07 desember 2011

Kertaljós og klæðin rauð

Nú hefur aðventan breitt sig yfir okkur með tilheyrandi notalegheitum; kertaljósum, fyrstu snjókornunum, frosti og heitu súkkulaði. Kaupæði og jólastress fer algjörlega framhjá okkur, á póstkassanum okkar stendur „ingen reklam“ og við fáum enga jólabæklinga eða auglýsingar um jólagjafir ársins. Hóflega skreyttir gluggar á næstu húsum lýsa upp skammdegið en enginn þeirra æpir á okkur með fyrirferðamiklum blikkljósum og enn höfum við ekki séð nein rafmagnsklædd hús. Enginn Raggi Sverris í hverfinu okkar sumsé. Hvort ástæðan er hræðsla Svíanna við ofurrafmagnsreikning eða einfaldlega mínímalískari skreytingahefð en heima á Íslandinu góða skal ósagt látið. Áreitið er allavega í lágmarki og það er vel. Við keyptum aðventuljós og jólastjörnu og er það eina skrautið sem við höfum sett upp í tilefni jólanna, að minnsta kosti enn sem komið er. Inni á skáp er þó hálfskreytt piparkökuhús sem verður sett upp og tilkoma þess mun væntanlega minna okkur enn betur á komu jólanna. Rannveigu finnst við heldur róleg í jólaundirbúningnum og telur nauðsynlegt að skella upp nokkrum seríum en við reynum að spyrna við fótum. Við einsettum okkur að sanka ekki að okkur miklu dóti meðan á dvöl okkar stendur, út fórum við með nokkrar ferðatöskur og við ætlum ekki heim í gámi. Svo við höfðum hugsað okkur að nota það sem hendi er næst og sleppa því sem ekki fæst. Sjáum hvað setur. Við erum nokkuð viss um að jólin komi samt og verði afar gleðileg. Jóladiskur KK og Ellen gægðist upp úr böggli um daginn, "opnist fyrir jól, gott með kaffinu" stóð á merkimiðanum. Og það er alveg satt.

Litlu jólapakkarnir sem við keyptum hafa nú allir farið af stað heim, ég er hérumbil komin jólafrí og ætla fljótlega að gera jólahreint í íbúðinni okkar á Maltesholmsvägen. Við eigum eftir að finna okkur lítið og sætt jólatré en jólasteikurnar kúra inni í ísskáp. Það er ákveðið öryggistilfinning í því. Skagfirskt hangikjötslæri bíður eftir að verða soðið á Þorláksmessu og hamingjusama svínslærið sömuleiðis. Mamma sendi okkur fulla ferðatösku af góðgæti og jólapökkum og upp úr henni kom þetta dýrindis hangikjöt. Tóta bjargaði okkur svo um ORA grænar baunir, rauðkál er nú víst til hér í Stokkhólmi og allt annað sem við þurfum, meira að segja hrísgrjón og möndlur í möndlugrautinn og hægt er að kaupa íslenska skötu og malt og appelsín í einni búð í suðurhluta Stokkhólms. Hamingjusama svínslærið var keypt á jólamarkaði á Skansinum af krúttlegum ungbónda. Hann leyfir grísunum sínum að hlaupa um hagana, þeir fá bara lífrænt fóður og deyja svo í heimahögunum, afskaplega glaðir. Ungbóndinn slátrar þeim nefnilega sjálfur.

Svo er það Lúsían sem haldin er 13. desember. Mikil hátíð sem krakkarnir eiga báðir að taka þátt í. Rannveigu var boðið að vera sjálf Lúsían, sem hún þáði með bros á vör. Hún mun vera með gylltan borða um sig miðja, kórónu á höfði með fjórum kertum (og kertavax í hárinu?) og svo verður sungið. Meira veit ég ekki. Nema að við þurftum að kaupa hvítan léreftskirtil og hann þarf að stífpress og gera sem fallegastan. Strákarnir eru víst ekki mikið fyrir hvíta kirtilinn, hann þykir stelpulegur, og þeir eru yfirleitt annað hvort í jólasveinabúningi eða klæddir sem piparkökur. Jóhannes Árni fékk brúnan piparkökubúning og drengurinn er að farast úr spenningi að fá að fara í honum í leikskólann og syngja: „vi kommer, vi kommer från pepperkake-laaaand...“. 

 Svona er jólaundirbúningurinn á Maltesholmsvägen – ég er hérumbil komin í jólafrí en Addi greyið fer í frí viku á eftir mér. Ef hann verður heppinn og ég í stuði verð ég búin að þrífa allt og pússa þegar hann losnar úr prísundinni. Svo kósum við okkur fram að jólum, búið að senda allar gjafir heim og bara rólegheit og skemmtilegt stúss eftir, baka eitthvað smávegis og föndra svolítið jólaskraut. Hjónaferðir í bæinn að skoða í skemmtilegar búðir og rölta um fallegar götur í miðbænum, jólaglögg og frostbitnar kinnar. Ætli við skrifum nokkuð á jólakort þetta árið, látum nægja að senda út jólakveðjur á blogginu og á facebook að þessu sinni. Gerum bara enn betur á næsta ári!






6 ummæli:

  1. Mikið er eitthvað notaleg jólastemning í þessum pistli þínum. Efast ekki um að Rannveig verði stórglæsileg Lúsía. Það var svo gaman að hitta ykkur um daginn. Ég er enn að hlægja að Jóhannesi hinum sænska.

    kv.
    Tóta

    SvaraEyða
  2. Mikið er eitthvað notaleg jólastemning í þessum pistli þínum. Efast ekki um að Rannveig verði stórglæsileg Lúsía. Það var svo gaman að hitta ykkur um daginn. Ég er enn að hlægja að Jóhannesi hinum sænska.

    kv.
    Tóta

    SvaraEyða
  3. Vá!! Fær Rannveig að vera Lúsía! Geðveikt! Pant fá myndir hér á bloggið.

    Gott að þið njótið aðventunnar, til þess eru hún.

    Knús í hús.

    SvaraEyða
  4. Guð hvað ég sakna ykkar mikið við að lesa þennan pistil, ein besta jólaminningin mín er kvöldið okkar á Eggertsgötunni - hrein dásemd.

    Lov u longtime, og knús og kossar til ykkar allra

    SvaraEyða
  5. Sko Rannveigu! En æðislegt!
    Annars var ég bara komin á Maltesholm við lesninguna, farin að japla á mandarínu og kveikti á kertinu í rauða stjakanum. Hljómar gasalega huggulega :) Njóttu í botn mín kæra, þú átt það svo sannarlega skilið eftir vaska framgöngu í skólanum!

    P.s. átt ennþá eftir að monta þig af einkunninni! ;)

    SvaraEyða
  6. Tóta: ó já það hefði bara verið svo gaman að hafa aðeins meiri tíma með þér ljúfan - og aðeins minni ritgerðarmyglu og stress!
    Anna: Ætla sko að reyna að ná myndum af krúttlunni!
    Ásdís: Við tölum um þessi jól og sérstaklega þetta jólakvöld okkar á hverjum jólum og í jólaundirbúningnum, æðisleg jól á Eggertsgötunni!
    Fanney: Nú er komið dagakerti í rauða stjakann, það brennur hratt og passar að kveikja á því yfir kvöldmatnum og slökkva svo áður en uppvaskið klárast!
    Valla

    Valla

    SvaraEyða

við elskum comment!