22 nóvember 2012

Keane

Í síðustu viku fórum við Addi á tónleika með bresku poppurunum í Keane. Við hlustuðum mjög mikið á þá á tímabili, sérstaklega seinni árin okkar í Reykjavík. Og þá sérstaklega í Renault nokkrum Megane á ferðalögum okkar milli höfuðborgarinnar og Akureyrar.

Það var mjög gaman að sjá og heyra í þeim og skemmtum við okkur mjög vel. Tónleikarnir voru haldnir á tónleikastað sem heitir Münchenbryggeriet og er ekkert svakalega stór (sjá mynd!). Við stóðum upp við ljósa- og hljóðbúrið allan tímann og ég fylgdist að sjálfsögðu spennt með ljósamanninum. Gat séð play-listann hjá honum og var farin að kunna á ljósatakkana svona undir lok tónleikanna... ;o)

Ég hlustaði þónokkuð á nýjustu plötuna þeirra vikurnar fyrir tónleikana og einnig rifjuðum við hjónin upp eldri lög hljómsveitarinnar, svo við gætum sungið með! Þetta voru þrusu góðir tónleikar, söngvarinn kom skemmtilega á óvart svona live, ekkert mas og þras og öll skemmtilegustu lögin spiluð. Gallinn (ef er hægt að kalla það galla?!) við þessa hljómsveit er hvað lögin þeirra eru einsleit. Svona meira en gengur og gerist, hef ég á tilfinningunni. Að öðru leyti - frábært að komast saman út úr húsi, hlusta á góða tónlist, fá sér göngutúr í nóvemberkuldanum og ná meira að segja að rölta um aðrar götur en vanalega!

16 nóvember 2012

Þolinmæðin þrautir vinnur allar

Það tekur allt sinn tíma hér í Svíþjóð. Það má þó örugglega finna dæmi um álíka seinagang víða en við höfum að minnsta kosti ekki kynnst þessu áður.

Tökum nokkur dæmi.

Eins og áður hefur komið fram þurftum við að berjast við kerfið í eitt ár áður en við komumst inn í Försäkringskassan og gátum fengið sjúkratryggingu hér í landi og barnabætur. Það gerðist ekki fyrr en eftir að við höfðum bæði fengið okkur vinnu með skólanum og eftir að hafa hringt, vælt, sent ótal bréf, sent launaseðla, ráðningarsamninga, fleiri launaseðla og svo framvegis.

Við erum enn ekki farin að fá húsaleigubætur, en við hófum það umsóknarferli í byrjun september (enda er ekki hægt að fá húsaleigubætur fyrr en Försäkringskassan hefur samþykkt mann). Allar umsóknir þurfa að vera á pappír og sendar í pósti. Svo senda þeir manni bréf í pósti með beiðni um aukaupplýsingar ef eitthvað vantar. Í okkar tilfelli vantaði staðfestingu um leyfi leigusalans frá bostadsföreningen til að mega leigja íbúðina út. Hún átti slíka staðfestingu bara í tölvupósti og ég sendi það áfram, í tölvupósti. Ég fékk svo staðfestingu á því að tölvupósturinn frá mér hefði komist til skila á réttan aðila, en þar sem þessi tölvupósts-staðfesting frá leigusalanum var ekki nóg vorum við beðin um að senda formlega staðfestingu, undirritaða, á pappír. Og sú beiðni kom að sjálfsögðu ekki í tölvupósti heldur fengum við bréf þess efnis í gær. Allt tekur þetta svo langan tíma því tölvupóstssamskipti virðast ekki vera til - þannig að í staðinn fyrir að ýta á reply og segja: nei heyrðu þetta er ekki nóg - er sent út bréf, með tilheyrandi kostnaði og pappírseyðslu, til að láta mann vita.

Þess má geta að í október í fyrra birti ég blogg á síðunni þar sem ég kvartaði yfir því hversu langan tíma allt tæki hérna, við værum hvorki farin að fá barna- né húsaleigubætur. Little did I know!

Rannveig Katrín var svo óheppin um daginn að gleyma símanum sínum í lestinni. Nánar tiltekið 27. október. Hún gleymdi honum hérna í Hässelby Strand, sem er endastöð. Lestarstjórinn gengur alltaf í gegnum lestina á endastöðvum og hirðir upp ef eitthvað hefur orðið eftir. Sem betur fer fann hann eða einhver önnur góðhjörtuð manneskja símann og fann mömmu (mig) í simaskránni hennar og sendi mér sms, þar sem kom fram að síminn hefði fundist í lestinni og ég ætti vinsamlegast að hafa samband við hitte gods. Hitte gods er staðurinn þar sem öllu draslinu úr almenningssamgöngunum er safnað saman svo fólk geti nálgast það. Það er sagt að það geti tekið alveg upp í 10 virka daga fyrir dótið að berast til Hitte gods. Við höfum verið tíðir gestir hjá þeim undanfarna daga en ekki finnst síminn. Annað hvort hefur einhver stolið honum eða hann birtist hjá þeim eftir dúk og disk.

