13 janúar 2012

Barnabækur, reykingar og áfengisdrykkja...

Einar Áskell er mjög vinsæll á þessu heimili. Við lesum hann bæði á íslensku og á sænsku fyrir litla snáðann og þetta eru þær barnabækur sem okkur foreldrunum finnst hvað skemmtilegastar. Þær eru samt oft mjög sorglegar og ég stundum kenni ég svolítið í brjóst um Einar litla. Hann er bara fimm ára í fyrstu bókinni, lítill drengur með lykil um hálsinn og nýfluttur í stóra blokk þar sem hann þekkir engan. Aleinn í heiminum og leikur sér við ímyndaðan vin. Hann býr með einstæðum föður sem hefur ekki alltaf tíma til að leika við hann og er heldur ekki alltaf heima.

En svo eldist nú Einar og brallar ýmislegt skemmtilegt, eignast vini og þarf ekki eins oft að koma aleinn heim með lykilinn um hálsinn.

Þessi mynd er úr bok sem heitir Ajabaja Alfons Åberg (veit ekki hvað hún heitir á íslensku). Pabbi hefur ekki tíma til að leika við Einar því hann er að drekka bjórinn sinn, reykja pípu og lesa blaðið. Einar fær að draga fram verkfæratöskuna og leika sér með öll verkfærin nema sögina. Hún er hættuleg. Þar eru sumsé mörkin dregin. Í lok bókarinnar er bjórkannan tóm og pabbi farinn að leika við Einar. En bara í pínustund því svo byrja fréttirnar...

Þetta eru ekki svona týpískar barnabækur eins og eru algengar í dag, með augljósan siðferðislegan boðskap og pólítíska rétthugsun að leiðarljósi.

Kannski er það þess vegna sem okkur fullorðna fólkinu finnst þær skemmtilegar. Kannski líka af því að sögurnar vekja upp margar spurningar hjá drengnum og bjóða upp á skemmtilegar og frjóar umræður. Myndirnar eru líka svo æðislegar.
Reyndar fékk Jóhannes gamla franska barnabók í jólagjöf (Snúður og Snælda) þar sem sagt er frá hundi (hvolpi?!) sem fer á markaðinn að kaupa sér morgunmat. Á mynd sem sýnir hann á heimleið ber hann körfu með rauðvínsflösku, snittubrauði og ostum. Á næstu mynd er hann kominn heim og búinn að hella sér rauðvíni í glas og gæðir sér á kræsingunum áður en hann fer að leika sér...


1 ummæli:

  1. Kópur er náttúrulega alvöru hundur - með góðan smekk. Svo er hann ekki þessi týpíski Frakki, því hann baðar sig reglulega.
    God, hvað ég væri til í rauðvín, osta og snittubrauð á Maltesholmsvägen!

    SvaraEyða

við elskum comment!