26 ágúst 2011

Fyrstu skóladagarnir hjá gríslingunum!

 

Þessi vika sem er að líða hefur verið viðburðarík og skemmtileg. Lífið er smátt og smátt að komast í rútínu hérna hjá okkur, krakkarnir báðir byrjaðir í skólunum sínum og svo byrjar Addi í næstu viku og ég 5. september.

Fyrsti skóladagurinn hjá Rannveigu var á mánudagsmorgun og hún var mjög spennt að byrja. Eitthvað gekk hægt að sofna kvöldið áður og svo vaknaði hún eldsnemma til að græja sig. Við vorum búnar að fara og hitta kennarana hennar í síðustu viku og leist henni mjög vel á þá. Ein þeirra heitir Solvej (ef ég skrifa þetta rétt) og hún sagði okkur að hún héti í höfuðið á íslenskri vinkonu föður hennar. Hún hefur sjálf komið til Íslands og ferðast nokkuð um. Kennararnir eru frábærir, bekkurinn frábær og Rannveig hæstánægð með þetta allt saman. Vill ekki koma heim úr skólanum - frekar fara í Klubben með bekkjarsystkinum sínum og halda áfram að leika við nýju vinkonur sínar. Samskiptin fara fram á ensku/sænsku, með bendingum og jafnvel á íslensku. Hér þarf bara að mæta í skólann með skólatösku og tómt pennaveski. Engar innkaupaferðir þar sem maður þarf að kaupa eina rauða, eina græna og eina bláa stílabók o.s.frv. Krakkarnir fá allt sem þau þurfa í skólanum og það er bara geymt þar.

Krakkarnir eru allir sænskir en þau af ólíkum uppruna. Sessunautur Rannveigar er t.d. frá Kasakstan og svo er ein stelpa í bekknum sem er með höfuðklút allan daginn í skólanum. Við fögnum að sjálfsögðu fjölbreytileikanum :) Rannveig hefur sumsé komið heim með bros á vör alla vikuna og finnst þetta bara ekkert erfitt. Hún er betri í ensku en hinir krakkarnir en sænskuverkefnin reynast henni að sjálfsögðu krefjandi...svo er fyrsta bekkjarafmælið um helgina og það verður forvitnilegt að sjá hvernig sænsk barnaafmæli fara fram!

Jóhannes byrjaði á leikskólanum sínum á miðvikudaginn og ég var með honum frá 9-15 miðvikudag og fimmtudag. Í morgun var hann svo bara alveg til í að leyfa mér að fara heim eftir hálftíma og ég sæki hann um kl. 15 ef allt verður í lagi. Þetta er lítill einkarekinn leikskóli, með tveimur 15 barna deildum. Jóhannes er á stóru deildinni, þar eru þrjár góðar konur að vinna og fullt af flottum krökkum. Leikskólinn er nýlega tekinn til starfa og starfsfólkið er ennþá að vinna í skipulagi og að stilla strengi. Miðað við Lundarselið góða er voðalega lítið skipulag á þessum leikskóla og eitthvað fer minna fyrir faglegu starfi en við eigum að venjast af þessum fjórum leikskólum sem krakkarnir hafa verið á heima. En þær lofa því að allt eigi eftir að komast í fastar skorður og þetta verði allt frábært - ég er óþolandi síspyrjandi mamman. Þetta var sumsé ekki sá leikskóli sem við settum í fyrsta sæti en ég held að þetta eigi eftir að vera allt í góðu lagi. Þau eru vön að fá krakka sem tala litla sem enga sænsku - mér skilst að á leikskólanum séu sárafá börn af sænskum uppruna, flest eru tvítyngd og annað eða báðir foreldrar erlendir. Jóhannes hafði einmitt á orði fyrsta daginn á leikskólanum að öll börnin væru öðruvísi á litinn en hann - enda er hann eini rauðhærði grallarinn þarna.

