24 september 2011

Hlutir sem gera daginn góðan...

...að kaupa hressandi dúk á eldhúsborðið á útsölu í sætri búð
...DVD keyptar á götumarkaði: Ronja og Emil í Kattholti
...Yogi engiferte og fætur uppi í sófa
...15 gráður og glampandi sól og fallegir haustlitir, markísan á svölunum og góði stóllinn
...að vera komin með peysu á prjónana, loksins!
...íslensku fuglarnir mínir úr Hrím í stofuglugganum

22 september 2011

Af sænska regluverkinu

Eftir rúmlega einn og hálfan mánuð er ég orðin svolítið þreytt á sænska regluverkinu. Ég hef ekki enn getað stofnað bankareikning því ég er ennþá að bíða eftir sænska ID kortinu mínu. Fyrst þurfti ég að bíða í ca. 3 vikur eftir kennitölu, þá fyrst gat ég sótt um ID kort og það tekur 4-6 vikur fyrir þá að græja það. Maður gerir ekki neitt nema vera með ID kort! Þetta er frekar óheppilegt því það er t.d. miklu meira vesen að millifæra leiguna á milli landa heldur en að gera það af sænskum reikningi. Ég er auðvitað löngu búin að týna pin-númerinu að debitkortinu mínu og helv... kreditkortið bræddi úr sér einhverntíman þarna í ágúst. Ég er sumsé í þeirri stöðu að geta ekki tekið út pening sjálf! Legg inn á reikninginn hans Adda og þarf að blikka hann til að fara í hraðbanka fyrir mig, gleited! Svo erum við með sænska reikninga til að borga og það kostar helvíti mikið að borga þá þegar maður er ekki kominn í bankaviðskipti. 

Það tekur mánuð að komast inn í almannatryggingakerfið - fyrst bíða eftir kt. fyrir alla fjölskylduna (3-6 vikur) og svo getur maður sótt um að komast inn í Forsäkringskassan - þeir taka sér svo alveg mánuð í að fara yfir umsóknina og taka mann inn. Þá fyrst getum við sótt um húsaleigubætur og farið að fá barnabætur.

Svo er Jóhannes búinn að vera í leikskóla í mánuð og við höfum ekki ennþá fengið að vita hvað við eigum að borga í leikskólagjöld - ef við eigum þá að borga eitthvað.

Núna kemur sér vel að vera með vel þjálfaða þolinmæðistaug, bara slappa af og anda djúpt. Ekki síst útaf því að ég sótti um HogM kort fyrir þremur vikum og það er ekki ennþá komið!!! Studentasamtökin sem við skráðum okkur í er líka búið að taka nokkrar vikur í að senda okkur stúdentakortin okkar. Hvað er málið?

Það var vissulega búið að vara okkur við þessu regluverki hérna en öllu má nú ofgera...hvernig ætli þetta sé þegar Svíar flytja til Íslands?

18 september 2011

Sunnudagskósí

Á sunnudögum er gaman að kúra frameftir í náttfötunum og fá sér svo góðan morgunverð og kaffisopa. Ótrúlegt hvað kaffisopinn er indæll og notalegur á sunnudagsmorgnum, sérstaklega þegar maður getur gluggað í Aftonposten í leiðinni...

Helgin hefur verðið notaleg - eins og hingað til. Við höfum reynt að vera ekki að stressa okkur mikið á lestri um helgar og reyna að njóta tímans saman. Í gær fórum við á ströndina í glampandi sól og blíðu eftir hádegið og kósuðum okkur þar fram að kvöldmat. Jóhannes situr á hækjum sér í fjöruborðinu og byggir listaverk úr sandinum, Rannveig aðstoðar hann og gamla settið sólar sig. Jóhannes var svo þreyttur í gær þegar við komum heim að hann komst ekki inn úr forstofunni - sofnaði í blautum gúmmískóm á forstofugólfinu.



Eftir kúrið í morgun fórum við á opið hús hjá hverfisslökkvistöðinni okkar. Rannveig prófaði reykkafaragrímu og fékk að sprauta úr slöngu, Jóhannes prílaði upp á slökkviliðsbíl og körfubíl og settist undir stýri. Mikið ævintýri - þó hvíslaði hann því að mér í lestinni á leiðinni þangað að hann væri hættur við að verða slökkviliðsmaður og ætlaði að verða lestarstjóri þegar hann yrði stór.








