31 desember 2011

Gleðilegt nýtt ár!

Fyrir ári síðan var kalkúnn í ofninum í Vanó, humarinn í vinnslu og frábærir gestir í húsinu. Á nýjársnótt var spáð í bolla og helstu þættir sem spáð var fyrir um eru í lokuðu umslagi ofaní skúffu hjá mér hérna á Maltesholmsvägen. "Opnist að ári" stendur framan á umslaginu. Ég veit ekki hvort ég opna umslagið í kvöld, þar sem spámaðurinn og flestir sem spáð var fyrir eru á Íslandi...en tíminn hefur svo sannarlega verið fljótur að líða! Í kvöld verður hvorki kalkúnn né humar en KS lambalæri og döðluterta eiga að koma í staðinn. Saknaðarkveðjur!

Gleðilegt nýtt ár og passið ykkur á flugeldunum! Hér koma svo nokkrar jólamyndir frá okkur.

Á aðfangadag var farið í hressingargöngu áður en Andrés önd byrjaði.

Jóhannes vildi ekki vera með á árlegu jólatrés- og pakkamyndinni. Eins og sjá má er tréð ekki sérstaklega stórt og var því bjargað með því að klæða kassa inní efni og hækka tréð upp um nokkra sentimetra. Sama hugmynd og að setja litlar konur í háa hæla, þá lítur allt betur út!


Fallegar Lín jólasvuntur. Ekki þó Lánasjóðsins sem við fullorðna fólkið treystum á þessa dagana heldur Lín design.

Jóladagur. Nammi.  

Fyrsta skautaferðin, Vasaparken 29. des. Rannveig datt aldrei en Jóhannes var svolítið á hausnum.

28 desember 2011

Næst verður hamborgarhryggur

Nýtt ár nálgast, jólin búin að vera notaleg í litla kotinu okkar og enn er nóg eftir af jólafríinu! Jólasteikin tókst með ágætum, ég sauð sænska skinku 22. Desember, smurði hana með sinnepsblöndu og skellti svo brauðraspi ofaná og inn í ofn í smá stund. Svona eins og google sagði mér að Svíarnir gerðu. Kjöthitamælirinn stríddi mér aðeins, ætli ofninn okkar sé ekki bara einum of tæknilegur fyrir mig. Hann er með innbyggðum kjöthitamæli sem ég kann ekki nogu vel á, allavega þá mátti steikin ekki þurrari vera en slapp svosem alveg. Á Þorláksmessu sauð ég hangikjötið góða og svo gerðum við obbó góða heimabakaða pizzu um kvöldið. Við höfum búið okkur til þá hefð að panta Greifapizzu á Þorláksmessukvöld og skreyta svo tréð. Hér er víst enginn Greifi svo við gerðum bara okkar eigin pizzu, reyndar eftir að við skreyttum tréð. Eða tókum það upp úr kassanum, það kom með skrauti og seríu og öllu saman, 90 cm. kríli. Aðfangadagur rann upp, snjórinn nánast alveg farinn og milt veður (annað en heima!). Jóhannes fékk möndluna og fékk tvö jójó að launum. Hann gaf Rannveigu annað þeirra og svo hafa þau æft sig svolítið að spinna. Addi er ótvíræður jójó meistari heimilisins og reynir að kenna þeim eitthvað. Við náðum ágætis útivist á aðfangadag og tókum svo upp þá sænsku hefð að horfa á Andrés önd í sjónvarpinu kl. 15 á aðfangadag. Ekkert stress, enda skinkan til og bara eftir að sjóða kartöflur, búa til sósu og skera kvikindið!

Í pökkunum leyndist alls konar sniðugt og skemmtilegt og erum við mjög þakklát fyrir allar gjafirnar sem við fengum. Bækur, ullarsokkar á línuna, vettlingar, föt á börnin, jólaskraut, tónlist, Scrabble, Alias, svuntur og alls konar fleira skemmtilegt. Scrabblið er spil sem okkur hefur langað í mörg mörg ár en ekki eignast. Nú liggur hins vegar við hjónaskilnaði vegna spilsins. Við gáfum krökkunum skauta og planið er að rúlla í bæinn á morgun og hjálpa þeim að reima á sig skautana. Við Addi ákváðum að kaupa okkur skauta líka í jólagjöf, en eigum reyndar eftir að kaupa þá. Svo er planið að vera afar dugleg að fara á skauta. Það eru tilbúin skautasvell á að minnsta kosti þremur stöðum niðri í bæ, opin öllum og kostar ekkert. Það er líka skautahöll í göngufæri frá okkur. Þetta verður samt örugglega mjög fyndið og alveg efni í falda myndavél, enda er Rannveig sú eina í fjölskyldunni sem kann að standa á skautum. Ennþá!