Mér fannst mjög athyglisvert í gær að hádegisverðurinn samanstóð af baunasúpu og pönnukökum með sultu. Svo var kornflex og mjólk í kaffinu. Við skulum vona að það hafi verið eitthvað sérstakt. Jóhannes borðar svo allaf morgunverð heima því það er borðað á leikskólanum milli sjö og átta - en hann verður með tíma milli átta og hálf fimm. Skólinn opnar um hálf sjö og lokar um hálf sex. Sem betur fer þurfum við ekki á svo löngum tíma að halda!!! Annars er hann ennþá á biðlista inn á hinn leikskólann svo við ætlum að sjá til hvernig honum og okkur líkar þarna.

Annars fórum við á konunglegan leikvöll síðasta sunnudag - Kongliga Humlegården á Östermalm. Þar var rosa flottur leikvöllur og fullt af börnum og foreldrum að skemmta sér. Við tókum eftir því að þarna var allt önnur stemmning en á leikvöllunum hér í kring - en þarna voru bara ljóshærðir Svíar í fínum fötum og flottum skóm og allir töluðu sænsku.

Jóhannes tók að sér að sitja fyrir með innkaupakerruna okkar. Ég hef verið stoppuð úti á götu og spurð út í þessa kerru. Við förum sumsé í stórmarkaðinn með þessa kerru og kaupum eins og kemst í hana og ekki meir. Fínasta kerra og svolítið annað að trilla henni heim eða bara þunga bréfpoka!

Rannveig á leið í Djurgårdsferjuna á ERIC SAADE tónleika. Hann er greinilega gríðarlega vinsæll hér...sérstaklega meðal barna og unglingsstúlkna.

Ég laumaðist til að taka mynd af þessari ungu dömu, hún var með þetta skilti alla tónleikana...margar stelpurnar voru málaðar í framan með hjörtum og ERIC. Þetta var ótrúlega skemmtileg mannlífsstúdía! Við mæðgurnar fórum sumsé á þessa tónleika í gærkvöldi, mættum í Tívolí rétt fyrir sex og náðum að spara 180 kall með því að kaupa okkur bara inn í tívolí en ekki á tónleikana. Þegar við komum inn um sex (og tveir tímar í tónleika) var strax komið fullt af fólkið sem var búið að taka frá pláss fyrir framan sviðið. Við töldum okkur vera á fínum stað en svo þegar allir stóðu upp og settu börnin sín á háhest sá Rannveig Katrín ekki neitt! Ég hélt á henni mestallan tímann og er með strengi í höndunum í dag eftir það. Hún er ekkert smábarn lengur sko!


Rannveig var með myndavélina á lofti allan tímann og tók fullt af myndum af goðinu sínu. Ótrúlega ánægð með þessa tónleika - söng með öllum lögunum og kunni textana.

Adjö - það væri gaman að fá komment og sjá hverjir skoða þessa síðu :)



22 ágúst 2011

Þvottahúsfærsla fyrir Fanneyju

Við búum í nokkurskonar búsetaíbúð og fáum afnot af öllu sem er innifalið í þessm búseturétti. Áður hef ég minnst á þvottahúsið góða en þar að auki má nefna sauna og lítinn tækjasal. Tækjasalurinn er reyndar mjög lítill og enginn er glugginn á honum. Þar er því loftlaust og ekki mjög spennandi en gamla fólkið í húsinu dundar sér þar við að halda sér í formi og við ætlum bara að gera okkur hann að góðu meðan við erum námsmenn hér. Enda kostar kort í líkamsrækt hér ekki aðeins annan handlegginn heldur báða.

En þvottahúsið er aðalmálið. Fyrsti tíminn okkar var frá 16 til 20 síðastliðið fimmtudagssíðdegi. Þarna eru tvær þvottavélar og einn þurrkari, þurrkherbergi og strauvélar, bæði nýrri týpan og sú eldri. Rafmagnið er ekki innifalið í leigunni og getur víst verið ansi stór biti og við lifum eins og algjörir rafmagnsnískupúkar. Hér er fínasta uppþvottavél sem við notum ekki, þvottavél og þurrkari sem við ætlum sömuleiðis ekki að nota nema í neyð (til dæmis ef ekki fæst tími í þvottahúsinu og íþróttafötin hans Adda verða farin að lykta óbærilega).

