15 ágúst 2012

Sænska regluverkið III

Er ekki kominn tími á uppfærslu af sænska regluverkinu, svona af því að við erum búin að vera hér í eitt ár?

Eftir tvær umsókn tvær neitanir að aðild að Försäkringskassan (sænska almannatryggingakerfinu, sem borgar út barnabætur, húsaleigubætur, fæðingorlof að ógleymdum sjúkrabótum/kostnaði) höfðum við samband aftur við þá félaga í byrjun júní, þegar við vorum bæði komin með aukavinnu með skólanum. Íslenska sendiráðið greindi okkur nefnilega frá því að það væri ekki hægt að neita okkur ef við værum komin með vinnu.

Í byrjun júní talaði ég sumsé við afar vinalegan Ríkharð í símann, sagði honum frá því að við værum farin að vinna og langaði afar mikið að komast að hjá honum. Hann sagði að málið horfði nú talsvert öðruvísi við ef við værum farin að vinna og bað okkur bara vinsamlegast um að senda ráðningarsamningana okkar og svo skildist mér á honum að hann myndi bara redda málunum, meira að segja setja okkur í flýtiafgreiðslu.

Ráðningarsamningarnir fóru í póst um það bil daginn eftir (þess má geta að sænska regluverkið skilaði okkur ráðningarsamningum um leið og við fórum að vinna, annað en ég á að venjast heima á Íslandinu góða, en það er önnur saga!). Tveimur vikum síðar kom bréf merkt Försäkringskassan. Ég reif upp bréfið í miklum æsingi, loksins loksins...en varð fyrir vonbrigðum með innihaldið - því okkur var tjáð að ráðningarsamningarnir væri ekki nóg, við ættum að senda afrit af launaseðli eða tímaskýrslu fyrir síðasta mánuð.

Við brugðumst að sjálfsögðu fljótt og vel við því og sendum það í lok júní. Svo höfðum við ekkert heyrt núna um miðjan ágúst og báðum um símtal frá þeim félögum (það er að sjálfsögðu ekki hægt að vera í tölvusambandi við þessa félaga þarna, bara senda venjuleg bréf eða panta símtöl). Ég talaði við afar elskulegan pilt í síðustu viku, sá hét Erik og var að leysa fyrrnefndan Ríkharð af. Hann sagði að Ríkharður hefði sennilega einmitt farið í frí þegar pappírarnir hefðu komið frá okkur - hann fann sumsé pappírana ófrágengna á borðinu hans. Spurði svo blíðlega hvort ég væri að bíða eftir barnabótunum? Ég vældi svolítið og sagðist nú aðallega vera að bíða eftir tryggingu fyrir börnin mín, þar sem við værum t.d. að fara í ferðalag eftir nokkra daga og værum hvergi tryggð ef eitthvað kæmi fyrir litlu blessuð angaskinnin.

Eitthvað vorkenndi hann mér og sagðist ætla að skoða málið sjálfur. Daginn eftir hringdi hann aftur, sagðist ætla að veita okkur inngöngu frá og með ráðningardegi (maí 2012) og að von væri á EU- sjúkratryggingakorti með hraði í póstinum. Þvílík gleði í Maltesholmsvägen sko!

Í dag komu svo tvö bréf frá F-kassan í póstinum. Annað innihélt bráðabirgða sjúkratryggingaskírteinin okkar (svo nú getum við leitað læknis á Grikklandi ef eitthvað kemur uppá!) en hitt...tatatatamm....beiðni um tvo síðustu launaseðla þess okkar sem ætti að taka við barnabótunum, svo þeir sæju örugglega að við værum að vinna eitthvað.

Ráðningarsamningur, einn launaseðill og núna tveir síðustu launaseðlar...

Launaseðlarnir eru komnir af stað og nú er bara að krossa putta - það verður spennandi að vita hvort við höfum náð að sigra kerfið eða hvort þeir halda áfram að andskotast í okkur ;)

1 ummæli:

  1. Dísjösss fokking kræst!!! En þetta kemur og líka gott ef þetta er aðeins aftur í tímann, úff ég væri búin að missa geðheilsuna :)

    ARF

    SvaraEyða

við elskum comment!