29 ágúst 2012

Ferðasaga í myndum og svolitlu máli

Ég efast um að nokkur maður nenni að lesa ferðasöguna frá Grikklandi. Hún er of löng og svo margt til að segja frá. Eg ætla bara að segja stuttu útgáfuna í nokkrum myndum og þeir sem vilja vita meira koma í heimsókn á Maltesholmsvägen eða taka upp tólið ;o) Það var mjööög erfitt að velja nokkrar myndir til að setja hingað inn - af þeim ca. 1000 sem við eigum. En hér koma nokkrar myndir, í tímaröð.

Foreldrar Maríu sem tóku ofsalega vel á móti okkur í Aþenu, við gistum hjá þeim í tvær nætur, þau pössuðu börnin svo við kæmumst út á kvöldin, elduðu fyrir okkur, sendu okkur út með nesti - þrátt fyrir að hafa ekki getað talað við Jóhannes þá dekruðu þau hann í botn og hann gjörsamlega dáði þau og dýrkaði frá fyrstu mínútu.


Fimmtudagskvöld í Plaka, gömlu Aþenu, nokkrum tímum eftir að við lentum í Grikklandi. Manos fór með okkur á bar með frábæru útsýni yfir Akrapólís. Kokteilar og notalegheit og börnin í kyrrð og ró hjá gestgjöfunum.

Vicky, ég og María. Ég fór næstum því að skæla þegar ég sá Akrapólis fyrst - þá vorum við að keyra í Plaka og ég sá glitta í hæðina milli húsa. Jemundur, gæsahúð!


Föstudagsmorgun, steikjandi hiti og börnin á leiðinni með okkur menningarferð í metrónum.

Theatre of Dionysus

Þetta var klárlega erfiðasti dagurinn fyrir Djó. Steikjandi hiti og hann varð strax sveittur og eldrauður í framan (af hita, ekki sól). Pabbi þurfti að bera hann meira og minna upp alla hæðina (ekki síst af öryggisástæðum...)

Aþena er stóóór! Fjögurra milljóna borg eða þar um bil.

Feðginin tóku nett leikrit uppi á hæðinni. Sungu og léku lag með FM Belfast.

Auðvitað var traktor á Akrapólís!

Svolítið týpísk mynd fyrir litlu drottninguna. Meðan aðrir fengu sér kalt kaffi eða ís hafði hún lyst á stærstu súkkulaðikökunni í Aþenu. Hún kann að njóta lífsins :)

Á kaffihúsinu, rétt fyrir neðan Akrapólíshæðina (Ætli Grikkir séu almennt séð ekki aðeins betri að sitja fyrir en Íslendingar...)

Þar fann Rannveig afskaplega lítinn bíl. Takið eftir álbréfinu sem hún er með - heimabökuð kaka sem húsmóðirin sendi börnin með út!

Um kvöldið röltum við um höfnina í Aþenu. Þar voru ótrúlega margar snekkjur, risastórar, í eigu grískra auðmanna (og kvenna). Okkur var tjáð að kreppan hefði lítið sem ekkert komið við ríka fólkið í landinu, meðan millistéttin væri að hverfa.

Souvlaki staður við höfnina. Krakkinn fékk að koma með okkur á útstáelsi, það er alls ekkert óeðlilegt að þvælast með börnin með sér út um allar trissur seint að kvöldi. Hún var að vonum ánægð með það að vera talin með fullorðnum en ekki bróður sínum sem lá sofandi heima hjá foreldrum Maríu.

Þetta var ekkert leiðinlegt. Og souvlaki er gott!

Skelltum okkur svo í einn drykk á bar með útsýni yfir höfnina. Komum heim löngu eftir miðnætti, unglingurinn nokkuð sáttur!

Laugardagur, í ferju á leiðinni til eyjunnar Evia. Um klukkustundarsigling í þónokkru hvassviðri. 


Karystos á Evia. Gistum þar eina nótt og príluðum m.a. upp að gömlum kastala sem er fyrir ofan bæinn. Jóhannes hlakkaði mikið til að hitta kónginn og drottninguna - sem voru því miður ekki heima.

