn og Liza Marklund (á sænsku). Já og ævisaga Olof Palme (á sænsku). Nóg framundan.

13 janúar 2013

Sunnudags

Sunnudagar eru uppáhalds hjá mér, algjörlega! Í dag lúrði ég svolítið lengur en vanalega og öll vorum við á náttfötunum fram yfir hádegi. Þó sátum við ekki aðgerðarlaus heldur var þrifið og skrúbbað svolítið hérna í íbúðinni okkar fallegu. Svo eldaði Arnar hádegismat. Það var reyndar ekkert uppáhalds við það sem hann ákvað að elda - BLÓÐBÚÐING.

Gunni mágsi kom þeirri flugu inn í höfuðið á Adda að blóðbúðingur væri eitthvað spennandi. Hann æstist því allur upp þegar hægt var að fá tvo pakka af blóðbúðingi í hverfisbúðinni okkar fyrir aðeins 10 krónur. Sértilboð, ekki láta þetta framhjá þér fara!

Svínablóð, rúgmjöl og einhver rotvarnarefni og fleira gums. Svipað og blóðmör en án mörs og svolítið þéttara í sér. Steikt á pönnu, borið fram með kartöflum og lyngonsultu. Nema hvað að við áttum ekki lyngon og notuðum ýmist enga sultu eða ribsberjahlaup. Svei, svo er heill pakki eftir í ísskápnum. Ætli Gunnar fái hann ekki sendan einhverntíman í febrúar, það er nefnilega helvíti góður stimpill á þessu.

Eftir þessa yndislegu máltíð örkuðum við Jóhannes snjóinn út í skautahöll. Hann æfir sig að renna á skautum á sunnudögum og í dag dró ég hann þangað á snjóþotunni í yndislega fallegu veðri. Snjór yfir öllu, skógurinn umlukti okkur á leiðinni og blóðrautt sólarlagið í bakið. Jóhannes var mjög duglegur á skautunum, farinn að fara um á hraða ljóssins en þó alltaf með tvær keilur á undan sér. Hann fæst ekki til að sleppa þeim blessaður drengurinn. Í dag rændi einn kennarinn þó annarri keilunni af honum og drengurinn var steinhissa á því hversu létt það væri að skauta með eina keilu í stað tveggja. Vonandi byrjunin á keilulausri skautaferð...

Hér er svolítið myndband af drengnum síðan í nóvember, á æfingu nr. 2. Honum hefur sumsé farið gríðarlega fram síðan þá!




10 janúar 2013

12 ára stelpuskott.

Fyrir 12 árum síðan fæddist þessi elska. Mikið hefur tíminn liðið hratt og það sem við erum heppin að eiga þennan einstaka gullmola sem stendur sig vel í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur.