02 júní 2012

Þakklæti

Við fjölskyldan erum svo ótrúlega heppin að vera umkringd frábæru fólki. Það er bara einhvernvegin alltaf svoleiðis, hvort sem við erum heima eða hér í Stokkhólmi!

Á versta tíma í vetur hætti tölvan okkar að virka og leit út fyrir að vera hrunin! Við kunnum lítið á svoleiðis aðstæður, hringdum í umboðið og það eina sem þeir gátu gert (þó hún væri í ábyrgð) var að senda hana til Þýskalands í skoðun, sem hefði örugglega tekið að minnsta kosti tvær vikur - miðjum ritgerðarskrifum! Áður en við náðum að klóra okkur í hausnum var bekkjarsystir mín búin að redda okkur. Maðurinn hennar fór yfir tölvuna, eyddi út ólukkans vírusnum sem var í henni og bjargaði því sem bjargað varð. Setti svo upp nýja vírusvörn og allt saman og neitaði að taka krónu fyrir.

Á svipuðum tíma var drengurinn orðinn alveg fatalaus. Hann hefur stækkað mikið og átti allt í einu engar buxur. Bekkjarsystir mín, sem á 6 ára dreng, hefur örugglega fengið hugboð því hún spurði mig upp úr þurru hvort mig vantaði buxur á Jóhannes - og færði mér svo sjö nánast ónotaðar buxur! Bæði leikskólabuxur og sparibuxur. Ekki nóg með það, heldur kom líka fatapoki frá vini hans Jóhannesar sem er svolítið stærri en hann - stuttbuxur, peysur, bolir og buxur. Fatavandamálið bara úr sögunni og ég gat tekið frá fötin sem voru orðin vandræðalega lítil á hann.

Ég er komin í afleysingavinnu á leikskóla, sem munar ótrúlega miklu fyrir okkur. Það er ekki bara gott að fá smá aukapening heldur eigum við rétt á því að Försäkringskassinn taki við okkur nú þegar annað okkar er farið að borga skatta í Svíþjóð. Tinna vinkona okkar var svo elskuleg að redda mér þessari vinnu - og ég fæ að æfa mig í sænsku í leiðinni.

Í gær fékk ég að vita hver yrði leiðbeinandinn minn í MA ritgerðinni. Okkur er úthlutað leiðbeinanda og fáum ekki að velja sjálf. Ég var heppnust í heimi! Fékk besta leiðbeinanda sem hægt er að hugsa sér. Hann er sænskur, reyndasti prófessorinn í deildinni og leiðbeinir ekki mörgum MA nemum (meira með PhD nema) - við erum t.d. bara tvær sem fáum að vera hjá honum næsta vetur. Enda er hann farinn að nálgast sjötugt og er eiginlega kominn á eftirlaun.

Þannig að hér er bara hamingja þrátt fyrir 6°, rigningu og rok.

3 ummæli:

  1. Maður verður bara glaður að lesa svona jákvæðan pistil :) Er þetta ekki bara gott dæmi um hvernig karma virkar, enda eruð þið alveg frábær!

    ARF

    SvaraEyða
  2. Yndislegt alveg hreint :D Knús til ykkar.

    SvaraEyða
  3. Og þið eigið þetta svo allt skilið. Get svo bara rétt ímyndað mér hvað þú hefur unnið fyrir því að fá þennan snilling fyrir leiðbeinanda, enda snillingur sjálf :*

    SvaraEyða

við elskum comment!