07 janúar 2012

Sænska regluverkið - framhald

Deili með ykkur hluta af bréfi sem ég sendi til velferðarráðherra...

---------
Þegar við ákváðum að láta draum okkar rætast og flytja erlendis til að fara í framhaldsnám skipti miklu máli hversu mikið kostaði að lifa í landinu og hvernig almannatryggingakerfi viðkomandi lands styddi við bakið á tekjulausum stúdentum. Við ákváðum að fara til Svíþjóðar, ekki bara af því að okkur langaði að læra sænsku og af því að við fundum spennandi námsleiðir hér, líka vegna þess hversu gott almannatryggingakerfi Svíar eru með. Við vissum að við værum aðilar að Norðurlandasamningi milli þjóðanna og höfðum verið í sambandi við íslenska stúdenta í Svíþjóð sem sögðu okkur frá réttindum okkar til barnabóta, húsaleigubóta og jafnvel fæðingarorlofs sem við ættum inni með yngra barni okkar. Yfirlega á heimasíðu Försäkringskassan, sænska almannatryggingakerfisins, staðfesti þennan rétt okkar, sömuleiðis afar hjálplegar síður íslenskra stúdenta í Svíþjóð og Stokkhólmi og Hallo Norden. Á heimasíðu Försäkringskassan er reiknivél þar sem við gátum reiknað út rétt okkar til húsaleigubóta – rúmlega 3000 sænskar krónur á mánuði. Barnabætur eru um 1000 krónur með hverju barni á mánuði. Fyrir tekjulága eða tekjulausa foreldra er leikskólinn nemendum nánast eða algjörlega að kostnaðarlausu. Skólamáltíðir á leik- og grunnskólastigi eru sömuleiðis fríar. Okkur fannst þetta eiginlega of gott til að vera satt. Og svo rukkaði háskólinn okkur ekki einu sinni um innritunargjöld! Í hvaða paradís vorum við eiginlega komin? Ég tek það fram að okkur fannst þetta jafnvel fullmikið af hinu góða, okkur fannst til dæmis ótrúlega rausnarlegt að geta fengið fæðingarorlof með barni sem er orðið fjögurra ára og fæddist ekki í Svíþjóð. Eða að menntun okkar allra væri okkur að kostnaðarlausu. En á þessu eigum við rétt og þessi réttur réði úrslitum um ákvörðun okkar að þiggja aðgang að námi í Stokkhólmi, sem við vissum að væri dýr borg að lifa í. Að finna húsnæði var eins og að finna nál í heystakki, en við vorum ótrúlega heppin. Gátum fengið íbúð, afar rúmgóða og notalega með öllum húsbúnaði. Gallinn var verðið, heilar 12.000 sek á mánuði. Greiðslugeta okkar var í mesta lagi um 8000 krónur. En eftir að hafa leitað að húsnæði í Stokkhólmi í nokkrar vikur sáum við að við fengjum aldrei neitt ásættanlegt fyrir 8000 krónur. Ásættanlegt þýddi að við vildum ekki vera lengur en eina klukkustund að ferðast í skólann og vildum hafa að minnsta kosti tvö svefnherbergi. Við festum okkur því einu íbúðina sem viðgátum fengið, eftir margra vikna áranguslausa leit, vitandi það að fljótlega eftir að við kæmum út færum við að fá barnabætur og húsaleigubætur, um 5000 sek á mánuði.

