28 mars 2013

Fotografiska

Við Addi (sem er svo heppinn að fá íslenska frídaga hjá Sendiráðinu) tókum daginn snemma og skelltum okkur í Fotografiska í dag - sem er ljósmyndasafnið. Það hefur lengi verið á dagskránni hjá mér og ég er auðvitað búin að missa af mörgum sýningum sem ég hefði viljað sjá en það verður bara að hafa það. Það eru fjórar sýningar í gangi á safninu núna, þarna er glæsilegur veitingastaður með panorama útsýni yfir borgina, gallerí og geggjuð búð.

Fyrsta sýningin sem við skoðuðum voru ljósmyndir (ef ljósmyndir má kalla) hollenska photo-shop gúrúsins Ruud van Empel. Hann kann örugglega allt sem hægt er að kunna á photo-shop og myndirnar hans eru ævintýralegar. Hann fer út í skóg og safnar myndum af laufblöðum, trjám og pöddum. Svo tekur hann myndir af krökkum, yfirleitt mjög hörundsdökkum börnum. Hann tekur líka myndir af efnum sem honum finnast falleg og pússlar þessu svo öllu saman í myndir í tölvunni. Hér eru tvær myndir sem voru á sýningunni, önnur er úr myndaflokki sem kallast Venus og hin, af strákunum, heitir World. Þessi mynd af drengjunum er eiginlega uppáhalda myndin mín á sýningunni.


Þetta var svolítið krípí og ævintýralegt, of fullkomið til að vera satt.


Svo var þarna sýning með myndum Henri Cartier-Bresson. Hann fæddist í Frakklandi 1908 ef ég man rétt og lést 2004. Hann ferðaðist út um allan heim og var svolítið eins og Hundraðåringen - réttur maður á réttum stað - og með myndavélina. Þetta voru svarthvítar myndir af fólki, lífinu og sögunni og vöktu þær allar margar margar spurningar. Ég var mjög hrifin af myndunum hans, ekki síst þessari hér að neðan, þar sem nokkrir Frakkar sjást kósa sig í picnik á sunnudegi, líklega upp úr 1930. Neðri myndin er frá Berlin 1961. Þær eru allar mjög svo "ekta", sennilega eins ólíkar myndum Hollendingsins og hægt er, enda fyrir daga photo-shop og tæknibrella!




Þriðja sýningin sem við skoðuðum voru myndir Önnu Claren, Close to home. Þær sýndu fjölskylduna í hversdagslífinu. Myndir af Önnu sjálfri, fjölskyldu hennar og vinum. Myndir af augnablikum sem allir þekkja vel en hefðu sennilega ekki fest á filmu, þau eru svo persónuleg. Nekt, nýfætt barn, brjóst full af mjólk, barnshafandi kona að bíða eftir fæðingunni, falleg náttúra; mikilvæg og dýrmæt augnablik sem við deilum með okkar nánustu og aðeins þeim. Það var það sem var svo áhrifamikið og jafnvel svolítið truflandi í leiðinni. Virkilega fallegar myndir. 




25 mars 2013

Jesus Christ Superstar

Við buðum Rannveigu í leikhús um helgina, á Jesus Christ Superstar. Miðarnir voru pantaðir í desember og svo var loksins komið að þessu í gær, á Pálmasunnudag.

Addi sá söngleikinn á sínum tíma, þegar Stebbi Hilmars lék Júdas og Pétur Jésús fór með aðalhlutverkið. Ég hinsvegar hafði hvorki séð söngleikinn  né myndina  og vissi eiginlega ekki neitt á hverju ég átti von. Ég hafði þó hlustað á mikið af lögunum af því að mamma átti plötuna (á ensku) og ég man eftir að hafa, nokkuð oft, spilað HósanaHeisana á fullum krafti og sungið með þegar ég var krakki :o)

Fyrsta (og sennilega eina) sænska leikhúsferðin okkar gekk eins og í sögu og það var mjög mjög gaman. Þetta var svolítið rokkuð útgáfa, lærisveinarnir voru leðurklæddir og drukku svolítið mikinn bjór. Svo fóru Júdas og Jesús í sleik. Addi minntist þess ekki að Stebbi og Pétur hefðu farið í sleik á sínum tíma...og ég hef sennilega misst af einhverju í kristinfræðinni í gamla daga.

