27 október 2012

Laugardagur með hefðbundnu sniði

Laugardagurinn hjá Adda og Rannveigu byrjaði klukkan 06:05, enda voru þau á leiðinni á sundmót. Við Jóhannes vöknuðum klukkutíma síðar en ferðinni var einnig heitið í sund. Jóhannes er um það bil hálfnaður með sundnámskeiðið og farinn að kafa og spyrna sér og svona allskonar. Hann stakk mig svo reyndar af og stökk beint niður í karlaklefann (enda vanari að fara með pabba sínum en mér í þessa laugardagstíma) og ég þurfti að sækja hann þangað, þar sem hann stóð berrasaður í heitri sturtunni og hafði það notalegt. Þetta var jafnvel svolítið vandræðalegt. Rannveig synti 100 m bringusund og bætti tímann sinn um tæpar þrjár sekúndur síðan í vor.

Stúlkan baðaði sig svo aðeins í Mäleren í dag, en við fórum í langan göngu/hjólatúr sem endaði með því að hún glannaðist eitthvað aðeins of mikið á ströndinni og pompaði út í! Þrjár gráður úti og vatnið ískalt.

Daginn endum við svo á þvi að horfa á Sven Ingvars syngja allskonar klassík á opnunarhátið Friends Arena í Stokkhólmi (nýji þjóðarleikvangurinn þeirra Svía). Við Addi ætlum einmitt að fara á þennan leikvang í vor og horfa og hlusta á Kiss...


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

við elskum comment!