Um áramótin ætlum við að hafa íslenskt lambalæri sem mamma sendi okkur og írönsk bekkjarsystir mín verður í mat hjá okkur. Svo er spurning hvort við sjáum einhverja flugelda hér í Hässelby...

Yfir og út!

21 desember 2011

Bíddu er strax kominn 21. desember!!!

Finnst eins og ég hafi sett myndböndin af drengnum inn í gær! Lítið að frétta, jólin nálgast og helsta áhyggjuefni mitt er jólasteikin. Var orðin býsna góð í að elda hamborgarhrygg en svoleiðis fæst nú víst ekki hér eða að minnsta kosti höfum við ekki rekist á svoleiðis ennþá. Okkur langaði líka svolítið að profa að taka Svenson á þetta og hafa sænska jólasteik. Samt erum við ekki tilbúin að fara alla leið og bjóða upp á hlaðborð fyrir fjóra með litlum pylsum, mörgum síldartegundum, kjötbollum og saltaðri svínasteik með sinnepi, svo fátt eitt sé nefnt. Smakkaði svínasteikina hjá bóndanum áður en við keyptum hana, hún var góð og minnti á hamborgarhrygg og því var ákveðið að elda hana eins og Svíarnir gera en hafa hamborarhryggsmeðlætið. Það gæti klikkað svakalega en það gæti líka slegið í gegn. Ef allt bregst fáum við okkur bara kornflex og mjólk.

14 desember 2011

Og annað...

Langaði að prófa að setja inn video af Jóhannesi litla í söngstuði...

Veit ekki hvort þetta virkar, en gjörsovel.

Santa Lucia

Smá myndasyrpa af Lúsíunni síðan í gær!

Rannveig Katrín var Lúsía með fimm kerti á höfðinu.

Stóð sig með prýði að sjálfsögðu :)


Sýningunni lokið og Lúsía stormar út með kertavax í hárinu

Jóhannes í piparkökufötunum sínum, tilbúinn að slá í gegn með leikskólavinunum.


Eitthvað varð hann nú feiminn þegar herlegheitin byrjuðu og allar söngæfingarnar skiluðu ekki orði upp úr honum. Hann var svona meira í skoða sig um og gretta sig og geifla.

Svo var "fika" á eftir, vinirnir vildu endilega stilla sér upp. Faez og Jóhannes með djús og piparkökur.

Hey då í bili!

12 desember 2011

Munnræpa

Er eitthvað að frétta? Veit ekki. Ég er komin í jólafrí. Slapp held ég ágætlega frá prófdeginum/vörninni í dag. Addi fer í jólafrí á fimmtudaginn og krakkarnir eitthvað svolítið seinna. Bekkurinn minn átti saman skemmtilega jólastund í dag, ásamt kennurunum og starfsfólki deildarinnar - allir komu með rétti á sameiginlegt hlaðborð og margir komu með eitthvað klassískt úr þeirra heimahögum. Það var reyndar Bandaríkjamaður sem kom með nokkrar flöskur af 12% jólaglöggi, sem sumar stelpurnar drukku heil ósköp af án þess að vita af áfengismagninu. Pínulitlu asísku bekkjarsystur mínar urðu ansi hressar sko! Ég sullaði í skyrköku sem virtist renna vel í liðið, maður verður að reyna að leggja sitt af mörkum við að markaðssetja þetta skyr fyrst það er selt hér.

Jóhannes Árni sló í gegn síðastliðinn föstudag. Ég fór með hann í síðbúna fjögurra ára skoðun og það er skemmst frá því að segja að hjúkkan þurfti að stoppa hann í masinu. Hann talaði og talaði og talaði og var bara óstöðvandi barnið. Sagði henni allt um tannlækninn sinn á Íslandi, vini sína, slökkviliðsmenn, sýndi henni hliðar saman hliðar hopp (óumbeðinn) og skellihló svo og gerði mikið að gamni sínu. Ég átti erfitt með að halda niðri í mér hlátrinum stundum. Hann leysti allar þrautirnar sem fyrir hann voru lagðar og fannst þetta nú lítið mál. Svei mér þá ef 4ra ára skoðun hér er ekki talsvert auðveldari en heima. Það var allavega ekkert spurt út í olnboga eða ökkla...og já, strákurinn er orðinn rúmlega 107 cm og 19 kg. Ekkert smábarn lengur. Svo fékk hann jólaklippinguna í kjölfarið, kjaftaði þar nonstop og sagði klipparanum meðal annars að hann elskaði hunda og ketti. Og að mamma hans talaði bara íslensku.

