09 maí 2012

Eitt og annað

Síðustu dagar hafa verið mjög annasamir hjá okkur - og þá er einmitt rétti tíminn til að skjóta inn bloggfærslu. Það er að minnsta kosti mín leið til að slaka aðeins á þegar stressið er að fara með mig. Og skárra en þetta endalausa helv... facebook hangs.

Addi er búinn að vera á milljón að plögga hitt og þetta síðustu daga. Hann var í SFI lokaprófinu í gær og í dag - SFI er sænska fyrir innflytjendur en hann fór í stöðupróf og fékk í framhaldinu náðasamlegast að taka síðasta og efsta stigið hjá þeim. Þannig að hann hefur verið í stífum sænskutímum 6 tíma á viku undanfarna tvo mánuði eða svo. Og nú hefur hann lokið þessum grunni sem þýðir aðgang að næsta stigi sem er sænska sem annað mál. Ef hann hefur staðið sig sæmilega á prófinu hefur hann jafnvel möguleika á SFI-bónusi - en Svíar borga innflytjendum fyrir að læra sænsku hratt og örugglega. Ef fólk stendur sig vel og klárar SFI innan ákveðinna tímamarka er hægt að fá allt að 12.000 króna bónus. Eitthvað höfum við nú heyrt um tregðu hjá þeim til að borga Íslendingum þennan bónus þar sem þeir vilja meina að við höfum ósanngjarnt forskot á innflytjendur úr öðrum málheimi en við sjáum hvað gerist, væri fínt að fá smá sumarbónus, eigum nú samt örugglega ekki rétt á nema hluta upphæðarinnar þar sem Addi þurfti bara að taka eitt stig af fjórum :o)

Ég hef ekki ennþá fengið tækifæri til sænskunáms, ég þótti "of góð" fyrir SFI og átti að fara í sænsku sem annað mál. Þar er enginn bonus svo skynsemin sagði okkur að Addi ætti að taka SFI á vorönninni og reyna að krækja í sumarbónusinn og ég ætla svo í sænsku fyrir innflytjendur á haustönninni. Ef við komumst í dagskóla í því gætum við jafnvel bæði tekið tvö til þrjú námskeið. En það þýðir stærra og meira stöðupróf en við fórum í hjá SFI.

Ég hoppaði svo inn í afleysingar á leikskóla í gær. Þetta er sænskur leikskóli og ég þurfti að gjöra svo vel og tala sænsku allan daginn og það gekk vonum framar. Börnin voru reyndar dugleg að leiðrétta mig ef þeim fannst ég bera nöfnin þeirra eitthvað skringilega fram (Juuliaaa en ekki Julia). Eftir þennan dag á þessum fína leikskóla varð ég nú hálf miður mín að sækja Jóhannes á litla púkó leikskólann sem hann er á, þar sem aðstaðan er glötuð, leiksvæðið pínulítið moldarflag og eini leikskólakennarinn á deildinni hans hættur. Svo eru vinir hans að hætta í sumar og fara í förskolaklass (en þeir eru allir árinu eldri en hann). Hann er líka orðinn svolítið leiður, vill ekki alltaf fara þangað á morgnana og stundum súr á svipinn þegar við komum að sækja hann. Honum líður samt vel og starfsfólkið er ósköp notalegt en...við ætlum aðeins að hugsa þetta.

Rannveig stóð sig svo vel á mótinu um síðustu helgi að hún er komin í úrslit í tveimur greinum, 50 flug og svo 4x50 fjór-boðsundi. Það voru s.s. fleiri mót (Vårsimaiden) á sama tíma á mismunandi stöðum í Stokkholmi og 16 bestu af þeim mótum komast í úrslitakeppnina sem fer fram í júní. Þær voru bara tvær úr hópnum hennar sem komust í einstaklingsgreinum og spenningurinn og stoltið er mikið á þessum bæ :o)

Í gær kom þessi líka stóri pakki með póstinum, allskonar fallegar gjafir - íslensk tónlist og bókmenntir fyrir alla aldurshópa, harðfiskur og kúlusúkk og eitthvað mjúkt líka. Fjölskyldan sprakk náttúrulega úr hamingju og þakkar ofsalega vel fyrir sig!


ps. Jóhannes er búinn að kenna öllum á leikskólanum að segja KA.


1 ummæli:

  1. Gaman að lesa um lífið í Svíþjóð, ég elska pistlana þína meira en Spánarpistlana hans Kristins R. Alveg satt. Vonandi fáið þið risabónus - you are totally worth it ;-) Hildur Pildur

    SvaraEyða

við elskum comment!