28 október 2011

Svolítið myndablogg í tilefni föstudags...

Halló heimur. Ég fór í það í morgun að tæma myndavélina og ákvað að henda nokkrum þeirra hingað inn. Í október elduðum við uppáhalds uppáhalds matinn okkar, Sambosa. Þetta er svo sjúklega ótrúlega gott að ég fæ vatn í munnin við að horfa á myndirnar! Við Jóhannes sáum að mestu um eldamennskuna og tókum myndir af herlegheitunum...

Búið að preppa allt innihald í fyllingarnar, gerðum túnfisk og grænmetis. Svo gerðum við reyndar líka nokkrar pizzu sambosur fyrir krakkana, sem þau hámuðu í sig...

Túnfiskur til vinstri og spicy grænmetisfylling til hægri.

Svo þarf að fletja út deigið í litla hringi og skella fyllingunni inní...

Svo er aðalmálið að loka þeim þannig að þær séu nokkuð smekklegar og alls ekki götóttar. Tókst svona misjafnlega vel eins og sjá má...

Jóhannes, hundtryggi aðstoðarmaðurinn í eldhúsinu. Hann elskar að stússast í eldamennskunni! Hér er hann að setja fyllinguna í fyrir þau systkinin.

Ógó gaman!!! Svo náði ég ekki að smella mynd af afrakstrinum, við vorum öll orðin svo svöng...

 Krakkarnir elska að laumast í myndavélina og taka sjálfsmyndir...

Á þessum tímapunkti í lífi Jóhannesar Árna þurfti hann nauðsynlega á klippingu að halda og móðirin reddaði málunum. Þetta er sumsé eftir mynd. Ætli það verði ekki splæst í jólaklippingu fyrir drenginn, hann er að verða ansi hárprúður (vantar Gunna og Kristínu með rakvélina góðu!)

Rannveig fór á sundmót og keppti í tveimur greinum. Hún er með sína sér-sérvisku - setur hettuna yfir gleraugun svo þau detti ekki niður þegar hún stingur sér...

Svo komu amma og afi á Akureyri í heimsókn um miðjan október og Jóhannes var aðalkortamaðurinn og leiðsögumaðurinn. Hér er hann að vísa veginn í Globen...notalegt að fá gesti og við hlökkum til næstu heimsóknar sem er í nóvember. Svo hvíslaði lítill fugl að mér að bróðir og móðir væru búin að panta flug um páskana 2012...

Hér erum við um 130 m. fyrir ofan þetta fólk, sem stendur í röð til að fá gott stæði á Britney Spears tónleikunum í Globen. Þetta voru nú nokkrir klukkutímar í tónleikana þarna og fáir mættir...

Rannveig og Addi í Skyview klefanum sem fór með okkur upp á toppinn á Globen, þaðan mátti sjá yfir alla Stokkhólm og við vorum í svooo fallegu veðri. Alveg frábært! Ætli Hässelby sé ekki einhversstaðar þarna í fjarskanum...

Skíðasvæðið í Stokkhólmi...sjáið þið það? Já einmitt, litli hóllinn þarna í miðjunni...jafnvel ég kæmist kannski bjargarlaust og óbrotin þarna niður?! Þetta er svona eins og Jólasveinabrekkan á Akureyri.

Halloween-Rannveig. Planið var að vera uppvakningur, gamall maður sem hefði verið myrtur á grimmilegan hátt og væri nú risinn upp úr gröfinni. Við týmdum ekki að skemma mjög mikið af fötum og gátum ekki klínt allt út en þetta var útkoman. Myndavélin var reyndar eitthvað að stríða okkur og engin myndanna sem við tókum nær að lýsa stemmningunni...hún var býsna óhugnaleg stelpan!

Við hjónakornin erum á fullu í ritgerðarskrifum þessa dagana, Addi er að skila course-paper í dag og ég fljótlega...

21 október 2011

Þótt þú langförull legðir...

Eins og þið sem lesið þessa síðu vitið sjálfsagt þá erum við hjónakornin ekki beint miklir heimsborgarar...ennþá! Við fórum einu sinni saman til London í þrjá daga og gistum á Kings Cross því það var ódýrast. Fengum viðbjóðslegt beikon í morgunmat og vorum í herbergi þar sem maður þurfti að ganga í gegnum sturtuna til að komast að pissa. Svo fórum við líka í viku til Kaupmannahafnar þegar Jóhannes var sjö mánaða og Rannveig sex ára. Frábær ferð, fyrir utan botnlangauppskurð Rannveigar sem setti vissulega strik sitt á ferðina. Einhverjar fjölskylduferðir fór Addi þegar hann var ungur drengur, meðan ég var í fjósastígvélunum að mjólka.  Ég dvaldi vissulega í Noregi eitt sumar þegar ég var 14 ára en þar fyrir utan höfum við ekki farið víða. Bara svona stuttar ferðir og aðeins í þessi tvö skipti saman.

