09 janúar 2012


Það er svo gott að vera farin að vakna eldsnemma aftur, KK og kaffi í morgunsárið eftir að börnin eru farin út. Svolítið notalegt svona í kuldanum! Já, það er orðið svolítið kalt. Mínus sjö gráður í morgun. Og fer væntanlega lækkandi, annars er veturinn búinn að vera mjög mildur og góður. Jóhannes vill fá snjó og spurði mig á leiðinni í leikskolann hvort hann gæti búið til snjókall í dag. Ég leit á hrímið á grasinu og hélt ekki...en bráðum!

Þrátt fyrir sænska regluverkið og allt sem því fylgir þá erum við nú bara kát og höfum fulla trú á því að þetta lagist allt saman. En það verður að láta í sér heyra, annars verður ekkert gert í málunum. Þetta bréf sem ég skrifaði byrjaði nú bara svona sem smá útrás í tölvunni af minni hálfu, ætlaði aldrei að láta þetta fara lengra en svo ákváðum við að senda velferðarráðherra einlægt bréf. Á ekki von á svari eða að eitthvað sérstakt komi út úr því. Enda eru okkar vandamál lítil miðað við vandamál margra sem ráðuneytið þarf að gjöra svo vel að vinna að.

Á morgun á Rannveig Katrín afmæli, er að verða ellefu ára og mér finnst tíminn alltof fljótur að líða. Þegar kvikmyndin Bjarnfreðarson kom út vildi hún sjá hana en við sögðum að hún yrði að bíða þar til hún yrði 11 ára, þá mætti hún horfa á hana. Það virtist óralangt þangað til en núna er stelpan farin að minna okkur á þetta loforð og ætlar að reyna að redda sér myndinni einhvernvegin. Um næstu helgi verður svolítið stelpuafmæli hérna í Maltesholmsvägen með pizzu og kökum og sjálfsagt verður mikið fjör. Jóhannes var að velta fyrir sér hvað hann ætti að gefa systur sinni í afmælisgjöf og var að velta fyrir sér að gefa henni bíl. Nákvæmlega eins bíl og hann langar svo í. Dúllan...

Í gærkvöldi var föndurstund hjá mér, Rannveig átti að græja afmælisboðskortin um helgina en eitthvað fórst það fyrir þannig að ég dundaði mér við það í gærkvöldi. Við erum ekki með prentara og svo átti ég engan hvítan pappír svo ég ákvað bara að fara alla leið og gera eitthvað flippað.


Allir byrja í skólanum í dag nema ég. Ég fór í bóksöluna um daginn og keypti bækurnar fyrir önnina og þær eru engin smásmíði svo ég er byrjuð að lesa og finnst ágætt að fá smá tíma til að gera það áður en skólinn byrjar aftur.

Áramótin hjá okkur voru afar notaleg en að sama skapi mjöööög róleg. Við elduðum lambalæri á hefðbundna vísu og írönsk bekkjarsystir mín kom og borðaði hjá okkur. Hún var tekin í þriðju gráðu yfirheyrslu um Íran og þegar hún hélt heim á leið einhverntíman eftir miðnætti vorum við búin að skipuleggja tveggja vikna ferðalag um Íran og hún búin að bjóða okkur gistingu á að minnsta kosti þremur stöðum og ákveða staði fyrir okkur að skoða, svona non-tourist staðir...þetta skipulögðum við yfir tei með írönskum saffran-kandís sem hún færði okkur. Nice :)

Nóg í bili,
yfir og út!

3 ummæli:

  1. jiii - en spennandi! Ferð til Íran! Má ég koma með sem barnahirðir? Eða sérlegur aðstoðamaður á landakorti?
    Ætli Rannsý fái ekki ca átján Bjarnfreðarsyni á dvd í afmælisgjöf eftir þetta blogg?
    KNÚS!

    SvaraEyða
  2. barnahirðir, er það nýjasta nýyrðið á Íslandi? Það hljómar annars mjög vel að hafa barnahirði með - ef blessuð börnin fá að fara með á annað borð :)

    SvaraEyða
  3. Nýjasta nýyrðið hérlendis er lesbretti!

    En glæsilegt, ég get þá farið að skipuleggja hverju ég eigi að pakka niður.

    SvaraEyða

við elskum comment!