24 febrúar 2012

Hertogaynjan af austur-Gotlandi, Estelle Silvia Ewa Mary.

Við höfum auðvitað fylgst grannt með fréttum af litlu prinsessunni sem fæddist á Karólínska sjúkrahúsinu í gær. Fæðingin ku hafa gengið afar vel, en þremur og hálfum tíma eftir að Viktoría og Daníel mættu á Karólínska sjúkrahúsið í Solna í gærmorgun, var prinsessan fædd. Fæðingarlæknirinn sagði að fæðingin hefði gengið fullkomlega eðlilega fyrir sig, en hann hafði verið í startholunum í tvo mánuði. Það er ekkert grín að missa af konunglegri fæðingu svo hann hafði ekki farið úr borginni síðan á síðasta ári. Daníel kom svo í morgunfréttunum (sem við fylgdumst spennt með) og tilkynnti blaðamönnum um fæðinguna. Hann var að sjálfsögðu að springa úr stolti og brosti hringinn. Hann var spurður hvað barnið hefði verið stórt og á myndinni má sjá hvernig hann reyndi að svara þeirri spurningu (voða krútt):



Eftir átta tíma veru á Karolinska hélt fjölskyldan heim í Haga höllina, ásamt kónginum og drottningunni. Viktoría og Daníel hafa búið í Haga undanfarið, en Karl Gustav fæddist einmitt þar árið 1946. Hér má sjá fyrstu myndina af þeim saman sem birtist á facebook síðu konungsdæmisins eftir hádegið í gær.


Nú bíða Svíar í ofvæni eftir myndum af barninu. Nafnið var tilkynnt í dag og þótti víst koma heldur á óvart - allavega Estelle hlutinn. Samkvæmt hefðinni tilkynnti konungurinn nafnið og titla nýfæddu prinsessunnar - hertogaynjunnar af austur- Gotlandi.

Af blaðaumfjöllun dagins að dæma velta Svíar nú fyrir sér framtíð konungsveldisins, en sænskir skattgreiðendur borga ekki nema um 120 milljónir á ári undir hin konungbornu (sem er nú samt ekki nema nokkrar krónur á mann). Enn eru meirihluti Svía hlynntur því að halda konungsveldinu, en sú tala hefur víst minnkað smátt og smátt eftir því sem árin hafa liðið.


Svo má velta fyrir sér framtíð blessaðrar prinessunnar - verður hún með dyslexíu eins og mamma hennar og afi? Karl Gustav fékk C í stærðfræði á stúdentsprófi - ætli hún erfi námshæfileika hans eða móður sinnar - sem gekk mjög vel í skóla.
Ég tel allavega miklar líkur á því að foreldrar flykkist með börnin sín á fínni leikvellina á Östermalm næstu sumur í þeirri von að sjá hinum konungbornu bregða fyrir með barnavagninn...kannski við freistumst til að kíkja aftur í Konunglega Humlegården, eða förum að hanga á Stureplan...
Fæðingu litlu prinsessunnar var að sjálfsögðu fagnað í Stokkhólmi, fólk safnaðist saman við fallbyssurnar á Skreppsholmen um hádegi í gær, strætóarnir flögguðu og voru aldeilis ekki einir um það. Strax um hádegið í gær var uppi fótur og fit í bakaríum bæjarins þar sem bleika marsípanið var á þrotum - svo mikið var keypt af prinsessutertu! Við Addi skruppum á Ritorno, uppáhalds kaffihúsið okkar eftir hádegið og spiluðum svolítið rommí og drukkum kaffi í lærdómspásunni - en á sama tíma flykktust þangað heldri konur og keyptu sér sneið af bleikri prinsessutertu og fögnuðu konunglegu fæðingunni. Vinir okkar bak við afgreiðsluborðið sögðust vera dauðslifandi fegnir að barnið skyldi ekki hafa fæðst á þriðjudaginn - þá var nefnilega sænski bolludagurinn, eða semlordagen.


21 febrúar 2012

Saltkjöt og baunir - túkall!

Við höfum haldið upp á íslenskar hefðir síðastliðna daga, en á sunnudaginn (konudaginn!) var svolítill bolludagur hjá okkur. Ég bakaði bæði vatnsdeigs- og gerbollur, því prinsessan á bauninni (Rannveig) fullyrðir að hún borði ekki vatnsdeigsbollur. Svo gæddum við okkur á góðgætinu, hver með sínum hætti. Jóhannes fékk sér vatnsdeigsbollur með glassúr (sjá mynd), Rannveig gerbollur með rjóma og glassúr og við hjónakornin hefðbundar vatnsdeigsbollur með jarðaberjasultu, rjóma og glassúr. Við settum glassúrinn samt innan í bollurnar, ofaná rjómann. Svona til að geta komist sæmilega snyrtilega frá þessu.