Okkur finnst þessir flutningar okkar til Svíþjóðar því talsvert spennandi og það er nýtt fyrir okkur báðum að búa í úglöndum. Í þessa mánuði sem við höfum verið í Stokkhólmi höfum við fylgst vandlega með Svíunum, reynt að læra eitthvað nýtt, hvernig maður eigi nú að haga sér í svona stórborg og hvað einkennir líf þessara nýju nágranna okkar. Um daginn sat ég á kaffihúsi og beið eftir Rannveigu meðan hún var á sundæfinu og datt allt í einu í hug texti sem var í félagsfræðibók sem ég kenndi einu sinni. Þar var Svíi á ferð sem lýsti Íslendingum ansi fjálglega. Ég fór í framhaldinu að hugsa um það sem ég hef séð hér...so far!

-          Unnar kjötvörur. Það tók mig tvo mánuði að finna hamborgara í búðunum hér í nágrenninu sem innihéldu ekki kartöflumjöl og alls konar krydd og e-efni. Pylsurnar þekja hillurnar í búðinni, það eru bratwurst og grillpylsur og vínarpylsur og falukorv og guðmávitahvað. Ekkert bara Goða eða SS sko, ó nei. Við hjónakornin erum ekki allskostar sammála um ágætis þesskonar matvara (eða sko hvort þetta sé matur yfirhöfuð) en buðum nú samt tengdaforeldrunum upp á falukorv í síðustu viku. Það er sumsé Adda deild. Svo eru margir frystar með färdigmat – bara taka upp og skella í ofninn/örbylgjuna. Frosið lambakjöt tekur einn meter í kistunni en färdigmat svona 10. Og pylsurekkarnir tugir metra!

-          Lífrænar vörur. Fyrstu skiptin sem ég fór að versla sá ég bara lífrænt. Lífrænt út um allt. Ó svo gaman. Samt er eitthvað sem passar ekki í þessu öllu saman. Lífrænt í mínum huga passar ekki vel með öllum þessum unnu kjötvörum. Lífrænt finnst mér líka einhvernvegin haldast svolítið í hendur við umhverfisvernd en til dæmis er flokkun sorps komin afar stutt hér miðað við heima á Akureyri. Leik- og grunnskólar krakkanna flokka ekkert rusl, við flokkum ekki lífrænt og í háskólanum er fjalli af plastglösum hent saman við lífrænt sorp, pappír og plastdiska á degi hverjum, ekki er hægt að kaupa sér kaffi í bollum, allt í pappamálum, kennararnir fjölrita glærur eins og þeir eigi lífið að leysa og hvetja okkur jafnvel til að prenta út fleiri hundruð blaðsíður af lesefni. Það er eitthvað bogið við þetta og mér er illt í umhverfishjartanu mínu.

-          Hundahald. Aldrei séð annað eins. Sem gæti mögulega skrifast á það hversu lítill heimsborgari ég er en hér tilheyrum við fjölskyldan minnihlutahóp þeirra sem eiga ekki hunda. Á morgnana þegar við förum með Jóhannes í leikskólann (300m) mætum við að meðaltali sjö hundum með eigendum sínum. Margir eru með tvo og iðulega eru þetta ellilífeyrisþegar á hækjum. Í dag var kona með göngugrind með lítinn bolabít úti að ganga. Það fyndna var að hundurinn dró bandið á eftir sér og gekk því laus á undan konugreyinu sem fór afar hægt yfir. Í okkar hverfi virðist fólk líka eiga erfitt með að hafa hundana sína í taum og þrátt fyrir að hafa alist upp með hundi og hafa almennt séð nokkuð gaman að hundum þá er þetta heldur mikið af hinu góða. Að mæta skuggalegum gaur með risastóran lausan hund finnst mér ekki þægilegt, sérstaklega ekki þegar litli skæruliðinn hleypur líka laus...

-          I-phones og aðrar græjur. Hoppandi Hólakot. Eigum við eitthvað að ræða þessi litlu börn sem eru með Iphona? Og allt fólkið í lestinni? Þarna tilheyrum við líka minnihlutahópi. Skólasystur Rannveigar eru allar með einhverskonar Nintendo mini tölvu með sér í skólanum og leika sér í þeim í eftir-skólavistuninni. Svo fór bekkurinn hennar í Tunnelinn um daginn og þarna sátu þær fjórar saman og héngu í símunum sínum, sendu jafnvel sms á milli i stað þess að tala saman. Íslendingurinn í hópnum var hálf hissa á þessu athæfi jafnaldra sinna. Og talandi um græjur, barnavagnarnir eru sko Rolls!

-          Skófatnaður. Þarna koma fjósastígvélin aftur við sögu. Þau heita Hunter en ekki Nokia en eru annars voðalega svipuð þeim sem ég þrammaði á forðum daga meðan Addi skrapp í Campervennen með foreldrum sínum. Svo er það Converse. Þetta er svakalegt. Taldi 223 converse pör á leiðinni í skólann á dögunum.