Ekkert skrítið að maður sé stundum hálf feginn þegar klukkan slær átta og þögnin færist yfir kotið okkar...

Lúsía í fyrramálið, hjá Jóhannesi kl. 7:30 og Rannveigu 8:30.

zzzzzzz

07 desember 2011

Kertaljós og klæðin rauð

Nú hefur aðventan breitt sig yfir okkur með tilheyrandi notalegheitum; kertaljósum, fyrstu snjókornunum, frosti og heitu súkkulaði. Kaupæði og jólastress fer algjörlega framhjá okkur, á póstkassanum okkar stendur „ingen reklam“ og við fáum enga jólabæklinga eða auglýsingar um jólagjafir ársins. Hóflega skreyttir gluggar á næstu húsum lýsa upp skammdegið en enginn þeirra æpir á okkur með fyrirferðamiklum blikkljósum og enn höfum við ekki séð nein rafmagnsklædd hús. Enginn Raggi Sverris í hverfinu okkar sumsé. Hvort ástæðan er hræðsla Svíanna við ofurrafmagnsreikning eða einfaldlega mínímalískari skreytingahefð en heima á Íslandinu góða skal ósagt látið. Áreitið er allavega í lágmarki og það er vel. Við keyptum aðventuljós og jólastjörnu og er það eina skrautið sem við höfum sett upp í tilefni jólanna, að minnsta kosti enn sem komið er. Inni á skáp er þó hálfskreytt piparkökuhús sem verður sett upp og tilkoma þess mun væntanlega minna okkur enn betur á komu jólanna. Rannveigu finnst við heldur róleg í jólaundirbúningnum og telur nauðsynlegt að skella upp nokkrum seríum en við reynum að spyrna við fótum. Við einsettum okkur að sanka ekki að okkur miklu dóti meðan á dvöl okkar stendur, út fórum við með nokkrar ferðatöskur og við ætlum ekki heim í gámi. Svo við höfðum hugsað okkur að nota það sem hendi er næst og sleppa því sem ekki fæst. Sjáum hvað setur. Við erum nokkuð viss um að jólin komi samt og verði afar gleðileg. Jóladiskur KK og Ellen gægðist upp úr böggli um daginn, "opnist fyrir jól, gott með kaffinu" stóð á merkimiðanum. Og það er alveg satt.

Litlu jólapakkarnir sem við keyptum hafa nú allir farið af stað heim, ég er hérumbil komin jólafrí og ætla fljótlega að gera jólahreint í íbúðinni okkar á Maltesholmsvägen. Við eigum eftir að finna okkur lítið og sætt jólatré en jólasteikurnar kúra inni í ísskáp. Það er ákveðið öryggistilfinning í því. Skagfirskt hangikjötslæri bíður eftir að verða soðið á Þorláksmessu og hamingjusama svínslærið sömuleiðis. Mamma sendi okkur fulla ferðatösku af góðgæti og jólapökkum og upp úr henni kom þetta dýrindis hangikjöt. Tóta bjargaði okkur svo um ORA grænar baunir, rauðkál er nú víst til hér í Stokkhólmi og allt annað sem við þurfum, meira að segja hrísgrjón og möndlur í möndlugrautinn og hægt er að kaupa íslenska skötu og malt og appelsín í einni búð í suðurhluta Stokkhólms. Hamingjusama svínslærið var keypt á jólamarkaði á Skansinum af krúttlegum ungbónda. Hann leyfir grísunum sínum að hlaupa um hagana, þeir fá bara lífrænt fóður og deyja svo í heimahögunum, afskaplega glaðir. Ungbóndinn slátrar þeim nefnilega sjálfur.

Svo er það Lúsían sem haldin er 13. desember. Mikil hátíð sem krakkarnir eiga báðir að taka þátt í. Rannveigu var boðið að vera sjálf Lúsían, sem hún þáði með bros á vör. Hún mun vera með gylltan borða um sig miðja, kórónu á höfði með fjórum kertum (og kertavax í hárinu?) og svo verður sungið. Meira veit ég ekki. Nema að við þurftum að kaupa hvítan léreftskirtil og hann þarf að stífpress og gera sem fallegastan. Strákarnir eru víst ekki mikið fyrir hvíta kirtilinn, hann þykir stelpulegur, og þeir eru yfirleitt annað hvort í jólasveinabúningi eða klæddir sem piparkökur. Jóhannes Árni fékk brúnan piparkökubúning og drengurinn er að farast úr spenningi að fá að fara í honum í leikskólann og syngja: „vi kommer, vi kommer från pepperkake-laaaand...“. 

