20 júlí 2012

Góðar heimsóknir

Tíminn líður eins og óð fluga! Þetta sumar hefur liðið ótrúlega hratt - en samt er svo mikið eftir ennþá! Við erum svo heppin að fá svona langt sumarfrí, njóta samvista við góða gesti og geta jafnvel skotið inn stöku ferðalögum.

Í lok júní komu systkini Adda og systursonur í heimsókn til okkar. Eins og yfirleitt þegar gesti ber að garði ákváðu veðurguðirnir að spara sólina en ausa rigningunni! Strákarnir fóru út að hlaupa á morgnana, Stokkhólmur var skoðaður, farið á söfn, við fórum út að borða, grilluðum á ströndinni, spiluðum, krakkarnir æfðu galdrabrögð...mjög notalegir dagar. Ég steingleymdi að taka myndir, en hér er ein af þeim systkinum fyrir utan höllina í Gamla Stan. 


Tveimur vikum síðar mætti svo Fanney Dóra á svæðið og stoppaði í nokkra daga, með tilheyrandi kósíheitum, spilamennsku og innkaupaferðum. Veðrið var svipað, skýjað, rigning og jafnvel þrumur og eldingar. Við náðum þó nokkrum sólargeislum, meðal annars þegar við fórum á Allsång á Skansen. Það er stórmerkilegt sænskt fyrirbæri, fastur liður á sumrin. Tugþúsundir skella sér á Skansinn á hverju þriðjudagskvöldi og syngja saman. Allsång er svo sent út í beinni útsendingu í ríkissjónvarpinu. Frægir og vinsælir skemmtikraftar láta sjá sig á Skansen og taka þátt í dagskránni, en þess má geta að þegar við fórum voru þar bæði Alexander Ryback og Loreen. Við sáum þó lítið af þeim, enda sáum við ekki sviðið þó svo að við hefðum mætt tveimur tímum áður en dagskráin hófst. Við létum það þó ekki á okkur fá, gæddum okkur á sushi og kósuðum okkur, hlustuðum svo, dilluðum okkur og sungum með því sem við kunnum (sem var kannski ekki mjög margt). Sænskara verður það ekki!

Þessi mynd er tekin þegar við mættum á svæðið. Ef við hefðum staðið kyrrar þarna í tvo tíma hefðum við kannski séð eitthvað þegar dagskráin hófst, en við nenntum því ekki...


Sushi á Skansen. Fólk horfði á okkur öfundaraugum...múhahhhaa

Rannveig var svolítið spennt yfir þessu öllu saman. Sérstaklega þegar Norlie och KKV stigu á svið. 

Hér er youtube klippa frá Allsång í fyrra, sýnir ágætlega stemminguna á Allsång. Og Måns hinn fagra sem stjórnar þessu. 




Ótrúlega gaman að hafa farið og upplifað þetta, ótrúlega furðulegt að fylgjast með Svíunum sem koma okkur yfirleitt fyrir sjónir sem týpurnar sem gera ekki neitt sem getur verið vandræðalegt eða orðið þeim til skammar, syngja fullum hálsi á Allsång! 

Yfir og út.

2 ummæli:

  1. Ohhhh Måns... og þetta lag sem er fast á heilanum! TAKK æðislega fyrir yndislega viku, það er svo ljúft að koma til ykkar elskurnar. Sakna ykkar strax - sem og Baunaspilsins með ykkur. Þarf að kenna einhverjum hérna í Kalvåg þetta spil. Knús!

    SvaraEyða
  2. Mér sýnist að Rannveig sé orðinn ekta unglingur!!!

    SvaraEyða

við elskum comment!