25 mars 2013

Jesus Christ Superstar

Við buðum Rannveigu í leikhús um helgina, á Jesus Christ Superstar. Miðarnir voru pantaðir í desember og svo var loksins komið að þessu í gær, á Pálmasunnudag.

Addi sá söngleikinn á sínum tíma, þegar Stebbi Hilmars lék Júdas og Pétur Jésús fór með aðalhlutverkið. Ég hinsvegar hafði hvorki séð söngleikinn  né myndina  og vissi eiginlega ekki neitt á hverju ég átti von. Ég hafði þó hlustað á mikið af lögunum af því að mamma átti plötuna (á ensku) og ég man eftir að hafa, nokkuð oft, spilað HósanaHeisana á fullum krafti og sungið með þegar ég var krakki :o)

Fyrsta (og sennilega eina) sænska leikhúsferðin okkar gekk eins og í sögu og það var mjög mjög gaman. Þetta var svolítið rokkuð útgáfa, lærisveinarnir voru leðurklæddir og drukku svolítið mikinn bjór. Svo fóru Júdas og Jesús í sleik. Addi minntist þess ekki að Stebbi og Pétur hefðu farið í sleik á sínum tíma...og ég hef sennilega misst af einhverju í kristinfræðinni í gamla daga.

En mikið er nú gaman að fara í leikhús, á tónleika og annað í þeim dúr - upplifunin stendur með manni lengi!



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

við elskum comment!