Karystos. Fallegur bær, um 4000 íbúar. Erlendir túristar frekar sjaldgæfir en algengt að fólk skreppi yfir frá Aþenu og dvelji yfir helgi eða jafnvel bara einn dag. Horfðum á sólsetrið frá kastalanum, mjööög fallegt.

Þetta var áður en okkur datt í hug að athuga hvort kastalahliðið væri opið. Príluðum sumsé inní hann.



Úti að borða í Karystos, á hefðbundinni grískri Taverna. Ouzo!

Þarna ber að líta steiktan smokkfisk (Squid) - mjög gott - og sardínur - ekki alveg jafn gott. María reyndi að kenna okkur hvernig Grikkir fara út að borða. Þá kemur alltaf brauð og vatn á borðið og svo er ákveðið hvort eigi að borða kjöt eða fisk. Nokkrir réttir eru svo pantaðir á borðið, rauðvín með kjöti og ouzo með sjávarfangi. Rauðvínið er pantað í hálfu eða heilu kílói og kostar ekki mikið, um 6 evrur kílóið. Allir eru svo með litla diska og smakka af öllu og skála og drekka og svo er auðvitað grískt salat og jógúrtsósa með, eins og t.d. Tzaziki eða sterk ostasósa. Þetta gerist yfirleitt eftir sólsetur og það er ekki óalgengt að fólk fari út að borða um kl. 22 eða 23. Svo er farið í göngutúr eftir matinn til að melta fyrir svefninn...við áttum reyndar erfitt með að venjast þessu þar sem við reynum að borða snemma á kvöldin!


Souvlaki-ið hennar Rannveigar. Til hægri glittir í ostasósuna sem var alveg viðbjóðslega góð. 


Vá hvað við sáum marga villiketti. Allsstaðar sem við komum voru kettir og yfirleitt mjög margir inni á veitingastöðunum að sníkja mat eða reyna að sleikja upp það sem féll á gólfið. Á Milos töldum við einu sinni 9 ketti fyrir utan húsið okkar - en Angelo sem við gistum hjá gaf þeim alltaf að borða. Þeir eru ekki litnir hornauga af íbúunum, heldur hjálpast allir að við að gefa þeim að borða og þeir eru ósköp vinalegir. Það sama er ekki hægt að segja um helv...hundana sem fylltu götur Aþenu. Þegar við gengum upp Akrapólíshæðina hittum við fyrir mjög marga villihunda sem lágu sofandi í tröppunum á hæðinni eða jafnvel fyrir innan múrana. Þeir voru bókstaflega úti um allt og sumir alveg viðbjóðslegir. Mörgum var fargað fyrir ÓL 2004 en nú hefur þeim fjölgað aftur, sérstaklega eftir hrun. Og þeir eru með hálsól og merktir og þeim er gefið að borða og svo ganga þeir bara lausir um göturnar...

Hótelið okkar í Karystos. Þar sváfum við fimm í sama herberginu, voða notalegt :o)


Sunnudagur, á leiðinni til Milos. Siglingin tók um 4 tíma í þónokkrum vindi en við sluppum við ógleði. Horfðum á sólsetrið úr bátnum, það var ótrúlega fallegt. 


Þreyttir ferðalangar, alveg að koma til Milos.

Þegar við lentum á Milos tók 6 manna mótttökunefnd á móti okkur við höfnina. Leigusalarnir og frænkur og frændur...ótrúleg stund. Svo fórum við út að borða. Grískt salat á Grikklandi, gotta love it!

Addi fékk Kebab af því að Gyrosið var búið.

Ég hef ekki töluna á öllum þeim Lödum sem við sáum (Sport).

Svalirnar okkar...íbúðin var ÆÐISLEG. Og fólkið sem átti hana ekki síðra...

Þriðjudagur: Tókum rútu einn daginn á strönd á suðurhluta eyjunnar (Paliochori). Unaðsleg strönd, svolítill öldugangur og helst til of hávær tónlist af börunum við ströndina. En frábært að synda þarna.

