28 janúar 2012

sim sim sim

Við mæðgur fórum niður í bæ snemma í morgun, en sú yngri var á leiðinni í sund-æfingabúðir. Sundstarfið hérna er barasta frábært og mjög metnaðarfullt, án þess þó að ofbjóða börnunum með æfingum alla daga. Rannveig er í um 20 manna hópi þar sem eru bæði stelpur og strákar. Krakkar sem æfa sund hérna byrja í tækni-hópum og þau fá ekki að keppa strax. Svo þegar þau eru búin að ná nógu góðri tækni á öllum sviðum sem um ræðir fá þau að fara upp í keppnishópa. Mér sýnist að það sé algengast að þau nái upp í keppnishópa um 11-12 ára aldurinn, en í Rannveigar hópi eru þær þrjár sem eru fæddar 2001 og hin eru fædd '00 og '99. Þau eru með þrjá þjálfara, en yfirleitt eru tveir þjálfarar á æfingu, stundum allir þrír. Æfingarnar eru gríðarlega vel skipulagðar og alltaf eitthvað ákveðið í gangi í einu sem unnið er að. Svo eru krakkarnir með sunddagbækur sem þau eiga að halda utan um æfingaferli sitt og gengi á mótum, þjálfararnir taka svo bækurnar og gefa krökkunum endurgjöf (feedback).

Reglulega eru innan-félags mót, þar sem krakkarnir keppast við að ná ákveðnum lágmörkum sem þau verða að ná til að komast upp í næsta flokk. Þegar þau hafa náð lágmörkum í ákveðið mörgum greinum fá þau bikar. Þetta gera krakkarnir í tækniflokkunum líka. Svo eru sundmót í hverjum mánuði, hér og þar um borgina og alltaf jafn skemmtilegt.

Það er mikið lagt upp úr félagslegu hliðinni líka, en Rannveig er búin að fara í keilu með sundfélögunum sínum og svo eru alltaf litlir fundir eftir hverja æfingu. Fyrir áramót var sérstakur stelpufundur þar sem kvenkyns þjálfararnir ræddu ýmis mál við stelpurnar, bæði hvað varðar samstöðu og góðan anda í hópnum og einnig kynþroskann.

Nú er hópurinn sumsé í Nyköping, sem er um 30.000 manna bær í um klukkustundar fjarlægð. Þau fóru þangað í morgun með tveimur þjálfurum og fararstjóra úr hópi foreldra og fyrirhugaðar voru fjórar æfingar, sameiginlegur matur og skemmtanir, fjórir gista saman í herbergi fengu þeir elstu fyrst að velja sér herbergi og svo koll af kolli. Rannveig var ofsalega spennt fyrir þessari ferð og það var frábær andi í hópnum á Centralstation í morgun þegar ég kvaddi hana.

Þannig að um helgina erum við Addi ein með litla drengnum okkar meðan dóttirin syndir og leikur sér þess á milli.

25 janúar 2012

Að nesta sig upp...

Þegar það tekur konu um klukkustund að komast í skólann og aðra klukkustund að fara til baka er mjög mikilvægt að nesta sig vel upp áður en haldið er af stað. Það gefur augaleið að enginn fer þessa leið fyrir minna en heilan dag og vonandi vel það. Maturinn á háskólasvæðinu er hvorki sá girnilegasti né sá ódýrasti og kaffið kostar hálft nýra. Sko svona gott kaffi sem mér finnst svo gott að drekka. Ef ég er alveg að sofna er gott ráð að stökkva niður í 7/11 sjoppuna sem er í háskólabyggingunni og kaupa sér vélarkaffi á 10kall. Ég hef sumsé ekki ennþá lagt í að fara með kaffi á brúsa með mér í skólann. Hreinlega nenni því ekki. Það er samt einn bekkjarfélagi minn sem hjólar alltaf um hálftíma leið í skólann OG kemur með kaffi á brúsa OG mjólk út í kaffið. Það kalla ég dugnað.

Allavega. Málið er sumsé að elda alltaf aukalega og eiga nesti til að taka með sér.

