22 júní 2012

Lífið í skemmtigarðinum!

Við höfum virkilega notið lífsins síðustu daga! Það þýðir ekkert að láta ónýta sumarbústaðaferð hafa áhrif  á góða skapið! Við fögnuðum 17. júní ásamt fleiri Íslendingum í Stokkhólmi, m.a. hinu ofurhressa diskóteki Dollý! Á sjálfan þjóðhátíðardaginn fengum við góða fjölskyldu í heimsókn frá Lundi og stoppaði hún hjá okkur í sex daga - eða fram að hádegi í dag. Það var ýmislegt brallað, bæði saman og í sitthvoru lagi.

Rannveig ákvað að sjálfsögðu að mæta í lopapeysunni í íslenska partýið...

 Diskotekið! Macarena og Blár ópall, hókí pókí og Súperman. Bara nefndu það, það var spilað!


Rannveig fánum prýdd

Uppáhálds sænski Íslendingurinn okkar mætt á svæðið.

Félagarnir Kiljan og Jóhannes. Ávallt hressir.


Við nýttum okkur það að vera með bíl og keyrðum til Eskilstuna í Parken Zoo, sem er mjög fínn dýragarður. Hann hefur þá sérstöðu að vekja athygli á dýrum í útrýmingarhættu og það eru nokkuð mörg dýr í garðinum sem teljast þar í flokki. Meðal annars sáum við tignarlegt kattardýr á stærð við hlébarða, sem er víst einn af þrjátíu slíkum skepnum í heiminum. Eftir dýragarðsferðina keyrðum við áfram hringinn í kringum Mäleren. Fórum í gegnum gull gull fallegt sund/þorp, Kvicksund, í gegnum Västerås og svo heim. 






Á þriðjudaginn fórum við svo öll á Skansinn, kíktum á dýrin og fengum ís í góða veðrinu. 



Síðasti dagurinn okkar með bíl var á miðvikudaginn og við keyrðum svolítið um. Fórum út á Ekerö og skoðuðum okkur um. Ekerö er hluti af Stokkhólmi og sjáum við þær eyjar út um gluggann hjá okkur. Ýmislegt fallegt að sjá þar. Og þetta kaffihús sem var í leiðinni second hand markaður. Ég keypti Kalle Anka möppu frá 1985 handa Rannveigu (hún hefur ekki verið viðræðuhæf síðan).



Jóhannes vill gjarnan vera með bindi þegar hann fer út úr húsi. Svona í alvörunni sko.

Komum við í sundpolli í Vällingby á heimleiðinni þar sem krakkarnir böðuðu sig áður en við fengum dýrindis lax a la Hreinsi og Helga.

Fimmtudagur var Tívolí (Gröna Lund), þar sem stelpurnar fengu tívolí-armband svo þær kæmust í eins mörg tæki og þær vildu, eins oft og þær vildu. Svolítill æsingur þeim megin - en við fullorðna fólkið eyddum deginum með yngri deildinni í yngri deildar leiktækjum. Frábær dagur í góðu veðri. 




Þessi tvö eru bara of mikil krútt. 

Við kvöddum gestina okkar í morgun eftir frábæra daga. Í dag er midsommarafton - en meðan Íslendingar velta sér upp úr dögginni týna Svíar blóm, borða síld og jarðarber, kveikja eld, dansa í kringum stóran blómakross, syngja og umfram allt detta íða! Það eru partýlæti hérna út um allt (og þá er nú mikið sagt því við búum í hálfgerðu eldriborgara hverfi!) og ströndin var full af fólki í dag. Hefð er fyrir því að týna blóm, búa til krans til að bera á höfðinu og svo á að sofa með blomin undir koddanum, en þau eiga að vera af sjö sortum. Framtíðar makinn á þá að koma til manns í draumi...

Heimasætunni fannst þetta svolítið spennandi og við mæðgur fórum út í kvöldsólinni og týndum blóm. Annar vöndurinn liggur undir kodda en hinn er í vasa á eldhúsborðinu.


