06 júlí 2012

Grillsumarið

Nú erum við búin að vera í fríi í mánuð! Eins og alltaf er tíminn otrúlega fljótur að líða og það verður örugglega kominn september áður en við vitum af!

Síðustu dagar hafa verið með eindæmum sólríkir og mildir. Við höfum haldið nokkuð til á ströndinni okkar þar sem krakkarnir geta leikið sér endalaust - og oft eru þau svo heppin að hitta félaga sína úr leikskólanum/skólanum þar.

Við höfðum nokkuð klórað okkur í hausnum yfir grillmálum hér í Svíþjóð. Það er stranglega bannað að vera með grill úti á svölum hér í húsinu (og húsunum í kring og líklegast svona almennt séð í fjölbýli hér í Stokkhólmi) en "bostadsforeningen" er með grillstað hérna í götunni. Hann þarf að panta með fyrirvara, þar er stórt kolagrill, svolítið af leiktækjum fyrir börnin og borð og stólar og svona huggulegt. Okkur fannst þó meira spennandi að geta grillað á ströndinni. Þar eru líka almenningsgrill, en þau eru afar óspennandi og skítug. Og það þarf heilt fjall af kolum til að hita þau.

Eftir að hafa spænt upp nokkur einnota grill fundum við svakalega sætt grill í stórmarkaðnum. Það er lillableikt og pínulítið, auðvelt að losa öskuna úr og ekkert mál að bera með sér hvert sem er og geyma úti á svölum eða í forstofunni.

Þannig að núna grillum við nánast á hverjum degi (oki ekki alveg en næstum því!)...pökkum drykk og mat ofaní bleiku kerruna okkar góðu, röltum á ströndina og sólum okkur, grillum, böðum, förum í strandblak eða badminton, lesum, spilum eða bara...erum!

Félagsskapur okkar á ströndinni er svo sérkapítuli útaf fyrir sig...meira um það síðar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

við elskum comment!