30 október 2012

Halal kjöt og tyrkneskar fíkjur.

Það eru greinilega verkefnaskil fljótlega hjá mér. Þá þarf ég nefnilega alltaf að finna mér eitthvað annað að gera...en að sitja við skrifborðið mitt og skrifa. Til dæmis í dag, þá varð ég að fara að versla (og blogga um það). Ég þurfti hinsvegar ekki að eyða í það tveimur klukkustundum. Ég prófaði nefnilega nýja búð í dag! Þvílíkt himnaríki.

Hún er í sömu götu og stórmarkaðurinn sem við förum vanalega í en einhverra hluta vegna hef ég aldrei litið inn í hana. Þetta er sumsé mið-austurlensk verslunarkeðja (eða vörunar benda allavega til þess) og ég þekkti ekki nema svona um helming varanna þarna inni. En ég kom heim með appelsínusafa frá Egyptalandi, fíkjumauk frá Lebanon, fíkjur frá Tyrklandi (Midyat, sem var eitt sinn hluti af Sýrlandi), kókosolíu frá Sry-lanka og glænýtt halal slátrað nautakjöt (kjötborðs hluti búðarinnar ilmaði af blóði sko í alvörunni). Ég fékk líka 3,5 kg af kjúklingaleggjum (halal að sjálfsögðu) á litlar 50 krónur.  Ég eyddi sumsé rúmum klukkutíma inni í þessari búð, að lesa á krukkur og poka, velja mér hnetur og fræ úr risastórum hnetubar, skoða óteljandi tegundir af hrísgrjónum (korn-"herbergið" var miklu stærra en ávaxta- og grænmetis"herbergið"), ólívum og allskonar góðgæti. Í þessari búð sá ég í fyrsta sinn úrval af lambakjöti. Ég hefði getað keypt frampart á fínu verði, eistu (já!), lifur og nýru, lambagarnir og skanka. Allt saman nýslátrað og að sjálfsögðu eftir halal hefðinni.

Svo varð ég að fara í gamla góða stórmarkaðinn eftir mjólkurvörunum og te-inu mínu. Það var sumsé ekki hægt að kaupa sænska mjólk í halal búðinni og ég ákvað að halda mig við Arla. Stórmarkaðurinn var ferlega óspennandi miðað við Grossen. En það tók að minnsta kosti ekki jafn langan tíma að renna þar í gegn!


 ps. við fengjum glænýjar fíkjur í Grikklandi, beint af trénu. Það var held ég í fyrsta sinn sem ég smakkaði ferskar fíkjur. Þær voru undursamlegar og af allt öðru kaliberi en þær fíkjur sem ég hef prófað að kaupa hér í Svíþjóð. Ég hef mikla trú á þessu mauki frá Lebanon!

27 október 2012

Laugardagur með hefðbundnu sniði

Laugardagurinn hjá Adda og Rannveigu byrjaði klukkan 06:05, enda voru þau á leiðinni á sundmót. Við Jóhannes vöknuðum klukkutíma síðar en ferðinni var einnig heitið í sund. Jóhannes er um það bil hálfnaður með sundnámskeiðið og farinn að kafa og spyrna sér og svona allskonar. Hann stakk mig svo reyndar af og stökk beint niður í karlaklefann (enda vanari að fara með pabba sínum en mér í þessa laugardagstíma) og ég þurfti að sækja hann þangað, þar sem hann stóð berrasaður í heitri sturtunni og hafði það notalegt. Þetta var jafnvel svolítið vandræðalegt. Rannveig synti 100 m bringusund og bætti tímann sinn um tæpar þrjár sekúndur síðan í vor.

Stúlkan baðaði sig svo aðeins í Mäleren í dag, en við fórum í langan göngu/hjólatúr sem endaði með því að hún glannaðist eitthvað aðeins of mikið á ströndinni og pompaði út í! Þrjár gráður úti og vatnið ískalt.

Daginn endum við svo á þvi að horfa á Sven Ingvars syngja allskonar klassík á opnunarhátið Friends Arena í Stokkhólmi (nýji þjóðarleikvangurinn þeirra Svía). Við Addi ætlum einmitt að fara á þennan leikvang í vor og horfa og hlusta á Kiss...


22 október 2012

Haustkveðjur frá Jóhannesi

Á fullri ferð á leiðinni á leikskólann í morgun.
Leikskólinn hans Johannesar. Ekki sá glæsilegasti í borginni skulum við segja...

