28 desember 2011

Næst verður hamborgarhryggur

Nýtt ár nálgast, jólin búin að vera notaleg í litla kotinu okkar og enn er nóg eftir af jólafríinu! Jólasteikin tókst með ágætum, ég sauð sænska skinku 22. Desember, smurði hana með sinnepsblöndu og skellti svo brauðraspi ofaná og inn í ofn í smá stund. Svona eins og google sagði mér að Svíarnir gerðu. Kjöthitamælirinn stríddi mér aðeins, ætli ofninn okkar sé ekki bara einum of tæknilegur fyrir mig. Hann er með innbyggðum kjöthitamæli sem ég kann ekki nogu vel á, allavega þá mátti steikin ekki þurrari vera en slapp svosem alveg. Á Þorláksmessu sauð ég hangikjötið góða og svo gerðum við obbó góða heimabakaða pizzu um kvöldið. Við höfum búið okkur til þá hefð að panta Greifapizzu á Þorláksmessukvöld og skreyta svo tréð. Hér er víst enginn Greifi svo við gerðum bara okkar eigin pizzu, reyndar eftir að við skreyttum tréð. Eða tókum það upp úr kassanum, það kom með skrauti og seríu og öllu saman, 90 cm. kríli. Aðfangadagur rann upp, snjórinn nánast alveg farinn og milt veður (annað en heima!). Jóhannes fékk möndluna og fékk tvö jójó að launum. Hann gaf Rannveigu annað þeirra og svo hafa þau æft sig svolítið að spinna. Addi er ótvíræður jójó meistari heimilisins og reynir að kenna þeim eitthvað. Við náðum ágætis útivist á aðfangadag og tókum svo upp þá sænsku hefð að horfa á Andrés önd í sjónvarpinu kl. 15 á aðfangadag. Ekkert stress, enda skinkan til og bara eftir að sjóða kartöflur, búa til sósu og skera kvikindið!

Í pökkunum leyndist alls konar sniðugt og skemmtilegt og erum við mjög þakklát fyrir allar gjafirnar sem við fengum. Bækur, ullarsokkar á línuna, vettlingar, föt á börnin, jólaskraut, tónlist, Scrabble, Alias, svuntur og alls konar fleira skemmtilegt. Scrabblið er spil sem okkur hefur langað í mörg mörg ár en ekki eignast. Nú liggur hins vegar við hjónaskilnaði vegna spilsins. Við gáfum krökkunum skauta og planið er að rúlla í bæinn á morgun og hjálpa þeim að reima á sig skautana. Við Addi ákváðum að kaupa okkur skauta líka í jólagjöf, en eigum reyndar eftir að kaupa þá. Svo er planið að vera afar dugleg að fara á skauta. Það eru tilbúin skautasvell á að minnsta kosti þremur stöðum niðri í bæ, opin öllum og kostar ekkert. Það er líka skautahöll í göngufæri frá okkur. Þetta verður samt örugglega mjög fyndið og alveg efni í falda myndavél, enda er Rannveig sú eina í fjölskyldunni sem kann að standa á skautum. Ennþá!

Um áramótin ætlum við að hafa íslenskt lambalæri sem mamma sendi okkur og írönsk bekkjarsystir mín verður í mat hjá okkur. Svo er spurning hvort við sjáum einhverja flugelda hér í Hässelby...

Yfir og út!

1 ummæli:

  1. Ég get ekki annað en hlegið að nördunum í útlöndum. Hér var pizza á Þorláksmessu (í fjarveru Greifans), hangikjötið var soðið og svo borðað eins og lög gera ráð fyrir á Jóladag. Á gamlársdag borðuðum við svo íslenskt lambakjöt sem við keyptum hér í gegnum Íslendingafélagið :)
    Gleðilegt ár, gangi ykkur vel í Skrafli (ég vinn minn mann ALDREI) og hvítvíni (þar vinn ég alltaf). Kv. frá Árósum.

    SvaraEyða

við elskum comment!