Svo kynntumst við sænska kerfinu í raun. Hjá Skatteverket hittum við fyrir konu sem greindi okkur frá öllum okkar réttindum og því ferli sem við færum í gegnum. Jú, við ættum rétt á fæðingarorlofi, húsaleigubótum og fengjum barnabæturnar sjálfkrafa um leið og við værum komin inn í kerfið. Fyrst þyrfti þó að senda formlega umsókn og bíða í um það bil mánuð. Jú reyndar þyrftum við fyrst að bíða eftir að fá kennitölurnar okkar allra og það tæki um mánuð að auki. Í byrjun ágúst sóttum við um kennitölur hjá þessari góðu konu í Skatteverket, fengum þær í lok ágúst, sendum umsóknina til Försäkringskassan um hæl og bjuggumst við um mánaðarbið. Þá kæmu barnabæturnar og svo myndum við sækja um húsaleigubætur um áramótin, enda vorum við með tekjur á árinu 2011 svo við ættum ekki rétt á þeim fyrr en 2012. Í septemberlok biðum við spennt eftir barnabótunum en ekkert gerðist. Og svo biðum við og biðum, fórum á skrifstofuna og var sagt að allt væri eins og það ætti að vera, þetta ferli gæti samt tekið nokkra mánuði. Svo fengum við bréf þar sem við vorum beðin um staðfestingu á skólavist, það var í lok nóvember. Við sendum staðfestinguna strax daginn eftir en fengum svo bréf milli jóla og nýárs þar sem okkur var tjáð að Försäkringskassan hefði hafnað umsókn okkar um aðgang að almannatryggingakerfinu, af því að sem stúdentar gætum við aldrei talist búsett í Svíþjóð (í nýlegum sænskum lögum er kveðið á um þetta, en Norðurlandasamningurinn skilgreinir búsetu eftir lögheimili. Svíar hafa þar að auki nýlega tekið upp ESB reglugerð,sem stangast á við Norðurlandasamninginn).
Eftir margra mánaða bið fengum við sumsé neitun og forsendur okkar fyrir flutningum og búsetu í Svíþjóð gjörbreyttar. Námslánin rétt duga fyrir leigu, rafmagni og nauðsynjum. Afmæli barnanna, nýr kuldagalli, stígvél eða biluð skólatölva kosta nánast óyfirstíganleg útgjöld. Við höfum það töluvert verra en á Íslandi, en þar vorum við þó komin með uppí kok af lækkandi kaupmætti og því að ná ekki endum saman þrátt fyrir að hafa bæði verið í fastri vinnu og lifað afar sparlega.

Maður reiknar ekki með því námsmenn hafi kost á rauðvíni og ostum á hverju kvöldi, síður en svo. En aldrei hefði ég trúað því að við værum að fórna svona miklu fyrir svona lítið, þessar 5000 sek sem við verðum af á mánuði skipta okkur svo gríðarlega miklu. Svo gæti farið að við yrðum að hætta námi og flytja aftur heim fyrr en áætlanir stóðu til – það yrði þó síðasti kosturinn. Ég fékk leyfi frá minni vinnu en maðurinn minn þarf að byrja á að leita sér að vinnu þar sem hann átti ekki rétt á leyfi frá Vinnumálastofnun. Þannig að ef við færum aftur heim væri staða okkar sennilega afar erfið líka, og í þokkabót engar mastersgráður. Patt? Þess ber einnig að geta að mastersgráðurnar voru aðeins hluti af markmiðum okkar – það að bæta í reynslubankann, prófa að búa í öðru landi, kynnast nýju fólki, ferðast innan og utan Svíþjóðar var einnig stór hluti af áætlunum okkar. Raunin er önnur – við eigum erfitt með að hitta annað fólk þar sem við höfum ekki efni á barnapössun, kaffihúsaferðir með skólafélögunum eru ekki á fjárhagsáætlunum og því síður dagsferðir um nágrenni Stokkhólms eða stuttar ferðir í sumarfríinu með börnunum. Við erum afar þakklát fyrir að eiga hvert annað (og vera yfirmáta skemmtileg), gönguskó og spil en það lítur út fyrir að þriggja mánaða sumarfríið okkar verði ansi tilbreytingarsnautt. Föst í fallegri borg sem við getum ekki notið og í þokkabót fjarri vinum og ættingjum.
Við ætlum ekki að gefast upp strax, enda teljum við okkur falla undir Norðurlandasamninginn og eiga rétt á aðgangi að almannatryggingakerfinu hérna í Svíþjóð og við ætlum okkur að fá það í gegn. Við höfum þó orðið fyrir vonbrigðum með viðbrögð sendiráðsins hérna í Stokkhólmi og því hversu stutt þessi mál eru á veg komin í íslenska stjórnkerfinu. Nú hefur okkur verið tjáð að íslenskir stúdentar í Svíþjóð hafi byrjað að lenda í vandræðum með Försäkringskassan strax um mitt ár 2010. Það sætir raunar nokkurri furðu að eftir alla þessa mánuði skuli ekki vera búið að finna lausn á þessum vanda. Margir stúdentar eru í lausu lofti og töluverðum vandræðum, eiga ekki rétt á bótum frá Svíþjóð og heldur ekki frá Íslandi. Svo virðist sem það skipti máli í hvernig skapi viðkomandi starfsmaður Försäkringskassan sé þegar hann fer yfir umsóknir Íslendinganna því meirihluti fjölskyldnanna kemst inn en minnihluta er hafnað, þrátt fyrir sambærilegar aðstæður þeirra.