Laufin falla

:-*

17 október 2012

Hinn plebbalegi jólagjafalisti

Addi spurði mig í gær hvað mig langaði í í jólagjöf. Ég byrjaði að telja upp hluti sem mig langar sjúklega mikið í, en ég veit að ég á aldrei eftir að fá í jólagjöf (a.m.k. ekki númer 1-3 á listanum því þá yrði bóndi minn að vinna í lottói...). Hann kallaði mig plebba fyrir að langa í ipod og kindle. Sveiattan. 

1. Mig langar fáránlega mikið í nýjan ipod. Ég keypti mér ipod í einhverju flippi í fríhöfninni 2006. Hann er 2 gb, takkarnir hafa sjálfstæðan vilja og það komast svona 10 lög inn á hann. Batteríið er orðið mjög lélegt. Þegar maður eyðir stundum um 2 klst á dag í lest þá bara hreinlega verður maður að hlusta á tónlist. Tónlist er lífið og ég gef mér mjög lítinn tíma til að njóta og hlusta á tónlist heima. Við eigum ekki einu sinni geislaspilara. Mér verður líka stundum óglatt í lestinni þegar ég les (sem ég geri mikið af í lestinni) en tónlistin læknar það. Ég er ekki að fara að fá mér iphone eða álíka tæki á næstunni og langar bara í nýjan og flottan ipod. Adda fannst plebbalegt að ég skyldi nefna ipod. En hann gleymdir því að hann stelur mínum mjög oft, þrátt fyrir að finnast algjör óþarfi að eiga svona tæki...

2. Það sem ég nefndi næst var kindle. Svipaðar ástæður og að ofan - ég eyði miklum tíma í lest og ég eyði miklum tíma í lestur. Ég ber oft með mér þungar bækur hvert sem ég fer svo ég geti lesið. Það er bara ekkert gott fyrir bakið. Ef ég ætti nú bæði kindle og ipod, gæti ég lesið og hlustað á tónlist í einu, með lágmarks fyrirhöfn. Við eigum líka ofsalega mikið af bókum og það er mjög gaman og ég ætla ekki að hætta að kaupa bækur, en sumar bækur þarf maður samt ekki að eiga í bandi, þó maður vilji gjarnan lesa þær. Bókasöfn eru góð en kindle væri hreinn unaður. Ég kemst samt vel af án hans (annað má segja um ipodinn).




3. Svefnpoki. Einhverra hluta vegna fékk ég ekki svefnpoka í fermingargjöf, svona eins og um það bil allir aðrir. Og mig langar ofsalega mikið í góðan svefnpoka. Ég elska nefnilega að fara í útilegur en enda yfirleitt með gömlu æðardúnssængina mína með mér, sem er ofsalega hlý og góð inni í rúmi en bara ekkert svo hlý á köldum tjaldbotni. Ég komst að því þegar ég fékk einu sinni lánaðan unaðslegan svefnpoka hjá móður minni. Addi var svosem sáttur við þessa ósk og fannst hún ekki plebbaleg. Nema hann langar í tvöfaldan svefnpoka. Ekki mig.
Minn svefnpoki á að taka lítið pláss, vera mjúkur og fallegur. Svo er ég bara rétt rúmlega dvergur að stærð svo hann má ekki vera of langur, þá verður mér svo kalt á tásunum. 

4. Skór. Maður getur aldrei átt of mikið af skóm. Eða sko ég á reyndar aldrei skó neitt of lengi því ég er skóböðull. Það kallast gott ef ég á sömu skóna í tvö ár. Það gildir reyndar ekki um spariskó sem ég nota sjaldan, en svona götuskó. Ég fór einu sinni í göngugreiningu og það kom auðvitað í ljós að ég er frekar vansköpuð hvað varðar niðurstig og svona þannig að greinirinn sagði að ég ætti skilyrðislaust alltaf að kaupa mér gæðaskó og aldrei að spara í skókaupum. Ég hef ekki hlýtt því hingað til. Mig langar í góða skó. Alvörunni skó úr góðu efni með góðum sóla og virkilega vandaða. Svona ecco dæmi eitthvað. Nema ekki hallærislega samt. Brúnu six mix skórnir mínir (sem ég er búin að eiga í tvo vetur) eru búnir að fara tvisvar til skósmiðs og nú eru þeir enn á ný orðnir götóttir. Ætli ég verði ekki að fara að henda þeim blessuðum. Þá væri kjörið að fá nýja góða skó. Sem þola Stokkhólmsvetrarkulda.

