25 apríl 2012

Áramótafögnuður í mars

Það sem mér finnst eiginlega frábærast við þetta brölt okkar út fyrir landsteinana er að kynnast öllu þessu nýja fólki, ekki síst þessum alþjóðlega hópi sem bekkurinn minn er. Eins og ég var búin að segja frá hér buðum við íranskri bekkjarsystur minni til okkar um áramótin og gáfum henni svolitla vísbendingu um hvernig íslensk áramót fara fram. Svolitla vísbendingu segi ég - því hér var ekki vín á borðum, ekki skálað á miðnætti, ekki farið í partý og engir hattar settir upp. Kvöldið var þó yndislegt í alla staði þó með rólegra móti væri!
Þegar persneska nýárinu var fagnað 20. mars bauð hún mér svo í hérumbil alvörunni íranska áramótaveislu. Alvörunni af því að hún fylgdi flestum þeim fastmótuðu hefðum sem hún ólst upp við, það sem vantaði var fjölskyldan (en hún er mjög stór þáttur í áramótafagninu) og fallegt leirtau. Hún bar matinn fram á einnota bökkum (enda býr hún í einu litlu herbergi á stúdentakommúnu og ekki með mikið úrval af borðbúnaði með sér) og skammaðist sín niður í tær, sagði þetta vera argasta skömm!

Ég ætla ekki að lýsa því hvað þetta kvöld var frábært. Ég þurfti að ferðast í tæpa tvo klukkutíma, borgina nánast á enda, til að komast til hennar en það var vel þess virði. Ásamt okkur tveimur voru þarna fimm íranskir vinir hennar. Þau voru skikkuð til að tala ensku allt kvöldið svo ég gæti verið þátttakandi í samræðunum. Ætli ég hafi ekki verið langelst í hópnum, þau voru samt öll að ljúka mastersnámi eða komin í doktorsnám - og öll í eðlisfræði eða stjörnufræði...nema við kennaranördarnir tveir.


Eldamennskan og undirbúningurinn tók alveg tvo daga. Borinn er fram heilsteiktur fiskur með fyllingu úr kóríander, granateplasósu, valhnetum, greipsafa, hvítlauk, myntu, berberis.  Svo voru tvenns konar dúllerí hrísgrjón með fiskinum, ólívusalat og svo gott hvítvín. Í eftirrétt voru svo örugglega sex mismunandi tegundir af sætindum. Síróps, saffran, kókos og svo framvegis. Svolítið framandi sætindi fyrir mig sem kem frá súkkulaðilandi en rosalega gott. Með þessu var drukkið te. Alveg rosalega mikið te, sérstaklega blandað, beint úr suðri, ferskt og mjög gott. Og rosalega mikið, alveg 10 bollar sko!



Svo er mikilvægt að stilla upp sjö mismunandi hlutum sem eiga að tákna nýtt líf, gleði, ást, fegurð og heilsu, sólarupprás, þolinmæði og svo hvítlaukur til að reka hið illa í burtu. Þetta voru epli, möndlur, vatn, grænt gras (?) og eitthvað fleira (já auðvitað hvítlaukur!).









Eftir matinn er svo lesið í fornri ljóðabók - eintak af henni á að vera til á hverju heimili og allsstaðar eru lesin ljóð upp úr þessari tilteknu bók - einn tekur að sér að lesa og hann velur af handahófi ljóð fyrir hvern og einn fjölskyldumeðlim. Meðan ljóðið er valið á viðkomandi að óska sér einhvers fyrir komandi ár og svo íhugar hann með sjálfum sér hvort ljóðið passi við ósk hans. Vinkona bekkjarsystur minnar las ljóð fyrir alla, mig líka, og allir fengu frekar jákvæða túlkun á ljóðin sín og draumar allra virðast ætla að rætast á árinu ;o)

Nýja árið gekk svo í garð um kl. 8 morguninn eftir að sænskum tíma og þá vildu þau öll vera vakandi (og helst vaka alla nóttina). Það sem maður er að gera þegar skiptin verða, er eitthvað sem maður á eftir að gera mikið af (eða sem maður vill gera mikið af) á nýja árinu. Svo fæstir vilja vera sofandi skiljanlega :o)
Persnesku áramótin eru mikil hátíð sem nær yfir marga daga. Það eru nefnilega frídagar í tvær vikur eftir áramótin og síðasta frídaginn fara allir í lautarferð til að fagna vorinu! Við ætluðum í lautarferð ásamt nokkrum bekkjarsystrum okkar í lok mars en þá var bara svo helvíti leiðinlegt veður að við frestuðum henni. Vonandi fer sólin að láta sjá sig almennilega svo við getum fagnað persnesku - og sænsku - vori.

22 apríl 2012

Saltkråkan och fjärilsim

Sunnudagur, komið hádegi og við Jóhannes kúrum yfir sjónvarpinu. Grátt og hráslagalegt úti, 5° og okkur langar ekki út alveg strax. Í sjónvarpinu er verið að sýna Saltkráku Astrid Lindgren. Það rifjar upp góðar minningar frá sumardvöl minni í Noregi 1996 - en krakkarnir sem ég var að passa þar elskuðu þessar myndir. Á rigningardögum (sem voru ófáir það sumarið) kósuðum við okkur gjarnan inni og horfðum á Olsenbandet, Línu, Saltkráku eða Disney myndir. Krakkarnir á Saltkráku áttu kanínu sem hét Jocke og Lasse litli sem ég var að passa fékk einmitt alveg eins kanínu og skírði hann Jocke (og svo gaf ég helv... kanínunni að borða og eltist við hana allt sumarið en hvað um það!).