En mikið er nú gaman að fara í leikhús, á tónleika og annað í þeim dúr - upplifunin stendur með manni lengi!



19 mars 2013

Skítkaldur marsmánuður

Mäleren er ennþá ísi lagður, skógarstígarnir of hálir til að ganga á þeim án brodda og það er erfitt að sjá fyrir sér grænan skóginn og fallegu ströndina okkar í snjókomunni sem var í dag.





Árshátíð sundfélagsins


Við skelltum okkur á árshátíð sundfélagsins í gærkvöldi. Þar var mikið um dýrðir og börnin skemmtu sér hið besta. Rannveig fór upp á svið og tók lagið með vinkonum sínum og svo dönsuðu þær og trölluðu eitthvað frameftir. Við stoppuðum ekki mjög lengi, enda Jóhannes orðinn afar þreyttur þegar búið var að borða eftirréttinn. Við fórum þá bara heim og Addi sótti unglinginn þegar hún var búin að dansa svolítið.







17 mars 2013

Vaxholm




Í gær fengum við lánaðan bíl og fórum í smá laugardagsbíltúr út í eyjuna Vaxholm. Það er bæði hægt að keyra og sigla út í eyjuna og er hún vinsæll viðkomustaður ferðamanna á sumrin. Það er stærðarinnar kastali á lítilli eyju sem liggur við hlið Vaxholm, en frá þeim kastala vörðust Svíar árásum sjóræningja og annarra óvina á öldum áður. Þetta er sætur bær, um 10.000 manns sem búa þar og fullt af sætum kaffihúsum, veitingastöðum og gistihúsum. Það var þó ekki allt opið þegar við komum, enda ennþá vetrartími. Það eru mörg afskaplega falleg hús í Vaxholm, enda varð staðurinn vinsæll sumrleyfisstaður fyrir ríka Stokkhólmsbúa á 19. öld - sem keyptu og byggðu vegleg hús í eyjunni.

Veðrið var yndislegt, bjart og sólríkt - svolítið kalt. 

Í fyrsta sinn á ævinni sáum við "vägfärja" eða vegferju. Strætó keyrir út í Vaxholm og skv. áætlun á hann að halda áfram út í næstu eyju. Það er engin brú á milli, bara gulur bátur sem strætó (með fólkinu í) keyrir upp á og svo af bátnum þegar hann hefur lagt að við næstu eyju. Skemmtilegt.

15 mars 2013

Melodifestivalen 2013 - viku of seint!

Líkt og í fyrra höfum við að sjálfsögðu fylgst með Melodifestivalen, ég hafði bara ekki tíma fyrr en núna til að skrifa júróblogg. Við reynum að drekka í okkur allt sænskt og sænska menningu og þetta er bara, hvort sem fólki líkar betur eða verr, ansi stórt fyrirbæri hér. Þessi keppni hefur verið sérlega vinsæl nú í ár (og fleiri horfðu á úrslitakvöldið núna en sl. sjö ár!), vegna góðs gengis Svía í fyrra þegar Loreen vann Eurovision með laginu Euphoria. Að vanda var sex laugardagskvöldum í röð varið í að velja rétta lagið til að keppa fyrir hönd Svía í Malmö í maí næstkomandi.

Kynnarnir að þessu sinni voru þau Gina Darawi og Danny Saucedo.


Gina sló í gegn á Youtube fyrir tveimur árum með heimagerðum myndböndum eins og þessu, þar sem hún gerir óspart grín að staðalmyndum af múslimum og Svíum o.fl.: http://www.youtube.com/watch?v=A94vii4ZDpo. Hún á rætur að rekja til Palestínu og er bara rétt rúmlega tvítug. Nú er hún vinsælasti þáttastjórnandinn hér í landi. Danny var í öðru sæti í Melodifestivalen í fyrra, með laginu Amazing. Rannveig heldur svolítið mikið mikið upp á hann. Danny gleymdi oft textanum sínum í keppninni, var ofurstressaður og segist aldrei aftur ætla að taka að sér svona verkefni! Blöðin kepptust um að dæma frammistöðu þeirra í keppninni og hann fékk ekki svo góða dóma blessaður. En hann hefur unun af því að syngja og koma fram og það var mikið um það í þessari keppni - sumsé svona aukaaatriði þar sem hann og Gina ásamt fylgdarliði voru búin að æfa dansa og söng og búa til flott atriði eins og þetta, sem var opnunaratriði í fyrstu undankeppninni og þetta. Miðað við íslensku undankeppnina þá...já...himinn og haf?