Áðan mallaði ég pottrétt með uppáhalds bragðinu mínu, bara til að eiga í nesti...náði í um fimm skammta og þeir fara í frystinn og svo getur maður gripið þetta með sér. Cummin, hvítlaukur, engifer, kókosmjólk, niðursoðnir kirsuberjatómatar, sætar kartöflur, gulrætur, kjúklingbaunir, kóríander...nammi :o)



Svo þurfa alltaf að vera til epli í ísskápnum, hnetusmjör í dalli, möndlur, bananar og vatnsflaska. Good to go!

24 janúar 2012

Guðmundur...

"Mamma, mig langar að tala við afa sem er dáinn í tölvunni"

Ég sagði honum að það væri ekki hægt því hann væri dáinn.

"Er hann þarna uppi, hjá Guðmundi?"

22 janúar 2012

Snjókoma

Kannski er sænski veturinn að koma, það hefur allavega snjóað svolítið síðustu daga og á að vera kalt eitthvað áfram. Á sunnudagsmorgni sem þessum er svo liðið komið út að moka klukkan sjö. Um leið og fyrsta kornið mætir er byrjað að moka gangstéttarnar og strá á þær möl (sem er í þar til gerðum boxum sem eru hérna útum allt). Jón Gnarr hvað sko!

Annars sagði Dagens Nyheter um daginn að sumarið kæmi snemma þetta árið og í febrúar myndi byrja að vora. Þannig að hryllingssögurnar um sænska kuldann og snjóinn eiga ekki við um þennan vetur. Jóhannesi finnst það alveg glatað en við hin erum bara nokkuð sátt :o)

 

18 janúar 2012

Húsmóðirin

og börnin heima í dag, öll á náttfötunum þó klukkan sé að verða hálf tvö. Ég læri í aðferðafræðinni, Rannveig litla lasin að læra í íslenskubókunum sínum og Jóhannes lúrir í mömmuholu, búinn að vera veikur síðan á sunnudaginn með ælu og slappleika. Á meðan er húsfaðirinn í skólanum og svo er hann að fara í stöðupróf í sænsku seinnipartinn.

17 janúar 2012

Leitin að mojo-inu

Ég hef nú svosem ekki prjónað mikið í Stokkhólmi, eina peysu, nokkur vettlingapör og tvo kraga. Ég er  búin að týna mojoinu mínu hvað viðkemur prjónunum. Mamma sendi mér þetta gula og græna garn, ég prjónaði peysu sem átti að vera á Jóhannes, var ekki með uppskrift og slumpaði bara á eitthvað, út frá nokkrum uppskriftum sem ég fann. Þetta var útkoman og ég nenni engan veginn að rekja hana upp. Eins og glöggir geta séð ætti búkurinn að passa á soninn en ermarnar gætu passað á eins árs krakka. Um leið og ég kemst í saumavél verður peysunni breytt í stuttermalopapeysu. Eins klúðraði ég þessu fína vettlingapari á dögunum (sjá neðar).


Þessi fartölvuhlíf virkar svosem ágætlega.

Og þessi kragi er afar elskulegur, mjúkur og góður úr tvöföldum plötulopa. Gerður eftir þessari uppskrift hér: http://www.knittedbliss.com/2010/11/pattern-stockholm-scarf.html. Það er bara of gaman að prjóna svona útprjónað dót. Hann lítur að sjálfsögðu betur út í dag en á þessari mynd, var ekki búinn að þvo hann og fela enda og svona.


Svo gerði ég þetta fína rósavettlingapar. Sem átti að vera á Jóhannes. Fylgdi uppskrift og allt en þeir eru alveg glataðir. Ætla að rekja þá upp og betrumbæta. Bannað að gefast upp, verð að finna mojo-ið aftur!
Annars fann ég þessa fínu kertastjaka í ísskápnum hjá mér, í þeim var hörfræolía sem rann út fyrir tveimur árum (leigusalinn erfði okkur jú að ýmsu...).