Addi og Rannveig eru í Åkersberga á sundmóti. Fyrsta greinin var 50 flug og hún bætti tímann sinn um rúma sekúndu. Hefði víst lent í 3ja sæti í flokki drengja 11-12 ára með þennan tíma...en stelpurnar eru eitthvað fljótari svo hún varð áttunda. Flugsund er sumsé besta greinin hennar Rannveigar.

Um næstu helgi fer Rannveig til Uppsala í æfingabúðir og svo eru mót næstu tvær helgar eftir það. Mikið að gerast í sundinu fram á vor!

18 apríl 2012

Góðan dag

Nágrannarnir okkar hérna í stigaganginum eru nú ekki alveg allir eins og fólk er flest, sumir alveg ansi langt frá því. En það er huggun harmi gegn að á hæðinni fyrir neðan býr yndislegur gamall maður. Hann býður okkur alltaf góðan daginn á íslensku og í síðustu viku æfði hann sig á nöfnunum okkar allra svo hann gæti heilsað okkur með nafni. "Góðan daginn Valla" sagði hann áðan þegar ég mætti honum í stiganum.

*bráðn*

Ég var orðin svo leið á þessu allirinnísérogenginnbíðurgóðandaginn og ákvað að vera týpan sem bíður góðan dag. Ég hef sjaldan séð eins kátt fólk og gamla fólkið sem ég mætti um daginn og heilsaði, þau hoppuðu hreinlega af gleði og sögðu HÆÆÆÆÆÆ og vinkuðu og brostu og ég veit ekki hvað. Jákvæð styrking, ætla að halda þessu áfram.

15 apríl 2012

Að loknum páskum!

Páskarnir voru unaðslegir. Rétt fyrir páskafrí heilsaði sólin okkur með blíðu og færði okkur nokkrar freknur. Svo kom svona klassískt páskahret - sem ég veit reyndar ekki hvort er árlegur viðburður hér en kom okkur svosem ekkert á óvart. Mamma og Friðrik voru hér um páskana og það var afskaplega notalegt að hafa þau. Við fórum svolítið í búðir, litum m.a. við á Gamla Stan, Vasastan, Vällingby og tókum svo bílaleigubíl í einn dag og rúntuðum til Uppsala og Sigtuna. Það var frábært að komast svona út úr borginni og skoða sig um á annan hátt en með strætó eða lest. Það var reyndar skítakuldi þennan dag, þannig að nestið sem ég smurði um morguninn var borðað á hraða ljóssins í lystigarðinum í Uppsala.
Hér á eftir fylgja nokkrar myndir úr páskafríinu...

Jóhannes var svo spenntur að fá ömmu og Friðrik. Hér er hann á góðum vordegi rétt fyrir páska, á leikvelli fyrir ofan húsið okkar.


Svo komu mæðginin og drógu upp allskonar góðgæti. Risavaxið lambalæri, óhóflega mikið sælgæti, heimagerða kindakæfu a la mamma, rúgbrauð, flatbrauð, hangikjötslæri og guð má vita hvað. Og auðvitað Royal búðing...!

Það var svakaleg útsala á Converse...Rannveig eignaðist gula og amman svarta. Svaka píur :o)

Við Friðrik fórum með mömmu í Dea Axelson. Það var svo frábærlega skemmtilegt. Kyrrsettum þá gömlu inni í mátunarklefa og bárum svo í hana allskonar fatnað. Friðrik var stoppaður áður en hann komst með þessa peysu inn til hennar...

Komin í rútubílinn, fyrsta sinn í átta mánuði sem Jóhannes Árni stígur fæti upp í bíl. Bílstóllinn var ennþá í plastinu síðan í fluginu frá Íslandi.

Sigtuna, mega kósí. Ætlum þangað aftur!


Miðaldakirkja, að hruni komin. Innganga bönnuð vegna hættu á hruni.

Kannski er maðurinn bara ekki á réttri hillu í lífinu, fór honum allavega ágætlega að messa yfir okkur í predikunarstólnum í Sigtúna.

lágreist hús, endalausar litlar sætar búðir og kaffihús. Notó.

Rútubíllinn okkar...

Í Dómkirkjunni í Uppsala - þar var barnahorn. Æði! Svoleiðis ætti að vera í öllum túristavinsælum kirkjum, Jóhannes vildi ekki fara út.

Dómkirkjan í Uppsala, stærsta kirkjan í Skandinavíu, 118 m háir turnar...(skv. Wikipediu)


Á röltinu í miðbæ Stokkhólms.

Fengum útivistarleyfi eitt kvöldið og kíktum á O'learys í Vällingby. Freddi pós meðan við biðum eftir lestinni heim.

Að morgni páskadags...hvar eru þessi egg eiginlega falin?

Tatamm!

Að morgni annars í páskum skellti ég mér svo til Danmerkur í menningar- og skólaheimsóknarferð með Menntaskólanum. Frábær ferð, segi kannski frá henni síðar. Kvíðahnúturinn í maganum stækkar og stækkar með hverri mínútunni - tvær vikur án lærdóms ásamt óhóflegu súkkulaði- og kjötáti (og svolítið af dönsku öli) er bara of mikið! Nú er það bara alvara lífsins framundan, ekkert sukk og svínarí og lærdómurinn tekinn í nefið.

Adjö!