Allavega. Við Rannveig náðum að þvo átta vélar af þvotti og þurrka á þessum fjórum tímum. Vorum algjörlega búnar á því eftir. Ég hugsaði mikið til móður minnar meðan á þessu stóð, enda er hún þekkt fyrir að leggja mikinn metnað í þvottinn og oftar en ekki hefur hún stolist til að setja í vél heima hjá mér, brjóta óaðfinnanlega saman og strauja allt mögulegt og ómögulegt. Ég straujaði sumsé viskastykkin og handklæðin í þessari frábæru strauvél, ég sem er yfirlýstur and-straujisti. Ég reyndi sumsé að skila þvottinum eins og móðir mín hefði skilað honum. Jésús minn hvað þetta var gaman. Ég held að allir ættu að eiga svona þurrkherbergi heima hjá sér og sömuleiðis stóra vél til að strauja rúmfötin, það er svo helvíti leiðinlegt að gera það á strauborðinu.

Þessi færsla var nú aðallega fyrir Fanneyju. Hún á í eldheitu ástarsambandi við þvottavélina okkar Adda og elskar núna að þvo þvott og lesa um þvottahúsferðir.  Ég lofa að blogga ekki oft um þvottahúsið. Ætla samt að fara þangað á morgun og þvo aðeins.

Smá myndasýning:



Rannveig var gríðarlega spennt fyrir þessu verkefni en fannst skemmtilegast að finna vélarnar hristast...
Hér má sjá þurrkherbergið góða. Maður skellir þvottinum bara upp á snúrurnar, kveikir á hitaranum/viftunni og lokar. Eftir svona hálftíma er allt orðið skrjáfaþurrt! AWSOME!


Þetta er forn strauvél. Ég tók bara mynd af henni en notaði hana ekki. Gleymdi hinsvegar að taka mynd af vélinni sem ég straujaði þvottinn í. Geri það kannski á morgun í næsta þvottahústíma...
Stay tuned!!!

20 ágúst 2011

Stokkhólmsfréttir

Þegar gestirnir okkar voru hér í Stokkhólmi skruppum við í Djurgården og eyddum deginum í Tívolí. Hér er mynd af RKA og Djó á leiðinni í lestinni.

Taugarnar voru þandar til hins ýtrasta í hinum ýmsum tækjum - ég hélt að ég væri að upplifa mína síðustu stund þegar ég fór með Friðrik í þetta tæki sem heitir víst insane. Addi og Bogga fóru svo með Bjarna og Rannveigu í draugahúsið og það var víst eitthvað sem fékk hárin til að rísa...og sumir sögðust jafnvel hafa verið við það að míga á sig úr hræðslu! Krakkarnir (og Friðrik) fóru svo öll í klessubíla, Jóhannes í minni deildina og þau hin í svolítið stærri klessubíla. Hér er mynd af Friðriki, hann skemmti sér ekki síður vel en yngri deildin í þessum klessubílum. Enda var mjööög vinsælt hjá krökkunum að reyna að klessa á svona fullorðinn ökumann ;) Bogga, Bjarni og Rannveig fóru svo í rússíbana sem heitir Lille musen og hér að neðan má sjá mynd af þeim í því tæki. Það var víst mikið öskrað og mátti ekki á milli sjá hvert þeirra fékk mesta kikkið út úr þessu...



Eftir öll þessi læti röltum við aðeins um og hvíldum okkur eftir lætin í einhverjum garði þarna. Krakkarnir skoðuðu dýralífið og klifruðu í tjám og svo ákváðum við að tölta í Junibacken.


 
Sumir voru orðnir frekar þreyttir eftir daginn og fundu sér góðan áningarstað...


Það var verið að loka í Junibacken þegar við komum þangað (áðum aðeins of lengi á leiðinni...) svo við ákváðum bara að bíða með þá heimsókn. Rannveig fékk nú samt mynd af sér með uppáhalds rithöfundinum sínum sem sat fyrir utan safnið með Bróðir minn ljónshjarta.


