03 október 2012

I used to rule the world...



Í lok ágúst fórum við Addi á stórkostlega tónleika.

                                                          S T Ó R K O S T L E G A.

Við erum sammála (sem betur fer) um það að það sé mikilvægara að safna minningum og upplifunum frekar en dauðum hlutum. Það kom því svosem ekki á óvart að Addi skyldi gefa mér bestu þrítugsafmælisgjöf í heiminum, sumsé miða á tónleika með Coldplay, einni af mínum uppáhaldshljómsveitum til margra ára.

Við fengum pössun og fórum í fyrsta sinn í meira en eitt ár bara tvö saman út. Vorum mætt snemma á Stockholm Stadium, fundum sætin okkar, fengum okkur bjór og biðum eftir að goðin mættu á svið. Biðin var nokkuð löng og örlítið köld en ó hvað hún var þess virði. Þess ber að geta að ég hef eiginlega aldrei farið á alvörunni tónleika áður (veit ekki hvort ég á að telja James Brown tónleikana Laugardalshöllinni með). Um leið og Coldplay mættu á sviðið brjálaðist allt og armböndin okkar byrjuðu að blikka og ég fékk gæsahúð og tár í augun og var ekki lengur kalt og brosti að sjálfsögðu hringinn allan tímann. Söng mig hása og hjarta mitt fylltist af hamingju. Jamm þetta var stórkostlegt.


Allir tónleikagestir fengu armbönd sem blikkuðu í takt við sum lögin. Það var myrkur úti og þetta útspil þeirra bætti heldur betur á stemmninguna og upplifunina. Ég set hérna inn klippu frá tónleikunum, þegar þeir tóku Paradise í annað sinn - og átti það að vera upptaka fyrir þáttinn Stand up to cancer. Chris sagðist ætla að gera svolítið klikkað með okkur, en þeir hefðu verið beðnir um að koma með innslag í þennan þátt og þeir samþykktu það ef þeir fengju að taka það upp í Stokkhólmi. Svo kom nú reyndar í ljós að þeir höfðu sagt nákvæmlega það sama á tónleikum í París og sú upptaka var notuð í þættinum. Nokkrir Svíar urðu fúlir...en þetta atriði var nú samt með þeim flottustu á tónleikunum :o)

Ég hef alveg verið meðal þeirra sem finnst algjört bruðl að eyða peningum í dýra tónleikamiða - en þetta var svo þess virði og er eitt af því sem ég ætla að gera meira af. Viva la vida!

2 ummæli:

  1. Vá hvað það hefði verið gaman að vera með

    SvaraEyða
  2. já það var nú m.a. þér að þakka að við komumst yfir höfuð á þessa tónleika góða mín! Þú kemur með næst :)

    SvaraEyða

við elskum comment!