30 maí 2012

Rannveig kennari

Rannveig er búin að vera í "Teater" í vetur ásamt fleiri stelpum úr Hässelby. Þetta er sumsé leiklistarstarf á vegum borgarinnar, hluti af því tómstundastarfi sem krökkum stendur til boða eftir skóla. Rannveig taldi að hún hefði ekki alveg nógu mikið að gera með fjórar sundæfingar á viku og vildi endilega fylgja vinkonum sínum í leiklistina :)

Uppskeruhátíðin var svo í gærkvöldi þar sem hópurinn sýndi leikrit sem hann samdi í sameiningu. Það fjallaði um kennara og mis-óþekka nemendur. Rannveig lék kennarann og reyndi að hafa hemil á liðinu, afar ströng á svip.

Hér má sjá hópinn að lokinni sýningu í gær.


Kvikk Lunsj

Við fengum afar ánægjulega heimsókn frá Osló í síðustu viku. Bekkjarsystir og vinkona úr MA var hjá okkur í nokkra daga. Hún færði okkur súkkulaði - besta súkkulaði sem ég hef smakkað held ég bara. Og hef ég nú alveg prófað mig aðeins áfram...

Ég var búin að frétta af þessu súkkulaði og var afar spennt að smakka...unaður!

Mæli með því að splæsa í svona súkkulaði ef þið eigið leið um Noreg. Mjólkursúkkulaði með Kvikk Lunsj bitum (=kitkat) og hafsalti. Jamm það er hafsaltið sem er aðalmálið.

25 maí 2012

Bananar og sól

Ég sit úti á svölum með kaffibollann og klukkan er að verða átta. Sumarið er komið í Stokkhólmi og ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að reikna með að júlí verði - því júlí er víst heitasti mánuðurinn. Það voru 24 gráður í Hässelby í dag og það var sko heitt. Krakkarnir fara í stuttbuxum í skólann og fullt af fólki á ströndinni á hverjum degi. Ég roðnaði vel í sólinni í dag og svo fórum við Addi með Jóhannes á ströndina þegar þeir voru búnir í skólunum. Margir á sundfötunum að baða, leika sér í frisbí úti í vatninu, synda svolítið eða bara flatmaga í sólinni. Og grilla. Sumir koma með allt eldhúsið með sér og hita sér te og allt saman eftir matinn. 

Annars er lífið bara ljúft, vinkona mín er í heimsókn hjá okkur núna, stutt í sumarfríið og börnin kát.

Geitungarnir eru aðeins farnir að herja á okkur og við bíðum bara eftir bananaflugunum.

Bananaflugurnar eru hræðileg kvikindi. Þær eru lika til á Íslandi en ég hafði samt aldrei tekið eftir þeim fyrr en hérna í fyrrasumar. Þær elska allt sem er sætt, ávexti sérstaklega. Ávaxtaskálin er heimilið þeirra, líka ruslið, eldhúsvaskurinn og bara allt eldhúsið. Þær eru viðbjóður. Fjölga sér á NOTIME og það er sko bannað að skilja eftir hálfan ávöxt á eldhúsbekknum eftir að vertíð þeirra hefst. Ég hef alveg haft fyrir sið að skera t.d. hálfan banana út í AB mjólkina á morgnana og geyma svo rest þangað til eftir hádegið. Ó nei. Stranglega bannað.


21 maí 2012

Hjólapælingar

Hjónin á Maltesholmsvägen bíða nú óþreyjufull eftir sumarfríinu! Næst á dagskrá er að hjóla um borgina - en það er mjög einfalt hérna þrátt fyrir að eiga ekki hjól. Það er hægt að kaupa sumarkort (frá 1. apríl til 31. október) í svokölluðu city-bikes kerfi. Hjólin er að finna í sérstökum stöndum út um allt í miðbænum og þá er bara að sækja sér hjól og hjóla af stað. Maður má hafa hjólið í þrjár klukkustundir og skila því til baka í hvaða hjólastand sem er. Þetta er án efa frábær leið til að skoða borgina, og ekki jafn tímafrekt og að ganga - og kostar bara 250 kr. fyrir allt tímabilið. Skila seinni lokaritgerðinni eftir tvo daga...svo get ég farið að hjóla :o)


16 maí 2012

Västergötland

Nú styttist óðum í sumarfríið okkar! Ég fer í frí um mánaðarmótin maí-júní, Addi nokkrum dögum á eftir mér og Rannveig og Jóhannes 13. júní. Við ætlum svo í svolítið ferðalag þegar við verðum öll komin í sumarfrí, en við höfum leigt litla "stugu" á Västergötland. Þetta er eldgamalt hús, byggt átjánhundruðogeitthvað, án rennandi vatns og því lítið um lúxus í þessu fríi.