16 janúar 2012

Góðan daginn allan daginn


Ég bý mér oft til drykki á morgnana með töfrasprotanum mínum. Ég er nú frekar vanaföst þegar kemur að þessum drykkjum mínum og algengasta blandan er nokkurnvegin svona, fer eftir því hvað er til hverju sinni (spínat/rucola er algjör snilld út í þetta...):

1/2-1 banani
nokkur frosin jarðarber
slatti af frosnum bláberjum
ca. 1 msk lífrænt hnetusmjör
1 egg
svolítið af lífrænu kókosmjöli
slurkur af vatni + hrísgrjónamjólk

Þetta er rosalega gott. Í morgun fór ég hinsvegar ótroðnar slóðir, átti hálfa appelsínu síðan í gær sem ég vildi ekki láta fara til spillis. Hef alltaf verið hrædd við að nota appelsínur í booztin mín, veit ekki alveg af hverju...en ætla að hætta því af því að morgundrykkurinn var mjög mjög góður.

1 banani
nokkur fersk jarðarber
slatti af frosnum bláberjum
1/2 appelsína
ca. 1 msk hnetusmjörið góða
kanil
smá sletta af eplasafa

Ég átti ekki lífrænt egg, annars hefði ég sett eitt svoleiðis.

Rólegur mánudagur framundan með litla lasna kútnum mínum.

14 janúar 2012

Afmælisdrottningin...

Að morgni afmælisdags með uppáhalds morgunmatinn sinn
Svo var að sjálfsögðu eplakaka þegar skóla lauk. Ingó (og Axel frændi) komu upp úr einum pakkanum, snilld.

Þetta afmæliskort vakti mikla kátínu, þarna mátti sjá Vilhjálm frá Brekku í Mjóafirði gefa köttunum sínum spenvolga mjólkina...
Fallegt heimaprjónað vesti kom upp úr einum bögglinum, svaka sæla.



Svo þurfti að baka fyrir stelpuafmælið. Jóhannes alltaf mættur upp á bekk um leið og bökunarskálin er tekin fram!

Afraksturinn að koma í ljós...

Svo mættu nokkrar bekkjarsystur og gæddu sér á veitingunum.

Afmælisbarnið og Abi vinkona hennar gæða sér á köku og pizzu.

Alltaf jafn skemmtilegur leikur :o)



Frumraun í cupcakes. Heppnaðist bara alveg hreint ljómandi þó útlitið væri kannski ekki fullkomið ;o)



Núna sitjum við uppi með helling af afgöngum og skortir sárlega vini og ættingja til að líta inn í kaffi til að losa okkur við fyrningarnar! Annars er stutt í næsta afmæli, heyrst hefur að frúin ætli að halda partý 21. janúar, allir velkomnir [innskot, svona áður en þið farið að panta ykkur flug í massavís: afmæli frestað um óákveðinn tíma] :o)





13 janúar 2012

Barnabækur, reykingar og áfengisdrykkja...

Einar Áskell er mjög vinsæll á þessu heimili. Við lesum hann bæði á íslensku og á sænsku fyrir litla snáðann og þetta eru þær barnabækur sem okkur foreldrunum finnst hvað skemmtilegastar. Þær eru samt oft mjög sorglegar og ég stundum kenni ég svolítið í brjóst um Einar litla. Hann er bara fimm ára í fyrstu bókinni, lítill drengur með lykil um hálsinn og nýfluttur í stóra blokk þar sem hann þekkir engan. Aleinn í heiminum og leikur sér við ímyndaðan vin. Hann býr með einstæðum föður sem hefur ekki alltaf tíma til að leika við hann og er heldur ekki alltaf heima.

En svo eldist nú Einar og brallar ýmislegt skemmtilegt, eignast vini og þarf ekki eins oft að koma aleinn heim með lykilinn um hálsinn.

