29 janúar 2011

Borðað með fingrunum...

Við dömurnar í norðurbandalagi saumaklúbbsins hittumst í gær og áttum frábæra kvöldstund í eldhúsinu í Lautinni. Arabískur matur, arabísk tónlist, spjall um menningu Jemen og Saudi Arabíu, Ramadan og krydd og fleira í þeim dúr...

Við leigjum út kjallarann hjá okkur og undanfarna mánuði (bráðum ár) hafa búið þar hjón á aldur við okkur. Hún er frá Jemen, uppalin í Saudi arabíu. Þegar ég kem heim úr vinnunni leggur ilminn upp í eldhúsið mitt; ilm af alls kyns sterkum kryddum, grænmeti, kjúkling, aðeins meiri kryddum og vatnið rennur fram í munninn. Iðulega lítur þessi elska upp með smakk á diski og þvílíkur unaður...

Í gærkvöldi vorum við vinkonurnar semsagt á hvellnámskeiði í arabískri matargerð. Hún eldaði með okkur tvo rétti sem koma frá heimaborg hennar, Jeddah í Saudi Arabíu. Meðan á eldamennskunni stóð fræddi hún okkur um matarmenningu heimalanda sinna og svo miklu fleira.

Réttirnir á borðinu, við óðum að fyllast og mokuðum upp í okkur með guðsgöfflunum! Um það eru vissar reglur og við reyndum eftir bestu getu að fara eftir þeim - til dæmis mátti maturinn alls ekki snerta lófann og aðeins mátti borða með annarri og bera sig svo eftir björginni með hinni.

Ég fór með afgang af kjúklingnum í vinnuna í dag og borðaði með hníf og gaffli. Ég get sagt í fullri hreinskilni að þetta var engan veginn sami maturinn! Upplifunin er svo allt allt önnur.

Ég er að spá í að hafa "borða með höndunum dag" einu sinni í viku hér í Vanabyggðinni! Það var eitthvað hrikalegt kikk sem maður fékk út úr því að sitja með fimm dömum og snerta ekki á hnífapörunum alla máltíðina...

Að öðru. Sá hrikalega sæta heklaða kertastjaka hjá Jórunni vinkonu...stal uppskriftinni og gerði þrjá í kvöld. Er hooked á þessu núna og þá vitið þið hvað kemur upp úr afmælispökkunum næstu mánuðina...


ps. sprittkertabirgðirnar hafa ekki verið endurnýjaðar eftir jólin svo þeir eru ljóslausir eins og er...

22 janúar 2011

Kragi

Ég lauk við gataprjónskragann úr "Fleiri prjónaperlum" í kvöld. Búin að þvo hann og liggur hann nú til þerris. Uppskriftin gerði ráð fyrir eingirni en ég prjónaði hann úr Kambgarni. Hann er handa Rannveigu og hún er voðalega viðkvæm fyrir "stingu-ullinni". Hann er hvítur með gatamunstri alla leið. Ótrúlega flottur og kósí. Ég fór alveg með um það bil tvær dokkur af Kambgarninu, sem var ágætt því ég keypti þetta garn fyrir einhverju síðan, notaði í vettlinga en átti afganga, einhverjar áteknar og eina heila. Felldi bara af þegar garnið var að klárast, skv. uppskrift hefði ég átt að prjóna eina umferð af munstrinu í viðbót.

Ég hef aldrei áður prjónað svona gatamunstur en það kom mér á óvart hvað þetta var einfalt og skemmtilegt. Eftir fyrsta munstrið hafði ég týnt tveimur lykkjum og þurfti aðeins að rekja upp og telja og átta mig á þessu öllu saman en svo bara small þetta og var mjög fljótlegt.

Aldrei að vita nema maður fitji fljótlega upp á öðrum svona, og þá tými ég ekki öðru en að hafa hann fyrir sjálfa mig...

Hér má sjá mynd af slíkum kraga:
http://www.flickr.com/photos/prjonaperlur/5110424982/in/photostream/

18 janúar 2011

Einu sinni...

bloggaði ég í gríð og erg. Stundum á hverjum degi, stundum oft á dag. Svo varð ég feimin og hætti því.
Ætla að gera tilraun til að byrja aftur. Ég man nefnilega hvað þetta var helvíti gaman.

Í síðustu viku fór ég á pósthúsið og sendi mikilvæg skjöl til Svíþjóðar - fylgiskjöl með umsókn minni um MA nám í nokkrum skólum í Svíþjóð. Pósturinn er merkilegt fyrirbæri - ég fékk sumsé raðnúmer með kvittuninni minni og áðan fór ég inn á posturinn.is og gat séð að sendingin komst til skila í gær, klukkan nákvæmlega 13:13!

Þetta tók ekki nema tvo daga og en nú þarf ég að bíða í einhverja mánuði eftir því að fá að vita hvort einhverjum skólanna þóknist að veita mér inngöngu.


DagurTímiStaðurAðgerðTexti
15.01.201110:01102 Reykjavík-2PóstlagtPóstlagt
15.01.201111:20 C-Fór til útlandaISREKA T1220 Scan: P
16.01.201114:45 D-Kom á erlenda póstmiðstöðSESTOA Scan: D
17.01.201108:56 H-Afhendingartilraun/tilkynning erlendisSE/ Scan: H
17.01.201113:13 I-Afhent viðtakanda erlendisSE/ Scan: I


Svona umsóknarferli er svolítið bras. Til dæmis langar mig aldrei aldrei aftur að sitja í margar klukkustundir í lítilli tölvustofu ásamt 10 öðrum og taka enskupróf. TOEFL prófið gekk vel, samkvæmt niðurstöðunum er ég nógu góð í ensku til að komast inn í Harvard háskóla. En þetta próf var eiginlega kvöl og pína og ég hef sjaldan verið jafn úrvinda eftir nokkuð próf og þetta.

Ég hef eytt um það bil 560 klukkustundum á netinu að skoða skóla. Er búin að kíkja á flestalla skóla á TOPP500, þ.e.a.s. ef þeir voru í löndum sem komu til greina.

En nú er bara að krossa fingur og vona það besta. Ef jákvæð svör berast tekur við leit að húsnæði og skólum fyrir börnin...og leit að einhverjum sem er til í að leigja húsið okkar á Íslandi...spennandi ævintýri framundan!