29 júní 2011

Brottför eftir 33 daga

Það er skrítin tilfinning að uppgötva að maður sé að fara að yfirgefa heimili sitt í að minnsta kosti tvö ár. Að sjá ekki systkini, foreldra, vini og ættingja í tvö ár - nema þeir leggist í ferðalög. Þegar við komum heim verð ég til dæmis búin að missa af tveimur árum í lífi bræðranna minna litlu, sem nú eru eins og þriggja ára og "litla" frænka verður allt í einu komin með bílpróf. Vinir búnir að eignast (fleiri) börn og aðrir gifta sig og maður verður ekki á staðnum til að taka þátt og samgleðjast. Við fáum eitthvað í staðinn sem við vitum ekki enn hvað verður. Einhvernvegin er þægilegra að vita hvað maður hefur en að vita ekki hvað verður, en ætli ég sé ekki bara svolítill spennufíkill...hlakka í það minnsta mjög mikið til (með dass af söknuði) en vona að fólkið mitt verði duglegt að láta í sér heyra, senda bréf og fréttir, hafa samband og svo verður auðvitað frábært að fá heimsóknir frá Íslandi.

33 dagar í brottför okkar Adda! Einn kassi á dag kemur skapinu í lag.

love,
V

25 júní 2011

Foreldrastund

Ég er nánast aldrei ein heima. En það gerðist í dag - mamma tók Jóhannes með sér á Krókinn og Addi fór í Lauga að sækja Rannveigu Katrínu. Ég var alveg eirðarlaus og vissi ekkert hvað ég ætti af mér að gera. Endaði svo á því að blasta FM Belfast og skúra, pakka niður kristal, þurrka af og endurraða í stofunni.

Það stóð á endum - ég var að klára þegar Rannveig og Addi komu heim. Við buðum drottningunni svo á Greifann. Það hafði staðið til í nokkurn tíma - eða frá því hún kláraði skólann. Þessi stelpa er ótrúleg - lauk píanónámi vetrarins með 8,4 í einkunn, fékk framúrskarandi góða umsögn og frábærar einkunnir fyrir allt sem hún gerði í skólanum og bætti sig mjög mikið í sundinu í vetur. Stóðst allar áskoranir með prýði, en þessi vetur hefur verið mjög krefjandi fyrir okkur öll, óvenju mikið að gera hjá foreldrunum (Addi var einmitt að ljúka diplomanámi í opinberri stjórnsýslu frá HÍ) og barnið kannski ekki fengið eins mikla athygli og hún á skilið. Við áttum frábæra kvöldstund saman og greinilegt að daman kann að meta að fá að vera ein með foreldrunum :o)

Enduðum kvöldið í Eymundsson þar sem við fjárfestum í kennsludisk og bók í sænskri tungu. Nú verður farið í stífar æfingar, jibbíkóla.

13 júní 2011

Sommer of ´96

Merkisdagur í dag - ætli ég eigi ekki 15 ára fermingarafmæli í dag. Eða svona hérumbil. Fermdist á hvítasunnudag 1996 í upphlutnum hennar mömmu. Fékk bjútíbox og hárblásara í fermingargjöf, hnakk og æðardúnsæng. Æðardúnsængin er tvímælalaust besta gjöf sem ég hef fengið um ævina. Svo fékk ég einhverjar krónur og fyrir þær keypti ég mér flug til Noregs. Fór þangað viku eftir ferminguna og átti frábært sumar á Vestnesi.

Þetta var þvílíkt ævintýri fyrir 14 ára skrípi sem hafði aldrei áður farið til útlanda og varla til Reykjavíkur einu sinni. Myndin er tekin úr húsinu sem fjölskyldan bjó í. Sjálf átti ég mitt herbergi í húsinu á myndinni. Bjó sumsé bara ein þarna í húsinu, í stóru herbergi með baðherbergi. Fjölskyldan rak kiosk í þessu húsi og þetta herbergi var hugsað fyrir starfsmann sjoppunnar. Ég kynntist fullt af krökkum, grillaði pylsur í deigi á stöndinni, synti í sjónum, fór í partý, óteljandi reiðtúra ein í skóginum, fór í ferðalög, bakaði svele og borðaði óhugnanlega mikið af brauði með leverpostej. Lærði norsku, fór á Molde jazzfestival, steiktist í sólinni, fór á diskótek, hugsaði um tvö börn (stundum fjögur), tvær geitur og tvær kanínur. Fór í hjólatúr á Harley Davidson mótarhjóli, varð skotin og spilaði á gítar. Yndislegt sumar, besta sumar í geimi. Núna eru þessi börn orðin fullorðin og það þýðir að ég er orðin gömul :)

10 júní 2011

Það var kvartað...

yfir þessu kommentakerfi hér. Ég hafði ekki áttað mig á þessu stillingadæmi - núna getur sumsé hver sem er kommentað á þetta blogg. Ekki það að margir séu að lesa en kannski ágætt að þessir örfáu geti skilið eftir spor á síðunni.

09 júní 2011

Loviselundsskolen

Svíþjóðarundirbúningur er svolítið fyrirferðarmikill þessa dagana. Sem betur fer sýnist mér sænska regluverkið ekki eins mikið og var búið að vara mann við. Að minnsta kosti ekki hvað varðar blessuð börnin. Búið er að sækja um fyrir Jóhannes á fjórum leikskólum í hverfinu okkar og Rannveig er búin að fá pláss í Loviselundsskolen. Það er grunnskóli í um 900 metra fjarlægð frá húsinu okkar. Það er reyndar annar skóli ennþá nær en hann býður ekki upp á neina aðstoð fyrir erlenda nemendur. Hjá Lovísu byrjar Rannveig í sérstakri sænskukennslu og svo flyst hún í venjulegan bekk. Eins og ég skil það að minnsta kosti.

Það er að minnsta kosti mikill léttir að vita að hún fær pottþétt pláss í þessum skóla. Við ætlum að skoða hinn aðeins betur - mér var ráðlagt að reyna að koma henni að í sænskum bekk frá upphafi, enda má búast við því að hún verði farin að tala reiprennandi sænsku eftir örfáa mánuði.

Þau eru bæði mjög spennt og farin að velta fyrir sér hvað þau geti tekið með sér. Rannveig vill taka Astrid Lindgren bækurnar sínar, geislaspilarann og reiðhjólið. Jóhannes veit eiginlega ekkert í sinn haus og segir alltaf bara að hann geti eiginlega ekki tekið neitt með því það verði svo lítið pláss í flugvélinni.

Annars sit ég á Kaffi költ og reyni að vinna. Datt bara í hug að blogga pínulítið því það er svo kúltúrverað að sitja og blogga með latte við hlið sér. Hér eru (auk starfsfólks) tveir útlendingar sem eru væntanlega farþegar skemmtiferðaskipsins sem liggur hér við höfn. Par á mínum aldri, hann situr og skrifar póstkort og drekkur kaffi en hún er á netinu. Þau báðu um íslenska tónlist og hér ómar lónlíblúbójs í plötuspilaranum. Þau dilla sér bæði með, en gaman...

Annars er hér ein mynd af okkur hjónum sem tekin var fyrstu helgina í maí í brylluppi Dóra og Gunnu Siggu. Helvíti hvít og ræfilsleg. Núna eru einmitt 23 gráður í Stokkhólmi en 5° og rigning hér á Akureyri.

yfir og út

Remúlaði

Það er ekkert meira hressandi á miðvikudagskvöldi en að horfa á myndband með Mariah Carey í skólabúningi og blúndubrók á Nova TV. Lagið heitir Touch my body.

Jésús minn.