Þessi mynd er úr bok sem heitir Ajabaja Alfons Åberg (veit ekki hvað hún heitir á íslensku). Pabbi hefur ekki tíma til að leika við Einar því hann er að drekka bjórinn sinn, reykja pípu og lesa blaðið. Einar fær að draga fram verkfæratöskuna og leika sér með öll verkfærin nema sögina. Hún er hættuleg. Þar eru sumsé mörkin dregin. Í lok bókarinnar er bjórkannan tóm og pabbi farinn að leika við Einar. En bara í pínustund því svo byrja fréttirnar...

Þetta eru ekki svona týpískar barnabækur eins og eru algengar í dag, með augljósan siðferðislegan boðskap og pólítíska rétthugsun að leiðarljósi.

Kannski er það þess vegna sem okkur fullorðna fólkinu finnst þær skemmtilegar. Kannski líka af því að sögurnar vekja upp margar spurningar hjá drengnum og bjóða upp á skemmtilegar og frjóar umræður. Myndirnar eru líka svo æðislegar.
Reyndar fékk Jóhannes gamla franska barnabók í jólagjöf (Snúður og Snælda) þar sem sagt er frá hundi (hvolpi?!) sem fer á markaðinn að kaupa sér morgunmat. Á mynd sem sýnir hann á heimleið ber hann körfu með rauðvínsflösku, snittubrauði og ostum. Á næstu mynd er hann kominn heim og búinn að hella sér rauðvíni í glas og gæðir sér á kræsingunum áður en hann fer að leika sér...


09 janúar 2012


Það er svo gott að vera farin að vakna eldsnemma aftur, KK og kaffi í morgunsárið eftir að börnin eru farin út. Svolítið notalegt svona í kuldanum! Já, það er orðið svolítið kalt. Mínus sjö gráður í morgun. Og fer væntanlega lækkandi, annars er veturinn búinn að vera mjög mildur og góður. Jóhannes vill fá snjó og spurði mig á leiðinni í leikskolann hvort hann gæti búið til snjókall í dag. Ég leit á hrímið á grasinu og hélt ekki...en bráðum!

Þrátt fyrir sænska regluverkið og allt sem því fylgir þá erum við nú bara kát og höfum fulla trú á því að þetta lagist allt saman. En það verður að láta í sér heyra, annars verður ekkert gert í málunum. Þetta bréf sem ég skrifaði byrjaði nú bara svona sem smá útrás í tölvunni af minni hálfu, ætlaði aldrei að láta þetta fara lengra en svo ákváðum við að senda velferðarráðherra einlægt bréf. Á ekki von á svari eða að eitthvað sérstakt komi út úr því. Enda eru okkar vandamál lítil miðað við vandamál margra sem ráðuneytið þarf að gjöra svo vel að vinna að.

Á morgun á Rannveig Katrín afmæli, er að verða ellefu ára og mér finnst tíminn alltof fljótur að líða. Þegar kvikmyndin Bjarnfreðarson kom út vildi hún sjá hana en við sögðum að hún yrði að bíða þar til hún yrði 11 ára, þá mætti hún horfa á hana. Það virtist óralangt þangað til en núna er stelpan farin að minna okkur á þetta loforð og ætlar að reyna að redda sér myndinni einhvernvegin. Um næstu helgi verður svolítið stelpuafmæli hérna í Maltesholmsvägen með pizzu og kökum og sjálfsagt verður mikið fjör. Jóhannes var að velta fyrir sér hvað hann ætti að gefa systur sinni í afmælisgjöf og var að velta fyrir sér að gefa henni bíl. Nákvæmlega eins bíl og hann langar svo í. Dúllan...

Í gærkvöldi var föndurstund hjá mér, Rannveig átti að græja afmælisboðskortin um helgina en eitthvað fórst það fyrir þannig að ég dundaði mér við það í gærkvöldi. Við erum ekki með prentara og svo átti ég engan hvítan pappír svo ég ákvað bara að fara alla leið og gera eitthvað flippað.


Allir byrja í skólanum í dag nema ég. Ég fór í bóksöluna um daginn og keypti bækurnar fyrir önnina og þær eru engin smásmíði svo ég er byrjuð að lesa og finnst ágætt að fá smá tíma til að gera það áður en skólinn byrjar aftur.