Við fórum svo í Junibacken vikunni sem er að líða og það var FRÁBÆRT. Þessi staður er æðislegur og við enduðum á að kaupa árskort! Það er nefnilega hagstæðara að kaupa árskort en að borga sig þarna inn oftar en einu sinni og það er alveg ljóst að við munum fara þangað aftur og aftur. Hér fyrir neðan eru myndir þaðan. Krakkarnir fyrir utan Villevillekula, Rannveig í Múmínálfahúsinu og Jóhannes afgreiðir á kaffihúsinu.



Hey då!

17 ágúst 2011

Þvottahús!

Hápunktur vikunnar (að undanskilinni frábærri heimsókn í Junibacken í dag) verður vafalaust milli klukkan 16 og 20 á morgun. Þá eigum við pantaða stund í þvottahúsinu sem er hér í næsta húsi. Notkun innifalin í leigunni. Tvær hraðvirkar þvottavélar, þurrkari, þurrkherbergi, risastórar strauvélar og allt sem hugurinn girnist! Erum búin að safna þvotti í nokkra daga og haugurinn er RISASTÓR.

Ég hlakka ROSALEGA til að skella mér í þvottahúsið á morgun. Var búin að banna öðrum fjölskyldumeðlimum að koma með, vildi eiga þessa stund fyrir mig ;o) Rannveig lagði svo inn skriflega aðildarumsókn áðan og ég þarf að svara henni fyrir miðnætti. Ætli ég leyfi henni ekki að fljóta með...

Ég veit ekki hvort ég get sofið í nótt fyrir spenningi...

16 ágúst 2011

Lífið í Stokkhólmi...

fer óðum að komast í réttar skorður :)

Friðrik, Bogga og Bjarni komu ásamt Rannveigu og Jóhannesi seint að kvöldi 8. ágúst. Það voru svo sannarlega fagnaðarfundir! Gestirnir voru svo hjá okkur í viku og við brölluðum ýmislegt - það var verslað, legið á ströndinni, farið í Tivolí, leikvellir kannaðir, Gamli Stan og svo gátu systkini mín heimsótt vini sína sem þau eiga hér í Stokkhólmi. Frábær tími - en ekki eins mikil einmuna blíða og var hér vikuna áður. Til dæmis lentum við í mestu dembu sem ég hef upplifað, þrumur og eldingar og það var enginn smá hávaði. Við vorum með krakkana úti að leika þegar veðrið skall á - en Bogga og Friðrik voru niðri í miðbæ að versla og urðu ekki vör við neitt (H&M er sennilega vel hljóðeinangrað!).

Rannveig er búin að skoða skólann sinn, hitta rektor og konrektor og það gekk allt saman eins og í sögu. Okkur leist vel á skólann og við fengum gríðarlega góðar móttökur. Íslenskukennari kemur svo til hennar einu sinni til tvisvar í viku - bæði til að kenna henni íslensku og hjálpa henni við sænskuna. Skólinn byrjar á mánudaginn, 22. ágúst klukkan 8:10. Við Rannveig förum þó aftur á morgun og hittum kennarann hennar og fáum að vita meira um starfið.

Við fengum svo úthlutað leikskólaplássi fyrir Jóhannes á leikskóla hérna nokkur hundruð metrum frá okkur. Það var reyndar leikskóli sem okkur leist nú ekkert sérstaklega vel á - en eftir að hafa farið þangað í óvænta heimsókn í morgun er ég bara nokkuð sátt. Þetta er lítill leikskóli, bara tvær deildir og um 15 börn á hvorri deild. Mjög notalegt starfsfólk og fín aðstaða inni. Það sem vantar er gott útisvæði en þau sögðu mér að til stæði að taka það í gegn og svo er frábært útisvæði allt í kring sem þau nota bara í staðinn. Stutt í marga geggjaða leikvelli og svo skóginn að sjálfsögðu. Hann byrjar líka á mánudaginn svo næsta vika verður tekin í aðlögun :o) Við ákváðum nú samt að halda honum áfram á biðlista inn á leikskólann sem okkur leist langbest á og getum þá séð til ef þessi stendur ekki undir væntingum.