Addi fór á fótboltabar að kíkja á leik en við hin erum heima í sunnudagsrólegheitum með stækkandi snúðadeig í skál og perlur, Strumpa og heimalærdóm á borðinu. Haustlegur dagur í dag, svolítill vindur og skýjað. Þó eru fimmtán gráður á mælinum.

Afmælisdagur pjakksins gekk vel fyrir sig - hans beið svakalega flott BMX hjól þegar hann kom fram í stofu um morguninn. Hann fékk að hjóla á því í leikskólann, að sjálfsögðu með nýja hjálminn sinn á kollinum. Í leikskólanum fékk hann kórónu og svo sat hann í hásæti meðan börnin sungu fyrir hann. Allir fengu svo ís í tilefni afmælisins, í boði leikskólans. Þegar heim var komið biðu hans nokkrar kærkomnar gjafir og súkkulaðikakan góða sem við Rannveig bökuðum. Lego, Strumpadvd, bækur og perlur komu upp úr pökkunum og litli snáðinn var eitt sólskinsbros og afskaplega þakklátur. Svo eru fleiri pakkar í póstinum - en póstþjónustan er ekki að standa sig. Pakkar sem voru sendir í byrjun september (og eiga að vera tvo til þrjá daga á leiðinni) eru ekki ennþá komnir. Hann getur þá látið sig hlakka til að fá fleiri afmælispakka næstu daga :) Takk fyrir!





Aldeilis spenntur strákur, nývaknaður á fjögurra ára afmælisdaginn!




Kominn heim úr leikskólanum...smá pakkaspenningur í gangi :)






Farinn í hjólatúr! Hey då!

12 september 2011

Kärleksmums

Við tókum smá afmælisforskot um helgina. Fórum á ströndina í yfir 20 gráðum og glampandi sól á laugardaginn, grilluðum pylsur og lékum okkur. Tilefnið var að sjálfsögðu haustið og fjögurra ára afmæli pjakksins. Í gær fórum við á St. Eriksplan og röltum um Vasastan og Kungsholmen. Fórum í tvo mjög fína garða þar sem voru stórir og flottir leikvellir.
Mæðgur í Vasaparken á gær.




Síðasta skiptið sem pjakkur fer að sofa þriggja ára. Mun sumsé vakna fjögurra ára á morgun og hlakkar að sjálfsögðu mikið til!



Jóhannes ætlar að hafa þetta síðasta kvöldið sitt sem aðalgrallari heimilisins...sjáum til!




Við Rannveig skelltum svo í eina köku eftir uppskrift Leilu Lindholm í kvöld. Kärleksmums. Þurfti að hræra egg og sykur í höndunum, enda engin Kitchen aid í þessu eldhúsi. Guði sé lof fyrir allar rafmagnstækjahjálparhellurnar!





Góða nótt!

06 september 2011

Betra er að vera á hvítum hlaupaskóm en á sokkaleistunum...

Ég er búin að fara í tvo tíma í náminu mínu í International and Comparative Education. Fyrsti tíminn var sumsé í gær. Ég komst að því að deildin mín er staðsett í húsi alveg lengst úti í rassgati. Ekkert Háskólabíó Oddi dæmi heldur svona meira eins og Melabúðin Oddi. Og malarstígar. Bye bye háir hælar í skólanum sko!

Byggingarnar sem við Addi höfum verið að dúlla okkur í - bókasafnið, kaffistofurnar, félagsvísindadeildin og stjórnmálafræðin eru algjörlega miðsvæðis. Allt fullt af fólki, sjoppur og kaffiteríur og lesborð og fólk sem situr úti og les undir tré. Allavega, mitt hús er ekki alveg þannig. Það er ótrúlega kósí samt - kaffistofa BARA fyrir okkur, með kaffivél þar sem maður fær latte á 10 kr (kostar 30 á kaffiteríunum), svona sjö örbylgjuofnum til að hita nestið sitt (hef ekki séð EINN örbylgjuofn eða annað sem tilheyrir nestisaðstöðu á aðalsvæðinu) og fullt af borðum, tölvur og okkar eigin prentari og ljosritunarvél. Kennararnir eru allir með skrifstofu í húsinu - dyrnar opnar og þeir eru afskaplega elskulegir. Svo er svona mini bókasafn deildarinnar, þar sem fólki er bara treyst til að skoða bækurnar á staðnum og skila þeim aftur í hilluna. Þar má líka finna allar doktors- og MA ritgerðir og jafnvel námskeiðsritgerðir sem maður getur gluggað í til að fá hugmyndir eða leiðbeiningar.