Áramótin hjá okkur voru afar notaleg en að sama skapi mjöööög róleg. Við elduðum lambalæri á hefðbundna vísu og írönsk bekkjarsystir mín kom og borðaði hjá okkur. Hún var tekin í þriðju gráðu yfirheyrslu um Íran og þegar hún hélt heim á leið einhverntíman eftir miðnætti vorum við búin að skipuleggja tveggja vikna ferðalag um Íran og hún búin að bjóða okkur gistingu á að minnsta kosti þremur stöðum og ákveða staði fyrir okkur að skoða, svona non-tourist staðir...þetta skipulögðum við yfir tei með írönskum saffran-kandís sem hún færði okkur. Nice :)

Nóg í bili,
yfir og út!

07 janúar 2012

Sænska regluverkið - framhald

Deili með ykkur hluta af bréfi sem ég sendi til velferðarráðherra...

---------
Þegar við ákváðum að láta draum okkar rætast og flytja erlendis til að fara í framhaldsnám skipti miklu máli hversu mikið kostaði að lifa í landinu og hvernig almannatryggingakerfi viðkomandi lands styddi við bakið á tekjulausum stúdentum. Við ákváðum að fara til Svíþjóðar, ekki bara af því að okkur langaði að læra sænsku og af því að við fundum spennandi námsleiðir hér, líka vegna þess hversu gott almannatryggingakerfi Svíar eru með. Við vissum að við værum aðilar að Norðurlandasamningi milli þjóðanna og höfðum verið í sambandi við íslenska stúdenta í Svíþjóð sem sögðu okkur frá réttindum okkar til barnabóta, húsaleigubóta og jafnvel fæðingarorlofs sem við ættum inni með yngra barni okkar. Yfirlega á heimasíðu Försäkringskassan, sænska almannatryggingakerfisins, staðfesti þennan rétt okkar, sömuleiðis afar hjálplegar síður íslenskra stúdenta í Svíþjóð og Stokkhólmi og Hallo Norden. Á heimasíðu Försäkringskassan er reiknivél þar sem við gátum reiknað út rétt okkar til húsaleigubóta – rúmlega 3000 sænskar krónur á mánuði. Barnabætur eru um 1000 krónur með hverju barni á mánuði. Fyrir tekjulága eða tekjulausa foreldra er leikskólinn nemendum nánast eða algjörlega að kostnaðarlausu. Skólamáltíðir á leik- og grunnskólastigi eru sömuleiðis fríar. Okkur fannst þetta eiginlega of gott til að vera satt. Og svo rukkaði háskólinn okkur ekki einu sinni um innritunargjöld! Í hvaða paradís vorum við eiginlega komin? Ég tek það fram að okkur fannst þetta jafnvel fullmikið af hinu góða, okkur fannst til dæmis ótrúlega rausnarlegt að geta fengið fæðingarorlof með barni sem er orðið fjögurra ára og fæddist ekki í Svíþjóð. Eða að menntun okkar allra væri okkur að kostnaðarlausu. En á þessu eigum við rétt og þessi réttur réði úrslitum um ákvörðun okkar að þiggja aðgang að námi í Stokkhólmi, sem við vissum að væri dýr borg að lifa í. Að finna húsnæði var eins og að finna nál í heystakki, en við vorum ótrúlega heppin. Gátum fengið íbúð, afar rúmgóða og notalega með öllum húsbúnaði. Gallinn var verðið, heilar 12.000 sek á mánuði. Greiðslugeta okkar var í mesta lagi um 8000 krónur. En eftir að hafa leitað að húsnæði í Stokkhólmi í nokkrar vikur sáum við að við fengjum aldrei neitt ásættanlegt fyrir 8000 krónur. Ásættanlegt þýddi að við vildum ekki vera lengur en eina klukkustund að ferðast í skólann og vildum hafa að minnsta kosti tvö svefnherbergi. Við festum okkur því einu íbúðina sem viðgátum fengið, eftir margra vikna áranguslausa leit, vitandi það að fljótlega eftir að við kæmum út færum við að fá barnabætur og húsaleigubætur, um 5000 sek á mánuði.

