17 október 2012

Hinn plebbalegi jólagjafalisti

Addi spurði mig í gær hvað mig langaði í í jólagjöf. Ég byrjaði að telja upp hluti sem mig langar sjúklega mikið í, en ég veit að ég á aldrei eftir að fá í jólagjöf (a.m.k. ekki númer 1-3 á listanum því þá yrði bóndi minn að vinna í lottói...). Hann kallaði mig plebba fyrir að langa í ipod og kindle. Sveiattan. 

1. Mig langar fáránlega mikið í nýjan ipod. Ég keypti mér ipod í einhverju flippi í fríhöfninni 2006. Hann er 2 gb, takkarnir hafa sjálfstæðan vilja og það komast svona 10 lög inn á hann. Batteríið er orðið mjög lélegt. Þegar maður eyðir stundum um 2 klst á dag í lest þá bara hreinlega verður maður að hlusta á tónlist. Tónlist er lífið og ég gef mér mjög lítinn tíma til að njóta og hlusta á tónlist heima. Við eigum ekki einu sinni geislaspilara. Mér verður líka stundum óglatt í lestinni þegar ég les (sem ég geri mikið af í lestinni) en tónlistin læknar það. Ég er ekki að fara að fá mér iphone eða álíka tæki á næstunni og langar bara í nýjan og flottan ipod. Adda fannst plebbalegt að ég skyldi nefna ipod. En hann gleymdir því að hann stelur mínum mjög oft, þrátt fyrir að finnast algjör óþarfi að eiga svona tæki...

2. Það sem ég nefndi næst var kindle. Svipaðar ástæður og að ofan - ég eyði miklum tíma í lest og ég eyði miklum tíma í lestur. Ég ber oft með mér þungar bækur hvert sem ég fer svo ég geti lesið. Það er bara ekkert gott fyrir bakið. Ef ég ætti nú bæði kindle og ipod, gæti ég lesið og hlustað á tónlist í einu, með lágmarks fyrirhöfn. Við eigum líka ofsalega mikið af bókum og það er mjög gaman og ég ætla ekki að hætta að kaupa bækur, en sumar bækur þarf maður samt ekki að eiga í bandi, þó maður vilji gjarnan lesa þær. Bókasöfn eru góð en kindle væri hreinn unaður. Ég kemst samt vel af án hans (annað má segja um ipodinn).




3. Svefnpoki. Einhverra hluta vegna fékk ég ekki svefnpoka í fermingargjöf, svona eins og um það bil allir aðrir. Og mig langar ofsalega mikið í góðan svefnpoka. Ég elska nefnilega að fara í útilegur en enda yfirleitt með gömlu æðardúnssængina mína með mér, sem er ofsalega hlý og góð inni í rúmi en bara ekkert svo hlý á köldum tjaldbotni. Ég komst að því þegar ég fékk einu sinni lánaðan unaðslegan svefnpoka hjá móður minni. Addi var svosem sáttur við þessa ósk og fannst hún ekki plebbaleg. Nema hann langar í tvöfaldan svefnpoka. Ekki mig.
Minn svefnpoki á að taka lítið pláss, vera mjúkur og fallegur. Svo er ég bara rétt rúmlega dvergur að stærð svo hann má ekki vera of langur, þá verður mér svo kalt á tásunum. 

4. Skór. Maður getur aldrei átt of mikið af skóm. Eða sko ég á reyndar aldrei skó neitt of lengi því ég er skóböðull. Það kallast gott ef ég á sömu skóna í tvö ár. Það gildir reyndar ekki um spariskó sem ég nota sjaldan, en svona götuskó. Ég fór einu sinni í göngugreiningu og það kom auðvitað í ljós að ég er frekar vansköpuð hvað varðar niðurstig og svona þannig að greinirinn sagði að ég ætti skilyrðislaust alltaf að kaupa mér gæðaskó og aldrei að spara í skókaupum. Ég hef ekki hlýtt því hingað til. Mig langar í góða skó. Alvörunni skó úr góðu efni með góðum sóla og virkilega vandaða. Svona ecco dæmi eitthvað. Nema ekki hallærislega samt. Brúnu six mix skórnir mínir (sem ég er búin að eiga í tvo vetur) eru búnir að fara tvisvar til skósmiðs og nú eru þeir enn á ný orðnir götóttir. Ætli ég verði ekki að fara að henda þeim blessuðum. Þá væri kjörið að fá nýja góða skó. Sem þola Stokkhólmsvetrarkulda.

5. Bækur. Þær langar mig alltaf alltaf í. Núna langar mig sjúklega mikið í orðsifjabók Ásgeirs Blöndals Magnússonar. Og framhald sögu Vilborgar Davíðsdóttur um Auði djúpúðgu sem á að koma út í haust. Og svo framvegis...

6. Peysa. Hlý, notaleg, litrík, þægileg...eitthvað svona kannski...



Það er gaman að gera svona lista og láta sig dreyma um að bruna í lestinni með úrval tónlistar í eyrunum og takka sem virka, lesandi allskonar skemmtilegar rafbækur...í þægilegum skóm og fallegri peysu...kannski með nýjan klút um hálsinn...


  

1 ummæli:

  1. Æ, það er nú bara soldið gaman að langa og hlakka til! Það væri ekkert gaman ef maður gæti bara keypt sér allt sem mann langar í!

    Ég man þegar þú keyptir gamla skrjóðinn, a.k.a. Ipodin (hvernig er annars hægt að gleyma þeirri ferð!). Ég var svo "heppin" að minn ipod var einn af þeim sem var kallaður inn og ég fékk nýjan pínulítinn með snertiskjá í staðinn og ég var eins og barn á jólunum og ég svo spennt!

    Knús yfir hafið!

    SvaraEyða

við elskum comment!