30 júlí 2012

Bambi litli

Við eigum heima í svo mikilli sveit hérna við ströndina. Við Addi sátum í rólegheitum úti á svölum í gærkvöldi. Það var rigning, myrkur og heitt te í hendi. Kemur svo ekki Bambi litli neðan frá strönd og röltir yfir götuna sem húsið okkar stendur við. Og að sjálfsögðu fór dádýrið litla yfir á gangbraut!

24 júlí 2012

Garðar og grænmeti

Eitt af því sem er svo frábært við Stokkhólm eru öll grænu svæðin. Hér eru svo ótal margir skemmtilegir almenningsgarðar og margir með frábærum leikvöllum og sumir bjóða bæði upp á strönd og leikvöll! Og við erum ekki að tala um litla leikvelli heldur risastóra með allskonar skemmtilegum tækjum, buslupollum, klifurgrindum, drullumalli, tennisvöllum, hjólum o.s.frv.

Eina sem þarf (ef maður vill sleppa við að kaupa rándýran mat og drykk í nágrenni garðanna) er að skipuleggja gómsætt nesti, pakka í körfuna og halda af stað. Í uppáhaldi hjá okkur eru Ciabatta brauð, rjómaostur, graflax og rucola, smjör, skinka, gúrka og paprika. Eitthvað heimabakað, vatn og ávaxtasafi, ávextir og jafnvel kjúklingasalat. Það tekur ekki langan tíma að útbúa gott nesti, bara smá skipulag og nennu - og er afskaplega budduvænt.

Um daginn fórum við í stóran garð á Kungsholmen, sem heitir Rålis (um 25 mínútna fjarlægð frá Hässelby strand). Þar hittum við vinkonu okkar og fimm ára frænda hennar. Að þessu sinni tókum við með okkur hamborgara, hamborgarabrauð og grænmeti og grillið okkar góða. Eftir leik á leikvellinum og sólbað á ströndinni grilluðum við og drukkum svolítið ískalt hvítvín með.

Efri myndin er stolin (við fórum ekki í strandblak) en sú neðri er alveg lögleg.


20 júlí 2012

Góðar heimsóknir

Tíminn líður eins og óð fluga! Þetta sumar hefur liðið ótrúlega hratt - en samt er svo mikið eftir ennþá! Við erum svo heppin að fá svona langt sumarfrí, njóta samvista við góða gesti og geta jafnvel skotið inn stöku ferðalögum.

Í lok júní komu systkini Adda og systursonur í heimsókn til okkar. Eins og yfirleitt þegar gesti ber að garði ákváðu veðurguðirnir að spara sólina en ausa rigningunni! Strákarnir fóru út að hlaupa á morgnana, Stokkhólmur var skoðaður, farið á söfn, við fórum út að borða, grilluðum á ströndinni, spiluðum, krakkarnir æfðu galdrabrögð...mjög notalegir dagar. Ég steingleymdi að taka myndir, en hér er ein af þeim systkinum fyrir utan höllina í Gamla Stan. 


Tveimur vikum síðar mætti svo Fanney Dóra á svæðið og stoppaði í nokkra daga, með tilheyrandi kósíheitum, spilamennsku og innkaupaferðum. Veðrið var svipað, skýjað, rigning og jafnvel þrumur og eldingar. Við náðum þó nokkrum sólargeislum, meðal annars þegar við fórum á Allsång á Skansen. Það er stórmerkilegt sænskt fyrirbæri, fastur liður á sumrin. Tugþúsundir skella sér á Skansinn á hverju þriðjudagskvöldi og syngja saman. Allsång er svo sent út í beinni útsendingu í ríkissjónvarpinu. Frægir og vinsælir skemmtikraftar láta sjá sig á Skansen og taka þátt í dagskránni, en þess má geta að þegar við fórum voru þar bæði Alexander Ryback og Loreen. Við sáum þó lítið af þeim, enda sáum við ekki sviðið þó svo að við hefðum mætt tveimur tímum áður en dagskráin hófst. Við létum það þó ekki á okkur fá, gæddum okkur á sushi og kósuðum okkur, hlustuðum svo, dilluðum okkur og sungum með því sem við kunnum (sem var kannski ekki mjög margt). Sænskara verður það ekki!

