16 febrúar 2012

Bara allt gott en þú?

Dagarnir æða áfram. Ég get svo svarið það! Í gær (lesist: á laugardaginn!) hélt ég upp á BIG30. Ég fékk svo mikinn pening í afmælisgjöf að mér fannst bara tilvalið að nota hluta af því til að kaupa bjór og bjóða bekkjarfélögum mínum og nývinum mínum í Stokkhólmi í smá partý. Þetta heppnaðist svona rosalega vel og úr varð hin besta veisla. Ég leigði lítinn samkomusal sem fylgir með í þessari búsetakommúnu okkar hérna, setti rósir á borðin, eldaði kjúklingalasanja og gerði cupcakes og caramel-shortbread (jamm, allt uppskriftir frá Fanneyju vinkonu!). Svo fórum við Addi tvær ferðir í ríkið með kerruna okkar góðu og keyptum svolítið af bjór.

Það var hávaðabann eftir kl. 23 í þessum sal svo gleðin hófst snemma og lauk að sama skapi snemma. Svolítið annað en ef maður væri að halda svona partý heima, en það var voðalega gott að vakna snemma á sunnudagsmorguninn! Nágranni kom og kvartaði strax klukkan hálf 10, svoleiðis á þetta auðvitað að vera. Svíinn er alveg meðetta sko!

Hér má sjá mynd af bekknum mínum. Eða hluta hans. Á þessari mynd eru 12 manns frá 10 löndum. Tansanía, Grikkland, Ghana, Kanada, Kína, Tæland, Pakistan, Íran, Bandaríkin og Ísland. Vantar Bretland, Suður Kóreu, Suður Afríku/Ísrael, Íran og nokkra frá USA. Æðislegur bekkur sem ég kann betur að meta með hverjum deginum sem líður!

Kökurnar sem ég hrærði í tókust bara alveg ágætlega og runnu vel í mannskapinn!

Þetta var virkilega ánægjulegt og mikilvægt að lyfta sér upp annað slagið! Á meðan gamla fólkið stjanaði í kringum gestina voru börnin heima í næsta húsi. Rannveig passaði bróður sinn í fyrsta skiptið og það gekk ótrúlega vel. Annars er furðulegt að hugsa til þess að börnin hafi ekki farið í pössun í marga marga mánuði...okkur fer að vanta barnapíu! Núna fer að verða meira um að vera hjá okkur, Addi er að byrja hjá SFI tvö kvöld í viku og í fótbolta með íslenskum fótboltastrákum í Stokkhólmi eitt kvöld í viku. Rannveig er á sínum sundæfingum tvo seinniparta og svo kemur fyrir að það séu tímar hjá okkur síðdegis. Það þarf mikið skipulag svo hlutirnir gangi smurt fyrir sig svona án utanaðkomandi aðstoðar!

Nú er orðið vetrarlegt hérna, snjór og oft mjög kalt. Ég auglýsti persónulegt kuldamet á facebook um daginn, en ég fór í matarboð til bekkjarsystur minnar og þegar ég kom heim eftir miðnætti voru -24 eða 26°. Það var alveg frekar kalt! Svo varð ég lasin og er ekki orðin góð ennþá!

Nóg í bili, yfir og út!

1 ummæli:

við elskum comment!