Hér er kort af Västergötland, það er sumsé svæðið sunnan við Väneren, sem er "hitt" stóra stóra vatnið í Svíþjóð. Bústaðurinn er sunnan við Lidköping, rétt hjá bænum Vara, sem er merktur inn á kortið. Um tveggja tíma akstur er til Gautaborgar og nokkrir kílómetrar til Skara sommarland, sem Rannveig er búin að panta að fá að fara til. Það er risastór skemmtigarður, vatnsleikjagarður og svo framvegis. Það á sumsé að eyða einum degi þar. Svo förum við og böðum í Väneren (engin sturta í bústaðnum) og fleiri náttúrulegum baðstöðum, heimsækjum kannski Gautaborg og svo bara það sem okkur dettur í hug. Mig langar náttúrulega líka til að fara til Uddevalla og Fjällbacka, þar sem fyrstu bækur Camillu Läckberg gerast - en þær hafa verið lesnar hér á heimilinu til að bæta sænskukunnáttuna.


Hér er svo mynd af húsinu. Voðalega sætt, 60 fm hús. Við kjósum reyndar að líta svo á að þetta sé advance tjald, þar sem við erum alls ekki á leiðinni í hefðbundið sumarhús með öllu tilheyrandi! Þarna verðum við í viku og hlökkum mikið til!


09 maí 2012

Eitt og annað

Síðustu dagar hafa verið mjög annasamir hjá okkur - og þá er einmitt rétti tíminn til að skjóta inn bloggfærslu. Það er að minnsta kosti mín leið til að slaka aðeins á þegar stressið er að fara með mig. Og skárra en þetta endalausa helv... facebook hangs.

Addi er búinn að vera á milljón að plögga hitt og þetta síðustu daga. Hann var í SFI lokaprófinu í gær og í dag - SFI er sænska fyrir innflytjendur en hann fór í stöðupróf og fékk í framhaldinu náðasamlegast að taka síðasta og efsta stigið hjá þeim. Þannig að hann hefur verið í stífum sænskutímum 6 tíma á viku undanfarna tvo mánuði eða svo. Og nú hefur hann lokið þessum grunni sem þýðir aðgang að næsta stigi sem er sænska sem annað mál. Ef hann hefur staðið sig sæmilega á prófinu hefur hann jafnvel möguleika á SFI-bónusi - en Svíar borga innflytjendum fyrir að læra sænsku hratt og örugglega. Ef fólk stendur sig vel og klárar SFI innan ákveðinna tímamarka er hægt að fá allt að 12.000 króna bónus. Eitthvað höfum við nú heyrt um tregðu hjá þeim til að borga Íslendingum þennan bónus þar sem þeir vilja meina að við höfum ósanngjarnt forskot á innflytjendur úr öðrum málheimi en við sjáum hvað gerist, væri fínt að fá smá sumarbónus, eigum nú samt örugglega ekki rétt á nema hluta upphæðarinnar þar sem Addi þurfti bara að taka eitt stig af fjórum :o)

Ég hef ekki ennþá fengið tækifæri til sænskunáms, ég þótti "of góð" fyrir SFI og átti að fara í sænsku sem annað mál. Þar er enginn bonus svo skynsemin sagði okkur að Addi ætti að taka SFI á vorönninni og reyna að krækja í sumarbónusinn og ég ætla svo í sænsku fyrir innflytjendur á haustönninni. Ef við komumst í dagskóla í því gætum við jafnvel bæði tekið tvö til þrjú námskeið. En það þýðir stærra og meira stöðupróf en við fórum í hjá SFI.