 Svona er jólaundirbúningurinn á Maltesholmsvägen – ég er hérumbil komin í jólafrí en Addi greyið fer í frí viku á eftir mér. Ef hann verður heppinn og ég í stuði verð ég búin að þrífa allt og pússa þegar hann losnar úr prísundinni. Svo kósum við okkur fram að jólum, búið að senda allar gjafir heim og bara rólegheit og skemmtilegt stúss eftir, baka eitthvað smávegis og föndra svolítið jólaskraut. Hjónaferðir í bæinn að skoða í skemmtilegar búðir og rölta um fallegar götur í miðbænum, jólaglögg og frostbitnar kinnar. Ætli við skrifum nokkuð á jólakort þetta árið, látum nægja að senda út jólakveðjur á blogginu og á facebook að þessu sinni. Gerum bara enn betur á næsta ári!






06 desember 2011

Guðmundur á Mýrum

Við vorum svo heppin að fá góðan gest um daginn. Fanney Dóra kom fljúgandi yfir hafið og eitt af því undursamlega sem hún skyldi eftir var síðbúin afmælisgjöf handa Jóhannesi Árna. Upp úr pakkanum kom frábær ljóðabók sem öll fjölskyldan hefur skemmt sér við síðustu daga. Um er að ræða bókina "Óðhalaringla" eftir Þórarinn Eldjárn, en hún er endurútgáfa á þremur ljóðabókum eftir Þórarinn (Óðfluga, Heimskringla og Halastjarna). Myndskreytingarnar eru eftir Sigrúnu Eldjárn og ljóðin eru svo full af myndmáli að það hefur sennilega verið frábærlega skemmtilegt að teikna myndirnar við ljóðin. Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki litið í þessar bækur áður, því miður!

Jóhannes hefur svo gaman af því að láta lesa fyrir sig ljóðin, svo spáum við og spögúlerum og æfum okkur að ríma. Uppáhalds ljóðið hans er um hann Guðmund á Mýrum.


Bókagleypir

Hann Guðmundur á Mýrum borðar bækur,
það byrjaði upp á grín en varð svo kækur.
Núorðið þá vill hann ekkert annað,
alveg sama þó að það sé bannað.

Hann lætur ekki nægja kafla og kafla,
hann kemst ekki af með minna en heilan stafla.
Hann er víða í banni á bókasöfnum,
en beitir gerviskeggi og fölskum nöfnum.

Hann gleypir í sig feitar framhaldssögur
og fær sér inn á milli stuttar bögur.
Hann telur víst að maginn muni skána
í mörgum við að bíta í símaskrána.

Hann segir: Þó er best að borða ljóð,
en bara reyndar þau sem eru góð.


Jóhannes er ekki byrjaður í bókunum ennþá en elskar súkkulaðisnúða....

04 desember 2011

Vöðvabólga og vökunætur...

Við Addi erum í óðaönn að reyna að klára lokaritgerðir í kúrsunum okkar. Ég er í kúrsi sem heitir Educational Planning og námsmatið byggist eingöngu á stórri lokaritgerð. Fleiri einingar en BA ritgerðin mín sko...Sama hjá Adda í kúrsi sem heitir World Orders.

Ég er að gera ESD (Educational Secter Diagnosis) á hinu ímyndaða landi NOVANIA, land sem UNESCO hefur búið til að "aflað upplysinga" um, sem ég nota svo til að byggja greiningu mína á og lausnir við vandamálum í þessu blessaða landi. Þarna er allt í steik svo ekki sé meira sagt og ég þarf að velja mér fimm megin vandamál til að greina í ræmur og koma með lausnir við. Þetta er svona æfing fyrir framtíðar vinnu mína hjá UNESCO sem Educational Planner (afsakið, veit ekki hvaða íslenska orð ég ætti að nota...).

Addi er að gera framtíðarspá, en hann á að meta hvernig skipulagið verður í heiminum 2060. Hvaða ríki eru stærst og áhrifamest o.s.frv. Hver verður staða Bandaríkjanna 2060? En Asíuveldanna Kína og Indlands? Hefur Afríka náð að komst til áhrifa?

Á mánudaginn kl. 9 skilar Addi sinni inn og ég fyrir kl. 10 sama dag.

Það er alltaf hægt að sofa seinna...

Þetta tekur á taugarnar