29 janúar 2011

Borðað með fingrunum...

Við dömurnar í norðurbandalagi saumaklúbbsins hittumst í gær og áttum frábæra kvöldstund í eldhúsinu í Lautinni. Arabískur matur, arabísk tónlist, spjall um menningu Jemen og Saudi Arabíu, Ramadan og krydd og fleira í þeim dúr...

Við leigjum út kjallarann hjá okkur og undanfarna mánuði (bráðum ár) hafa búið þar hjón á aldur við okkur. Hún er frá Jemen, uppalin í Saudi arabíu. Þegar ég kem heim úr vinnunni leggur ilminn upp í eldhúsið mitt; ilm af alls kyns sterkum kryddum, grænmeti, kjúkling, aðeins meiri kryddum og vatnið rennur fram í munninn. Iðulega lítur þessi elska upp með smakk á diski og þvílíkur unaður...

Í gærkvöldi vorum við vinkonurnar semsagt á hvellnámskeiði í arabískri matargerð. Hún eldaði með okkur tvo rétti sem koma frá heimaborg hennar, Jeddah í Saudi Arabíu. Meðan á eldamennskunni stóð fræddi hún okkur um matarmenningu heimalanda sinna og svo miklu fleira.

Réttirnir á borðinu, við óðum að fyllast og mokuðum upp í okkur með guðsgöfflunum! Um það eru vissar reglur og við reyndum eftir bestu getu að fara eftir þeim - til dæmis mátti maturinn alls ekki snerta lófann og aðeins mátti borða með annarri og bera sig svo eftir björginni með hinni.

Ég fór með afgang af kjúklingnum í vinnuna í dag og borðaði með hníf og gaffli. Ég get sagt í fullri hreinskilni að þetta var engan veginn sami maturinn! Upplifunin er svo allt allt önnur.

Ég er að spá í að hafa "borða með höndunum dag" einu sinni í viku hér í Vanabyggðinni! Það var eitthvað hrikalegt kikk sem maður fékk út úr því að sitja með fimm dömum og snerta ekki á hnífapörunum alla máltíðina...

Að öðru. Sá hrikalega sæta heklaða kertastjaka hjá Jórunni vinkonu...stal uppskriftinni og gerði þrjá í kvöld. Er hooked á þessu núna og þá vitið þið hvað kemur upp úr afmælispökkunum næstu mánuðina...


ps. sprittkertabirgðirnar hafa ekki verið endurnýjaðar eftir jólin svo þeir eru ljóslausir eins og er...

1 ummæli:

  1. Ohh já þetta var alveg stórkostlegt kvöld! Styð svona guðsgafflamáltíðir reglulega - æðislegt fjör :)
    Svo er frábært að lesa textana þína, þú ert svo vel skrifandi mín kæra vinkona.
    Að lokum set ég svo læk á kertastjakana. Þú ert snillingur! :*

    SvaraEyða

við elskum comment!