Í kennslustofunni eru aðallega hringborð, engin safnaðaruppröðun takk. Kennararnir neita að kenna okkur, við eigum að lesa ógeðslega mikið heima en þeir segjast ekkert ætla að halda fyrirlestra um það, bara segja okkur frá því sem þeim finnst áhugavert og svo vinnum við hópverkefni og höfum umræður. Mér líst ótrúlega vel á þetta! Kúrsarnir eru vel skipulagðir og kennararnir hafa ótrúlega fjölbreyttan og skemmtilegan bakgrunn. Deildarforsetinn og minn aðalprófessor hefur unnið mikið með Sameinuðu þjóðunum og hefur tengsl út um allar trissur og gerir sitt besta til að koma nemendum sínum inn hjá UN eða OECD. S P E N N A N D I! Hann er svolítið flottur gaur og það mætti halda að hann hefði hitt Geir Hólmars á góðum degi því dresskódið var alveg eins. Grá skyrta, gallabuxur og hvítir hlaupaskór...Hann er frá lítilli eyju í Indlandshafi, annars eru hinir kennararnir í náminu frá Kína, Japan og Svíþjóð.

Fyrsti tíminn var hræðilegur. Ég dó næstum því úr stressi og fannst ég minnst og vitlausust í hópnum. Það var skárra í dag og ætli ég eigi ekki alveg eftir að plumma mig bara. Fékk bara svolítið sjokk þegar ég heyrði hvað það voru margir sem höfðu ensku að móðurmáli eða voru með BA í ensku ;)

Það besta við að vera í svona alþjóðlegu prógrammi (sérstaklega í samanburðarmenntunarfræðum!) er að bekkjarfélagarnir koma víðsvegar að. Þarna er fólk frá Íran, Grikklandi, Rúmeníu, Ghana, Tansaníu, Suður Afríku, Kína, Kóreu, Mongólíu, USA, Kanada, UK...og ég er örugglega að gleyma einhverju. Og þau eru öll þarna til að breyta heiminum! Er ekki menntun einmitt lykillinn að betri heimi?

03 september 2011

Kul om du kunde höra av dig...

Einkamáladálkurinn hér í hverfisblaðinu okkar er yndislegur. Ég les yfirleitt allar auglýsingarnar. Þetta eru alvörunni auglýsingar - ekki eintómar vændisauglýsingar, erótískt nudd og dirty talk.

Það eru til dæmis mjög margar auglýsingar sem hljóma nokkurnvegin á þessa leið:

Onsdag 17 augusti, Gamla Stan, kl. 18-19. Efterlyser dig kvinna sem jag fick ögonkontakt med vid Coop. Vi gick åt samma håll. Du svängde av vid Skappar Karls gränd. Du var klädd i beige tröja och kjol. 32755.

Efterlyser tjejen som jobbade i Vällingby C, måndag 4. juli, ca 17:50. Du var otrolig söt, charmig og trevlig. Sulle vara roligt att träffa dig utanför glasväggen. 32652.

Vá en rómantískt! Af hverju eru ekki svona dálkar á Íslandi? Björn Þoláks ætti að koma þessu á í nýja Akureyrarblaðinu sínu.

Svo eru sérdálkar þar sem karlar leita að konum, konur leita að mönnum, karlar að körlum og konur að konum. Þessar auglýsingar sem ég vísa í hér að ofan eru í dálknum "annað".

Svo eru líka vinadálkar. "Kona um fertugt óskar eftir vinum á öllum aldri, til að fara á kaffihús, pöbba, göngutúra. Þú verður að vera heiðarleg, myndarleg, ekki lesbísk, ekki veik á geði, fyndin og hafa áhuga á bátum."

Uppáhalds dálkarnir mínir! Kannski við Addi ættum að auglýsa eftir sænskum vinum í þessu blaði...

Frábært veður, tan á ströndinni í morgun en því miður bíða bækurnar óþolinmóðar!