Í júní síðastliðnum leigðum við bílaleigubíl og keyrðum í ógeðisbústaðinn, sælla minninga. Einhversstaðar á leiðinni ók Addi örlítið of hratt (við komumst að því að það eru alltaf myndavélar rétt eftir að hámarkshraði hefur verið lækkaður, svona 20 metrum frá skiltinu). Í lok sumars fékk ég bréf frá lögreglunni þar sem ég var beðin um að senda þeim ljósrit af ökuskírteininu mínu því ég væri grunuð um að hafa verið ökumaður í bíl sem braut umferðarlagabrot. Ég var gleraugna- og linsulaus á þessum tíma svo ég keyrði ekki neitt i ferðinni, en sendi nú samt ljosrit af skírteininu mínu. Fyrir tveimur til þremur vikum fékk Addi svo samskonar bréf. Hann sendi afrit af ökuskírteininu sínu og hefur svo ekkert heyrt frá þeim. Nema hvað, að í GÆR fékk ég AFTUR bréf frá lögreglunni, nákvæmlega sama bréfið og ég fékk í ágúst. Ég veit hreinlega ekki hvað ég á að gera - senda annað afrit af ökuskírteininu mínu? Ætli við verðum ekki flutt aftur heim þegar lögreglan verður búin að ákveða hvort hún ætli að sekta okkur, hvað mikið og hvort okkar eigi að fá sektina.

Það er ekki allt sem tekur svona langan tíma. Ég var ekki búin að vera hér í tvær vikur þegar ég fékk boð í krabbameinsskoðun. Börnin fengu líka boð til tannlæknis eftir að við höfðum verið hérna í mánuð. Um leið og ég fékk útborgað í fyrsta sinn fóru að berast bréf um séreignasparnað og allskonar lífeyrissjóðsmál. Við vorum líka snögg að finna íbúð, leikskóla og skóla svo það var nú ekki vandamálið.

En baráttan við kerfið heldur áfram og sömuleiðis leitin að símanum. Þangað til samnýtum við mæðgur minn síma, við erum svo nægjusamar. Þannig að ég sms-a stundum vinkonur hennar og hún þarf stundum að svara í símann fyrir mig ;o)

14 nóvember 2012

3/4 lokið...

Ég kláraði síðasta kúrsinn í dag og er að sjálfsögðu afar ánægð með það. Næst á dagskránni er þá að hella sér út í vinnu við lokaritgerðina. Ég hlakka til að fást við það verkefni, þó enn sé frekar óljóst hvað ég ætla að skrifa um og hvaða aðferðafræði ég ætla að nota, en ég á tíma hjá leiðbeinandanum mínum á þriðjdaginn og hann hjálpar mér vonandi að koma svolitlu formi á hugmyndir mínar.

Tíminn hefur verið svo ótrúlega fljótur að líða og það er skrítið að hugsa til þess að við eigum aðeins eftir örfáa mánuði hér í Stokkhólmi! Við eigum enn eftir að gera svo margt af því sem við ætluðum að gera meðan við værum hérna úti, ég vona innilega að við getum grynnkað á to-do listanum okkar. Til dæmis langar okkur mikið mikið að skreppa yfir til Noregs, ferðast aðeins um norðurhluta Svíþjóðar, sigla til Gotlands og fara í ævintýraland Astridar Lindgren í Smálöndunum...og svo framvegis...

Ekkert útilokað ennþá :o)


05 nóvember 2012

Sunnudagsbananabrauð

Rannveig bakaði þetta fína bananabrauð í gær. Uppskrift frá ömmu Jórunni og börn og fullorðnir nutu þess að smakka :)


Litli skautadrengurinn

Jóhannes Árni fer á skautaæfingar á sunnudögum. Hann er ótrúlega duglegur litli drengurinn, puðar og puðar með bros á vör meðan hin börnin (langflest) taka fram úr honum, sum á ógnarhraða. En hann paufast og er ákveðinn í að læra almennilega að skauta. Enda eru skjótar framfarir. Markmið hans eru eiginlega tvíþætt; annarsvegar að geta skautað jafn vel og stóra systir og hinsvegar að geta kennt móðurinni að standa á skautum ;o)

Á leiðinni út á ísinn...

Að lokinni æfingu, rjóður og sveittur með bananann sinn í búningsherberginu.

03 nóvember 2012

Foreldrar: Hvað langar þig í í jólagjöf?
Jóhannes, 5 ára: Sjónvarp í herbergið mitt.