Svo kynntumst við sænska kerfinu í raun. Hjá Skatteverket hittum við fyrir konu sem greindi okkur frá öllum okkar réttindum og því ferli sem við færum í gegnum. Jú, við ættum rétt á fæðingarorlofi, húsaleigubótum og fengjum barnabæturnar sjálfkrafa um leið og við værum komin inn í kerfið. Fyrst þyrfti þó að senda formlega umsókn og bíða í um það bil mánuð. Jú reyndar þyrftum við fyrst að bíða eftir að fá kennitölurnar okkar allra og það tæki um mánuð að auki. Í byrjun ágúst sóttum við um kennitölur hjá þessari góðu konu í Skatteverket, fengum þær í lok ágúst, sendum umsóknina til Försäkringskassan um hæl og bjuggumst við um mánaðarbið. Þá kæmu barnabæturnar og svo myndum við sækja um húsaleigubætur um áramótin, enda vorum við með tekjur á árinu 2011 svo við ættum ekki rétt á þeim fyrr en 2012. Í septemberlok biðum við spennt eftir barnabótunum en ekkert gerðist. Og svo biðum við og biðum, fórum á skrifstofuna og var sagt að allt væri eins og það ætti að vera, þetta ferli gæti samt tekið nokkra mánuði. Svo fengum við bréf þar sem við vorum beðin um staðfestingu á skólavist, það var í lok nóvember. Við sendum staðfestinguna strax daginn eftir en fengum svo bréf milli jóla og nýárs þar sem okkur var tjáð að Försäkringskassan hefði hafnað umsókn okkar um aðgang að almannatryggingakerfinu, af því að sem stúdentar gætum við aldrei talist búsett í Svíþjóð (í nýlegum sænskum lögum er kveðið á um þetta, en Norðurlandasamningurinn skilgreinir búsetu eftir lögheimili. Svíar hafa þar að auki nýlega tekið upp ESB reglugerð,sem stangast á við Norðurlandasamninginn).
Eftir margra mánaða bið fengum við sumsé neitun og forsendur okkar fyrir flutningum og búsetu í Svíþjóð gjörbreyttar. Námslánin rétt duga fyrir leigu, rafmagni og nauðsynjum. Afmæli barnanna, nýr kuldagalli, stígvél eða biluð skólatölva kosta nánast óyfirstíganleg útgjöld. Við höfum það töluvert verra en á Íslandi, en þar vorum við þó komin með uppí kok af lækkandi kaupmætti og því að ná ekki endum saman þrátt fyrir að hafa bæði verið í fastri vinnu og lifað afar sparlega.