Á mánudaginn er svo von á þremur góðum gestum sem stoppa hjá okkur í fjóra daga :o)

18 júní 2012

Köngulær í Vedum

Við lögðum af stað frá Stokkhólmi fyrir hádegi á fimmtudaginn, 14. júní. Vorum spennt fyrir komandi ferðalagi, stoppuðum fyrst í Södertälje og endurheimtum sundbol sem Rannveig hafði gleymt þar tveimur vikum fyrr, borðuðum hádegismat í Eskilstuna - bær sem við urðum svakalega skotin í - og héldum svo áfram í bústaðinn.

Í stuttu máli sagt var þessi bústaður - sommartorp Vedum - alveg hræðilegur. Jú við vissum að við værum að fara í gamalt og vatnslaust hús, en það sem við vissum ekki var að húsið hefði ekki verið þrifið í marga marga mánuði og hefði verið hertekið af köngulóm, skít og sóðaskap. Fyrir það fyrsta var eigandinn með sitt eigið drasl þarna út um allt, peysur á snögum (auðvitað þaktar vefjum), þrjú eldstæði voru þarna, full af drasli og viðbjóð og einhverju sem ég vildi ekki alveg vita hvað var...

Rúmin voru afskaplega ógirnileg, eldgömul og ég sá fyrir mér allskonar kvikindi undir og inní dýnum...

Eftir að hafa eytt nokkrum tímum í að ryksuga burtu köngulóarvefi og kvikindi (með nánast ónýtri ryksugu...) og m.a. glaðst yfir fundi þúsundfætlu á stofugólfinu og köngulóarvefjum í hári (svona til að halda andlitinu fyrir börnin) gáfumst við hjónin upp og ákváðum að fara sem lengst burt frá þessu húsi strax í bítið morguninn eftir. Bóndinn fékk klígu við að borða banana inni í stofunni og ég við að borða jógúrt upp úr plastmáli, með skeið að heiman...

Á föstudagsmorgni upp úr kl. 9 vorum við lögð af stað, fórum í Skara sommarland sem var Æ Ð I S L E G T. Áttum þar frábæran dag í ágætis veðri, fámennt var í garðinum svo við sluppum við allar raðir og gátum farið endalausar ferðir í tækjunum. Jóhannes var ekki hræddur við neitt og fór meira að segja í stærsta rússíbanann í garðinum (já, hann var orðinn nógu stór...). Rannveig var á milljón allan tímann og prófaði tvær stórar rennibrautir í vatnsleikjagarðinum líka. Svo var bara tíminn úti, við hefðum alveg getað verið lengur!

Komum aftur heim til Stokkhólms á föstudagskvöldið og fengum svo góða gesti frá Lundi í gærkvöldi, sem verða hjá okkur fram á föstudag.

Nokkar myndir úr ferðalaginu stutta, gjörsosvel.




Börnin hress og kát með jammí pizzu í Eskilstuna.


Rannveig alveg rosalega hress að vera farin að nálgast litla kotið okkar...átti svo eftir að verða fyrir talsverðum vonbrigðum!


Undir borðstofuborðinu

Í stofunni, allir veggir og loft þaktir vefjum og dauðum/lifandi köngulóm.

Jebb.

Komin í fallturn í Skara. Sá stutti var hvergi banginn.

Þetta tæki þotti bara alls ekkert nógu spennandi, fór ekki nóg hratt!

Rannveig og Addi háðu harða baráttu í klessubílunum.

Og Jóhannes keyrði klessubílana mjöööög oft, það voru svo fáir að keyra. Skemmti sér afar vel.
Svo tók ég víst ekki fleiri myndir í garðinum en það var farið í öll tæki sem hægt var að hugsa sér!

11 júní 2012

Innate purity?

Ég vil gjarnan trúa á það góða í fólki. Ég treysti fólki til að breyta rétt gagnvart öðrum og legg mig fram um að gera það sjálf. Stundum fær maður skell sem verður til þess að trúin á það góða í öðrum dvínar svolítið.

