12 desember 2011

Munnræpa

Er eitthvað að frétta? Veit ekki. Ég er komin í jólafrí. Slapp held ég ágætlega frá prófdeginum/vörninni í dag. Addi fer í jólafrí á fimmtudaginn og krakkarnir eitthvað svolítið seinna. Bekkurinn minn átti saman skemmtilega jólastund í dag, ásamt kennurunum og starfsfólki deildarinnar - allir komu með rétti á sameiginlegt hlaðborð og margir komu með eitthvað klassískt úr þeirra heimahögum. Það var reyndar Bandaríkjamaður sem kom með nokkrar flöskur af 12% jólaglöggi, sem sumar stelpurnar drukku heil ósköp af án þess að vita af áfengismagninu. Pínulitlu asísku bekkjarsystur mínar urðu ansi hressar sko! Ég sullaði í skyrköku sem virtist renna vel í liðið, maður verður að reyna að leggja sitt af mörkum við að markaðssetja þetta skyr fyrst það er selt hér.

Jóhannes Árni sló í gegn síðastliðinn föstudag. Ég fór með hann í síðbúna fjögurra ára skoðun og það er skemmst frá því að segja að hjúkkan þurfti að stoppa hann í masinu. Hann talaði og talaði og talaði og var bara óstöðvandi barnið. Sagði henni allt um tannlækninn sinn á Íslandi, vini sína, slökkviliðsmenn, sýndi henni hliðar saman hliðar hopp (óumbeðinn) og skellihló svo og gerði mikið að gamni sínu. Ég átti erfitt með að halda niðri í mér hlátrinum stundum. Hann leysti allar þrautirnar sem fyrir hann voru lagðar og fannst þetta nú lítið mál. Svei mér þá ef 4ra ára skoðun hér er ekki talsvert auðveldari en heima. Það var allavega ekkert spurt út í olnboga eða ökkla...og já, strákurinn er orðinn rúmlega 107 cm og 19 kg. Ekkert smábarn lengur. Svo fékk hann jólaklippinguna í kjölfarið, kjaftaði þar nonstop og sagði klipparanum meðal annars að hann elskaði hunda og ketti. Og að mamma hans talaði bara íslensku.

Ekkert skrítið að maður sé stundum hálf feginn þegar klukkan slær átta og þögnin færist yfir kotið okkar...

Lúsía í fyrramálið, hjá Jóhannesi kl. 7:30 og Rannveigu 8:30.

zzzzzzz

5 ummæli:

  1. Ég hló upphátt! Yndislegt barn :)

    SvaraEyða
  2. Hahaha... dásamlegi drengurinn :)

    SvaraEyða
  3. Hann er alveg meiriháttar :)

    kv. ARF

    SvaraEyða
  4. Haha, snilli!

    En ertu að grínast með tímasetningarnar á Lúsíu??

    SvaraEyða
  5. Ha ha ha þessi drengur er snillingur. Ég er enn að hlæja að því hvað hann talaði mikla sænsku við mig þarna um daginn.

    Svo bíð ég spennt eftir því að sjá myndir af Lúsíunni!

    SvaraEyða

við elskum comment!