 


Svo er það bara spurningin, hvort við komum heim eftir tvö ár í Converse og fjósastígvélum, með nýjasta Iphoninn og hund í bandi (eða ekki í bandi), maulandi bratwurst og lífrænt mæjónes...



09 október 2011

Sundblogg

Í morgun hringdi vekjaraklukkan tíu mínútur í sex. Á sunnudegi!!! (geisp!) Við Rannveig vorum komnar út úr húsi kl. 06:40 og tókum tunnel og strætó á sundmót í Jakobsberg. Upphitun hófst kl. 8 og drottningin var svo búin að keppa um kl. 18. Vorum svo heppnar að fá far heim með annarri sundmömmu svo við vorum komnar heim um 18:30 og sluppum við strætó á köldu októberkvöldi.

Sumsé, fyrsta stóra sundmótið sem daman keppir á hér í Stokkhólmi. Keppendur voru á aldrinum 10-17 ára, reyndar voru aðeins þrír krakkar fæddir 2001, allir hinir eldri. Keppendur komu víða að - Álandseyjum, Uppsala, Västerås og svo framvegis. Rannveig var að keppa í 100 m bak- og skriðsundi og stóð sig mjög vel. Hún bætti tímann sinn í 100 skrið um heilar 9 sekúndur síðan á Akranesi í vor og hefur farið mikið fram í tækninni. Hér eru miklu fleiri móti í boði en heima og næsta stóra mót verður eftir þrjár vikur.

Helsti munurinn á sundmótum á Íslandi eða hér í Stokkhólmi er inni-úti fítusinn. Heima eru kuldagallar og ullarteppi á milli greina en hér eru sundlaugarnar inni, engin loftræsting og óbærilegur hiti. Allir á hlírabolunum!

Rannveig stendur sig sumsé mjög vel í sundinu, er með þeim yngstu sem eru komnir upp í keppnisflokk, hennar jafnaldrar eru flestir í tækni-flokkum sem keppa ekki. Bekkjarfélögunum finnst talsvert til þess koma að hún kunni sund - en hér er sund ekki sjálfsagður partur af námskrá og ekki allir bekkjarfélagar hennar sem eru syndir.

01 október 2011

Skógarferð og síðustu sumardagarnir

Hér hefur verið frábært veður undanfarna daga, um og yfir 20 stiga hiti og glampandi sól í dag og í gær. Veðurspekingarnir segja að þetta séu síðustu sumardagarnir og nú komi haustið. Krakkarnir sem eru með mér í náminu og hafa búið í Svíþjóð í einhver ár hafa talað mikið um sænska veturinn og hversu H R Æ Ð I L E G U R hann sé. Við erum orðin býsna spennt og getum varla beðið eftir þessum hrikalega vetri. Hversu hræðilegur getur hann verið? Lýsingarnar eru allavega ömurlegar. Lestarkerfið leggst niður á snjódögum, svo mikil hálka að það er ekki stætt á gangstéttum og svo kalt að það smýgur inn í gegnum merg og bein. Og myrkrið. Skulum ekki gleyma því! Skólasystir hans Adda þurfti svo hreinlega að hætta í skólanum í fyrra af að það var svo kalt. Hryllingssögurnar náðu svo hæstu hæðum þegar ég ræddi veturinn við Pakistanann sem er með mér í skólanum. Hræðilegt, segi það og skrifa. Og við fjölskyldan bíðum spennt eftir að geta notað allar yfirhafnirnar sem við höfum fyllt skápana með og gönguskóna sem við fengum senda frá Íslandi...

Á fimmtudaginn skelltum við okkur í skógarferð í góða veðrinu eftir skóla og myndavélin var með í för. Við þurfum einungis að rölta  nokkur hundruð metra og þá erum við komin út í þennan dýrindis skóg.

Jóhannes fann risastórt tré...sólin og Mäleren á bakvið.

Jóhannes og prikin. Jamm, hann gerir lítið annað en að safna prikum, í hverum einasta göngutúr (bæði með foreldrum og leikskólanum) endalaust prik, lítil, stór...

Fullt af bláberjum í skóginum

 Og klettar sem gaman er að príla á


 ...og svo er líka gaman að hoppa af háum steinum...með prikin sín að sjálfsögðu!
 Allt í einu fundum við rólu sem hékk í tré...

Og svo birtust þessi hús líka alveg upp úr þurru

Annars allt gott að frétta, nóg að gera í skólunum hjá öllum. Jóhannes talar sænsku og íslensku í bland, uppáhalds orðið þessa dagana er TITTA. Rannveig er svakalega dugleg í skólanum og gengur sérlega vel í ensku og stærðfræði, sænskan öll að koma. Svo eru sundæfingar fjórum sinnum í viku og mjög mikið heimanám, nóg að gera hjá blessuninni! Prófessorinn minn mætti í spariskóm um daginn og Addi fór á hádegisfyrirlestur með Fredrik Reinfeldt í síðustu viku. Við erum komin með áskrift að Dagens Nyheter og svo ryksuguðum við í dag.

Nóg í bili,
VSB