16 desember 2012

3. í aðventu

...og hér er allt á hvolfi. Ekki búið að pakka inn einni jólagjöf, ekki búið að kaupa allar jólagjafir, jólaföt Rannveigar í uppnámi, jólagjöf Jóhannesar í uppnámi, óvissa um hvernig við ætlum að komast heim með gjafir og föt og annað sem við þurfum að fara með heim...skítug íbúð, óskrifaðir kaflar í MA ritgerðunum og svo mætti lengi telja. Stórt dæs frá húsmóðurinni.

Í dag ætlum við Jóhannes með Rannveigu á sundmót, síðasta sundmótið á þessu ári. Um er að ræða síðasta mótið í fjögurra móta röð, þar sem keppt er í fjórum deildum. Félagið hennar Rannveigar er með lið í fyrstu og fjórðu deild og er Rannveigar lið í 1. deild (efstu deild). Félagið velur einn sundmann í hverja grein, þetta eru hrein úrslit og aðeins tveir riðlar í hverri grein. Svo safna félögin stigum. Rannveig var svakalega glöð að vera valin fyrir hönd hennar félags til að keppa í tveimur greinum - 25 m. flugsundi og 100 m. bringusundi.

Eftir þrjar fyrstu umferðirnar er hennar sundfélag í 5. sæti í fyrstu deild og hefur möguleika á að komast upp í 4. sæti. Að því verður sumsé stefnt í dag og við Jóhannes ætlum ekki að láta okkar eftir liggja á áhorfendapöllunum.


Það er alltaf hægt að þrífa seinna...

10 desember 2012

10. desember

Tíundi desember í dag og því fylgja blendnar tilfinningar! Hér ríkir að sjálfsögðu tilhlökkun yfir ferðalaginu sem framundan er - en við lendum á Íslandi 21. desember og stoppum yfir jólin. En það er líka svo margt sem þarf að gera áður en við getum lagt af stað, Addi þarf að KLÁRA MA ritgerðina sína og ég þarf að klára uppkast að fjórum köflum. Við erum að vinna í þessu öllu saman...í miklu kappi við tímann.

Og stundum vantar einbeitingu og hvata til verksins, þegar mann langar ekkert meira en að dúlla sér í bænum, drekka jólaglögg og fara á jólamarkaði. Stokkhólmur hefur klæðst vetrarskrúða og þó mér finnist sumarið gott þá er veturinn svo fallegur hérna í þessari vatnaborg.




Það þýðir víst lítið annað en að bretta bara upp ermarnar og halda sér að verki, 11 dagar í Ísland! Það er fáránlegt að hugsa til þess að við höfum ekki komið heim í eitt og hálft ár, tíminn er nefnilega svo svakalega fljótur að líða!

07 desember 2012

Veturinn er kominn

Á þessum tíma í fyrra var alveg kalt. En það var ekki farið að snjóa og það fór ekki að frysta almennilega fyrr en í janúar.

Síðustu helgi var ískalt hérna og fór niður í -15° á mánudaginn. Svo á miðvikudaginn byrjaði snjónum að kyngja niður og allt gjörsamlega lamaðist. Flugsamgöngur til og frá Arlanda lágu niðri, lestarsamgöngur til og frá Stokkhólmi að mestu eða öllu leyti líka, strætóarnir hættu barasta allir að ganga og það var kaos í lestarkerfinu innan borgarinnar. Margar ferðir féllu niður, allt gekk helmingi hægar en vanalega og fólk komst ekki heim úr vinnunni. Í blaðinu í morgun sá ég viðtal við fólk sem hafði þurft að sofa á aðaljárnbrautarstöðinni hér í Stokkhólmi, þar sem lestarferðin þeirra féll niður og þau urðu að bíða í rúman sólarhring eftir að komast af stað í ferðina sína. Eins og við má búast í svona veðurfari urðu ansi mörg slys á vegum úti, flutningabílar fóru á hliðina og lestarvagnar útaf sporum. Nokkur dauðsföll urðu í umferðinni á miðvikudaginn.

Öll þessi ósköp höfðu svosem ekki mikil áhrif á okkur. Rannveig fór gangandi í skólann eins og vanalega og við Addi vorum heima að læra. Jóhannes skemmti sér hið besta á leikskólanum en sundæfing Rannveigar féll niður. Ég fór svo í afmæli til vinkonu um kvöldið og þurfti að ganga drjúgan spöl þar sem enginn var strætóinn. Annars var þetta bara eins og að vera kominn heim til Akureyrar ;o)

 
Eplatréð fyrir utan hjá okkur í kuldanum á mánudaginn.

 
Það er fallegt í frostinu! Við hjálpuðum bekkjarsystur minni að flytja á mánudaginn. Við leigðum lítinn sendibíl og keyrðum yfir í hinn enda borgarinnar í fallegu sólríku veðri.
 
 
 
Miðvikudagur, snökaos eða snöstorm eins og Svíarnir köllu þetta veður. Kannski ekki mikið á íslenskan mælikvarða en hér er fólk ekki svo vel undirbúið fyrir þetta. Ekki margir á jeppum, bílar festast úti um allt og lestarkerfið ræður ekki við svona mikla snjókomu. Sumsstaðar var allt að meters hár jafnfallinn snjór eftir daginn. Nú eru vörubílar á leiðinni til Stokkhólms frá m.a. Umeå til að aðstoða við að hreinsa götur og gagnstéttir, en nú þegar eru um 150 tæki að vinna í málinu.
 
 
Mynd stolið af dn.se
 
 
Á háskólasvæðinu að kveldi óveðursdagsins mikla. Fallegt veður, logn og blíða.