06 desember 2011

Guðmundur á Mýrum

Við vorum svo heppin að fá góðan gest um daginn. Fanney Dóra kom fljúgandi yfir hafið og eitt af því undursamlega sem hún skyldi eftir var síðbúin afmælisgjöf handa Jóhannesi Árna. Upp úr pakkanum kom frábær ljóðabók sem öll fjölskyldan hefur skemmt sér við síðustu daga. Um er að ræða bókina "Óðhalaringla" eftir Þórarinn Eldjárn, en hún er endurútgáfa á þremur ljóðabókum eftir Þórarinn (Óðfluga, Heimskringla og Halastjarna). Myndskreytingarnar eru eftir Sigrúnu Eldjárn og ljóðin eru svo full af myndmáli að það hefur sennilega verið frábærlega skemmtilegt að teikna myndirnar við ljóðin. Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki litið í þessar bækur áður, því miður!

Jóhannes hefur svo gaman af því að láta lesa fyrir sig ljóðin, svo spáum við og spögúlerum og æfum okkur að ríma. Uppáhalds ljóðið hans er um hann Guðmund á Mýrum.


Bókagleypir

Hann Guðmundur á Mýrum borðar bækur,
það byrjaði upp á grín en varð svo kækur.
Núorðið þá vill hann ekkert annað,
alveg sama þó að það sé bannað.

Hann lætur ekki nægja kafla og kafla,
hann kemst ekki af með minna en heilan stafla.
Hann er víða í banni á bókasöfnum,
en beitir gerviskeggi og fölskum nöfnum.

Hann gleypir í sig feitar framhaldssögur
og fær sér inn á milli stuttar bögur.
Hann telur víst að maginn muni skána
í mörgum við að bíta í símaskrána.

Hann segir: Þó er best að borða ljóð,
en bara reyndar þau sem eru góð.


Jóhannes er ekki byrjaður í bókunum ennþá en elskar súkkulaðisnúða....

1 ummæli:

  1. Dásemdarmolarnir mínir :) Gott að vita að bókin færir ykkur öllum lukku! Sakna Maltesholmvej og ykkar!

    SvaraEyða

við elskum comment!