28 janúar 2012

sim sim sim

Við mæðgur fórum niður í bæ snemma í morgun, en sú yngri var á leiðinni í sund-æfingabúðir. Sundstarfið hérna er barasta frábært og mjög metnaðarfullt, án þess þó að ofbjóða börnunum með æfingum alla daga. Rannveig er í um 20 manna hópi þar sem eru bæði stelpur og strákar. Krakkar sem æfa sund hérna byrja í tækni-hópum og þau fá ekki að keppa strax. Svo þegar þau eru búin að ná nógu góðri tækni á öllum sviðum sem um ræðir fá þau að fara upp í keppnishópa. Mér sýnist að það sé algengast að þau nái upp í keppnishópa um 11-12 ára aldurinn, en í Rannveigar hópi eru þær þrjár sem eru fæddar 2001 og hin eru fædd '00 og '99. Þau eru með þrjá þjálfara, en yfirleitt eru tveir þjálfarar á æfingu, stundum allir þrír. Æfingarnar eru gríðarlega vel skipulagðar og alltaf eitthvað ákveðið í gangi í einu sem unnið er að. Svo eru krakkarnir með sunddagbækur sem þau eiga að halda utan um æfingaferli sitt og gengi á mótum, þjálfararnir taka svo bækurnar og gefa krökkunum endurgjöf (feedback).

Reglulega eru innan-félags mót, þar sem krakkarnir keppast við að ná ákveðnum lágmörkum sem þau verða að ná til að komast upp í næsta flokk. Þegar þau hafa náð lágmörkum í ákveðið mörgum greinum fá þau bikar. Þetta gera krakkarnir í tækniflokkunum líka. Svo eru sundmót í hverjum mánuði, hér og þar um borgina og alltaf jafn skemmtilegt.

Það er mikið lagt upp úr félagslegu hliðinni líka, en Rannveig er búin að fara í keilu með sundfélögunum sínum og svo eru alltaf litlir fundir eftir hverja æfingu. Fyrir áramót var sérstakur stelpufundur þar sem kvenkyns þjálfararnir ræddu ýmis mál við stelpurnar, bæði hvað varðar samstöðu og góðan anda í hópnum og einnig kynþroskann.

Nú er hópurinn sumsé í Nyköping, sem er um 30.000 manna bær í um klukkustundar fjarlægð. Þau fóru þangað í morgun með tveimur þjálfurum og fararstjóra úr hópi foreldra og fyrirhugaðar voru fjórar æfingar, sameiginlegur matur og skemmtanir, fjórir gista saman í herbergi fengu þeir elstu fyrst að velja sér herbergi og svo koll af kolli. Rannveig var ofsalega spennt fyrir þessari ferð og það var frábær andi í hópnum á Centralstation í morgun þegar ég kvaddi hana.

Þannig að um helgina erum við Addi ein með litla drengnum okkar meðan dóttirin syndir og leikur sér þess á milli.

1 ummæli:

við elskum comment!