Maður reiknar ekki með því námsmenn hafi kost á rauðvíni og ostum á hverju kvöldi, síður en svo. En aldrei hefði ég trúað því að við værum að fórna svona miklu fyrir svona lítið, þessar 5000 sek sem við verðum af á mánuði skipta okkur svo gríðarlega miklu. Svo gæti farið að við yrðum að hætta námi og flytja aftur heim fyrr en áætlanir stóðu til – það yrði þó síðasti kosturinn. Ég fékk leyfi frá minni vinnu en maðurinn minn þarf að byrja á að leita sér að vinnu þar sem hann átti ekki rétt á leyfi frá Vinnumálastofnun. Þannig að ef við færum aftur heim væri staða okkar sennilega afar erfið líka, og í þokkabót engar mastersgráður. Patt? Þess ber einnig að geta að mastersgráðurnar voru aðeins hluti af markmiðum okkar – það að bæta í reynslubankann, prófa að búa í öðru landi, kynnast nýju fólki, ferðast innan og utan Svíþjóðar var einnig stór hluti af áætlunum okkar. Raunin er önnur – við eigum erfitt með að hitta annað fólk þar sem við höfum ekki efni á barnapössun, kaffihúsaferðir með skólafélögunum eru ekki á fjárhagsáætlunum og því síður dagsferðir um nágrenni Stokkhólms eða stuttar ferðir í sumarfríinu með börnunum. Við erum afar þakklát fyrir að eiga hvert annað (og vera yfirmáta skemmtileg), gönguskó og spil en það lítur út fyrir að þriggja mánaða sumarfríið okkar verði ansi tilbreytingarsnautt. Föst í fallegri borg sem við getum ekki notið og í þokkabót fjarri vinum og ættingjum.
Við ætlum ekki að gefast upp strax, enda teljum við okkur falla undir Norðurlandasamninginn og eiga rétt á aðgangi að almannatryggingakerfinu hérna í Svíþjóð og við ætlum okkur að fá það í gegn. Við höfum þó orðið fyrir vonbrigðum með viðbrögð sendiráðsins hérna í Stokkhólmi og því hversu stutt þessi mál eru á veg komin í íslenska stjórnkerfinu. Nú hefur okkur verið tjáð að íslenskir stúdentar í Svíþjóð hafi byrjað að lenda í vandræðum með Försäkringskassan strax um mitt ár 2010. Það sætir raunar nokkurri furðu að eftir alla þessa mánuði skuli ekki vera búið að finna lausn á þessum vanda. Margir stúdentar eru í lausu lofti og töluverðum vandræðum, eiga ekki rétt á bótum frá Svíþjóð og heldur ekki frá Íslandi. Svo virðist sem það skipti máli í hvernig skapi viðkomandi starfsmaður Försäkringskassan sé þegar hann fer yfir umsóknir Íslendinganna því meirihluti fjölskyldnanna kemst inn en minnihluta er hafnað, þrátt fyrir sambærilegar aðstæður þeirra.

 Sendiráðið ráðlagði okkur að reyna að fá málið tekið upp aftur ellegar kæra áframupp stjórnsýsluna. Fyrir okkur er þetta þó ekki svo einfalt mál – hvernig fær maður mál tekið upp? Hvað er sterkt að segja? Á maður að skrifa bréf? Hvernig bréf? Á sænsku, ensku? Hvað á maður að skrifa? Þegar við höfðum samband við þá sem eiga að vera til aðstoðar fengum við vissulega skjót og vinsamleg viðbrögð en svo virðist vera sem þessi mál séu ekki í neinum farvegi. Hver fjölskylda þarf að eyða dýrmætum tíma og orku í að heyja sína baráttu eins og hún sé sú fyrsta til að gera það.
Við vitum að í undirbúningi er þingsályktunartillaga frá velferðarráðuneytinu, sem á að verða til þess að komið sé til móts við stúdenta erlendis sem fá ekki aðgang að almannatryggingakerfi námslandsins og það er vel en fyrir okkur sem stöndum í þessu núna þurfa málin að komast á skrið sem fyrst en það verður verulega erfitt fyrir okkur að halda út til vors. Það má heldur ekki gleyma því að fyrir okkur sem erum komin út og reiknuðum með stuðningi sænska almannatryggingakerfisins eru íslenskar barna- og húsaleigubætur talsvert lægri, en ekki stendur til að greiða þann mismun sem kann að vera á bótaupphæð námslandsins og heimalandsins.

Á þessari stundu eru vafalaust margar íslenskar fjölskyldur að velta fyrir sér framhaldsnámi, námslandi, réttindum sínum og fjárhagslegum forsendum, enda rennur umsóknarfrestur um framhaldsnám í mörgum tilfellum út á næstu dögum og vikum. Mér finnst mikilvægt að fólk lendi ekki í sömu vandræðum og við og hafi í huga að það er raunverulegur möguleiki á því að vera hafnað af Försäkringskassan og geri því ekki ráð fyrir þessum bótum þegar staðsetning er ákveðin og í leit að húsnæði. Einnig að velferðarráðuneytið leysi úr þessum vanda sem allra allra fyrst og aðstoði stúdenta markvisst í að sækja sér rétt sinn og haldi þessari umræðu lifandi.
----------------