Það er kannski aðallega tvennt sem er sérstakt við sigurlag keppninnar. Í fyrsta lagi er þetta í fyrsta sinn sem lag sem kemst í úrslit upp úr "andra chansen" vinnur keppnina. Í öðru lagi kusu Svíar sér allt annað lag til að keppa í Malmö en það sem vann keppnina. Þannig er nefnilega að eitt af trixunum sem aðstandendur keppninnar hafa tekið upp, er að fá dómnefndir í nokkrum öðrum Evrópuríkjum til að kjósa sitt uppáhalds lag og gilda þeirra atkvæði um þriðjung á móti sænsku símakosningunni. Robin vann "Evrópukosninguna" nokkuð sannfærandi (m.a. með 12 stigum frá Íslandi), en Yohio varð í 2. sæti. Það hefur verið uppi fótur og fit hér vegna þessa en hverju sem því líður er hann vinur okkar Robin Stjernberg frá Hässleholmen (já, ég held að það sé rétt hjá okkur) á leiðinni til Malmö þar sem hann mun syngja lagið You, sem á víst að vera nokkurskonar þakkaróður til pabba hans, mikið um falsettur og karlkyns gógódansarar og allskonar. Robin varð í öðru sæti í Idolinu í fyrra svo hann er vel þekktur hérna í Svíþjóð - og svo er hann með þrusurödd, það verður að viðurkennast. Hann hefur nú aðeins fullorðnast síðan í fyrra, búinn að breyta um klippingu (kominn með hina týpísku sænsku stráka/karla klippingu, rakað í hliðunum og sítt að ofan gelað upp í loftið!) og krúttkinnarnar nánast horfnar - enda drengurinn búinn að vera á milljón í ræktinni. Gjörið svo vel, framlag Svía í ár:



Lagið sem Svíar kusu og hefði sennilega unnið, ef ekki hefði verið fyrir erlendu dómnefndirnar, heitir Heartbreak Hotel og það er drengur frá Sundsvall sem syngur, Yohio. Hann er þessi ljóshærði sem knúsar Robin á myndinni hér að ofan. Yohio er sumsé strákur sem dressar sig upp á nokkuð óhefðbundinn hátt áður en hann kemur fram og um það hefur mikið verið rætt. Er hann kynskiptingur, klæðskiptingur, gay eða þarf kannski bara ekkert að skilgreina hann sem neitt sérstakt? Ég hef ekki hugmynd og mér er alveg sama. Lagið má finna hér. Hann fékk næstflest stig frá erlendu dómnefndunum.Mér fannst þetta eiginlega alveg hrikalega leiðinlegt lag.

Í úrslitum voru svo átta önnur lög. Ég átti tvö uppáhalds. Litla krúttið Ulrik Munter, Tell the World I´m here. Hann keppti líka í fyrra og lenti þá, líkt og núna, í þriðja sæti. Honum gekk mjög vel að heilla evrópsku dómnefndirnar. (8 stig frá Íslandi)..hann er fæddur 1994 og hefur gefið út nokkur lög, yfirleitt einn með kassagítarinn sinn held ég.


Hitt lagið sem fjölskyldan á Maltesholms var reyndar öll mjög hrifin af (Rannveig og Addi sungu það stanslaust í þrjár vikur heima, voru sumsé með það á heilanum!) var eina lagið í úrslitunum sem var sungið á sænsku. Þarna voru á ferðinni fjórir góðir af eldri kynslóðinni, sem sungu um það hvað þeir væru búnir að semja góðan júró slagara sem ætti að kjósa og fara í Eurovision; En riktig jävla schlager. Þeir voru með frábært atriði. Þaulreyndir leikarar og söngvarar, með Tommy Körberg í fararbroddi, að skemmta sér og okkur hinum. Þetta lag komst nú ekkert áfram og endaði í síðasta sæti (af því að evrópsku dómnefndirnar gáfu því ekki stig, Svíar voru nokkuð duglegir að kjósa það).