Allir kátir og glaðir, erum búin að vera mikið úti að ganga og skoða nágrennið (Jóhannes hafði þó orð á því í dag að hann vildi óska þess að við ættum bíl í Svíþjóð, hann væri svo þreyttur í fótunum...). Í hverfinu okkar eru ótrúlega flottir leikvellir sem hægt er að dunda sér á heilu dagana sko. Jóhannes minglar heilmikið við fólkið hér í kring, heilsar flestum úti á götu (heiiiiii) og kveður fólk líka (Hey dååå) og svo spjallar hann við krakkana, aðallega á íslensku þó.

Nóg í bili, engar myndir núna - bara seinna.

Heimilisfangið okkar er:
VSB/AÞJ/RKA/JÁA
c/o Holmström Forster
Maltesholmsvägen 159
165 62 Hässelby
Stockholm, Svergie

(svona ef einhver hefði áhuga á að senda bréf eða jafnvel kúlusúkk og smá lopa)

Svo erum við komin með sænsk gsm númer
Valla: 00 46 727114712
Addi: 00 46 727114711

Hey då!

08 ágúst 2011

Beðið eftir börnum og systkinum...

Það er um klukkustund í að Rannveig og Jóhannes komi hingað á Maltesholmsvägen. Ég er orðin frekar eirðarlaus og hlakka svo til að hitta þau. Fluginu seinkaði um rúma klukkustund og nú bíðum við bara og bíðum. Ákvað að því tilefni að setja inn nokkrar myndir og smá fréttir. Við höfum sumsé lifað barnlausu lífi í viku og reynt að gera hluti sem við myndum ekki endilega gera meðan börnin eru hjá okkur. Á laugardagskvöldið tókum við lestina niður í bæ og fórum á smá pöbbarölt. Hér má sjá okkur í lestinni, svaka hress og spennt fyrir því að skoða Gamla stan og nágrenni á laugardagskvöldi, gay pride kvöldi meira að segja. Bjuggumst við svakalegri stemmningu og mannfjölda en það var ekki alveg svoleiðis. Nema að fólk fari mjög seint í bæinn því við fórum snemma heim ;)

Við byrjuðum kvöldið á hressum pub með lifandi tónlist, keyptum bjór sem var rándýr og vondur í þokkabót. Enduðum það svo í hamborgaravagni þar sem við komumst að því að hinn sænski staðgengill Hlölla eru pylsur í bakka með kartöflumús. Við höfðum reyndar ekki smekk fyrir því og fylgdumst bara með hip og kúl píum að slafra þessu í sig.

 
Má til með að setja mynd af helsta forréttinum sem boðið er upp á hér, höfum fengið þetta í öll þrjú skiptin sem við höfum farið út og fengið okkur pizzu. Þetta er sumsé hvítkál með einhverskonar dressingu og svörtum pipar...njomm??? (ekki alveg okkar tebolli...)

Að lokum mynd fyrir Fanneyju vinkonu. Þessi bíll á heima í næsta húsi.

Friðrik, Bogga og krakkarnir lentir og ég ætla að græja miðnætursnarl fyrir þau, adíós.





04 ágúst 2011

Við fórum svolítinn rúnt í gærmorgun - ætluðum raunar að skreppa bara aðeins í búðina tveimur stoppum frá okkur en lentum þá í lestartjekki. Hellingur af einkennisklæddum mönnum birtust allt í einu í lestinni í þeim tilgangi að athuga með lestarkort þeirra sem þar voru. Ég sýndi þeim mitt með bros á vör en brá örlítið í brún þegar maðurinn hvessti á mig augum og bað um studentakortið mitt. Ég sagði honum eins og var að þetta væri stúdentakortið mitt. Tók ljóskuna á þetta - eins og Árný þegar hún var stoppuð af lögreglunni í USA - og slapp við skrekkinn. Slapp við að borga 1200 sænskar fyrir að vera ekki með skírteini upp á það að vera nemandi við sænskan háskóla. Við erum svo miklir aular - keyptum stúdentakort í lestina en föttuðum ekki að maður þyrfti að vera með stúdentaskírteini líka (mér fannst reyndar ótrúlega auðvelt að kaupa stúdentakort...). Fórum og versluðum en brunuðum svo niður á central station og þar þurfti ég að borga um 500 sænskar fyrir okkur  bæði til að breyta kortinu okkar í almennt kort...þar sem við höfum ekki fengið nein stúdentaskírteini ennþá. Damn. Allavega.

