03 febrúar 2012

Strax komin helgi!

Tíminn flýgur áfram eins og óð fluga! Allir mettir eftir heimatilbúnu föstudagspítsuna og spennandi laugardagur framundan; sundmót hjá Rannveigu þar sem hún keppir í fjórum greinum, við Jóhannes erum að fara í afmælisveislu hjá íslenskum vini hans sem býr líka í Hässelby og svo þegar feðginin verða komin heim af sundmótinu stekk ég út og þvera borgina til að mæta í matarboð hjá grískri bekkjarsystur minni. Grískur matur að sjálfsögðu, hlakka til!

Við gerðum okkar besta í vikunni til að koma okkur á sænskunámskeið. Addi skráði sig á námskeið í háskólanum, sem er ætlað alþjóðlegum stúdentum en ég ætlaði að fara í SFI (sænska fyrir innflytjendur) og eyddi þar um tveimur klukkustundum sl. mánudag til að skrá mig og fara í stöðupróf. Ég var metin þannig að ég ætti ekki heima hjá þeim en ætti að fara í eitthvað sem heitir comvux sem er framhaldsskólasænska. Addi fór svo líka í SFI prófið og þau vildu taka við honum á efsta stiginu sem þau eru með, þannig að hann ætti að geta klárað SFI á ca. þremur mánuðum og á þá jafnvel rétt á bónusi, ef hann stendur sig vel. Þannig að niðurstaðan er sú að Addi fer í SFI en sleppir námskeiðinu í háskólanum. Ég reikna svo með að fara í comvux næsta haust - og vonandi Addi líka ef það hentar stundaskrá barnanna ;o)

Svo átti ég afmæli þarna einhverntíman á dögunum og afmælisdagurinn var sérdeilis frábær. Rannveig steikti amerískar pönnukökur í morgunmat handa okkur og svo tókum við Addi okkur frí frá lærdómi og öðrum skyldum og skelltum okkur í bæinn. Þar snæddum við dýrindis sushi og skoðuðum okkur svo um á Östermalm, en þar eru allar fínu snobbbúðirnar. Ég fékk ótrúlega rausnarlegar afmælisgjafir og er búin að vera dugleg að finna mér eitthvað fallegt fyrir peninginn sem frúin í Hamborg gaf mér - pantaði mér Volcano Vending sem kom hingað í vikunni, keypti kjól og stígvél, bauð familíunni út að borða á Vapiano, svo eitthvað sé nefnt. Addi gaf mér svo tvo miða á Coldplay tónleika 30. ágúst og ég er að spá í að bjóða honum að koma með mér. Svo kom ljóðabók Ingunnar Snædal inn um lúguna á afmælisdaginn, "Það sem ég hefði átt að segja næst". Flott ljóð og svolítil tenging við sveitalúðann í mér...

Svo verður partý hjá mér 11. febrúar og Rannveig ætlar að passa bróður sinn. Hún hefur svosem oft passað hann meðan við höfum skroppið yfir í næsta hús til að fara í ræktina, í búðina eða eitthvað svoleiðis en núna fær hún að prófa fyrir alvöru. Við verðum nú samt bara í næsta húsi þannig að það verður stutt að fara ef daman þarf aðstoð :o)

1 ummæli:

  1. Núna er komin ný helgi! hehee góða skemmtun í kvöld og vertu full!

    ARF

    SvaraEyða

við elskum comment!