Addi stjanaði við okkur Rannveigu á konudaginn. Eða Rannveig ákvað sjálf að hún þyrfti ekki að gera handtak þennan dag, tilkynnti okkur sumsé að hún væri í verkfalli því það væri konudagur! Á myndinni má sjá hann hræra í fyllingu sem hann skellti í nokkrar kjúklingabringur. Rosa gott eins og alltaf þegar hann hættir sér í eldhúsið. Hann tilkynnti mér svo að hann sæi enga ástæðu til að gefa mér blóm, þar sem ég átti ennþá uppistandandi vönd eftir afmælisveisluna um síðustu helgi.

Í dag er bolludagur Svía, eða Semlordagen. Hér er hvorki sprengidagur né öskudagur en síðastliðinn mánuð hefur verið hægt að kaupa svokallaðar semlor á öllum kaffihúsum og bakaríum. Addi fór í bollu-boð á leikskólann hjá Jóhannesi í dag, þar sem boðið var upp á rjómabollur og kaffi. Þetta eru mjúkar og léttar gerbollur með miklu kardemommubragði, fylltar með þeyttum rjóma og möndlumassa. Flórsykur sigtaður yfir. Svolítið öðruvísi en þær íslensku en engu að síður reglulega mikið nammi.

Jóhannes hataði þetta ekkert...

Jóhannes og félagar hans á leikskólanum (kompisar!). Þeir eru svakalegir gaurar, þykjast ekki heyra þegar kennararnir gefa fyrirmæli og espa hvern annan upp í allskonar fíflalæti. Þeir knúsast svo alltaf bless á daginn, alvörunni knús sko, fast og lengi. Algjörir snúðar, frá Íslandi, Kazakstan og Afganistan.

Sprengidagurinn var haldinn hátíðlega hér á Maltesholmsvägen í kvöld! Addi fór í smá öskubuskufíling í dag þegar hann ákvað að afhýða allar baunirnar sem lágu í bleyti! Annars var kjötið í boði múttu og þetta var hreinn unaður! Besta máltíð sem við höfum fengið í marga mánuði. Rannveig er reyndar ekki á sama máli en Jóhannes sýndi það og sannaði að hann er efnilegur saltkjötsmaður. Ekki æstur í súpuna en hámaði í sig saltkjöt eins og hann fengi borgað fyrir það.

Hér er svona eftir-mynd úr pottinum þegar við vorum búin að borða á okkur gat. Nóg eftir fyrir næstu daga...

Hér er ekki hefð fyrir öskudegi svo búningahöfuðverkur hefur verið með minnsta móti síðustu vikur.

Adíós!

19 febrúar 2012

Vikingarännet

Nú er Mäleren ísi lagður og hið árlega Víkingahlaup fór fram í dag. Það er um 80 km. skautahlaup, fyrir þá sem fara lengst, frá Uppsala til Stockholms. Þetta er gömul leið sem Víkingarnir fóru í gamla daga og árlega hlaupa þúsundir skautakappa þessa leið þegar Vikingarännet fer fram. Við Addi vorum svo heppin að geta fylgst aðeins með keppninni í hádegisgöngu okkar í dag (og var meira að segja boðið kaffi eins og keppendunum). Við horfðum á skautahetjurnar með aðdáunarglampa í augunum...



(myndum stolið af netinu, fleiri fallegar hér: http://www.flickr.com/photos/salgo/4356405042/)
Leiðin á Mäleren frá Uppsala til Hässelby er rudd, ef svo má segja, en snjóplógur heldur skautaleiðinni opinni þar sem snjóar yfir ísinn. Við fórum út á ísinn í fyrradag með Jóhannes og skoðuðum aðeins brautina og vonandi verðum við orðin nógu fær á skautunum til að prófa áður en ísinn fer, við búum nú einu sinni við hliðina á vatninu :o)

16 febrúar 2012

Bara allt gott en þú?

Dagarnir æða áfram. Ég get svo svarið það! Í gær (lesist: á laugardaginn!) hélt ég upp á BIG30. Ég fékk svo mikinn pening í afmælisgjöf að mér fannst bara tilvalið að nota hluta af því til að kaupa bjór og bjóða bekkjarfélögum mínum og nývinum mínum í Stokkhólmi í smá partý. Þetta heppnaðist svona rosalega vel og úr varð hin besta veisla. Ég leigði lítinn samkomusal sem fylgir með í þessari búsetakommúnu okkar hérna, setti rósir á borðin, eldaði kjúklingalasanja og gerði cupcakes og caramel-shortbread (jamm, allt uppskriftir frá Fanneyju vinkonu!). Svo fórum við Addi tvær ferðir í ríkið með kerruna okkar góðu og keyptum svolítið af bjór.

Það var hávaðabann eftir kl. 23 í þessum sal svo gleðin hófst snemma og lauk að sama skapi snemma. Svolítið annað en ef maður væri að halda svona partý heima, en það var voðalega gott að vakna snemma á sunnudagsmorguninn! Nágranni kom og kvartaði strax klukkan hálf 10, svoleiðis á þetta auðvitað að vera. Svíinn er alveg meðetta sko!