5. Bækur. Þær langar mig alltaf alltaf í. Núna langar mig sjúklega mikið í orðsifjabók Ásgeirs Blöndals Magnússonar. Og framhald sögu Vilborgar Davíðsdóttur um Auði djúpúðgu sem á að koma út í haust. Og svo framvegis...

6. Peysa. Hlý, notaleg, litrík, þægileg...eitthvað svona kannski...



Það er gaman að gera svona lista og láta sig dreyma um að bruna í lestinni með úrval tónlistar í eyrunum og takka sem virka, lesandi allskonar skemmtilegar rafbækur...í þægilegum skóm og fallegri peysu...kannski með nýjan klút um hálsinn...


  

13 október 2012

Jóhannesar-mont

Jóhannes er á fleygiferð þessa dagana. Hann er byrjaður á sundnámskeiði og gengur það mjög vel. Hann bjargar sér nánast alveg sjálfur í klefanum og er hress og kátur. Ekkert vesen á honum :) Svo er hann að hugsa um að fara á skautanámskeið líka. Hann byrjaði líka að hjóla á dögunum. Hann er ennþá að æfa sig og fínpússa tæknina en þetta er allt að koma, svolítið síðan hjálpardekkin fóru en æfingar hafa verið stopular og áhuginn og einurðin ekki fyrir hendi fyrr en nú. Og þá gerist þetta bara kviss, bamm búmm!

Í gærkvöldi byrjaði hann svo að telja...og taldi upp að hundrað bæði á sænsku og íslensku. Og fór létt með það. 


12 október 2012

Bestu og verstu kaupin?

Um daginn var dálkur í dagblaðinu þar sem fólk var spurt út í verstu og bestu tækjakaup þess. Flestir settu froðuþeytara* í fyrsta sæti og dýr rafmagnstæki eins og myndbandstökuvél og síma í flokkinn með verstu kaupunum.

Ég tek hjartanlega undir þetta með froðuþeytarann! Ég keypti svoleiðis maskínu í haust, á um það bil 60 krónur. Síðan hef ég notað hann mikið til að flóa mjólk í kaffið eða til að búa til frappe. Við hjónin ræddum þessi mál aðeins yfir morgunkaffinu (með flóaðri að sjálfsögðu), en Addi er kannski ekki alveg sammála mér þar sem hann drekkur kaffið sitt svart og er ekki sérstakur aðdáandi hins gríska frappe.

Við gátum þó verið sammála um að verstu kaupin mín hefðu sennilega verið pressukannan sem ég keypti og gleymdi í Ikea rétt eftir að við fluttum hingað...

* ég veit reyndar ekki hvort froðuþeytari sé endilega gott nafn á þessu fyrirbæri...

10 október 2012

Älvdalen

Það er óhætt að segja að Rannveig Katrín hafi verið mun duglegri að ferðast um Svíþjóð en við foreldrarnir. Hún er búin að fara til Nyköping, Norrköping, Uppsala og í hinn risastóra dýragarð Kolmården (Nordens största djurpark!) - allt með sundfélaginu. Þau fara reglulega í "sundbúðir" út fyrir borgina og taka þá massívar æfingar á nýjum stað, gista á gistiheimili eða jafnvel á hóteli og skoða sig aðeins um. Á dögunum fór félagið svo í keppnisferð til Gotlands og svo er árlegt sundmót á Öland, sem hún kemst vonandi á.

Framundan er svo svolítið lengri ferð - eða til Älvdalen sem er í norðurhluta Dalarna, upp við landamæri Noregs.



 
 Þangað verður farið í haustfríinu núna í lok október. Ferðalagið tekur um 2 1/2 tíma með lest og stoppað verður frá mánudegi til fimmtudags. Þau ætla að ná sex æfingum á þessum tíma og hafa gaman saman.
 
 


08 október 2012

Náttfatapartý

Ég fór í náttfatapartý síðasta föstudag. Veit ekki hvenær í ósköpunum ég gerði eitthvað svoleiðis síðast - en þetta var mjög gaman. Íslendingur, Írani og tveir Grikkjar skemmtu sér mjög vel yfir Dirty Dancing, horfa á youtube myndbönd, Sex and the city, baka pizzu og spjalla...


