21 febrúar 2012

Saltkjöt og baunir - túkall!

Við höfum haldið upp á íslenskar hefðir síðastliðna daga, en á sunnudaginn (konudaginn!) var svolítill bolludagur hjá okkur. Ég bakaði bæði vatnsdeigs- og gerbollur, því prinsessan á bauninni (Rannveig) fullyrðir að hún borði ekki vatnsdeigsbollur. Svo gæddum við okkur á góðgætinu, hver með sínum hætti. Jóhannes fékk sér vatnsdeigsbollur með glassúr (sjá mynd), Rannveig gerbollur með rjóma og glassúr og við hjónakornin hefðbundar vatnsdeigsbollur með jarðaberjasultu, rjóma og glassúr. Við settum glassúrinn samt innan í bollurnar, ofaná rjómann. Svona til að geta komist sæmilega snyrtilega frá þessu.

Addi stjanaði við okkur Rannveigu á konudaginn. Eða Rannveig ákvað sjálf að hún þyrfti ekki að gera handtak þennan dag, tilkynnti okkur sumsé að hún væri í verkfalli því það væri konudagur! Á myndinni má sjá hann hræra í fyllingu sem hann skellti í nokkrar kjúklingabringur. Rosa gott eins og alltaf þegar hann hættir sér í eldhúsið. Hann tilkynnti mér svo að hann sæi enga ástæðu til að gefa mér blóm, þar sem ég átti ennþá uppistandandi vönd eftir afmælisveisluna um síðustu helgi.

Í dag er bolludagur Svía, eða Semlordagen. Hér er hvorki sprengidagur né öskudagur en síðastliðinn mánuð hefur verið hægt að kaupa svokallaðar semlor á öllum kaffihúsum og bakaríum. Addi fór í bollu-boð á leikskólann hjá Jóhannesi í dag, þar sem boðið var upp á rjómabollur og kaffi. Þetta eru mjúkar og léttar gerbollur með miklu kardemommubragði, fylltar með þeyttum rjóma og möndlumassa. Flórsykur sigtaður yfir. Svolítið öðruvísi en þær íslensku en engu að síður reglulega mikið nammi.

Jóhannes hataði þetta ekkert...

Jóhannes og félagar hans á leikskólanum (kompisar!). Þeir eru svakalegir gaurar, þykjast ekki heyra þegar kennararnir gefa fyrirmæli og espa hvern annan upp í allskonar fíflalæti. Þeir knúsast svo alltaf bless á daginn, alvörunni knús sko, fast og lengi. Algjörir snúðar, frá Íslandi, Kazakstan og Afganistan.

Sprengidagurinn var haldinn hátíðlega hér á Maltesholmsvägen í kvöld! Addi fór í smá öskubuskufíling í dag þegar hann ákvað að afhýða allar baunirnar sem lágu í bleyti! Annars var kjötið í boði múttu og þetta var hreinn unaður! Besta máltíð sem við höfum fengið í marga mánuði. Rannveig er reyndar ekki á sama máli en Jóhannes sýndi það og sannaði að hann er efnilegur saltkjötsmaður. Ekki æstur í súpuna en hámaði í sig saltkjöt eins og hann fengi borgað fyrir það.

Hér er svona eftir-mynd úr pottinum þegar við vorum búin að borða á okkur gat. Nóg eftir fyrir næstu daga...

Hér er ekki hefð fyrir öskudegi svo búningahöfuðverkur hefur verið með minnsta móti síðustu vikur.

Adíós!

1 ummæli:

  1. okei rannveig hljómar eins og svo mikið snilldarbarn.
    vatnsdeigsbollur eru náttúrlega ekki góðar, svo að þar er ég með henni í liði og þetta með að neita að gera nokkurn skapaðan hlut á konudag ætti eiginlega bara að setja í lög. það er algjör snilld!

    SvaraEyða

við elskum comment!