09 júní 2011

Loviselundsskolen

Svíþjóðarundirbúningur er svolítið fyrirferðarmikill þessa dagana. Sem betur fer sýnist mér sænska regluverkið ekki eins mikið og var búið að vara mann við. Að minnsta kosti ekki hvað varðar blessuð börnin. Búið er að sækja um fyrir Jóhannes á fjórum leikskólum í hverfinu okkar og Rannveig er búin að fá pláss í Loviselundsskolen. Það er grunnskóli í um 900 metra fjarlægð frá húsinu okkar. Það er reyndar annar skóli ennþá nær en hann býður ekki upp á neina aðstoð fyrir erlenda nemendur. Hjá Lovísu byrjar Rannveig í sérstakri sænskukennslu og svo flyst hún í venjulegan bekk. Eins og ég skil það að minnsta kosti.

Það er að minnsta kosti mikill léttir að vita að hún fær pottþétt pláss í þessum skóla. Við ætlum að skoða hinn aðeins betur - mér var ráðlagt að reyna að koma henni að í sænskum bekk frá upphafi, enda má búast við því að hún verði farin að tala reiprennandi sænsku eftir örfáa mánuði.

Þau eru bæði mjög spennt og farin að velta fyrir sér hvað þau geti tekið með sér. Rannveig vill taka Astrid Lindgren bækurnar sínar, geislaspilarann og reiðhjólið. Jóhannes veit eiginlega ekkert í sinn haus og segir alltaf bara að hann geti eiginlega ekki tekið neitt með því það verði svo lítið pláss í flugvélinni.

Annars sit ég á Kaffi költ og reyni að vinna. Datt bara í hug að blogga pínulítið því það er svo kúltúrverað að sitja og blogga með latte við hlið sér. Hér eru (auk starfsfólks) tveir útlendingar sem eru væntanlega farþegar skemmtiferðaskipsins sem liggur hér við höfn. Par á mínum aldri, hann situr og skrifar póstkort og drekkur kaffi en hún er á netinu. Þau báðu um íslenska tónlist og hér ómar lónlíblúbójs í plötuspilaranum. Þau dilla sér bæði með, en gaman...

Annars er hér ein mynd af okkur hjónum sem tekin var fyrstu helgina í maí í brylluppi Dóra og Gunnu Siggu. Helvíti hvít og ræfilsleg. Núna eru einmitt 23 gráður í Stokkhólmi en 5° og rigning hér á Akureyri.

yfir og út

1 ummæli:

  1. Spennandi, þetta er allt að smella. Og alveg glerfín á myndinni!

    SvaraEyða

við elskum comment!