Þessi mynd er tekin þegar við mættum á svæðið. Ef við hefðum staðið kyrrar þarna í tvo tíma hefðum við kannski séð eitthvað þegar dagskráin hófst, en við nenntum því ekki...


Sushi á Skansen. Fólk horfði á okkur öfundaraugum...múhahhhaa

Rannveig var svolítið spennt yfir þessu öllu saman. Sérstaklega þegar Norlie och KKV stigu á svið. 

Hér er youtube klippa frá Allsång í fyrra, sýnir ágætlega stemminguna á Allsång. Og Måns hinn fagra sem stjórnar þessu. 




Ótrúlega gaman að hafa farið og upplifað þetta, ótrúlega furðulegt að fylgjast með Svíunum sem koma okkur yfirleitt fyrir sjónir sem týpurnar sem gera ekki neitt sem getur verið vandræðalegt eða orðið þeim til skammar, syngja fullum hálsi á Allsång! 

Yfir og út.

08 júlí 2012

Eurovision 2013

Svíar hafa ákveðið að halda Eurovision keppnina í Malmö! MALMÖ! Búið var að taka Globen frá fyrir íshokkíleik svo finna þurfti annað stað fyrir úrslitakeppni Júró, sem haldin verður 14.-18. maí 2013.

Malmö er auðvitað vel staðsett, stutt frá Kaupmannahöfn og meginlandi Evrópu. En mig langaði svolítið í Júró stemmningu hérna í Stokkhólmi. Við hefðum nú sjálfsagt aldrei farið á keppnina, enda kosta miðarnir frá um 5000 krónum - eða tæpar 100.000 íslenskar (jebb, það er strax farið að selja miða!). Það er samt hægt að horfa á generalprufuna fyrir um 2000 sænskar...



06 júlí 2012

Grillsumarið

Nú erum við búin að vera í fríi í mánuð! Eins og alltaf er tíminn otrúlega fljótur að líða og það verður örugglega kominn september áður en við vitum af!

Síðustu dagar hafa verið með eindæmum sólríkir og mildir. Við höfum haldið nokkuð til á ströndinni okkar þar sem krakkarnir geta leikið sér endalaust - og oft eru þau svo heppin að hitta félaga sína úr leikskólanum/skólanum þar.

Við höfðum nokkuð klórað okkur í hausnum yfir grillmálum hér í Svíþjóð. Það er stranglega bannað að vera með grill úti á svölum hér í húsinu (og húsunum í kring og líklegast svona almennt séð í fjölbýli hér í Stokkhólmi) en "bostadsforeningen" er með grillstað hérna í götunni. Hann þarf að panta með fyrirvara, þar er stórt kolagrill, svolítið af leiktækjum fyrir börnin og borð og stólar og svona huggulegt. Okkur fannst þó meira spennandi að geta grillað á ströndinni. Þar eru líka almenningsgrill, en þau eru afar óspennandi og skítug. Og það þarf heilt fjall af kolum til að hita þau.

Eftir að hafa spænt upp nokkur einnota grill fundum við svakalega sætt grill í stórmarkaðnum. Það er lillableikt og pínulítið, auðvelt að losa öskuna úr og ekkert mál að bera með sér hvert sem er og geyma úti á svölum eða í forstofunni.

Þannig að núna grillum við nánast á hverjum degi (oki ekki alveg en næstum því!)...pökkum drykk og mat ofaní bleiku kerruna okkar góðu, röltum á ströndina og sólum okkur, grillum, böðum, förum í strandblak eða badminton, lesum, spilum eða bara...erum!

Félagsskapur okkar á ströndinni er svo sérkapítuli útaf fyrir sig...meira um það síðar.

03 júlí 2012

Spilagleði




Ég vann eiginmann og dóttur í Phase 10 í kvöld. Sumir sólbrunnu svo ansi hressilega í dag.
Sjá betur hér:
Rannveig var komin með býsna myndarlegt sundbolafar...svo fór hún í öðruvísi flík í dag svo það snjóaði aðeins yfir efri hluta sundbolafaranna. Þetta kemur gríðarlega skemmtilega út.
Aloa Vera After Sun kemur sterkt inn eftir daginn.