Rannveig var spennt þegar hún kvaddi okkur í dag - en í morgun átti hún að taka þátt í lokahluta sænskrar þríþrautar fyrir 4. bekk, þar sem þeir sem vilja láta taka tímann á sér í 200 m sundi, 1,25 km hlaupi og 5 km hjólreiðum og fá hann skráðan. Í dag átti hún sumsé að byrja daginn á því að hjóla 5 km á tíma.

Hjólið hennar stóð í hjólastandi hérna fyrir utan, læst að sjálfsögðu. En þegar hún kom út mætti henni bara lásinn, sem hafði verið klipptur í sundur. Fína rauða hjólið sem hún keypti sjálf í fyrrahaust er sumsé týnt og tröllum gefið.

Við vissum svosem alveg af því að einhverjum gæti dottið í hug að stela hjólinu. En ég trúði því bara ekki, að einhver færi að hafa fyrir því að klippa á lásinn á stelpuhjóli, sem stæði þarna á milli tveggja húsa. Og þar af leiðandi skráðum við ekki einu sinni hjá okkur númerið á hjólinu, ég man ekki hvaða tegund það var, við eigum ekki mynd af því og eigum því ekki létt með að sanna eignarrétt okkar yfir því, enda keyptum við það notað.

Af hverju settum við það ekki inn í hjólageymslu í gærkvöldi? Af hverju vorum við ekki búin að skrá hjá okkur upplýsingar um það? Af hverju gerir maður ráð fyrir því að fólk breyti rétt en ekki rangt?

Þetta er bara hjól, kostaði ekki mikið og svosem alltaf hægt að kaupa nýtt. Mér finnst ekki verst að missa hjólið - heldur að einhver hafi í alvörunni ákveðið að hafa fyrir því að mæta með klippur í rólegu götuna okkar og stela barnahjóli í skjóli nætur til að selja fyrir eitthvað smotterí.

07 júní 2012

Sænski þjóðhátíðardagurinn

6. júní er þjóðhátíðardagur Svía, en Gustav Vasa varð konungur Svía 6. júní 1523. Lengi hefur verið haldið upp á þennan dag, fyrst sem fánadag og frá 1983 sem þjóðhátíðardag (nationaldag). Það eru þó ekki nema örfá ár síðan dagurinn varð "rauður" dagur, eða lögboðinn frídagur. Svíar virðast ekki taka þjóðhátíðardaginn sinn jafn hátíðlega og t.d. nágrannar þeirra Norðmenn, eða jafnvel Íslendingar.

Við ákváðum að taka þennan dag frekar hátíðlega, gerðum góðan morgunmat með nýbökuðu brauði, pönnukökum og fleira gúmmelaði og svo röltum við/hjóluðum í Hässelby slott, þar sem var dagskrá allan daginn og tívolí.


Jóhannes kann vel að meta pönnukökur með osti í morgunmat.


Feðgarnir fyrir utan hverfis-höllina okkar. Höllin er rekin sem hótel og veitingastaður í dag.

Það er afar fallegur garður í kringum höllina, byggður upp á 18. öld og nýlega verið lagaður til að þeirri mynd. Það er ekkert hver sem er sem klippir runnana þarna!


Rannveig skemmti sér í tívolíinu með vinkonum sínum. Þær fóru m.a. í þetta tæki og héngu á hvolfi í dágóða stund í hverjum hring. Okkar dömu þótti þetta eiginlega einum of... 

Nýkomin úr tryllitækinu. Orðlaus.

Jeppasafarí a la Jóhannes

Og þjóðhátíðarkaka :o)


06 júní 2012

Skolpolis

Einhverntíman minntist ég á að Rannveig væri búin að landa sinni fyrstu vinnu hér í Svíþjóð, sem skólalögga. Nú hefur undirbúningur staðið yfir og hún fer að verða tilbúin að takast á við þetta verkefni - sem hefst í haust.

Nemendur sjá um að standa vaktina á gangbrautunum í nágrenni skólans, í stað fullorðinna gangbrautavarða/skólaliða. Starfið er í boði fyrir 5. bekkinga (sem er 6. bekkur á Íslandi) og sækja þarf um skriflega og fá meðmæli kennara. Nemendur þurfa að hafa toppmætingu (stundvísi) og hafa stundað námið vel. Rannveig sótti um, fékk flott meðmæli frá kennaranum sínum og hefur staðið sig afar vel í skólanum í vetur. Hún fékk vinnuna og hefur verið starfsmaður í þjálfun undanfarna mánuði.