Ég hoppaði svo inn í afleysingar á leikskóla í gær. Þetta er sænskur leikskóli og ég þurfti að gjöra svo vel og tala sænsku allan daginn og það gekk vonum framar. Börnin voru reyndar dugleg að leiðrétta mig ef þeim fannst ég bera nöfnin þeirra eitthvað skringilega fram (Juuliaaa en ekki Julia). Eftir þennan dag á þessum fína leikskóla varð ég nú hálf miður mín að sækja Jóhannes á litla púkó leikskólann sem hann er á, þar sem aðstaðan er glötuð, leiksvæðið pínulítið moldarflag og eini leikskólakennarinn á deildinni hans hættur. Svo eru vinir hans að hætta í sumar og fara í förskolaklass (en þeir eru allir árinu eldri en hann). Hann er líka orðinn svolítið leiður, vill ekki alltaf fara þangað á morgnana og stundum súr á svipinn þegar við komum að sækja hann. Honum líður samt vel og starfsfólkið er ósköp notalegt en...við ætlum aðeins að hugsa þetta.

Rannveig stóð sig svo vel á mótinu um síðustu helgi að hún er komin í úrslit í tveimur greinum, 50 flug og svo 4x50 fjór-boðsundi. Það voru s.s. fleiri mót (Vårsimaiden) á sama tíma á mismunandi stöðum í Stokkholmi og 16 bestu af þeim mótum komast í úrslitakeppnina sem fer fram í júní. Þær voru bara tvær úr hópnum hennar sem komust í einstaklingsgreinum og spenningurinn og stoltið er mikið á þessum bæ :o)

Í gær kom þessi líka stóri pakki með póstinum, allskonar fallegar gjafir - íslensk tónlist og bókmenntir fyrir alla aldurshópa, harðfiskur og kúlusúkk og eitthvað mjúkt líka. Fjölskyldan sprakk náttúrulega úr hamingju og þakkar ofsalega vel fyrir sig!


ps. Jóhannes er búinn að kenna öllum á leikskólanum að segja KA.


07 maí 2012

Sunnudagssíðdegi í Hässelby

Vorið er komið, kvöldin eru falleg og rómantísk og Mäleren skartar sínu fegursta. Smábátaeigendurnir eru farnir að leggja bátum sínum við höfnina sem er fyrir neðan húsið okkar og það er alltaf fólk á ströndinni. Við Jóhannes fórum í göngutúr með myndavélina kl. 18 í gærkvöldi og tókum myndir af ströndinni okkar (við erum 3 mínútur að ganga þangað) og cherryblossom trénu fyrir utan húsið okkar. Það er eitthvað svo ævintýralegt við þessi bleiku tré! Og Jóhannes langar svo í bát!










06 maí 2012

Södertälje

Við mæðgur eyddum deginum í gær í Södertälje, litlum bæ suðvestur af Stokkhólmi. Við þurftum að fara í Tunnelbana, Tvärbana, Pendeltåg og strætó til að komast á leiðarenda. Ég hafði aldrei komið þangað áður og bjóst satt best að segja ekki við miklu. Bærinn hefur verið svolítið í fréttunum hérna fyrir allskonar ofbeldiverk og átök á milli gengja. Um 40% íbúanna eru innflytjendur og talað um bæinn sem "slömm". Þetta er iðnaðarbær og t.d. á Scania höfuðstöðvar og aðalverksmiðju.

Ég sat á hörðum sundlaugarbekk mestallan daginn og stelpan í lauginni, en í kærkomnu hádegishléi fórum við út með nestið okkar og fórum svo í göngutúr um miðbæ Södertälje. Þar sá ég þessa skemmtilegu Volvo dráttarvél, minnti mig svolítið á Gamla Zetorinn í Ásgeirsbrekku - en aldrei hef ég heyrt um Volvo dráttarvél áður!


Svo vorum við allt í einu komnar í Kringluna, stóra verslunarmiðstöð. Bara allt eins og heima!


Svíar eru miklir jafnréttissinnar og ég fann mig knúna til að smella mynd af þessu skilti:


Þessari mynd stal ég af netinu, en það var álíka fallegur dagur í gær og við sáum einmitt nokkur skip. Fallegur bær, á sem rennur um hann miðjan, mikið af kaffihúsum og veitingastöðum, kósí öðruvísi búðir, second hand og allt mjög snyrtilegt. Ég sendi krakkann svo í upphitun og settist á kaffihús með íslenskri æskuvinkonu sem býr einmitt í Södertälje. Átti þar notalega stund og spjall áður en ég þurfti að færa mig á harða bekki sundlaugarinnar. Addi er svo á leiðinni þangað núna með dömuna til að klára síðustu tvær greinarnar.