Hér má sjá mynd af bekknum mínum. Eða hluta hans. Á þessari mynd eru 12 manns frá 10 löndum. Tansanía, Grikkland, Ghana, Kanada, Kína, Tæland, Pakistan, Íran, Bandaríkin og Ísland. Vantar Bretland, Suður Kóreu, Suður Afríku/Ísrael, Íran og nokkra frá USA. Æðislegur bekkur sem ég kann betur að meta með hverjum deginum sem líður!

Kökurnar sem ég hrærði í tókust bara alveg ágætlega og runnu vel í mannskapinn!

Þetta var virkilega ánægjulegt og mikilvægt að lyfta sér upp annað slagið! Á meðan gamla fólkið stjanaði í kringum gestina voru börnin heima í næsta húsi. Rannveig passaði bróður sinn í fyrsta skiptið og það gekk ótrúlega vel. Annars er furðulegt að hugsa til þess að börnin hafi ekki farið í pössun í marga marga mánuði...okkur fer að vanta barnapíu! Núna fer að verða meira um að vera hjá okkur, Addi er að byrja hjá SFI tvö kvöld í viku og í fótbolta með íslenskum fótboltastrákum í Stokkhólmi eitt kvöld í viku. Rannveig er á sínum sundæfingum tvo seinniparta og svo kemur fyrir að það séu tímar hjá okkur síðdegis. Það þarf mikið skipulag svo hlutirnir gangi smurt fyrir sig svona án utanaðkomandi aðstoðar!

Nú er orðið vetrarlegt hérna, snjór og oft mjög kalt. Ég auglýsti persónulegt kuldamet á facebook um daginn, en ég fór í matarboð til bekkjarsystur minnar og þegar ég kom heim eftir miðnætti voru -24 eða 26°. Það var alveg frekar kalt! Svo varð ég lasin og er ekki orðin góð ennþá!

Nóg í bili, yfir og út!

03 febrúar 2012

Strax komin helgi!

Tíminn flýgur áfram eins og óð fluga! Allir mettir eftir heimatilbúnu föstudagspítsuna og spennandi laugardagur framundan; sundmót hjá Rannveigu þar sem hún keppir í fjórum greinum, við Jóhannes erum að fara í afmælisveislu hjá íslenskum vini hans sem býr líka í Hässelby og svo þegar feðginin verða komin heim af sundmótinu stekk ég út og þvera borgina til að mæta í matarboð hjá grískri bekkjarsystur minni. Grískur matur að sjálfsögðu, hlakka til!

Við gerðum okkar besta í vikunni til að koma okkur á sænskunámskeið. Addi skráði sig á námskeið í háskólanum, sem er ætlað alþjóðlegum stúdentum en ég ætlaði að fara í SFI (sænska fyrir innflytjendur) og eyddi þar um tveimur klukkustundum sl. mánudag til að skrá mig og fara í stöðupróf. Ég var metin þannig að ég ætti ekki heima hjá þeim en ætti að fara í eitthvað sem heitir comvux sem er framhaldsskólasænska. Addi fór svo líka í SFI prófið og þau vildu taka við honum á efsta stiginu sem þau eru með, þannig að hann ætti að geta klárað SFI á ca. þremur mánuðum og á þá jafnvel rétt á bónusi, ef hann stendur sig vel. Þannig að niðurstaðan er sú að Addi fer í SFI en sleppir námskeiðinu í háskólanum. Ég reikna svo með að fara í comvux næsta haust - og vonandi Addi líka ef það hentar stundaskrá barnanna ;o)

Svo átti ég afmæli þarna einhverntíman á dögunum og afmælisdagurinn var sérdeilis frábær. Rannveig steikti amerískar pönnukökur í morgunmat handa okkur og svo tókum við Addi okkur frí frá lærdómi og öðrum skyldum og skelltum okkur í bæinn. Þar snæddum við dýrindis sushi og skoðuðum okkur svo um á Östermalm, en þar eru allar fínu snobbbúðirnar. Ég fékk ótrúlega rausnarlegar afmælisgjafir og er búin að vera dugleg að finna mér eitthvað fallegt fyrir peninginn sem frúin í Hamborg gaf mér - pantaði mér Volcano Vending sem kom hingað í vikunni, keypti kjól og stígvél, bauð familíunni út að borða á Vapiano, svo eitthvað sé nefnt. Addi gaf mér svo tvo miða á Coldplay tónleika 30. ágúst og ég er að spá í að bjóða honum að koma með mér. Svo kom ljóðabók Ingunnar Snædal inn um lúguna á afmælisdaginn, "Það sem ég hefði átt að segja næst". Flott ljóð og svolítil tenging við sveitalúðann í mér...

Svo verður partý hjá mér 11. febrúar og Rannveig ætlar að passa bróður sinn. Hún hefur svosem oft passað hann meðan við höfum skroppið yfir í næsta hús til að fara í ræktina, í búðina eða eitthvað svoleiðis en núna fær hún að prófa fyrir alvöru. Við verðum nú samt bara í næsta húsi þannig að það verður stutt að fara ef daman þarf aðstoð :o)