Ég tók nokkrar myndir í gær af okkar nánasta umhverfi. Veðrið hefur leikið við okkur síðan við komum, glampandi sól og um 25° hiti alla dagana.

Svona er útsýnið af svölunum okkar. Þær snúa í vestur og maður horfir út á Mäleren. Gatan á móti blokkinni okkar er botnlangi og maður endar bara niður að vatni, raunar smábátahöfn með allskyns bátum sem fólkið hér í nágrenninu á. Okkur var boðið að leigja bát með íbúðinni, ætli ég sé ekki farin að sjá eftir því að hafa afþakkað það ;)
Þessi mynd er líka tekin af svölunum. Við endann á götunni okkar er stór skógur (útivistarparadís!) og baðströnd. Fólk tekur lestina/strætó hingað í stórum stíl til að baða sig á ströndinni. Við fórum þangað seinnipartinn í gær og þar var líf og fjör, fullt af fjölskyldufólki, unglingar að drekka bjór og grilla pylsur á einnota grillum, þar er strandblaksvöllur og lítil sjoppa. Við hlökkum til að fara þangað með krakkana.

Addi er ótrúlga ánægður með eldhúsið okkar. Það er risastórt með svolítið miklu meira borðplássi en við eigum að venjast :) Við keyptum ostaskera og pönnu í dag, annars var bara allt í þessu eldhúsi sem við þurfum - meira að segja matur í frystinum og í skúffum. Eina sem vantar er kaffivélin góða...

Hér er mynd frá stöndinni góðu. Fólk flatmagar á grasinu og leikur sér í sandinum og syndir svo í sjónum. Eigum eftir að prófa þetta betur...

Hér er svo húsið okkar. Við búum sumsé í þessari blokk, á efstu hæð í innganginum lengst til vinstri. Þetta er hús byggt fyrir um 50 árum síðan, en íbúðin hefur greinilega öll verið tekin í gegn því hún er mjög fín.



Við fórum í kvöldgöngu í gærkvöldi og ég tók nokkrar myndir. Þetta er smábátahöfnin sem er bara svona 300 m frá húsinu okkar. Fullt af litlum seglbátum, einstaka litlar skútur, árabátar og allt þar á milli. Við sáum fullt af bátum á vatninu og svo var fólk á bakkanum líka með veiðistengurnar.

Mjöööög algeng sjón í hverfinu - gamlar hvíthærðar fínar frúr í hvítum buxum, á göngu með göngustafi. Hverfið okkar var byggt upp fyrir um 50-60 árum síðan. Pabbi leigusalans (sem tók á móti okkur fyrsta kvöldið) var einn af þeim sem byggði upp hverfið á sínum tíma. Þá útvegaði borgin félitlu barnafólki lóðir til að byggja hús. Margir þessara íbúa búa hér ennþá, enda er SLATTI af eldra fólki hérna. Krúttlegu gömlu fólki sem er duglegt að spjalla og vísa til vegar :) Og konurnar allar í hvítum buxum.

Mäleren og sænskt sólarlag...hérna er orðið dimmt miklu fyrr en heima.

 Það eru tvær baðstrandir í nágrenninu, önnur nokkur hundruð metrum frá húsinu okkar og svo þessi sem er í svona 7-10 mínútna göngufjarlægð. Þangað komum við þegar farið var að rökkva í gærkvöldi en samt voru ennþá krakkar að leika sér í sjónum (eins og glöggir geta séð á myndinni). Þessi strönd var minni en "okkar" strönd en svaka kósí.