 Sendiráðið ráðlagði okkur að reyna að fá málið tekið upp aftur ellegar kæra áframupp stjórnsýsluna. Fyrir okkur er þetta þó ekki svo einfalt mál – hvernig fær maður mál tekið upp? Hvað er sterkt að segja? Á maður að skrifa bréf? Hvernig bréf? Á sænsku, ensku? Hvað á maður að skrifa? Þegar við höfðum samband við þá sem eiga að vera til aðstoðar fengum við vissulega skjót og vinsamleg viðbrögð en svo virðist vera sem þessi mál séu ekki í neinum farvegi. Hver fjölskylda þarf að eyða dýrmætum tíma og orku í að heyja sína baráttu eins og hún sé sú fyrsta til að gera það.
Við vitum að í undirbúningi er þingsályktunartillaga frá velferðarráðuneytinu, sem á að verða til þess að komið sé til móts við stúdenta erlendis sem fá ekki aðgang að almannatryggingakerfi námslandsins og það er vel en fyrir okkur sem stöndum í þessu núna þurfa málin að komast á skrið sem fyrst en það verður verulega erfitt fyrir okkur að halda út til vors. Það má heldur ekki gleyma því að fyrir okkur sem erum komin út og reiknuðum með stuðningi sænska almannatryggingakerfisins eru íslenskar barna- og húsaleigubætur talsvert lægri, en ekki stendur til að greiða þann mismun sem kann að vera á bótaupphæð námslandsins og heimalandsins.

Á þessari stundu eru vafalaust margar íslenskar fjölskyldur að velta fyrir sér framhaldsnámi, námslandi, réttindum sínum og fjárhagslegum forsendum, enda rennur umsóknarfrestur um framhaldsnám í mörgum tilfellum út á næstu dögum og vikum. Mér finnst mikilvægt að fólk lendi ekki í sömu vandræðum og við og hafi í huga að það er raunverulegur möguleiki á því að vera hafnað af Försäkringskassan og geri því ekki ráð fyrir þessum bótum þegar staðsetning er ákveðin og í leit að húsnæði. Einnig að velferðarráðuneytið leysi úr þessum vanda sem allra allra fyrst og aðstoði stúdenta markvisst í að sækja sér rétt sinn og haldi þessari umræðu lifandi.
----------------

11 ummæli:

  1. Þetta er ljótt að heyra. Vonandi rætist úr þessu.

    SvaraEyða
  2. hvaða andskotans!!! allar mínar bestu óskir til ykkar um að það rætist úr þessu, ekki gefast upp!
    kv.
    Sæbjörg

    SvaraEyða
  3. Hvaða rugl er þetta, baráttukveðjur úr Vallenginu

    SvaraEyða
  4. Þetta er algjörlega óþolandi, á Svíþjóð ekki að heita velferðarþjóðfélag? Ég veit samt að þú lætur ekki deigan síga, þvílík kjarnakvendi sem þú ert :)

    Anna Sigga

    SvaraEyða
  5. Frábær pistill Valla - vona innilega að nú liggi leiðin upp á við. Baráttu kveðjur, HHa

    SvaraEyða
  6. Þetta er ekki skemmtileg staða sem þið eruð í... Bréfið er mjög vel skrifað, vonandi kemst skriður á ykkar mál sem allra fyrst. Ást í poka!

    SvaraEyða
  7. Gott bréf hjá ykkur, ömurleg staða! Gangi ykkur vel!

    SvaraEyða
  8. úff valla. þetta var ekki notaleg lesning!
    óþolandi hvað allt svona skriffinskudrasl tekur ógeðslega langan tíma þarna á norðulöndunum. alltaf þarf að skrifa undir og senda áfram og bíða og bíða. það hjálpar ekki beint.
    samt gott að þú skrifir um þetta og vekir athygli á þessu. gætir reddað mörgum! :)

    ég hef trú á ykkur - þið djöflist áfram í þessu.

    SvaraEyða
  9. Þetta er nú meira klúðrið, vonandi fer að rætast úr!
    Baráttukveðjur.

    Alma

    SvaraEyða
  10. Þetta er algjörlega með ólíkindum. Gerir mig mjög reiða. En þið eruð dugleg og kunnið að fara með peninga. Stay in there!
    Knús og kysserí.
    F

    SvaraEyða
  11. Ja hérna hér!!! Þetta er hrikalegt að heyra! Tek undir með síaðsta ræðumanni - þið eruð örugglega snillingar að gera mikið úr litlu og sennilega lærir maður að njóta lítilla hluta með þessum hætti...en kommon - hvað er málið???!! Gangi ykkur vel og vonandi náið nú samt að njóta allra fallegu hlutanna í Stokkhólm....á maður bara að strika Stokkó út af listanum sínum þá???!!!

    SvaraEyða

við elskum comment!