 Hljómsveitin State of Drama gerði líka ágætis hluti og var í toppbaráttunni, með laginu Falling. Sean Banan, sem er svona nokkurskonar sænsk útgáfa af Silvíu Nótt (og nýtur mikillar hylli barnanna...) keppti annað árið í röð. Í fyrra hét lagið hans Sean den förste banan en núna söng hann lagið Copacabanana. Johannes hefur verið með það á heilanum. Svolítið mikið. Okkur finnst Sean mjög skemmtilegur grínisti, hann er ekkert feiminn við að gera grín að Tyrkjum (sjá 2.21 í myndbandinu) og Aröbum og Svíum, Eskimóum, Försäkringkassan eða Skatteverket. Nú eða Carolu. Aðalmálið í þessu lagi virðist vera Alliance. Sem er ríkisstjórnin...



Eina konan sem komst í úrslit heitir Louise Hoffstein, þekkt rock/pop/blues söngkona. Hún söng lagið "Only the dead fisk follow the stream". Svona country gúddí fílingur.Hún var greind með MS árið 1996 og það vakti nokkra athygli að hún skyldi taka þátt í keppninni þrátt fyrir oft á tíðum erfið veikindi. Hún lenti í 5. sæti.





Anton Ewald með lagið Begging langaði mikið til að vinna en lenti í 4. sæti (íslenska dómnefndin gaf honum 10 stig af 12). Hann er afskaplega fríður ungur drengur sem er flinkur að dansa. Pínlítið svona Eric Saade (ef þið munið eftir honum, með lagið popular hérna um árið). Hann var samt svo vel girtur í keppninni að ég gat eiginlega ekki horft á hann. Hann kom upp úr andra chansen eins og Robin og er bara tvítugur. Sjáið þið klippinguna? Jamm. Hann er eins og Danny & Robin og annar hver maður sem maður mætir úti á götu hér í Stokkhólmi.



David Lindgren, jafnaldri minn, söng lagið Skyline. Hann keppti líka í fyrra og lenti þá í 4. sæti. Þegar ég hlusta á lagið hans þá hugsa ég bara Svíþjóð. Týpíkst sænskt júrópopp. Honum gekk ágætlega að heilla dómnefndirnar en Svíar gáfu honum ekki mörg stig og hann hafnaði í 8. sæti.

Að lokum er það eldmaðurinn. Hann lék á brennandi flygil í laginu, sem heitir Bed on fire! Eldmaðurinn heitir í raun Ralf Gyllenhammar. Hann var búinn að gefa það út fyrir keppnina að hans æðsti draumur væri að vinna þessa keppni og komast í Eurovision. Og hann gaf allt held ég bara. Rokk og ról, öskur, eldglæringar og læti. Svíar fíluðu hann ágætlega en ekki Evrópa og hann endaði í 7. sæti. Ralf spilar á gítar og syngur í þungarokkshljómsveitinni Mustach, sem hefur notið nokkurra vinsælda í Svíþjóð.



Við horfðum nú á flest öll undanúrslitakvöldin og þar kenndi ýmissa grasa. Til dæmis  norsk söngkona í vandræðalega stuttum kjól sem söng ástardúett með sænskum félaga sínum.

Amanda Fondell (sem vann Idolið í fyrra) söng eitt lag sem komst ekki áfram. Íraninn Behrang Miri komst í andra chansen en svo ekki upp í úrslitakeppnina með lagi sem heitir Jalla Dansa Sawa. Það er lag til að fá á heilann og Jóhannes Árni hefur sungið þetta lag nánast stanslaust síðustu vikurnar. Og dansað með. Ég helt svolítið með þessu lagi, svo skemmtileg blanda af sænsku rappi og einhverju jalla jalla...

Endum á því!