05 maí 2012

Rannveig syndir boðsund


Við Rannveig fórum á sundmót í dag, þar sem hún keppti í fimm greinum (100 m. skrið, bak, fjór, 50 flug og 4*50 m boð-skriðsund). Hún stóð sig alveg svakalega vel, en það eru þrír mánuðir síðan hún keppti síðast í 100 m greinum (hennar aldursflokkur keppir oftar í 50 m). Bætingin var mikil, rúmar 17 sekúndur í þessum þremur 100 m greinum og hún hélt flugsundstímanum sínum.

Svo rústaði liðið hennar riðlinum í 4*50 metrunum og voru í sjötta sæti í heildina þar. Á myndbandinu má sjá Rannveigu stinga sér til sunds og synda þessa 50 metra. Takið eftir þulinum kynna hana, þeim þykir alltaf voðalega erfitt að segja "Arnarsdottir". Það er stelpa að æfa með Rannveigu sem á pottþétt eftir að verða eitthvað stórt í sundinu, hún er ótrúlega snögg! Hún synti fyrsta sprettinn og náði sumsé þessu forskoti sem sést á myndbandinu - Rannveig er búin að snúa við þegar sést í næsta keppanda...

04 maí 2012

Litla ninjan okkar


Jóhannes gerðist mikill áhugamaður um bardagaíþróttir fyrir nokkrum vikum síðan. Eitthvað hefur áhuginn þó dvínað undanfarið (og enginn söknuður í okkur hinum svosem, þar sem við gátum átt von á karatesparki í rassinn hvenær sem er...).

Þetta myndband er síðan seinnipartinn í apríl, þá var þessi della í hámarki.

01 maí 2012

Valborg og vorkoman

Nú er langri helgi að ljúka, en Svíar eru með rauðan dag bæði 30. apríl (Valborgarmessa) og svo að sjálfsögðu 1. maí. Veðrið hefur verið svakalega gott í dag og í gær, yfir 15 stiga hiti og sól. Við skelltum okkur á stöndina í gær - en þar getur Jóhannes dundað sér endalaust með skóflu og fötu. Það var svolítið af fólki þar, nokkrir að grilla og ein hugrökk ung kona stakk sér til sunds í kalt vatnið. Við dáðumst að henni og við Rannveig ræddum möguleikann á morgun-sjó sundi næstu daga - þangað til við óðum útí og fundum fyrir kuldanum (kuldaskræfur). Eftir útiveru allan daginn var ekki laust við að sjá mætti eldrauða upphandleggi, enni, bringu og háls á hinum ýmsu meðlimum Maltesholmsfjölskyldunnar!

Um kvöldmatarleytið gengum við/hjóluðum á leikvöll í næsta hverfi, Hässelby gård, þar sem átti að fagna vorinu og Valborgarmessu. Grillaðar pylsur, teppi, leikir, andlitsmálun...varðeldur og söngur (sem við heyrðum reyndar aldrei!). Ekki var nú varðeldurinn sérstaklega stór en þarna safnaðist saman slatti af fólki úr hverfinu og eftir níu mánuði könnuðumst við nú við nokkur andlit, heilsuðum nokkrum og áttum jafnvel orðaskipti við eins og tvær hræður. Gamla fólkið úr húsunum kringum okkur var NB ekki mætt þarna, annars hefðum við auðvitað þekkt mun fleiri ;o)

Johannes með nýjan myndasvip

Rannveig hitti vinkonu sína, Eveline

Stórglæsilegur varðeldur í uppsiglingu!

Í dag var sama blíðan, fótbolti á ströndinni og rólegheit. Ég var nú mest að læra en stalst aðeins út í sólina líka (með sólarvörn í þetta skiptið!). Addi var að ljúka áfanga á föstudaginn og ég skila lokaritgerð á morgun og byrja á annarri sem á að skila í lok maí. Addi byrjar svo í síðasta áfanganum í MA náminu á morgun, ótrúlegt hvað þetta er fljótt að líða! Hann á bara eftir MA ritgerðina og starfsþjálfun (sem enn er óvíst hvar fer fram).

Og að lokum:

Jóhannes með grímuna sína sem hann bjó til "aldeilis" sjálfur. Stalst í garn frá móður sinni og batt í blaðið og rændi svo sólgleraugum systur sinnar. "Ó hvað kreatívur hann er!"