27 ágúst 2012

Heimkoma

Við komum heim frá Grikklandi um kl. 2 í nótt. Það var afskaplega notalegt að skríða upp í rúm hér á Maltesholmsvägen eftir langt ferðalag. Við þurftum fyrst að sigla í um fjóra tíma frá Milos til Aþenu. Siglingin gekk vel, það var gott í sjóinn og tíminn var fljótur að líða. Það var ekkert sérstaklega notalegt að stíga út úr bátnum í Aþenu, í sjóðandi hitann og molluna sem þar er. Við þurftum sem betur fer bara að ganga í örfáar mínútur til að finna flugrútuna og ferðalagið á flugvöllinn var nokkuð þægilegt. Nánast tóm rúta, góð loftkæling og tók um 80 mínútur eða svo. Á vellinum þurftum við svo að bíða í fjóra tíma. Við ákváðum frekar að gera það en að þvælast um miðborg Aþenu með ferðatöskur í eftirdragi. Flugvöllurinn er nýr (byggður fyrir ÓL 2004) og tíminn var fljotur að líða þar. Skelltum m.a. í okkur síðasta gríska souvlaki-inu.

Jóhannes svaf svo mestalla heimleiðina (rúmlega þriggja tíma flug) svo þetta gekk allt eins og í sögu.

Við kíktum í skóla barnanna í dag, Jóhannes er spenntur að byrja aftur í leikskólanum og vera í elsta hópnum á deildinni - sjóræningjahópi! Rannveig hitti kennarann sinn og svo fara þau bæði í skólann snemma í fyrramálið. Við Addi þurfum svo nauðsynlega líka að fara að huga að lærdómi - enda þetta lengsta sumarfrí í manna minnum á enda!

Ég er ekki ennþá búin að tæma myndavélina og fara í gegnum myndirnar sem við tókum í Grikklandi en skelli nokkrum hingað inn við tækifæri :o) Þessar sem ég setti inn um daginn voru teknar á vélina hennar Maríu (af Maríu). Hér er ein í viðbót - Jóhannes að hvíla sig eftir að hafa prílað upp að kastala fyrir ofan bæinn Karystos á eyjunni Evia, austan við Aþenu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

við elskum comment!