Melodifestivalen er heilmikið mál hérna, búðirnar selja melomys drasl í massavís (snakk, ídýfur, kók) og það eiga allir að hafa fajitas eða tacos í matinn. Það er "standard" melomys matur. Netmiðlarnir og dagblöðin fjalla mjög mikið um keppnina, lögin, keppendur, klæðnaðinn, fyrirkomulagið og bara allt sem hægt er að fjalla um. Það er því í raun og veru mikill léttir að losna við allt þetta áreiti.

13 mars 2013

Árshátíð

Familían er á leiðinni á árshátíð! Ég hef ekki farið í spariskóna í meira en ár - ætli sé ekki kominn tími til? Sem minnir mig á það, dóttirin á enga spariskó svo þetta þýðir búðarferð!

Sundfélagið heldur voðalega fína árshátíð og við ákváðum að skella okkur, öll fjölskyldan. Við mæðgur ætlum að fara í kjól og greiða harið fínt, strákarnir setja á sig bindi og fara í pússaða skó. Þetta verður eitthvað!

Rannveig verður með skemmtiatriði ásamt vinkonum sínum, það verður fínn matur og meira að segja dansiball á eftir.

Þetta eru nú eiginlega bara stórfréttir held ég.


06 mars 2013

Vorlykt í Svíþjóð og aftakaveður á Íslandi

Ég er orðin agalega löt að skrifa eitthvað hér. Eg veit ekki hvort það sé af því að fáir virðast skoða þessa síðu og enn færri skilja eftir spor á henni. Ég er þó ekki bara að blogga fyrir aðra - kannski mest fyrir mig og okkur fjölskylduna til að geta rifjað upp það sem við gerðum og upplifðum í útlandinu.

Febrúar leið svolítið of hratt. Það var líka af því að hann var svo skemmtilegur. Við fengum þrjá gesti frá Íslandi og vorum dugleg að gera allskonar. Fórum í bíltúr til Sigtuna og Gävle, fórum á Skansen, í bæjarferðir, á jazz tónleika, bari og söfn. Það er helst að maður geri eitthvað svoleiðis þegar gesti ber að garði. Ég er líka orðin latari að taka myndir, en hér koma nokkrar frá reisunni okkar til Gävle...


Addi fékk að keyra Volvo. Loksins. Og hann elskaði það...(ps. hvar er Valli?)

 Sigtuna, ótrúlega sætur lítill bær. Og já, þetta er Mäleren, sami Mäleren og er fyrir utan gluggann hjá okkur.
 Í Sigtuna, fyrir utan kaffihús í húsi frá sextánhundruðogeitthvað. Segir sagan.
 Gävle, drengurinn og nakta konan.
 Það var mjög hressandi í Gävle, drukkum m.a. kaffi á þessu mega kúl kaffihúsi.











Vegna anna við að taka á móti gestum hefur ritgerðarelskan ekki fengið alveg nógu mikla athygli. Þó styttist í 10.000 orða múrinn og vá hvað ég verð glöð þegar það hefst. Svo þegar ég verð komin í 15.000 ætla ég að taka mér frídag og fara í bæinn á listasafnið eða ljósmyndasafnið. Búin að ákveða það. Maður þarf víst alltaf að hafa eitthvað til að hlakka til, einhverja gulrót.
 Vorið er að koma, sólin iljar á daginn (einhvernvegin gerðist það bara allt í einu að daginn tók að lengja!) en það er nú samt kalt á morgnana og á kvöldin. Það er líka allt í lagi, bara mars ennþá. Byrjun mars meira að segja. Við vonumst svo eftir frábæru vori af því að við missum af sumrinu hér ;o)

Framundan er sundmót hjá dótturinni (hvað annað?) þar sem hún á m.a. að keppa í 800 m. skriðsundi. Mér er ómögulegt að skilja hvernig er hægt að synda skriðsund svona langt, hlakka til að sjá hvernig hún fer að því. Jóhannes er svo að byrja í Brommapojkarna. Fótbolta altså. Nú er hokkí og sundtímabilinu hans að ljúka og fótbolti tekur við.

Meira seinna, lærdómur bíður.