11 júní 2012

Innate purity?

Ég vil gjarnan trúa á það góða í fólki. Ég treysti fólki til að breyta rétt gagnvart öðrum og legg mig fram um að gera það sjálf. Stundum fær maður skell sem verður til þess að trúin á það góða í öðrum dvínar svolítið.

Rannveig var spennt þegar hún kvaddi okkur í dag - en í morgun átti hún að taka þátt í lokahluta sænskrar þríþrautar fyrir 4. bekk, þar sem þeir sem vilja láta taka tímann á sér í 200 m sundi, 1,25 km hlaupi og 5 km hjólreiðum og fá hann skráðan. Í dag átti hún sumsé að byrja daginn á því að hjóla 5 km á tíma.

Hjólið hennar stóð í hjólastandi hérna fyrir utan, læst að sjálfsögðu. En þegar hún kom út mætti henni bara lásinn, sem hafði verið klipptur í sundur. Fína rauða hjólið sem hún keypti sjálf í fyrrahaust er sumsé týnt og tröllum gefið.

Við vissum svosem alveg af því að einhverjum gæti dottið í hug að stela hjólinu. En ég trúði því bara ekki, að einhver færi að hafa fyrir því að klippa á lásinn á stelpuhjóli, sem stæði þarna á milli tveggja húsa. Og þar af leiðandi skráðum við ekki einu sinni hjá okkur númerið á hjólinu, ég man ekki hvaða tegund það var, við eigum ekki mynd af því og eigum því ekki létt með að sanna eignarrétt okkar yfir því, enda keyptum við það notað.

Af hverju settum við það ekki inn í hjólageymslu í gærkvöldi? Af hverju vorum við ekki búin að skrá hjá okkur upplýsingar um það? Af hverju gerir maður ráð fyrir því að fólk breyti rétt en ekki rangt?

Þetta er bara hjól, kostaði ekki mikið og svosem alltaf hægt að kaupa nýtt. Mér finnst ekki verst að missa hjólið - heldur að einhver hafi í alvörunni ákveðið að hafa fyrir því að mæta með klippur í rólegu götuna okkar og stela barnahjóli í skjóli nætur til að selja fyrir eitthvað smotterí.

1 ummæli:

við elskum comment!