Þjálfunin hófst með sameiginlegri skemmtun allra skolpoliser í Stokkhólmi fyrir nokkrum vikum. Goðið hennar Rannveigar (og flestra krakka á hennar aldri), Danny Sucedo, kom og söng fyrir krakkana og spjallaði við þau. Hann lenti í öðru sæti hérna í Melodifestivalen í ár og í fyrra (á eftir Loreen og Eric Saade). Svo hafa verið fundir fyrir og eftir skóla, fræðsla, próf og verklegar æfingar. Þær voru í síðustu viku, en þá átti Rannveig að mæta á sína gangbraut og fylgjast með núverandi 5. bekkingum að störfum. Daginn eftir var skipt um hlutverk og 5. bekkingarnir fylgdust með verðandi skólalöggum og gáfu góð ráð.

Rannveig fékk sérstakan búning og hér má sjá hana á leið í starfsþjálfun, eldsnemma að morgni:

02 júní 2012

Þakklæti

Við fjölskyldan erum svo ótrúlega heppin að vera umkringd frábæru fólki. Það er bara einhvernvegin alltaf svoleiðis, hvort sem við erum heima eða hér í Stokkhólmi!

Á versta tíma í vetur hætti tölvan okkar að virka og leit út fyrir að vera hrunin! Við kunnum lítið á svoleiðis aðstæður, hringdum í umboðið og það eina sem þeir gátu gert (þó hún væri í ábyrgð) var að senda hana til Þýskalands í skoðun, sem hefði örugglega tekið að minnsta kosti tvær vikur - miðjum ritgerðarskrifum! Áður en við náðum að klóra okkur í hausnum var bekkjarsystir mín búin að redda okkur. Maðurinn hennar fór yfir tölvuna, eyddi út ólukkans vírusnum sem var í henni og bjargaði því sem bjargað varð. Setti svo upp nýja vírusvörn og allt saman og neitaði að taka krónu fyrir.

Á svipuðum tíma var drengurinn orðinn alveg fatalaus. Hann hefur stækkað mikið og átti allt í einu engar buxur. Bekkjarsystir mín, sem á 6 ára dreng, hefur örugglega fengið hugboð því hún spurði mig upp úr þurru hvort mig vantaði buxur á Jóhannes - og færði mér svo sjö nánast ónotaðar buxur! Bæði leikskólabuxur og sparibuxur. Ekki nóg með það, heldur kom líka fatapoki frá vini hans Jóhannesar sem er svolítið stærri en hann - stuttbuxur, peysur, bolir og buxur. Fatavandamálið bara úr sögunni og ég gat tekið frá fötin sem voru orðin vandræðalega lítil á hann.

Ég er komin í afleysingavinnu á leikskóla, sem munar ótrúlega miklu fyrir okkur. Það er ekki bara gott að fá smá aukapening heldur eigum við rétt á því að Försäkringskassinn taki við okkur nú þegar annað okkar er farið að borga skatta í Svíþjóð. Tinna vinkona okkar var svo elskuleg að redda mér þessari vinnu - og ég fæ að æfa mig í sænsku í leiðinni.

Í gær fékk ég að vita hver yrði leiðbeinandinn minn í MA ritgerðinni. Okkur er úthlutað leiðbeinanda og fáum ekki að velja sjálf. Ég var heppnust í heimi! Fékk besta leiðbeinanda sem hægt er að hugsa sér. Hann er sænskur, reyndasti prófessorinn í deildinni og leiðbeinir ekki mörgum MA nemum (meira með PhD nema) - við erum t.d. bara tvær sem fáum að vera hjá honum næsta vetur. Enda er hann farinn að nálgast sjötugt og er eiginlega kominn á eftirlaun.

Þannig að hér er bara hamingja þrátt fyrir 6°, rigningu og rok.