24 febrúar 2012

Hertogaynjan af austur-Gotlandi, Estelle Silvia Ewa Mary.

Við höfum auðvitað fylgst grannt með fréttum af litlu prinsessunni sem fæddist á Karólínska sjúkrahúsinu í gær. Fæðingin ku hafa gengið afar vel, en þremur og hálfum tíma eftir að Viktoría og Daníel mættu á Karólínska sjúkrahúsið í Solna í gærmorgun, var prinsessan fædd. Fæðingarlæknirinn sagði að fæðingin hefði gengið fullkomlega eðlilega fyrir sig, en hann hafði verið í startholunum í tvo mánuði. Það er ekkert grín að missa af konunglegri fæðingu svo hann hafði ekki farið úr borginni síðan á síðasta ári. Daníel kom svo í morgunfréttunum (sem við fylgdumst spennt með) og tilkynnti blaðamönnum um fæðinguna. Hann var að sjálfsögðu að springa úr stolti og brosti hringinn. Hann var spurður hvað barnið hefði verið stórt og á myndinni má sjá hvernig hann reyndi að svara þeirri spurningu (voða krútt):



Eftir átta tíma veru á Karolinska hélt fjölskyldan heim í Haga höllina, ásamt kónginum og drottningunni. Viktoría og Daníel hafa búið í Haga undanfarið, en Karl Gustav fæddist einmitt þar árið 1946. Hér má sjá fyrstu myndina af þeim saman sem birtist á facebook síðu konungsdæmisins eftir hádegið í gær.


Nú bíða Svíar í ofvæni eftir myndum af barninu. Nafnið var tilkynnt í dag og þótti víst koma heldur á óvart - allavega Estelle hlutinn. Samkvæmt hefðinni tilkynnti konungurinn nafnið og titla nýfæddu prinsessunnar - hertogaynjunnar af austur- Gotlandi.

Af blaðaumfjöllun dagins að dæma velta Svíar nú fyrir sér framtíð konungsveldisins, en sænskir skattgreiðendur borga ekki nema um 120 milljónir á ári undir hin konungbornu (sem er nú samt ekki nema nokkrar krónur á mann). Enn eru meirihluti Svía hlynntur því að halda konungsveldinu, en sú tala hefur víst minnkað smátt og smátt eftir því sem árin hafa liðið.


Svo má velta fyrir sér framtíð blessaðrar prinessunnar - verður hún með dyslexíu eins og mamma hennar og afi? Karl Gustav fékk C í stærðfræði á stúdentsprófi - ætli hún erfi námshæfileika hans eða móður sinnar - sem gekk mjög vel í skóla.
Ég tel allavega miklar líkur á því að foreldrar flykkist með börnin sín á fínni leikvellina á Östermalm næstu sumur í þeirri von að sjá hinum konungbornu bregða fyrir með barnavagninn...kannski við freistumst til að kíkja aftur í Konunglega Humlegården, eða förum að hanga á Stureplan...
Fæðingu litlu prinsessunnar var að sjálfsögðu fagnað í Stokkhólmi, fólk safnaðist saman við fallbyssurnar á Skreppsholmen um hádegi í gær, strætóarnir flögguðu og voru aldeilis ekki einir um það. Strax um hádegið í gær var uppi fótur og fit í bakaríum bæjarins þar sem bleika marsípanið var á þrotum - svo mikið var keypt af prinsessutertu! Við Addi skruppum á Ritorno, uppáhalds kaffihúsið okkar eftir hádegið og spiluðum svolítið rommí og drukkum kaffi í lærdómspásunni - en á sama tíma flykktust þangað heldri konur og keyptu sér sneið af bleikri prinsessutertu og fögnuðu konunglegu fæðingunni. Vinir okkar bak við afgreiðsluborðið sögðust vera dauðslifandi fegnir að barnið skyldi ekki hafa fæðst á þriðjudaginn - þá var nefnilega sænski bolludagurinn, eða semlordagen.


2 ummæli:

  1. oooo af hverju fékk ég ekki að verða hertogaynja þegar ég fæddist;( bið ekkert um mikið, gæti til dæmis verið hertogaynjan af Birkimel í Varmahlíð eða eitthvað álíka, það er alveg jafn kúl og austur Gotland
    Sæbjörg

    SvaraEyða
  2. Thad er nu skemmtileg stemming yfir thessu ekki hægt ad neita thvi :-)

    SvaraEyða

við elskum comment!