Fyrr um daginn fór ég á kaffihús með þremur írönskum stúlkum og ræddum við lengi saman um menningu og stjórnmál og allskonar annað gáfulegt. Þetta er það langbesta við að stunda nám í útlöndum - að kynnast allskonar frábærlega fjölbreyttu fólki frá hinum ýmsu heimshornum :o)

03 október 2012

Íslænska...

Ég skrifaði að gamni niður glefsur úr um það bil 10 mínútna samtali sem Jóhannes átti við föður sinn í kvöld. Svona talar sumsé fimm ára drengurinn minn.

"Pabbi, ég ætla að försätta að læra þig sænsku ända þangað til við komum aftur til Íslands"

"Ég er redan búinn að læra mig sænsku"

"Ég er fortfarande svangur"

"Ég hef engan aning!"

"Það er ganska skrítið"

"Þessi bíll er alveg eins og vagnur"

Það merkilega er að hann blandar nánast aldrei íslenskum orðum inn í samtöl sem fara fram á sænsku, en þegar hann talar íslensku við okkur hérna heima þá kemur varla setning frá honum sem ekki er með sænskum orðum í eða þá málfræðilega kolröng. Það verður krefjandi fyrir hann að flytja aftur heim og eiga samskipti á 100% íslensku. Nú þegar er nokkuð erfitt fyrir fólk að skilja hann í gegnum síma eða skype - nema að það kunni eitthvað í sænsku.

Á maður samt nokkuð að hafa áhyggjur af þessu? Við lesum fyrir hann á íslensku á nánast hverju kvöldi (einstaka sinnum á sænsku), leiðréttum hann temmilega mikið og tölum mjög mikið við hann. "Vandamálið" er kannski að við skiljum hann fullkomlega þó hann blandi tungumálunum saman og tökum jafnvel ekki alltaf eftir því. Það verður í það minnsta forvitnilegt að fylgjast með þróun mála í framhaldinu :o)

I used to rule the world...



Í lok ágúst fórum við Addi á stórkostlega tónleika.

                                                          S T Ó R K O S T L E G A.

Við erum sammála (sem betur fer) um það að það sé mikilvægara að safna minningum og upplifunum frekar en dauðum hlutum. Það kom því svosem ekki á óvart að Addi skyldi gefa mér bestu þrítugsafmælisgjöf í heiminum, sumsé miða á tónleika með Coldplay, einni af mínum uppáhaldshljómsveitum til margra ára.

Við fengum pössun og fórum í fyrsta sinn í meira en eitt ár bara tvö saman út. Vorum mætt snemma á Stockholm Stadium, fundum sætin okkar, fengum okkur bjór og biðum eftir að goðin mættu á svið. Biðin var nokkuð löng og örlítið köld en ó hvað hún var þess virði. Þess ber að geta að ég hef eiginlega aldrei farið á alvörunni tónleika áður (veit ekki hvort ég á að telja James Brown tónleikana Laugardalshöllinni með). Um leið og Coldplay mættu á sviðið brjálaðist allt og armböndin okkar byrjuðu að blikka og ég fékk gæsahúð og tár í augun og var ekki lengur kalt og brosti að sjálfsögðu hringinn allan tímann. Söng mig hása og hjarta mitt fylltist af hamingju. Jamm þetta var stórkostlegt.


Allir tónleikagestir fengu armbönd sem blikkuðu í takt við sum lögin. Það var myrkur úti og þetta útspil þeirra bætti heldur betur á stemmninguna og upplifunina. Ég set hérna inn klippu frá tónleikunum, þegar þeir tóku Paradise í annað sinn - og átti það að vera upptaka fyrir þáttinn Stand up to cancer. Chris sagðist ætla að gera svolítið klikkað með okkur, en þeir hefðu verið beðnir um að koma með innslag í þennan þátt og þeir samþykktu það ef þeir fengju að taka það upp í Stokkhólmi. Svo kom nú reyndar í ljós að þeir höfðu sagt nákvæmlega það sama á tónleikum í París og sú upptaka var notuð í þættinum. Nokkrir Svíar urðu fúlir...en þetta atriði var nú samt með þeim flottustu á tónleikunum :o)

Ég hef alveg verið meðal þeirra sem finnst algjört bruðl að eyða peningum í dýra tónleikamiða - en þetta var svo þess virði og er eitt af því sem ég ætla að gera meira af. Viva la vida!