Hér líkur þessu myndabloggi. Lesendur ættu að hafa einhverja hugmynd um hvernig hverfið okkar lítur út. Í dag fórum við svo í IKEA (nauðug - reyndum að panta í gegnum netið en gátum ekki pantað allt sem við þurftum í gegnum netið svo við neyddumst til að fara...). Ákváðum að þetta yrði fyrsta og síðasta Ikea ferð okkar hér í Svíaríki. Við prófum strætóinn að þessu sinni, þurftum að taka þrjá strætóa og ferðin tók okkur um klukkustund. Fengum svo draslið sent heim og kostaði það tæplega 500 sænskar. Við höfum semsagt komist að því að það er allt ógeðslega dýrt hérna.

Og sænska regluverkið gerði okkur erfitt fyrir í kvöld - fundum loksins gleraugnabúð og ætluðum að kaupa linsur. En þá var það ekki hægt nema að fara til augnlæknis í Svíþjóð fyrst og vera með recept frá honum. Það kostar um 500 kall á mann að fara til svoleiðis læknis (tæplega 10.000 íslenskar) og þá fyrst getum við keypt linsur. Það er hægt að kaupa snus löglega í hverri einustu sjoppu en ólöglegt að kaupa linsur. Þeir sem koma í heimsókn verða neyddir til að koma með linsur úr fríhöfninni!

Adios amigos.

02 ágúst 2011

Þú ert númer 476 í röðinni...

Þá erum við hjónakornin mætt í stórborgina. Við lentum um hálf 10 í gærkvöldi og flýttum okkur í íbúðina okkar, klyfjuð dóti. Starfsfólkið á flugvellinum var afar hjálplegt, við sluppum við að borga yfirvigt og það var ekkert tekið af okkur í öryggisleitinni nema einn skiptilykil (hvað er annars að því að vera með skiptilykil í handfarangri??).

Faðir leigusalans beið svo eftir okkur í íbúðinni, ótrúlega indæll maður sem klappaði okkur sagði sögur, var búinn að kaupa lífræn epli og banana og jógúrt svo við hefðum eitthvað í morgunmat. Íbúðin er stór, björt og falleg. Eldhúsið er to die for, fjögur stór svefnherbergi og geggjað útsýni yfir Mäleren. Við leigjum með húsgögnum og það er þvílíkur munur að þurfa ekki að fara að kaupa allt. Hér eru krydd í skápum, handklæði, sængur, ryksuga, diskar og hnífapör, internettenging, flatskjár og allskonar dótarí. Pottar í skápum og eldhúsdót í skúffum.

Fórum á stúfana í dag og keyptum okkur lestarkort, brunuðum svo í bæinn að redda málum. Við fórum sumsé í Skatteverket í miðbænum til að sækja um kennitölu og skrá okkur inn í landið. Þar var þvílíka örtröðin, aðstoðarfólk út um allt með gulan borða og svo fékk maður númer...við vorum sumsé nr. 476 í röðinni og þegar við komum var verið að afgreiða þann sem var nr. 411. Röðin gekk nú samt merkilega fljótt fyrir sig. Svo þurfum við að fara með krakkana í sama ferli þegar þau koma. Það er ekki hægt að gera neitt fyrr en maður hefur fengið kennitölu, en hún kemur til manns í pósti eftir tvær til fjórar vikur.

Röltum um Gamla stan, keyptum öl á 55 sænskar (!!!) og skoðuðum okkur svo um í stærsta þjónustu- og verslunarkjarnanum hérna í grenndinni (Vållingby), en þar má meðal annars finna H&M auk fleiri verslana.

Á morgun neyðumst við til að fara og versla í matinn, ætlum svo að kíkja á skólann okkar og reyna að leysa úr símamálum. Við erum með heimasíma en hann virðist ekki virka sem skildi og íslensku gsm kortin okkar eru dauð. Svo er reyndar dyrabjallan biluð (!). Annars allt í hinu besta, frábært veður í dag og góð spá fyrir næstu daga.

Kveðjur frá Stokkhólmi!