28 september 2012

Jóhannes Árni fimm ára!

Við fögnuðum afmæli Jóhannesar um miðjan september með góðum gestum, en foreldrar Adda komu og voru hjá okkur í nokkra daga í kringum afmælið hans. Það var því heppinn lítill (eða ekki svo lítill) drengur sem fagnaði afmælinu sínu og bauð upp á köku og fékk margar gjafir, bæði skemmtilegar og nytsamlegar! Lego á hug hans allan þessa dagana og fær hann ekki leið á því að búa til allskonar farartæki úr legóinu sínu. Enda fékk hann legó - flugvél, löggubíl, slökkvibíl og slökkvibát í afmælisgjöf (það þarf að fara að gefa krakkanum dúkku til að jafna þetta út!). 

Daginn eftir fimm ára afmælið fórum við með hanní fimm ára skoðun (alltaf sama nákvæmnin hjá Svíunum). Hann er (sem fyrr) svolítið fyrir ofan meðallag bæði í hæð og þyngd, þó aðallega hæð. Hann er orðinn um 115 cm og tæplega 20 kíló. Hann talaði og talaði og hjúkrunarfræðingurinn þurfti (sem fyrr) að stoppa hann af. Hann vildi ekki teikna sjálfsmynd fyrir hana en teiknaði ýmislegt annað og svo sá hann svona svakalega vel. Sumsé, allt jätte bra!

Nokkrar afmælismyndir fylgja - takk allir fyrir skemmtilegar sendingar, símtöl og kveðjur! 


Að morgni afmælisdags - hlaupahjól sem hefur vakið mikla lukku!

Kominn heim úr leikskólanum og farinn að opna fleiri pakka :o)

Kominn í nýjan bol sem stóra systir gaf og nýtur aðstoðar hennar við að opna gjafirnar. 

Veiii lego bátur!

Svo grillaði pabbi pylsur og mamma bakaði köku. 

Að lokum - ein góð af Rannveigu með ömmu sinni við Drottningholm slott. Þar er æðislegur garður sem við höfum algjörlega misst af, þvílík synd! Þurfum að vera dugleg að fara þangað næsta vor :o)



24 september 2012

Lítið hefur verið um uppfærslur hér síðustu daga og vikur. Það má rekja til mikilla anna en úr þessu verður vonandi bætt bráðlega. 

Þó er það að frétta að hjónin á Maltesholmsvägen þurfa að fara að stunda jóga og læra að anda í poka til að minnka stresshnútinn í maganum fyrir önninni sem er í raun og veru langt komin en dugnaðurinn við lærdom ekki verið eins mikill! 

06 september 2012

Frappe time!

Grikkir eru þekktir fyrir kaffiást sína og þeir eru snillingar í að búa til unaðslega kalda kaffidrykki sem eru hæfilega svalandi í hitanum.

Þessa daga sem ég dvaldi í Grikklandi drakk ég...tja...veit ekki hvað marga Frappe. En þeir voru sennilega nokkuð margir. Ég greip með mér eina dollu af Frappe-kaffidufti og hef verið að æfa mig í að gera Frappe heima.



Allt sem þarf er kaffiduftið, froðuþeytari, mjólk, ísmolar og sykur ef vill. Ein teskeið af kaffiduftinu, smá sykur og ca. tvær matskeiðar vatn. Svo freyðir þetta alveg upp að glasbarminum þegar maður notar froðuþeytarann. Tveir, þrír ísmolar, mjólk og auðvitað RÖR. Þennan drykk þarf að drekka með röri. Kaffið er sterkt svo mér finnst betra að setja pínu sykur og mjólk- þó ég sé vön að drekka kaffið mitt svart og sykurlaust.

 
Fullkominn drykkur áður en lagt er af stað til Parísar! Au revoir!

05 september 2012

Life goes on ;)

September hafinn og allskonar að gerast á Maltesholmsvägen. Það var svolítill skellur að þurfa að hefja strögglið aftur, sundskutl, vakna á morgnana, byrja að læra, sitja í lestum heilu og hálfu tímana og svo framvegis. En þetta er allt að koma :o)

September er líka svo góður mánuður. Hann hófst á því að Hildur Ey vinkona kom í heimsókn frá Osló og við fórum saman í Tjejmilen, sem er 10 km hlaup um Djurgården. Um 25.000 konur tóku þátt og þetta var alveg frábært, þrátt fyrir gríðarlega rigningu og drullu. Þetta minnti mig á Laufskálaréttarstemmningu, að trampa þarna í drullunni á mótssvæðinu innan um fullt af fólki.

Ég ætla svo að skella mér til Parísar á morgun í löngu planaða vinkonuferð. Þar munu hinar fimm fræknu hittast á ný eftir langa fjarvist og spássera um stræti Parísar.

Svo fáum við gesti og litli drengurinn okkar verður fimm ára 13. september. Ekki svo lítill lengur eða hvað?