Sólarpása á barnum, kaffi og toast.

Börn að leik við Miðjarðarhafið ...

Önnur strönd, Firiaplaka. Lítil strönd, sú eina sem við sáum sem var svolítið skítug. Þetta var á miðvikudegi en þá vorum við með bílaleigubíl. Fórum á þrjár strendur og tvo bæi þann daginn.

Firopotamos. Eyjaskeggjar byggðu svona hús þegar þeir voru hættir að hafa áhyggjur af sjóræningjum. 


Miðvikudagur, toast í Pollonia fyrir einn besta sundsprett ferðarinnar á ströndinni í bænum.

Pollonia, þessi strönd var himnesk. Afar barnvæn og þægileg. Við hefðum séð fleiri strendur ef við hefðum haft bíl í fleiri daga eða nennt í krefjandi siglingar...en gerum það bara næst ;)

Papafragas

Papafragas cave. Sennilega var þak á hellinum, fínasti felustaður fyrir sjóræningjunum.

Bílaleigubíllinn. Þvílíka djöfulsins druslan. Eeeldgamall bíll, samlæsingin virkaði bara stundum og þarna eru þeir feðgar einmitt að basla við að opna helv...drusluna. Hún dreif ekki neitt (sem er slæmt þar sem þorpin þarna eru eintómar þröngar götur í bröttum brekkum). Ekki alveg sami bílaleigustandard og við eigum að venjast - rándýr í þokkabót! En alveg þess virði að geta keyrt aðeins um eyjuna.

Í Plaka, sólsetrið nálgast. Plaka er "Hora" eyjunnar, eða aðalbærinn (Capital). Bæirnir voru byggðir hátt uppi til að hægt væri að sjá til sjóræningjanna. Fallegur bær sem við eyddum einu kvöldi.

Í Plaka. Göturnar voru hafðar þröngar svo óvinirnir ættu erfitt með að rata um bæinn.

Ströndin "okkar" - bara um 100 m. frá húsinu okkar. Sem ég gleymdi held ég að taka mynd af. 

Glöð og kát á leið í siglingu með tveimur herramönnum, annar Grikki og hinn frá Sardíníu. Grikkinn Angelo leigði okkur íbúðina og bauð okkur í siglingu með sér og frænda konu sinnar, Paulo. Sonya (eiginkonan) var heima á meðan að þrífa eins og vera ber. 

Adamas, bærinn þar sem við gistum. Húsið okkar er þarna efst á hæðinni.

Sardíníumaðurinn. Það er svolitil sól þar stundum. Hann var mjög hugrakkur að sitja í stefninu allan tímann, líka meðan Jóhannes stýrði bátnum af sinni alkunnu snilld...


Illa sáttur að vera treyst fyrir stýrinu. Sigldi ekki alveg alltaf þráðbeint.

Angelo. Gull.

Rannveig fékk líka að stýra.

Eftir frábæran sundsprett með félögunum á lítill einkaströnd - sem aðeins er hægt að komast að með bát - stoppuðum við í þessu pínulitla þorpi. Þeir buðu okkur í mat og ouzo og við Addi fengum okkur geit, sem var mjög góð!

Vá hvað þetta var mikil snilld.


Þorpið okkar á Milos

Föstudagur, heimferð nálgast. Úti að borða á kósí stað við sjóinn, sólsetur og bátar og öldugljáfur. mmmmm



Við Addi fengum okkur blandaðan sjávarréttadisk. Þarna gefur að líta humar og risarækju, einhverskonar skel, kolkrabbalöpp, sverðfisk, hörpuskel og kannski eitthvað sem ég er að gleyma. Allt var mjööög gott nema helvítis kolkrabbinn. Hann fílaði ég ekki.

Hér má einmitt sjá Jóhannes ásamt nokkrum kolkröbbum sem héngu til þerris (!) í 30 stiga hita fyrir utan veitingastað í bænum...

Bless bless Milos og Adamas!

Í Aþenu, á leiðinni á flugvöllinn eftir fjögurra tíma siglinu frá Milos :o)