07 desember 2012

Veturinn er kominn

Á þessum tíma í fyrra var alveg kalt. En það var ekki farið að snjóa og það fór ekki að frysta almennilega fyrr en í janúar.

Síðustu helgi var ískalt hérna og fór niður í -15° á mánudaginn. Svo á miðvikudaginn byrjaði snjónum að kyngja niður og allt gjörsamlega lamaðist. Flugsamgöngur til og frá Arlanda lágu niðri, lestarsamgöngur til og frá Stokkhólmi að mestu eða öllu leyti líka, strætóarnir hættu barasta allir að ganga og það var kaos í lestarkerfinu innan borgarinnar. Margar ferðir féllu niður, allt gekk helmingi hægar en vanalega og fólk komst ekki heim úr vinnunni. Í blaðinu í morgun sá ég viðtal við fólk sem hafði þurft að sofa á aðaljárnbrautarstöðinni hér í Stokkhólmi, þar sem lestarferðin þeirra féll niður og þau urðu að bíða í rúman sólarhring eftir að komast af stað í ferðina sína. Eins og við má búast í svona veðurfari urðu ansi mörg slys á vegum úti, flutningabílar fóru á hliðina og lestarvagnar útaf sporum. Nokkur dauðsföll urðu í umferðinni á miðvikudaginn.

Öll þessi ósköp höfðu svosem ekki mikil áhrif á okkur. Rannveig fór gangandi í skólann eins og vanalega og við Addi vorum heima að læra. Jóhannes skemmti sér hið besta á leikskólanum en sundæfing Rannveigar féll niður. Ég fór svo í afmæli til vinkonu um kvöldið og þurfti að ganga drjúgan spöl þar sem enginn var strætóinn. Annars var þetta bara eins og að vera kominn heim til Akureyrar ;o)

 
Eplatréð fyrir utan hjá okkur í kuldanum á mánudaginn.

 
Það er fallegt í frostinu! Við hjálpuðum bekkjarsystur minni að flytja á mánudaginn. Við leigðum lítinn sendibíl og keyrðum yfir í hinn enda borgarinnar í fallegu sólríku veðri.
 
 
 
Miðvikudagur, snökaos eða snöstorm eins og Svíarnir köllu þetta veður. Kannski ekki mikið á íslenskan mælikvarða en hér er fólk ekki svo vel undirbúið fyrir þetta. Ekki margir á jeppum, bílar festast úti um allt og lestarkerfið ræður ekki við svona mikla snjókomu. Sumsstaðar var allt að meters hár jafnfallinn snjór eftir daginn. Nú eru vörubílar á leiðinni til Stokkhólms frá m.a. Umeå til að aðstoða við að hreinsa götur og gagnstéttir, en nú þegar eru um 150 tæki að vinna í málinu.
 
 
Mynd stolið af dn.se
 
 
Á háskólasvæðinu að kveldi óveðursdagsins mikla. Fallegt veður, logn og blíða.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

við elskum comment!